Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir fimmtu bókar Sálmanna
HINIR ríku segja ef til vill: „Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl. Hlöður vorar eru fullar . . . fénaður vor getur af sér þúsundir.“ Og þeir bæta kannski við: „Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir.“ Sálmaskáldið segir hins vegar: „Sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.“ (Sálmur 144:12-15) Öðruvísi getur það ekki verið því að Jehóva er kallaður hinn sæli Guð og þeir sem tilbiðja hann eru sælir sömuleiðis. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Þetta kemur berlega í ljós í Sálmi 107 til 150 sem er síðasta bók hinna innblásnu sálma Biblíunnar.
Í fimmtu bók Sálmanna er sömuleiðis lögð áhersla á að Jehóva sé miskunnsamur, umhyggjusamur, góður og trúfastur. Því betur sem við þekkjum persónuleika Guðs, þeim mun sterkari tilhneigingu höfum við til að elska hann og óttast. Og það stuðlar að því að við erum sæl og glöð. Já, við finnum verðmætan boðskap í fimmtu bók Sálmanna. — Hebreabréfið 4:12.
SÆL VEGNA UMHYGGJU OG ÁSTAR GUÐS
„Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans og dásemdarverk hans við mannanna börn.“ Þetta syngja Gyðingar sem eru á heimleið úr útlegðinni í Babýlon. (Sálmur 107:8, 15, 21, 31) Davíð lofar Guð og syngur: „Trúfesti þín nær til skýjanna.“ (Sálmur 108:5) Í sálminum á eftir biður hann: „Veit mér lið, Drottinn, Guð minn, hjálpa mér eftir miskunn þinni.“ (Sálmur 109:18, 19, 26) Sálmur 110 er spádómur um stjórn Messíasar. „Upphaf speki er ótti Drottins,“ segir í Sálmi 111:10. Og samkvæmt sálminum á eftir er sá maður „sæll . . . sem óttast Drottin“. — Sálmur 112:1.
Sálmar 113 til 118 eru kallaðir hallelsálmar vegna þess hve oft orðið „hallelúja“ kemur fyrir í þeim en það merkir „lofið Jah“. Að sögn Mishna, rits frá þriðju öld þar sem skráðar voru fornar erfikenningar, voru þessir sálmar sungnir á páskum og þrem árlegum hátíðum Gyðinga. Sálmur 119 er lengsti sálmurinn og jafnframt lengsti kafli Biblíunnar, en hann ber lof á opinberað orð Jehóva, boðskap hans.
Biblíuspurningar og svör:
109:23 — Hvað átti Davíð við þegar hann sagði: „Ég hverf sem hallur skuggi“? Davíð var að lýsa með ljóðrænum hætti að sér fyndist dauðastundin nálgast. — Sálmur 102:12.
110:1, 2 — Hvað gerði „herra [Davíðs]“, Jesús Kristur, meðan hann sat við hægri hönd Guðs? Eftir að Jesús var reistur upp frá dauðum steig hann upp til himna og beið síðan við hægri hönd Guðs fram til 1914 þegar hann tók að ríkja sem konungur. Þangað til ríkti hann yfir andasmurðum fylgjendum sínum og leiðbeindi þeim við að boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. Hann bjó þá sömuleiðis undir að stjórna með sér í ríki sínu. — Matteus 24:14; 28:18-20; Lúkas 22:28-30.
110:4 — Hvað hefur Jehóva ‚svarið sem hann iðrast ekki‘? Eiðurinn er fólginn í sáttmála Jehóva við Jesú Krist um að vera konungur og æðsti prestur. — Lúkas 22:29.
113:3 — Hvernig er nafn Jehóva lofað „frá sólarupprás til sólarlags“? Hér er ekki aðeins átt við hóp manna sem tilbiður Guð á hverjum degi. Sólin baðar alla jörðina geislum sínum allt frá því hún rís í austri og sest í vestri. Jehóva er sömuleiðis lofaður um alla jörðina. Það gerist ekki nema með samstilltu átaki. Við sem erum vottar Jehóva njótum þess einstaka heiðurs að mega lofa Guð og boða ríki hans.
116:15 — Hve „dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans“? Dýrkendur Jehóva eru honum svo dýrmætir að hann leyfir aldrei að þeir deyi allir sem einn. Ef hann leyfði það væri engu líkara en að óvinir hans væru honum yfirsterkari. Og þá yrði enginn eftir á jörðinni til að leggja grundvöll að nýjum heimi.
119:71 — Hvernig geta þjáningar verið til góðs? Við getum lært af erfiðleikum að reiða okkur betur á Jehóva, biðja til hans af meiri einlægni og leggja okkur betur fram við að nema Biblíuna og fara eftir boðum hennar. Og viðbrögð okkar geta leitt í ljós einhverja galla í fari okkar sem hægt er að bæta úr. Þjáningarnar gera okkur ekki bitur ef við leyfum þeim að bæta okkur.
