Jehóva blessar og verndar þá sem eru hlýðnir
„Sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 1:33.
1, 2. Af hverju er mikilvægt að hlýða Guði? Lýstu með dæmi.
LITLU gulu ungarnir eru önnum kafnir við að leita eftir æti í snöggu grasinu og vita ekkert af hauknum sem svífur hátt fyrir ofan þá. Skyndilega gefur hænan frá sér hátt titrandi viðvörunarkall og þenur vængina. Ungarnir hlaupa til hennar og nokkrum sekúndum síðar eru þeir allir öruggir undir vængjum hennar. Haukurinn hættir við árásina.a Hvað lærum við af þessu? Hlýðni getur bjargað lífi!
2 Það er sérstaklega mikilvægt að kristnir menn nú á dögum læri af þessu dæmi því að Satan leggur sig allan fram um að veiða fólk Guðs. (Opinberunarbókin 12:9, 12, 17) Markmið hans er að spilla sambandi okkar við Jehóva svo að við glötum velþóknun hans og voninni um eilíft líf. (1. Pétursbréf 5:8) En ef við höldum okkur nærri Guði og bregðumst fljótt við þeim leiðbeiningum sem við fáum í orði hans og frá skipulagi hans getum við verið viss um að hann verndi okkur. „Hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita,“ skrifaði sálmaritarinn. — Sálmur 91:4.
Óhlýðinni þjóð tortímt
3. Hver var afleiðingin af síendurtekinni óhlýðni Ísraelsmanna?
3 Þegar Ísraelsþjóðin var Jehóva hlýðin verndaði hann hana að staðaldri. En allt of oft yfirgaf fólkið skapara sinn og sneri sér til guða úr steini og tré — ‚til fánýta sem að engu liði eru og eigi frelsa.‘ (1. Samúelsbók 12:21) Eftir margra alda uppreisn var þjóðin í heild svo djúpt sokkin í fráhvarf að henni var ekki viðbjargandi. Því sagði Jesús mæðulega: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“ — Matteus 23:37, 38.
4. Hvernig kom skýrt í ljós árið 70 að Jehóva hafði yfirgefið Jerúsalem?
4 Árið 70 kom sorglega skýrt í ljós að Jehóva hafði yfirgefið hina svikulu Ísraelsþjóð. Rómverski herinn hélt gunnfánum sínum, skreyttum arnarmynd, hátt á loft er hann steypti sér niður á Jerúsalem það ár og stráfelldi Gyðingana. Í borginni var fjöldinn allur af fólki sem kominn var til að halda páskahátíðina. En fórnir þess áunnu því ekki hylli Guðs þótt margar væru. Þetta minnti sárlega á orð Samúels til hins óhlýðna Sáls konungs: „Hefir þá Drottinn eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.“ — 1. Samúelsbók 15:22.
5. Hvers konar hlýðni krefst Jehóva og hvernig vitum við að slík hlýðni er möguleg?
5 En þótt Jehóva krefjist hlýðni er honum fullkunnugt um takmarkanir ófullkominna manna. (Sálmur 130:3, 4) Hann krefst þess að fólk hafi einlægt hjarta og að hlýðni þess sé byggð á trú, kærleika og heilnæmum ótta við að vanþóknast honum. (5. Mósebók 10:12, 13; Orðskviðirnir 16:6; Jesaja 43:10; Míka 6:8; Rómverjabréfið 6:17) ‚Fjöldi votta‘ á forkristnum tíma sannaði að slík hlýðni er möguleg þegar þeir voru ráðvandir þótt þeir stæðu frammi fyrir gríðarlegum erfiðleikum og jafnvel dauða. (Hebreabréfið 11:36, 37; 12:1) Þetta fólk gladdi hjarta Jehóva svo sannarlega! (Orðskviðirnir 27:11) Aðrir voru hins vegar trúfastir í fyrstu en héldu ekki áfram að hlýða Jehóva þegar fram liðu stundir. Einn þessara manna var Jóas konungur í Júda til forna.
Konungur sem varð fyrir áhrifum af slæmum félagsskap
6, 7. Hvers konar konungur var Jóas á meðan Jójada lifði?
