Lofið Jehóva fyrir stórvirki hans
„Önd mín miklar [Jehóva] . . . því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört.“ — LÚKAS 1:46-49.
1. Fyrir hvaða máttarverk er rétt að lofa Jehóva?
JEHÓVA á lof skilið fyrir stórvirki sín. Móse sagði þegar hann lýsti frelsun Ísraels frá Egyptalandi: „Augu yðar hafa séð öll hin miklu verk, sem [Jehóva] hefir gjört.“ (5. Mósebók 11:1-7) Mærin María tók svipað til orða þegar engillinn Gabríel boðaði henni að hún myndi fæða Jesú: „Önd mín miklar [Jehóva] . . . því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört.“ (Lúkas 1:46-49) Við sem erum vottar Jehóva lofum hann fyrir stórvirki eins og frelsun Ísraelsmanna úr ánauðinni í Egyptalandi og undraverðan getnað sonar hans hér á jörð.
2. (a) Hvaða þýðingu hefur ‚eilíf fyrirætlun‘ Guðs fyrir hlýðið mannkyn? (b) Hvað fékk Jóhannes að sjá á eynni Patmos?
2 Mörg máttarverk Jehóva tengjast þeirri ‚eilífu fyrirætlun‘ hans að blessa hlýðið mannkyn fyrir atbeina Messíasar og ríkis hans. (Efesusbréfið 3:8-13) Þessari fyrirætlun hafði miðað fram jafnt og þétt er hinn aldni Jóhannes postuli fékk að skyggnast í sýn inn um opnar dyr á himnum. Hann heyrði gjallandi rödd segja: „Stíg upp hingað, og ég mun sýna þér það, sem verða á eftir þetta.“ (Opinberunarbókin 4:1) Jóhannes fékk „opinberun Jesú Krists“ eftir að rómversk yfirvöld dæmdu hann í útlegð á eynni Patmos „fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú.“ Það sem hann sá og heyrði upplýsti margt í sambandi við eilífa fyrirætlun Guðs og var því tímabær hvatning fyrir alla kristna menn. — Opinberunarbókin 1:1, 9, 10.
3. Hverja tákna öldungarnir 24 sem Jóhannes sá í sýninni?
3 Gegnum hinar opnu dyr á himnum sá Jóhannes 24 öldunga sitja í hásætum, krýnda sem konunga. Þeir falla fram fyrir Guði og segja: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ (Opinberunarbókin 4:11) Þessir öldungar tákna alla smurða kristna menn reista upp í hina háu stöðu sem Guð hét þeim. Þeir finna sig knúna til að lofa hann fyrir hin miklu sköpunarverk hans. Við dáumst einnig að þeim merkjum um ‚Guðs eilífa kraft og guðdómleika‘ sem við sjáum umhverfis okkur. (Rómverjabréfið 1:20) Og því meira sem við kynnumst Jehóva, þeim mun fleiri ástæður eru til að lofa hann fyrir máttarverk hans.
Lofaðu Jehóva fyrir stórvirki hans!
4, 5. Nefndu dæmi um það hvernig Davíð lofaði Jehóva.
4 Sálmaritarinn Davíð lofaði Guð fyrir stórvirki hans. Hann söng til dæmis: „Lofsyngið [Jehóva], þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna. Líkna mér, [Jehóva], sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans, að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur.“ (Sálmur 9:12, 14, 15) Eftir að Davíð hafði gefið Salómon, syni sínum, teikningarnar af musterinu lofaði hann Guð og sagði: „Þín, [Jehóva], er tignin, mátturinn og dýrðin, vegsemdin og hátignin . . . Þinn er konungdómurinn, [Jehóva], og sá, er gnæfir yfir alla sem höfðingi. . . . Og nú, Guð vor, vér lofum þig og tignum þitt dýrlega nafn.“ — 1. Kroníkubók 29:10-13.
5 Biblían býður okkur margsinnis — já, beinlínis hvetur okkur til að lofa Guð eins og Davíð gerði. Í Sálmunum er margvísleg lofgerð um Guð, og um helmingur þeirra er eignaður Davíð. Hann var sífellt að lofa Jehóva og þakka honum. (Sálmur 69:31) Og hinir innblásnu lofsöngvar Davíðs og annarra hafa allt frá fornu fari verið notaðir til að lofa Jehóva.