119:96 — Hvað er átt við með ‚endi á allri fullkomnun‘? Sálmaritarinn horfir á fullkomleika frá mannlegum sjónarhóli. Líklega hafði hann í huga að fullkomleikaskyn mannsins væri takmarkað. Aftur á móti eiga boðorð Guðs sér engin slík takmörk. Leiðbeiningar hans eiga við á öllum sviðum lífsins. „Ég hef séð takmörk á allri fullkomnun, boð þín eiga sér engin takmörk.“ — Biblíurit, ný þýðing 2003.
119:164 — Hvaða hugsun er fólgin í því að lofa Guð „sjö sinnum á dag“? Talan sjö er oft notuð til tákns um fullkomleika. Orð sálmaskáldsins merkja að Jehóva verðskuldi allt okkar lof.
Lærdómur:
107:27-31. Viska heimsins er með öllu „þrotin“ þegar Harmagedón ríður yfir. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Hún getur ekki bjargað nokkrum manni frá eyðingu. Þeir einir sem vænta hjálpræðis frá Jehóva munu „þakka [honum] miskunn hans“.
109:30, 31; 110:5. Hermaður heldur á sverðinu í hægri hendi svo að hún er berskjalda miðað við þá vinstri sem heldur á skildinum. Jehóva stendur þjónum sínum táknrænt „til hægri handar“ og berst fyrir þá. Hann verndar þá og hjálpar þeim sem er ærin ástæða til að „lofa [hann] mikillega“.
113:4-9. Jehóva er svo hátt upp hafinn að hann þarf að beygja sig til að ‚horfa djúpt á himni‘. Hann ber samt sem áður umhyggju fyrir lítilmagnanum, hinum snauða og óbyrjunni. Alvaldur Drottinn Jehóva er lítillátur og vill að þjónar sínir séu það líka. — Jakobsbréfið 4:6.
114:3-7. Við ættum að vera djúpt snortin af máttarverkum Jehóva sem hann vann í þágu þjóðar sinnar við Rauðhaf, við Jórdan og á Sínaífjalli. Mannkynið, sem jörðin táknar, ætti að titra af ótta frammi fyrir honum.
119:97-101. Við verjum okkur gegn andlegu tjóni með því að afla okkur visku, hygginda og skynsemi.
119:105. Orð Guðs er lampi fóta okkar að því leyti að það getur hjálpað okkur að glíma við vandamál líðandi stundar. Það lýsir einnig leið okkar táknrænt séð því að það upplýsir hvað Guð ætlast fyrir í framtíðinni.
SÆL ÞRÁTT FYRIR MÓTLÆTI
Hvernig getum við staðist mótlæti og þraukað þrátt fyrir erfiðar aðstæður? Við fáum skýrt svar við því í Sálmi 120 til 134. Við stöndumst erfiðleika og höldum gleðinni með því að reiða okkur á hjálp Jehóva. Þessir sálmar eru kallaðir helgigönguljóð og voru sennilega sungnir þegar Ísraelsmenn voru á ferð til Jerúsalem að halda hinar árlegu hátíðir.
Í Sálmi 135 og 136 er Jehóva lýst þannig að hann geri hvaðeina sem honum þóknast, ólíkt ósjálfbjarga skurðgoðum. Sálmur 136 er saminn fyrir víxlsöng þar sem síðari hlutinn af hverju versi er sem svar við þeim fyrri. Í sálminum á eftir er lýst niðurbrotnum Gyðingum í Babýlon sem þrá að tilbiðja Jehóva í Síon. Sálmar 138 til 145 eru ortir af Davíð. Hann vill ‚lofa Jehóva af öllu hjarta‘ vegna þess að hann er „undursamlega skapaður“, eins og hann orðar það. (Sálmur 138:1; 139:14) Í næstu fimm sálmum biður Davíð um vernd Guðs fyrir vondum mönnum. Hann biður um að fá réttlátar ávítur, skjól fyrir þeim sem ofsækja hann og leiðsögn um rétta breytni. Hann bendir á hve sælir þjónar Jehóva séu. (Sálmur 144:15) Eftir að hafa fjallað um mikilleik Guðs og gæsku lýsir hann yfir: „Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.“ — Sálmur 145:21.
Biblíuspurningar og svör:
122:3 — Í hvaða skilningi var Jerúsalem „þéttbyggð“ borg? (Biblíurit, ný þýðing 2003) Hús stóðu þétt í Jerúsalem eins og tíðkaðist í borgum til forna. Borgin var samanþjöppuð og því var auðvelt að verja hana. Og sökum þess að húsin stóðu þétt gátu borgarbúar reitt sig hver á annan til stuðnings og verndar. Þetta lýsir andlegri einingu hinna 12 ættkvísla Ísraels þegar þær komu saman til tilbeiðslu.
