,Vertu hughraustur og öruggur!‘
Verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn. — JÓHANNES 16:33.
1. Hvað beið Ísraelsmanna í Kanaanlandi og hvaða hvatningu fengu þeir í ljósi þess?
SKÖMMU áður en Ísraelsmenn fóru yfir Jórdaná inn í fyrirheitna landið sagði Móse við þá: „Verið hughraustir og öruggir, óttist eigi og hræðist þá eigi, því að Drottinn Guð þinn fer sjálfur með þér.“ Móse kallaði því næst til sín Jósúa, manninn sem átti að leiða Ísraelsmenn inn í Kanaanland, og ítrekaði við hann að vera hugrakkur. (5. Mósebók 31:6, 7) Seinna hvatti Jehóva hann sjálfur er hann sagði: „Ver þú hughraustur og öruggur. . . . Ver þú aðeins hughraustur og harla öruggur.“ (Jósúabók 1:6, 7, 9) Þetta voru tímabær orð. Ísraelsmenn þurftu að vera hugrakkir til að mæta öflugum óvinum sem biðu þeirra handan Jórdanar.
2. Í hvaða aðstöðu erum við og hvers þörfnumst við?
2 Þess er ekki langt að bíða uns sannkristnir menn gangi inn í hinn fyrirheitna nýja heim. Þeir þurfa að vera hugrakkir líkt og Jósúa. (2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 7:14) Við erum hins vegar í allt annarri aðstöðu en Jósúa. Hann barðist með sverði og spjóti en okkar bardagi er andlegur og við grípum aldrei til bókstaflegra vopna. (Jesaja 2:2-4; Efesusbréfið 6:11-17) Jósúa þurfti jafnvel að heyja fjölmargar harðar orrustur eftir að hann fór inn í fyrirheitna landið. Hörðustu bardagar okkar eru hins vegar núna — áður en við höldum inn í nýja heiminn. Veltum fyrir okkur nokkrum aðstæðum sem útheimta hugrekki.
Hvers vegna eigum við í baráttu?
3. Hvað segir Biblían um aðalandstæðing okkar?
3 Jóhannes postuli skrifaði: „Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þetta er grundvallarástæðan fyrir þeirri baráttu sem kristnir menn þurfa að heyja til að viðhalda trúnni. Þegar kristinn maður er ráðvandur er það viss ósigur fyrir Satan djöfulinn. Satan fer því um eins og „öskrandi ljón“ og reynir að skelfa sannkristna menn og gleypa þá. (1. Pétursbréf 5:8) Hann heyr stríð við smurða kristna menn og félaga þeirra. (Opinberunarbókin 12:17) Í þessu stríði notar hann menn sem vitandi eða óafvitandi þjóna tilgangi hans. Við þurfum hugrekki til að geta staðið gegn Satan og öllum útsendurum hans.
4. Hvaða viðvörun gaf Jesús en hvaða eiginleika hafa sannkristnir menn sýnt?
4 Jesús vissi að Satan og útsendarar hans myndu streitast harkalega á móti fagnaðarerindinu og því aðvaraði hann fylgjendur sína: „Menn [munu] framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ (Matteus 24:9) Þessi orð uppfylltust á fyrstu öldinni og þau uppfyllast líka á okkar dögum. Vottar Jehóva hafa verið ofsóttir harkalega nú á dögum, ekkert síður en fyrr á öldum. En sannkristnir menn eru hugrakkir í slíkum ofsóknum. Þeir vita að „ótti við menn leiðir í snöru“ og þá langar ekki að lenda í snöru. — Orðskviðirnir 29:25.
5, 6. (a) Undir hvaða kringumstæðum þurfum við að vera hugrökk? (b) Hvernig bregðast trúfastir kristnir menn við þegar reynir á hugrekki þeirra?
5 Það er margt annað en ofsóknir sem útheimtir hugrekki. Sumum finnst erfitt að tala við ókunnuga um fagnaðarerindið. Það reynir á hugrekki sumra skólabarna þegar þeim er sagt að syngja þjóðsönginn eða að heita landi eða fána hollustu. Þar sem slíkt heit er í rauninni trúartjáning hafa kristin börn ákveðið djarfmannlega að breyta á þann hátt sem gleður Jehóva og trúfesti þeirra er ánægjuleg.