6. Hvernig njótum við góðs af Sálmunum?
6 Sálmarnir eru mjög verðmætir fyrir dýrkendur Jehóva. Þegar við þökkum Guði fyrir öll stórvirki hans í okkar þágu er ekki ólíklegt að einhver fögur orð úr Sálmunum komi upp í hugann. Kannski langar okkur til að segja eitthvað í þessa veru þegar við vöknum að morgni nýs dags: „Gott er að lofa [Jehóva] og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti, að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur . . . Þú hefir glatt mig, [Jehóva], með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.“ (Sálmur 92:2-5) Þegar við sigrumst á einhverju, sem hefur tálmað andlegum framförum okkar, er ekki ólíklegt að okkur langi til að tjá Jehóva gleði okkar og þakklæti í bæn eins og sálmaritarinn er hann söng: „Komið, fögnum fyrir [Jehóva], látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors. Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.“ — Sálmur 95:1, 2.
7. (a) Hvað vekur athygli í sambandi við marga af söngvum votta Jehóva? (b) Af hverju er full ástæða til að mæta snemma á samkomur og vera viðstödd allt til enda?
7 Við lofum Jehóva í söng á safnaðarsamkomum og mótum. Það er eftirtektarvert að margir þessara söngva eru sóttir í innblásnar hugrenningar í Sálmunum. Það er mjög verðmætt fyrir okkur að eiga safn fallegra söngva sem við getum sungið til að lofa Jehóva. Við ættum að mæta snemma á samkomurnar og vera viðstödd alveg til enda til að geta tekið undir með trúsystkinum okkar í innilegum lofsöng og bæn.
„Lofið Jah“
8. Hvað merkir orðið „halelúja“?
8 Orðið „halelúja“ er hvatning til að lofa Jehóva en orðið er umritun úr hebresku og merkir „lofið Jah.“ Við finnum til dæmis þetta hlýlega en áherslumikla boð í Sálmi 135:1-3: „Halelúja. Lofið nafn [Jehóva], lofið hann, þér þjónar [Jehóva], er standið í húsi [Jehóva], í forgörðum húss Guðs vors. Lofið [Jehóva], því að [Jehóva] er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.“
9. Hvað knýr okkur til að lofa Jehóva?
9 Við getum ekki annað en þakkað Guði þegar við ígrundum hin stórfenglegu sköpunarverk hans og allt sem hann hefur gert fyrir okkur. Hjartað knýr okkur til að lofa hann þegar við veltum fyrir okkur þeim undraverkum sem hann vann í þágu þjóna sinna forðum daga. Og þegar við hugleiðum þau stórvirki, sem hann hefur lofað að vinna í framtíðinni, leitum við færis að tjá honum þakkir og lof.
10, 11. Hvers vegna höfum við ástæðu til að lofa Guð fyrir tilveru okkar?
10 Tilvera okkar er verðugt tilefni til að lofa Jah. Davíð söng: „Ég lofa þig [Jehóva] fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ (Sálmur 139:14) Já, við erum ‚undursamlega sköpuð‘ og okkur eru gefnir verðmætir hæfileikar eins og sjón, heyrn og hugsun. Ættum við þá ekki að lofa skaparann með líferni okkar? Páll sagði beinlínis að við ættum að gera það er hann skrifaði: „Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ — 1. Korintubréf 10:31.
11 Við gerum allt Jehóva til dýrðar ef við elskum hann í sannleika. Jesús sagði að mikilvægasta boðorðið væri þetta: „Þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ (Markús 12:30; 5. Mósebók 6:5) Við ættum vissulega að elska Jehóva og lofa hann sem skapara fyrir ‚sérhverja góða gjöf og sérhverja fullkomna gáfu.‘ (Jakobsbréfið 1:17; Jesaja 51:13; Postulasagan 17:28) Við eigum Jehóva allt að þakka — rökhugsunina, andlegu hæfileikana og líkamskraftinn — alla eiginleika okkar og allt sem við getum. Sem skapari verðskuldar hann kærleika okkar og lof.