6 Litlu munaði að Jóas konungur hefði verið myrtur þegar hann var hvítvoðungur. Þegar hann var sjö ára gamall sýndi Jójada æðsti prestur mikið hugrekki, kom með hann úr felum og gerði hann að konungi. Þar sem hinn guðhræddi Jójada prestur var Jóasi sem faðir og ráðgjafi gerði þessi ungi stjórnandi „það, sem rétt var í augum Drottins, meðan Jójada prestur lifði.“ — 2. Kroníkubók 22:10–23:1, 11; 24:1, 2.
7 Meðal þeirra góðu verka, sem Jóas gerði, var að reisa við musteri Jehóva eins og hann hafði ‚ásett sér.‘ Hann minnti Jójada æðsta prest á hve nauðsynlegt væri að hlýða fyrirskipun Móse og innheimta musterisskattana frá Júda og Jerúsalem svo að hægt væri að fjármagna viðgerðirnar. Jójada hafði greinilega tekist að hvetja unga konunginn til að lesa lögmál Guðs og fara eftir því. Þar af leiðandi var viðgerðunum á musterinu og musterisáhöldunum fljótt lokið. — 2. Kroníkubók 24:4, 6, 13, 14; 5. Mósebók 17:18.
8. (a) Hver var meginástæða þess að Jóas spilltist? (b) Hvað gerði konungur að lokum sökum óhlýðni sinnar?
8 Því miður var Jóas ekki hlýðinn Jehóva til lengdar. Af hverju ekki? Orð Guðs segir okkur: „Eftir andlát Jójada komu höfuðsmenn Júda og lutu konungi, og hlýddi þá konungur á þá. Og þeir yfirgáfu musteri Drottins, Guðs feðra sinna, og þjónuðu asérunum og líkneskjunum. Kom þá reiði yfir Júda og Jerúsalem fyrir þessa sök þeirra.“ Þau slæmu áhrif, sem höfuðsmenn Júda höfðu, urðu einnig til þess að konungurinn hætti að hlusta á spámenn Guðs. Einn þessara spámanna var Sakaría, sonur Jójada, en hann var hugrakkur og ávítaði Jóas og fólkið fyrir óhlýðni þess. En í stað þess að iðrast skipaði Jóas svo fyrir að Sakaría yrði grýttur til bana. Jóas var virkilega orðin tilfinningalaus og óhlýðinn maður — aðeins vegna þess að hann leyfði sér að verða fyrir áhrifum af slæmum félagsskap. — 2. Kroníkubók 24:17-22; 1. Korintubréf 15:33.
9. Hvernig sýna örlög Jóasar og höfuðsmannanna að það er heimskulegt að óhlýðnast?
9 En hvernig vegnaði Jóasi og hinum illu höfuðsmönnum eftir að þeir yfirgáfu Jehóva? ‚Fámennur her‘ Sýrlendinga réðst inn í Júda og drap „alla þjóðhöfðingja lýðsins.“ Innrásarmennirnir neyddu konunginn einnig til að láta af hendi allar eigur sínar og allt gullið og silfrið í helgidómnum. Jóas lifði árásina að vísu af en innrásarmennirnir létu hann eftir niðurbrotinn og sjúkan. Stuttu seinna gerðu þjónar hans samsæri gegn honum og drápu hann. (2. Kroníkubók 24:23-25; 2. Konungabók 12:17, 18) Orð Jehóva til Ísraelsmanna reyndust sönn: „Ef þú hlýðir ekki raustu Drottins Guðs þíns, svo að þú varðveitir og haldir allar skipanir hans og lög . . . þá munu fram við þig koma og á þér hrína allar þessar bölvanir.“ — 5. Mósebók 28:15.
Hlýðni ritara er honum til bjargar
10, 11. (a) Af hverju er gagnlegt að skoða ráðleggingarnar sem Jehóva gaf Barúk? (b) Hvað ráðlagði Jehóva Barúk?
10 Verður þú stundum þreyttur þegar þú hittir fáa í boðunarstarfinu sem sýna fagnaðarerindinu áhuga? Finnurðu stundum til smáöfundar í garð hinna ríku sem geta látið allt eftir sér? Ef svo er skaltu hugleiða frásöguna af Barúk, ritara Jeremía, og kærleiksríkar leiðbeiningar sem Jehóva gaf honum.