6 Við þurfum líka að vera hugrökk þegar andstæðingar fá fjölmiðla til að varpa neikvæðu ljósi á þjóna Guðs eða þegar þeir reyna að setja hömlur á sanna tilbeiðslu „undir yfirskini réttarins.“ (Sálmur 94:20) Hvernig ættum við til dæmis að bregðast við þegar rangfærslur eða hreinar lygar um votta Jehóva koma fyrir í dagblöðum, útvarpi eða sjónvarpi? Ætti það að koma okkur á óvart? Nei, því að við búumst við slíku. (Sálmur 109:2) Það kemur heldur ekki á óvart að sumir trúi þessum rangfærslum og lygum þar sem „einfaldur maður trúir öllu.“ (Orðskviðirnir 14:15) Trúfastir kristnir menn neita hins vegar að trúa öllu sem sagt er um trúsystkini þeirra. Og þeir leyfa neikvæðri umfjöllun alls ekki að verða til þess að þeir sleppi safnaðarsamkomum, taki minni þátt í boðunarstarfinu eða veikist í trúnni. Þvert á móti ,sýna þeir, að þeir eru þjónar Guðs í heiðri og vanheiðri, í lasti og lofi. Þeir eru álitnir afvegaleiðendur, en eru í raun sannorðir.‘ — 2. Korintubréf 6:4, 8.
7. Hvaða rannsakandi spurninga gætum við spurt okkur?
7 Páll skrifaði Tímóteusi: „Ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar. . . . Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn.“ (2. Tímóteusarbréf 1:7, 8; Markús 8:38) Með þessi orð í huga getum við spurt okkur: ,Skammast ég mín fyrir trúna eða er ég hugrakkur? Læt ég vinnufélaga (eða skólafélaga) vita að ég er vottur Jehóva eða reyni ég að láta fara lítið fyrir því? Skammast ég mín fyrir að vera öðruvísi en aðrir eða er ég stoltur af því að skera mig úr vegna sambands míns við Jehóva?‘ Ef einhverjum finnst erfitt að boða fagnaðarerindið eða taka aðra afstöðu en fjöldinn ætti hann að minna sig á hvað Jehóva ráðlagði Jósúa: „Ver þú hughraustur og öruggur.“ Gleymdu því aldrei að það er ekki álit vinnu- eða skólafélaga sem skiptir máli heldur hvernig Jehóva og Jesús Kristur líta á þig. — Galatabréfið 1:10.
Að byggja upp hugrekki?
8, 9. (a) Hvernig reyndi einu sinni á hugrekki frumkristinna manna? (b) Hvernig brugðust Pétur og Jóhannes við þegar þeim var hótað og hvað upplifðu þeir og bræður þeirra?
8 Hvernig getum við byggt upp hugrekki sem gerir okkur kleift að vera ráðvönd á þessum erfiðu tímum? Skoðum hvernig frumkristnir menn byggðu upp hugrekki. Líttu á það sem gerðist þegar æðstuprestarnir og öldungarnir í Jerúsalem skipuðu Pétri og Jóhannesi að hætta að prédika í nafni Jesú. Lærisveinarnir neituðu og þeim var þar af leiðandi ógnað en síðan sleppt úr haldi. Því næst fóru þeir til bræðra sinna og sameinuðust þeim í bæn. Þeir sögðu: „Drottinn, lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.“ (Postulasagan 4:13-29) Fyrir vikið styrkti Jehóva þá með heilögum anda og eins og gyðingaleiðtogarnir báru síðar vitni um, ,fylltu þeir Jerúsalem‘ með kennslu sinni. — Postulasagan 5:28.
9 Lítum nánar á þetta atvik. Lærisveinunum kom ekki til hugar að láta undan þrýstingnum þegar leiðtogar Gyðinga hótuðu þeim heldur báðu um hugrekki til að halda áfram að prédika. Síðan unnu þeir í samræmi við bænina og Jehóva styrkti þá með anda sínum. Reynsla þeirra sýnir að það sem Páll skrifaði nokkrum árum síðar á einnig við þegar kristnir menn eru ofsóttir. Páll sagði: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ — Filippíbréfið 4:13.
10. Hvernig hjálpar frásagan af Jeremía þeim sem eru feimnir að eðlisfari?
10 En segjum að einhver sé feiminn að eðlisfari. Getur hann samt þjónað Jehóva djarfmannlega í ofsóknum? Vissulega! Mundu hvernig Jeremía brást við þegar Jehóva útnefndi hann sem spámann. „Ég er enn svo ungur,“ sagði ungi maðurinn. Það er augljóst að honum fannst hann ekki hæfur til verksins. Jehóva taldi samt í hann kjark með eftirfarandi orðum: „Seg ekki: ,Ég er enn svo ungur!‘ heldur skalt þú fara til allra, sem ég sendi þig til, og tala allt það, er ég býð þér. Þú skalt ekki óttast þá, því að ég er með þér til þess að frelsa þig!“ (Jeremía 1:6-10) Jeremía var hikandi en hann treysti á Jehóva og sigraðist þar af leiðandi á veikleika sínum í krafti Jehóva og varð einstaklega hugrakkur vottur í Ísrael.