12. Hvernig hugsar þú um stórvirki Jehóva og orðin í Sálmi 40:6?
12 Stórvirki Jehóva bjóða upp á ótal tilefni til að elska hann og lofa. „Mörg hefir þú, [Jehóva], Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa,“ söng Davíð. „Ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.“ (Sálmur 40:6) Davíð gat ekki tíundað öll dásemdarverk Jehóva og við getum það ekki heldur. En við skulum alltaf lofa Guð þegar athygli okkar er vakin á einhverju stórvirki hans.
Verk tengd eilífri fyrirætlun Guðs
13. Hvernig er vonin tengd stórvirkjum Guðs?
13 Framtíðarvon okkar er tengd þeim stórvirkjum sem eru fólgin í eilífri fyrirætlun Jehóva Guðs. Jehóva bar fram fyrsta vonarspádóminn eftir uppreisnina í Eden. Hann sagði er hann felldi dóminn yfir höggorminum: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Vonin um hið fyrirheitna sæði konunnar bjó áfram í hjörtum trúfastra manna eftir að Jehóva vann það máttarverk að bjarga Nóa og fjölskyldu hans er hann eyddi illri veröld í heimsflóðinu. (2. Pétursbréf 2:5) Spádómleg fyrirheit við trúmenn eins og Abraham og Davíð gáfu nánari innsýn í það sem Jehóva ætlaði að afreka fyrir atbeina þessa sæðis. — 1. Mósebók 22:15-18; 2. Samúelsbók 7:12.
14. Hvert var mesta stórvirki Jehóva í þágu mannkyns?
14 Mesta stórvirki Jehóva í þágu mannkyns var það að gefa eingetinn son sinn sem lausnarfórn — fyrirheitna sæðið, Jesú Krist. (Jóhannes 3:16; Postulasagan 2:29-36) Lausnargjaldið var forsenda sáttar við Guð. (Matteus 20:28; Rómverjabréfið 5:11) Kristni söfnuðurinn var stofnsettur á hvítasunnu árið 33 er Jehóva leiddi þá fyrstu, sem hann sætti við sig, inn í söfnuðinn. Þeir boðuðu fagnaðarerindið um allar jarðir með hjálp heilags anda og sýndu mönnum fram á hvernig dauði og upprisa Jesú opnuðu hlýðnum mönnum leiðina til eilífrar blessunar undir himneskri stjórn Guðsríkis.
15. Hvaða undraverk hefur Jehóva unnið á okkar dögum?
15 Jehóva hefur safnað hinum síðustu af þeim smurðu núna á okkar dögum. Eyðingarvindunum hefur verið haldið í skefjum til að hægt væri að innsigla þá sem eftir eru af hinum 144.000 sem eiga að ríkja með Kristi á himnum. (Opinberunarbókin 7:1-4; 20:6) Guð sá um að leysa smurða kristna menn úr andlegri ánauð ‚Babýlonar hinnar miklu,‘ heimsveldis falskra trúarbragða, árið 1919. (Opinberunarbókin 17:1-5) Þessi frelsun, ásamt vernd hans, hefur gert hinum smurðu kleift að vitna um Jehóva og skína sem ljós áður en hann bindur enda á hið illa heimskerfi Satans í „þrengingunni miklu“ sem er yfirvofandi. — Matteus 24:21; Daníel 12:3; Opinberunarbókin 7:14.
16. Hvaða árangri skilar boðun Guðsríkis um allan heim?
16 Smurðir vottar Jehóva hafa gengið fram af miklu kappi í boðun fagnaðarerindisins um allan heim, með þeim árangri að æ fleiri ‚aðrir sauðir‘ hafa gerst dýrkendur hans. (Jóhannes 10:16) Það er mjög svo gleðilegt að auðmjúkir menn skuli enn þá fá tækifæri til að slást í hópinn og lofsyngja Jehóva ásamt okkur. Þeir sem þiggja boðið um að ‚koma‘ eiga í vændum að komast lifandi gegnum þrenginguna miklu og fá að lofa Jehóva um alla eilífð. — Opinberunarbókin 22:17.
Þúsundir þyrpast að sannri tilbeiðslu
17. (a) Hvaða stórvirki er Jehóva að vinna með boðunarstarfinu? (b) Hvernig er Sakaría 8:23 að uppfyllast?