11 Barúk var að skrifa niður spádómlegan boðskap þegar Jehóva beindi athygli sinni að honum sjálfum. Af hverju? Af því að Barúk varð óánægður með hlutskipti sitt í lífinu. Hann vildi eitthvað betra en sérréttindin sem hann naut í þjónustu Guðs. Jehóva tók eftir þessu breytta viðhorfi Barúks og gaf honum ákveðin en vingjarnleg ráð: „Þú ætlar þér mikinn hlut! Girnst það eigi! Því að sjá, ég leiði ógæfu yfir allt hold . . . en þér gef ég líf þitt að herfangi, hvert sem þú fer.“ — Jeremía 36:4; 45:5.
12. Af hverju ættum við ekki að ‚ætla okkur mikinn hlut‘ í núverandi heimskerfi?
12 Skynjar þú umhyggjuna í orðum Jehóva til þessa góða manns, Barúks, sem hafði þjónað honum trúfastlega og hugrakkur með Jeremía? Það er eins núna, Jehóva er umhugað um þá sem finnst freistandi að eltast við það sem þeir telja betri tækifæri í þessu heimskerfi. Til allrar hamingju hafa margir þeirra brugðist vel við kærleiksríkri leiðréttingu andlega þroskaðra bræðra, eins og Barúk gerði. (Lúkas 15:4-7) Já, megum við öll gera okkur grein fyrir því að þeir sem ‚ætla sér mikinn hlut‘ í þessu heimskerfi eiga sér enga framtíð. Slíkir menn finna ekki sanna hamingju og það sem verra er, þeir fyrirfarast bráðlega með þessum heimi og öllum fýsnum hans. — Matteus 6:19, 20; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
13. Hvað lærum við um auðmýkt af frásögunni af Barúk?
13 Við getum dregið góðan lærdóm af frásögunni af Barúk. Taktu eftir því að Jehóva leiðrétti Barúk ekki milliliðalaust heldur talaði hann fyrir munn Jeremía, og Barúk þekkti örugglega ófullkomleika og sérvisku Jeremía mjög vel. (Jeremía 45:1, 2) En Barúk var ekki heltekinn af hroka; hann var auðmjúkur og gerði sér grein fyrir því að leiðbeiningarnar komu frá Jehóva. (2. Kroníkubók 26:3, 4, 16; Orðskviðirnir 18:12; 19:20) ‚Ef einhver misgjörð kann að henda okkur‘ og við fáum viðeigandi leiðréttingu frá orði Guðs skulum við því sýna svipaðan þroska, andlega skarpskyggni og auðmýkt og Barúk. — Galatabréfið 6:1.
14. Hvers vegna er skynsamlegt að hlýða þeim sem fara með forystuna?
14 Ef við sýnum slíka auðmýkt auðveldar það líka öldungunum að gefa okkur leiðbeiningar. Hebreabréfið 13:17 segir: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ Hversu oft úthella ekki öldungarnir hjörtum sínum fyrir Jehóva og biðja um það hugrekki og þá visku og háttvísi sem þeir þurfa til að sinna þessum erfiða þætti hirðastarfsins. Við skulum hafa „mætur á slíkum mönnum.“ — 1. Korintubréf 16:18.
15. (a) Hvernig sýndi Jeremía að hann treysti Barúk? (b) Hvernig var Barúk launað fyrir auðmjúka hlýðni sína?
15 Augljóst er að Barúk breytti hugsunarhætti sínum því að næst gaf Jeremía honum mjög krefjandi verkefni — hann átti að fara í musterið og lesa upphátt dómsboðskapinn sem hann skrifaði sjálfur eftir Jeremía. Hlýddi Barúk? Já, hann „gjörði með öllu svo sem Jeremía spámaður lagði fyrir hann.“ Hann las meira að segja sama boðskap fyrir höfuðsmenn Jerúsalem og það kostaði örugglega talsvert hugrekki. (Jeremía 36:1-6, 8, 14, 15) Átján árum seinna, þegar borgin féll í hendur Babýloníumanna, hlýtur Barúk að hafa verið innilega þakklátur fyrir að honum var þyrmt vegna þess að hann hlustaði á viðvörun Jehóva og hætti að ‚ætla sér mikinn hlut.‘ — Jeremía 39:1, 2, 11, 12; 43:6.