11. Hvað gerir kristnum mönnum kleift að líkja eftir Jeremía?
11 Smurðir kristnir menn nú á dögum hafa svipað verkefni og Jeremía. Þeir halda áfram að kunngera tilgang Jehóva þrátt fyrir sinnuleysi, háðsglósur og ofsóknir og njóta stuðnings hins ,mikla múgs‘ ,annarra sauða.‘ (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16) Þeir sækja styrk í orð Jehóva til Jeremía: „Þú skalt ekki óttast.“ Þeir gleyma aldrei að umboð þeirra er frá Guði og að þeir eru að prédika boðskap hans. — 2. Korintubréf 2:17.
Hugrakkir menn sem vert er að líkja eftir
12. Hvernig gaf Jesús framúrskarandi fordæmi í hugrekki og hvernig hughreysti hann fylgjendur sína?
12 Það getur verið auðveldara að byggja upp hugrekki ef við íhugum fordæmi þeirra sem hafa verið hugrakkir líkt og Jeremía. (Sálmur 77:13) Við dáumst til dæmis að djörfung Jesú þegar Satan freistaði hans og þegar hann stóð frammi fyrir einbeittri andstöðu gyðingaleiðtoganna. (Lúkas 4:1-13; 20:19-47) Jesús var óhagganlegur þar sem hann fékk styrk frá Jehóva. Stuttu fyrir dauða sinn sagði hann við lærisveinana: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóhannes 16:33; 17:16) Lærisveinar hans myndu einnig sigra með því að fylgja fordæmi hans. (1. Jóhannesarbréf 2:6; Opinberunarbókin 2:7, 11, 17, 26) En þeir þyrftu að vera „hughraustir.“
13. Hvernig hvatti Páll Filippímenn?
13 Páli og Sílasi var varpað í fangelsi í Filippí nokkrum árum eftir dauða Jesú. Seinna meir hvatti Páll söfnuðinn í Filippí til að ,standa stöðugur í einum anda og berjast saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið og láta í engu skelfast af mótstöðumönnunum.‘ Páll styrkti þá er hann sagði: „Fyrir þá er það [að kristnir menn séu ofsóttir] merki frá Guði um glötun [ofsækjendanna], en um hjálpræði yðar. Því að yður er veitt sú náð fyrir Krists sakir, ekki einungis að trúa á hann, heldur og að þola þjáningar hans vegna.“ — Filippíbréfið 1:27-29.
14. Hver varð árangurinn í Róm af djörfung Páls?
14 Þegar Páll skrifaði til safnaðarins í Filippí var hann aftur í fangelsi, nú í Róm. Hann hélt samt áfram að prédika djarfmannlega. Með hvaða árangri? Hann skrifaði: „Það er augljóst orðið í allri lífvarðarhöllinni og fyrir öllum öðrum, að ég er í fjötrum vegna Krists, og flestir af bræðrunum hafa öðlast meira traust á Drottni við fjötra mína og fengið meiri djörfung til að tala orð Guðs óttalaust.“ — Filippíbréfið 1:13, 14.
15. Hvar getum við fundið góð trúarfordæmi sem styrkja þann ásetning okkar að vera hugrökk?
15 Fordæmi Páls er hvetjandi. Fordæmi kristinna manna nú á dögum er það líka. Þeir hafa mátt þola ofsóknir í löndum þar sem einræðis- eða klerkastjórn hefur verið við völd. Frásögur margra þeirra hafa birst í tímaritunum Varðturninum og Vaknið! og Árbókum Votta Jehóva. Þegar þú lest þessar frásögur skaltu muna að þeir voru venjulegir menn eins og við. En við mjög erfiðar aðstæður gaf Jehóva þeim ofurmagn kraftarins og þeir stóðust raunirnar. Við getum verið fullviss um að hann gerir það sama fyrir okkur ef aðstæður útheimta það.
Hugrekki okkar gleður og heiðrar Jehóva
16, 17. Hvernig getum við byggt upp hugrekki?