17 Jehóva er að vinna stórvirki núna með boðunarstarfinu. (Markús 13:10) Hann hefur ‚opnað víðar dyr og verkmiklar‘ á síðustu árum, þannig að hægt hefur verið að boða fagnaðarerindið á víðáttumiklu svæði þar sem óvinir sannleikans stóðu áður í vegi fyrir því. (1. Korintubréf 16:9) Margir sem bjuggu áður í andlegu myrkri þiggja nú boðið um að tilbiðja Jehóva. Þeir uppfylla spádómsorðin: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Á þeim dögum munu tíu menn af þjóðum ýmissa tungna taka í kyrtilskaut eins Gyðings og segja: ‚Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.‘“ (Sakaría 8:23) ‚Gyðingarnir,‘ sem hér eru nefndir, eru andlegir, það er að segja smurðir kristnir menn nú á tímum. Talan tíu getur táknað heild þess sem jarðneskt er, þannig að hinir „tíu menn“ tákna ‚múginn mikla‘ sem myndar ‚eina hjörð‘ með „Ísrael Guðs.“ (Opinberunarbókin 7:9, 10; Galatabréfið 6:16) Það er einkar ánægjulegt að sjá svona marga þjóna Jehóva og tilbiðja hann saman.
18, 19. Hvað ber vitni um að Jehóva blessar boðunarstarfið?
18 Við fögnum því að tugþúsundir, já, hundruð þúsunda manna skuli taka upp sanna tilbeiðslu í löndum þar sem falstrú réð svo miklu að ætla mátti að fólk tæki aldrei við fagnaðarerindinu. Í nýjustu Árbók votta Jehóva kemur fram að í fjölda landa eru nú á bilinu 100.000 til 1.000.000 boðbera Guðsríkis. Þetta er sterk sönnun fyrir því að Jehóva blessar boðunarstarfið. — Orðskviðirnir 10:22.
19 Við þökkum föðurnum á himnum og lofum hann fyrir að gefa okkur tilgang í lífinu, gefandi starf í þjónustu sinni og bjarta framtíðarvon. Við bíðum þess óþreyjufull að öll fyrirheit hans rætist og erum staðráðin í að ‚varðveita sjálfa okkur í kærleika hans til eilífs lífs.‘ (Júdasarbréfið 20, 21) Það er einkar ánægjulegt að hugsa til þess að múgurinn mikli, sem lofar Guð, er orðinn yfir 6.000.000 manna. Hinar smurðu leifar ásamt öðrum sauðum skiptast í 91.000 söfnuði í 235 löndum og augljóst er að Jehóva blessar þá. Við erum andlega vel nærð, svo er þrotlausu starfi ‚hins trúa og hyggna þjóns‘ fyrir að þakka. (Matteus 24:45) Framsækið guðræðisskipulag undir ástríkri umsjón stýrir starfi Guðsríkis og notar til þess 110 útibú votta Jehóva í heiminum. Við erum Jehóva þakklát fyrir að hafa snortið hjörtu fólks svo að það ‚tignar hann með eigum sínum.‘ (Orðskviðirnir 3:9, 10) Boðunarstarfið heldur því áfram um allan heim og byggðar eru prentsmiðjur, Betelheimili, trúboðsheimili, ríkissalir og mótshallir eftir þörfum.
20. Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að ígrunda stórvirki Jehóva?
20 Stórvirki föðurins á himnum eru fleiri en svo að við getum nefnt þau öll. En getur nokkur réttsýnn maður annað en gengið í lið með þeim sem dýrka Jehóva? Auðvitað ekki. Þeir sem elska Jehóva skulu því hrópa glöðum rómi: „Halelúja. Lofið [Jehóva] af himnum, lofið hann á hæðum. Lofið hann, allir englar hans, . . . bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar! Þau skulu lofa nafn [Jehóva], því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.“ (Sálmur 148:1, 2, 12, 13) Við skulum því lofa Jehóva fyrir stórvirki hans, nú og um eilífð!
Hvert er svarið?
• Nefndu nokkur stórvirki Jehóva.
• Af hverju finnurðu löngun hjá þér til að lofa Jehóva?
• Hvernig er vonin tengd stórvirkjum Guðs?
• Hvaða stórvirki er Jehóva að vinna með boðun Guðsríkis?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Lofsyngur þú Jehóva af öllu hjarta?
[Myndir á blaðsíðu 21]
Við fögnum því að auðmjúkir menn skuli enn þá fá tækifæri til að slást í hópinn og lofsyngja Jehóva.