Hlýðni í umsátri varð til lífs
16. Hvernig sýndi Jehóva Gyðingum í Jerúsalem umhyggju í umsátri Babýloníumanna árið 607 f.o.t.?
16 Þegar Jerúsalem féll árið 607 f.o.t. kom umhyggja Jehóva fyrir hlýðnum mönnum aftur skýrt í ljós. Þegar umsátrið stóð sem hæst sagði Jehóva Gyðingunum: „Sjá, ég legg fyrir yður veg lífsins og veg dauðans. Þeir sem verða kyrrir í þessari borg, munu deyja fyrir sverði, af hungri og af drepsótt, en þeir sem fara út og ganga á vald Kaldeum, sem að yður kreppa, þeir munu lífi halda og hljóta líf sitt að herfangi.“ (Jeremía 21:8, 9) Þó að íbúar Jerúsalemborgar hafi verðskuldað eyðinguna sýndi Jehóva þeim umhyggju sem hlýddu honum á þessari síðustu og þýðingarmiklu stundu.b
17. (a) Á hvaða tvo vegu var hlýðni Jeremía reynd þegar Jehóva bauð honum að segja Gyðingunum í umsátrinu að ‚hlaupast yfir til Kaldea‘? (b) Hvernig njótum við góðs af fordæmi Jeremía um hugrekki og hlýðni?
17 Það hefur eflaust líka reynt á hlýðni Jeremía að segja Gyðingum að gefa sig Kaldeum á vald. Í fyrsta lagi var hann kostgæfinn vegna nafns Guðs. Hann vildi ekki að það yrði smánað af óvinum sem myndu eigna líflausum skurðgoðum sigurinn. (Jeremía 50:2, 11; Harmljóðin 2:16) Þar að auki vissi Jeremía að ef hann segði fólkinu að gefa sig Kaldeum á vald væri hann að stofna lífi sínu í mikla hættu því að margir myndu túlka það sem uppreisnaráróður. En hann kom sér ekki undan þessu heldur hlýddi hann og flutti orð Jehóva. (Jeremía 38:4, 17, 18) Við flytjum einnig óvinsælan boðskap líkt og Jeremía. Og Jesús var fyrirlitin fyrir þennan sama boðskap. (Jesaja 53:3; Matteus 24:9) Við skulum því ekki ‚óttast menn‘ heldur vera eins og Jeremía sem hlýddi Jehóva hugrakkur og treysti honum algerlega. — Orðskviðirnir 29:25.
Að vera hlýðin þegar Góg gerir árás
18. Hvernig verður hlýðni þjóna Jehóva reynd í framtíðinni?
18 Bráðum verður illu heimskerfi Satans eytt í ‚mikilli þrengingu‘ sem á engan sinn líka. (Matteus 24:21) Fyrir þessa þrengingu og á meðan hún stendur yfir verður trú og hlýðni þjóna Guðs örugglega reynd til hins ýtrasta. Biblían segir okkur til dæmis að Satan, sem „Góg í Magóglandi,“ geri allsherjarárás á þjóna Guðs og kalli út mikið lið, í líkingu við ‚fjölmennan her, eins og óveðursský til þess að hylja landið.‘ (Esekíel 38:2, 14-16) Þjónar Guðs eru óvopnaðir og í miklum minnihluta en leita hælis undir „vængjum“ Jehóva sem hann breiðir út til að vernda hlýðna menn.
19, 20. (a) Hvers vegna var nauðsynlegt að Ísraelsmenn hlýddu þegar þeir voru við Rauðahafið? (b) Hvernig getum við notið góðs af því að hugleiða í bænarhug frásöguna af Ísraelsmönnum við Rauðahafið?