16 Það er hugrekki að vera staðfastur í sannleikanum og því sem rétt er. En það er jafnvel enn meira hugrekki að vera staðfastur þrátt fyrir að vera hræddur innra með sér. Hver einasti kristinn maður getur verið hugrakkur ef hann langar innilega til að gera vilja Jehóva, hann er staðráðinn í að vera trúfastur, reiðir sig ávallt á Jehóva og hefur það hugfast að Jehóva hefur áður styrkt ótal einstaklinga eins og hann. Við erum jafnvel enn ákveðnari í að láta ekki undan síga ef við gerum okkur grein fyrir að hugrekki okkar gleður Jehóva og er honum til heiðurs. Við erum reiðubúin að þola háðsglósur eða eitthvað þaðan af verra vegna þess að við elskum hann heitt. — 1. Jóhannesarbréf 2:5; 4:18.
17 Gleymdu því aldrei að þegar við þjáumst vegna trúar okkar merkir það ekki að við höfum gert eitthvað rangt. (1. Pétursbréf 3:17) Við þjáumst vegna þess að við styðjum drottinvald Jehóva, gerum gott og erum ekki hluti af heiminum. Pétur postuli sagði um þetta: „Ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði.“ Hann sagði einnig: „Þeir, sem líða eftir vilja Guðs, [skulu] fela sálir sínar á hendur hinum trúa skapara og halda áfram að gjöra hið góða.“ (1. Pétursbréf 2:20; 4:19) Já, trú okkar gleður ástkæran Guð okkar, Jehóva, og heiðrar hann. Það er sannarlega veigamikil ástæða til að vera hugrakkur!
Þegar við tölum við yfirvöld
18, 19. Hvaða boðskap erum við í raun að flytja þegar við erum hugrökk frammi fyrir dómurum?
18 Er Jesús sagði fylgjendum sínum að þeir yrðu ofsóttir sagði hann þeim einnig: „[Menn] munu draga yður fyrir dómstóla og húðstrýkja yður í samkundum sínum. Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna þeim og heiðingjunum til vitnisburðar.“ (Matteus 10:17, 18) Það krefst hugrekkis að ganga fyrir dómara eða stjórnanda vegna rangra ásakana. En þegar við notum slík tækifæri til að bera vitni fyrir þeim erum við að nýta erfiða stöðu til að koma góðu til leiðar. Í raun og veru erum við að flytja þeim sem dæma okkur orð Jehóva í Sálmi 2: „Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu. Þjónið Drottni með ótta.“ (Sálmur 2:10, 11) Dómarar hafa oft varið trúfrelsi þegar Vottar Jehóva hafa sætt röngum ásökunum frammi fyrir dómstólum, og við erum þakklát fyrir það. Hins vegar hafa sumir dómarar leyft andstæðingum að hafa áhrif á sig. Biblían segir þessum dómurum: „Látið yður segjast.“
19 Dómurum ætti að vera ljóst að lög Jehóva eru öllum lögum æðri. Þeir ættu að muna að allir menn, þar á meðal dómarar, eru ábyrgir frammi fyrir Jehóva Guði og Jesú Kristi. (Rómverjabréfið 14:10) Hvort sem dómarar rétta hlut okkar eða ekki höfum við fulla ástæðu til að vera hugrökk því að Jehóva styður okkur. Biblían segir: „Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.“ — Sálmur 2:13.
20. Hvers vegna getum við verið glöð ef við þurfum að þola ofsóknir og rógburð?
20 Jesús sagði í fjallræðunni: „Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.“ (Matteus 5:11, 12) Ofsóknir eru auðvitað í sjálfu sér ekkert ánægjuefni, en staðfesta andspænis ofsóknum og rógburði fjölmiðla er fagnaðarefni. Við erum að gleðja Jehóva og fáum umbun fyrir. Hugrekki okkar ber vott um ósvikna trú og fullvissar okkur um velþóknun Guðs. Það sýnir að við setjum allt okkar traust á Jehóva. Slíkt traust er kristnum manni mikilvægt eins og greinin á eftir fjallar um.
Hvað lærðirðu?
• Við hvaða aðstæður þurfum við að vera hugrökk?
• Hvernig getum við byggt upp hugrekki?
• Hverjir eru okkur gott fordæmi í hugrekki?
• Hvers vegna langar okkur til að vera hugrökk?
[Myndir á blaðsíðu 9]
Simone Arnold (nú Liebster) í Þýskalandi, Widdas Madona í Malaví og Lydia og Oleksii Kurdas í Úkraínu sýndu hugrekki og stóðu á móti hinum vonda.
[Myndir á blaðsíðu 10]
Við skömmumst okkar ekki fyrir fagnaðarerindið.
[Mynd á blaðsíðu 11]
Hugrekki Páls þegar hann var í fangelsi var fagnaðarerindinu til framdráttar.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Við erum að flytja mikilvægan boðskap þegar við skýrum hugrökk fyrir dómara hver biblíuleg staða okkar er.