Blekkjum ekki sjálf okkur með röngu hugarfari
„HVAÐ hefurðu gert?“ spurði Guð Evu eftir að hún át af forboðna trénu. „Höggormurinn tældi mig og ég át,“ svaraði hún. (1. Mós. 3:13) Satan, hinn slóttugi höggormur, fékk Evu til að óhlýðnast Guði. Hann var síðar kallaður ,hinn gamli höggormur sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina‘. — Opinb. 12:9.
Þessi frásaga lýsir Satan þannig að hann sé undirförull og spinni upp lygar til að blekkja þá sem gæta ekki að sér. Eva lét hann augljóslega blekkja sig. Við ættum þó ekki að hugsa að Satan sé sá eini sem geti afvegaleitt okkur. Í Biblíunni erum við vöruð við því að ,svíkja sjálf okkur‘ eða blekkja með röngu hugarfari. — Jak. 1:22.
Það kann að virðast fjarstæðukennt að við færum að blekkja sjálf okkur. En það er greinilega ekki að ástæðulausu að Guð varar okkur við því. Við ættum því að skoða hvernig við gætum blekkt sjálf okkur og hvers konar hugarfar gæti leitt okkur afleiðis. Dæmi úr Biblíunni getur hjálpað okkur til þess.
Dæmi um sjálfsblekkingu
Árið 537 f.Kr., eða þar um bil, gaf Kýrus mikli Persakonungur út tilskipun um að Gyðingar, sem voru í útlegð í Babýlon, skyldu snúa aftur til Jerúsalem og endurbyggja musterið. (Esra. 1:1, 2) Í samræmi við áætlun Jehóva lögðu menn grunninn að nýja musterinu árið eftir. Þeir sem höfðu snúið heim glöddust og lofuðu Jehóva fyrir að blessa fyrsta áfanga þessa mikilvæga verks. (Esra. 3:8, 10, 11) En brátt hófst andstaða við endurbygginguna og fólkið missti kjarkinn. (Esra. 4:4) Um það bil 15 árum eftir heimkomuna bönnuðu svo persnesk yfirvöld allar byggingarframkvæmdir í Jerúsalem. Embættismenn konungs fylgdu banninu eftir og „neyddu [Gyðingana] með hervaldi til að hætta framkvæmdum“. — Esra. 4:21-24.
Þegar Gyðingar stóðu frammi fyrir svo alvarlegri hindrun blekktu þeir sjálfa sig með fölskum rökum. Þeir sögðu: „Enn er ekki tímabært að endurreisa hús Drottins.“ (Hagg. 1:2) Þeir töldu sér trú um að Guð vildi ekki að musterið yrði byggt strax. Í stað þess að leita leiða til að vinna verkið, sem Guð hafði falið þeim, lögðu þeir það til hliðar og sökktu sér niður í að endurbæta eigin hús. Haggaí spámaður var ómyrkur í máli þegar hann spurði þá: „Er þá tímabært fyrir ykkur að búa í þiljuðum húsum, meðan þetta hús [musteri Jehóva] er í rúst?“ — Hagg. 1:4.
Getum við lært eitthvað af þessu? Ef við höfum ekki rétta sýn á tímaáætlanir Jehóva getum við farið að vanrækja þjónustu okkar við hann og látið eigin hugðarefni bera okkur afleiðis. Við skulum lýsa þessu með dæmi: Þú átt von á gestum og drífur þig líklega í að ljúka við nauðsynleg húsverk og gera allt klárt áður en þeir koma. En svo færðu skilaboð um að þeim seinki. Hættirðu þá við að undirbúa komu þeirra?
Höfum í huga að Haggaí og Sakaría hjálpuðu Gyðingunum að skilja að Jehóva hefði ekki skipt um skoðun. Hann vildi að byggingu musterisins yrði haldið áfram án tafar. „Hertu upp hugann, landslýður,“ hvatti Haggaí, „vinnið“. (Hagg. 2:4) Fólkið þurfti að halda áfram við verkið og treysta því að andi Guðs styddi það. (Sak. 4:6, 7) Getur þessi frásaga forðað okkur frá því að draga rangar ályktanir um dag Jehóva? — 1. Kor. 10:11.
Rangt hugarfar víkur fyrir skynsamlegum rökum
Í öðru bréfi sínu ræddi Pétur postuli um tímaáætlun Jehóva til að koma á fót ,nýjum himni og nýrri jörð‘. (2. Pét. 3:13) Hann benti á að spottarar myndu draga í efa að Guð myndi nokkurn tíma skipta sér af málefnum manna. Þeir færðu fölsk rök fyrir því að ekkert myndi gerast og sögðu að „allt [stæði] við hið sama eins og frá upphafi veraldar“. (2. Pét. 3:4) Pétur kom með mótrök og sagði: „Ég [hef] reynt að halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá ykkur.“ Hann minnti meðbræður sína á að spottararnir hefðu rangt fyrir sér. Guð hafði áður skorist í málefni manna með því að láta koma heimsflóð svo að þáverandi heimur fórst. — 2. Pét. 3:1, 5-7.