19 Þessar aðstæður minna okkur á burtför Ísraelsþjóðarinnar frá Egyptalandi. Eftir að Jehóva kallaði tíu hræðilegar plágur yfir Egyptaland leiddi hann fólk sitt ekki stystu leiðina til fyrirheitna landsins heldur niður að Rauðahafi þar sem auðvelt var að innikróa það og ráðast á það. Frá hernaðarlegu sjónarmiði virtist þetta vera hræðileg ákvörðun. Ef þú hefðir verið á staðnum hefðirðu þá hlýtt orði Jehóva fyrir munn Móse og gengið niður að Rauðahafinu fullur trausts þótt þú vissir að fyrirheitna landið lægi í aðra átt? — 2. Mósebók 14:1-4.
20 Þegar við lesum 14. kaflann í 2. Mósebók sjáum við hvernig Jehóva frelsaði fólk sitt með stórkostlegum máttarverkum. Frásögur sem þessar geta sannarlega styrkt trú okkar ef við gefum okkur tíma til að lesa þær og hugleiða. (2. Pétursbréf 2:9) Ef við höfum sterka trú veitir hún okkur kraft til að hlýða Jehóva jafnvel þegar kröfur hans virðast stangast á við mannlega rökhugsun. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Spyrðu því sjálfan þig: ‚Legg ég mig fram um að styrkja trúna með því að vera iðinn við biblíunám, bæn og hugleiðingu og sækja samkomur reglulega með fólki Guðs?‘ — Hebreabréfið 10:24, 25; 12:1-3.
Hlýðni vekur von
21. Hvaða blessun munu þeir sem hlýða Jehóva hljóta bæði núna og í framtíðinni?
21 Þeir sem hafa þá lífsstefnu að hlýða Jehóva fá nú þegar að sjá Orðskviðina 1:33 uppfyllast en þar segir: „En sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.“ Og þessi hughreystandi orð munu uppfyllast á stórkostlegan hátt á hefndardegi Jehóva sem framundan er. Jesús sagði lærisveinunum meira að segja: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ (Lúkas 21:28) Augljóst er að aðeins þeir sem hlýða Guði treysta þessum orðum óhikað og fara eftir þeim. — Matteus 7:21.
22. (a) Hvaða ástæðu hefur fólk Jehóva til að vera fullt öryggis? (b) Um hvað verður fjallað í næstu grein?
22 Önnur ástæða fyrir því að við getum verið full öryggis er sú að „Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ (Amos 3:7) Núna innblæs Jehóva ekki spámenn eins og hann gerði hér áður fyrr heldur hefur hann gefið trúum þjónshópi það verkefni að sjá heimilisfólki sínu fyrir andlegri fæðu á réttum tíma. (Matteus 24:45-47) Það er því mjög mikilvægt að sýna þessum ‚þjóni‘ hlýðni. Greinin á eftir bendir á að slík hlýðni endurspegli líka viðhorf okkar til Jesú sem er húsbóndi ‚þjónsins.‘ Það er hann sem ‚þjóðirnar eiga að hlýða.‘ — 1. Mósebók 49:10, NW.
[Neðanmáls]
a Þó að hænum sé oft lýst sem huglausum dýrum „berjast þær til dauða til að vernda unga sína,“ segir í riti frá dýraverndunarfélagi.
b Jeremía 38:19 segir frá því af fjöldi Gyðinga hafi „hlaupist yfir“ til Kaldea og að lífi þeirra hafi verið þyrmt þó að þeir hafi verið sendir í útlegð. Ósagt er látið hvort þeir gáfu sig Kaldeum á vald í kjölfar orða Jeremía en sú staðreynd að þeir héldu lífi staðfestir samt sem áður orð spámannsins.
Manstu?
• Hver var afleiðingin af síendurtekinni óhlýðni Ísraelsþjóðarinnar?
• Hvaða áhrif höfðu félagar Jóasar á hann bæði snemma á lífsleiðinni og seinna?
• Hvað getum við lært af Barúk?
• Af hverju þurfa hlýðnir þjónar Jehóva ekki að óttast núna þegar endalok þessa heimskerfis nálgast?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Hinn ungi Jóas var Jehóva hlýðinn á meðan hann fylgdi leiðsögn Jójada.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Slæmir félagar komu Jóasi til að láta drepa spámann Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Hefðir þú hlýtt Jehóva og orðið vitni að stórkostlegum björgunarmætti hans?