123:2 — Hver er hugsunin í líkingunni við augu þjónanna? Þjónar og ambáttir horfa á hönd húsbónda eða húsfreyju af tveim ástæðum. Annars vegar vilja þau fá að vita óskir þeirra og hins vegar hljóta vernd og lífsnauðsynjar. Við horfum sömuleiðis til Jehóva til að vita vilja hans og hljóta velþóknun hans.
131:1-3 — Hvernig gat Davíð ‚sefað sál sína og þaggað niður í henni eins og afvanið barn hjá móður sinni‘? Davíð lærði að sefa og róa sál sína eins og barn, sem er nývanið af brjósti, lærir að leita huggunar og hlýju í fangi móður sinnar. Hvernig? Með því að vera ekki með dramb í hjarta og hroka í augum og færast ekki of mikið í fang. Davíð sóttist ekki eftir frama. Hann viðurkenndi yfirleitt takmörk sín og var auðmjúkur. Það er viturlegt af okkur að líkja eftir honum, ekki síst þegar við sækjumst eftir verkefnum í söfnuðinum.
Lærdómur:
120:1, 2, 6, 7. Rógur og kaldhæðni geta valdið öðrum óbærilegri kvöl. Við getum sýnt að við séum friðsöm með því að hafa taumhald á tungunni.
120:3, 4. Ef við þurfum að umbera mann með ‚tælandi tungu‘ getum við huggað okkur við það að Jehóva tekur á málinu þegar þar að kemur. Rógberar þurfa að þola hörmungar af hendi „harðstjórans“. Þeir kalla yfir sig dóm Jehóva sem er táknaður með „glóandi viðarkolum“.
127:1, 2. Við ættum að leita leiðsagnar Jehóva í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur.
133:1-3. Eining þjóna Jehóva er uppbyggileg, hressandi og skapar friðsæld. Við ættum ekki að spilla henni með aðfinnslusemi, deilum eða kvörtunum.
137:1, 5, 6. Dýrkendum Jehóva í útlegðinni þótti vænt um Síon en hún hafði verið tákn fyrir söfnuð Guðs. Hvað um okkur? Höfum við myndað sterk tengsl við söfnuðinn sem Jehóva notar nú á tímum?
138:2. Jehóva ‚gerir nafn sitt og orð sitt meira öllu öðru‘ af því að allt sem hann hefur lofað í nafni sínu mun fara langt fram úr væntingum okkar. Við eigum stórfenglega framtíð fyrir höndum.
139:1-6, 15, 16. Jehóva veit hvað við gerum og hugsum og hvað við ætlum að segja. Hann hefur þekkt okkur frá því að við vorum fóstur í móðurkviði, áður en nokkur líkamshluti var greinanlegur. Þekking Guðs á okkur er „undursamlegri“ en svo að við fáum skilið. Það er einkar hughreystandi að vita að Jehóva skuli ekki aðeins sjá erfiðleikana sem við eigum stundum í heldur einnig skilja hvaða áhrif þeir hafa á okkur.
139:7-12. Enginn staður er svo afskekktur að Jehóva nái ekki þangað til að styrkja okkur.
139:17, 18. Höfum við yndi af því að þekkja Jehóva? (Orðskviðirnir 2:10) Þá höfum við fundið óþrjótandi gleðilind. Hugsanir Jehóva eru „fleiri en sandkornin“. Við munum alltaf eiga eitthvað ólært um hann.
139:23, 24. Við ættum að biðja Jehóva að rannsaka okkar innri mann og kanna hvort við séum á „glötunarvegi“ vegna óviðeigandi hugsana, langana og tilhneiginga, og biðja hann um að hjálpa okkur að uppræta þær.
143:4-7. Hvernig getum við staðist erfiðar prófraunir? Sálmaskáldið er með lausnina: Hugleiddu verk Jehóva, íhugaðu gerðir hans og biddu hann um hjálp.
Lofið Jehóva
Fyrstu fjórum bókum sálmanna lýkur með lofgerð til Jehóva. (Sálmur 41:14; 72:19, 20; 89:53; 106:48) Síðasta bókin er engin undantekning. Í Sálmi 150:6 segir: „Allt sem andardrátt hefir lofi Drottin! Hallelúja!“ Þetta verður að veruleika í nýjum heimi Guðs.
Þegar við hugsum fram til þessara gleðilegu tíma höfum við ríka ástæðu til að vegsama hinn sanna Guð og lofa nafn hans. Þegar við hugleiðum hvílík gæfa það er að mega þekkja Jehóva og eiga gott samband við hann, langar okkur þá ekki til að lofa hann með þakklátum hjörtum?
[Mynd á blaðsíðu 11]
Máttarverk Jehóva eru mikilfengleg.
[Mynd á blaðsíðu 12]
Hugsanir Jehóva eru „fleiri en sandkornin“.