Haggaí gaf Gyðingunum svipaða hvatningu þegar þeir höfðu látið hugfallast og orðið óvirkir árið 520 f.Kr. Hann hvatti trúbræður sína með þessum orðum: „Sjáið hvernig ykkur hefur farnast.“ (Hagg. 1:5) Til að þeir héldu hugarfari sínu hreinu minnti hann þá á fyrirætlanir Guðs og loforð hans til þjóna sinna. (Hagg. 1:8; 2:4, 5) Stuttu eftir þessa hvatningu hófust menn aftur handa við að endurbyggja musterið, þrátt fyrir opinbert bann. Aftur reyndu andstæðingar að stöðva verkið en án árangurs. Bannið var fellt úr gildi og musterið var klárað á fimm árum. — Esra. 6:14, 15; Hagg. 1:14, 15.
Skoðum hvernig okkur hefur farnast
Heldurðu að erfiðleikar gætu dregið úr okkur kjark eins og gerðist hjá Gyðingum á dögum Haggaí? Ef það gerist getur verið erfitt fyrir okkur að halda boðunarstarfinu áfram af kappi. En hvað gæti dregið úr okkur kjark? Kannski gerir óréttlætið í þessum heimi okkur erfitt fyrir. Hugsum til Habakkuks sem spurði: „Hve lengi á ég að hrópa, Drottinn, án þess að þú hlustir? Um ofbeldi hef ég hrópað til þín án þess að þú kæmir til hjálpar.“ (Hab. 1:2) Það sem sumir álita seinagang gæti fengið kristinn mann til að missa sjónar á hvað tímanum líður og fara að láta eigin þægindi hafa forgang. Gæti það hent þig? Ef við færum að hugsa þannig værum við að blekkja sjálf okkur. Það er nauðsynlegt að við hlýðum ráði Biblíunnar um að ,sjá hvernig okkur hefur farnast‘ og ,halda hinu hreina hugarfari vakandi hjá okkur‘. Ætti það að koma okkur á óvart að þetta illa heimskerfi skuli standa lengur en við bjuggumst við?
Tímabil sem spáð var um í Biblíunni
Hugleiddu aðeins orð Jesú um endalok þessa heimskerfis. Frásögn Markúsar af spádómi Jesú um síðustu daga sýnir að Jesús minnti okkur aftur og aftur á að vera vakandi. (Mark. 13:33-37) Við sjáum svipaða viðvörun mitt í spádóminum um hinn mikla dag Jehóva, Harmagedón. (Opinb. 16:14-16) Af hverju er þessi viðvörun margendurtekin? Það er nauðsynlegt vegna þess fólki hættir til að missa árveknina þegar það bíður lengur en það bjóst við.
Jesús benti á nauðsyn þess að vera stöðugt á verði meðan við bíðum eftir að þetta heimskerfi taki enda. Hann tekur dæmi af manni sem brotist hefur verið inn hjá. Hvernig hefði hann getað komið í veg fyrir að vera rændur? Með því að vaka alla nóttina. Jesús endaði dæmisöguna með eftirfarandi hvatningu til okkar: „Verið þér og viðbúin því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“ — Matt. 24:43, 44.
Þessi dæmisaga bendir á að við þurfum að vera undir það búin að bíða, jafnvel um talsverðan tíma. Við ættum ekki að láta það angra okkur um of þó að þetta illa heimskerfi hafi kannski staðið lengur en við bjuggumst við. Við ættum ekki að blekkja sjálf okkur og telja okkur trú um að tími Jehóva sé enn ekki kominn. Slíkur hugsunarháttur myndi draga úr löngun okkar til að boða ríki Guðs. — Rómv. 12:11.
Upprætum rangt hugarfar
Í Galatabréfinu 6:7 segir um rangt hugarfar: „Villist ekki . . . það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ Ef engu er sáð í jarðskika fyllist hann auðveldlega af illgresi. Eins getur rangt hugarfar fest rætur ef við pössum ekki upp á að halda andlegri vöku okkar. Við gætum til dæmis farið að hugsa eitthvað á þessa leið: „Dagur Jehóva kemur auðvitað — bara ekki alveg strax.“ Ef eftirvænting okkar fer að dala gætum við farið að slá slöku við í þjónustunni við Jehóva, og með tímanum jafnvel farið að vanrækja hana. Þá getur dagur Jehóva komið okkur í opna skjöldu. — 2. Pét. 3:10.
En rangt hugarfar getur ekki fest rætur ef við reynum stöðugt að átta okkur á því „hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna“. (Rómv. 12:2) Ein besta hjálpin til þess er að lesa reglulega í orði Guðs. Biblíulestur getur styrkt sannfæringu okkar um að Jehóva hrindi vilja sínum alltaf í framkvæmd á réttum tíma. — Hab. 2:3.
Við getum ,beðið eftir degi Guðs og flýtt fyrir að hann komi‘ með því að vera ötul við biblíunám, bænir, sækja samkomur reglulega og stunda boðunarstarfið auk þess að sýna öðrum ástúðlega umhyggju. (2. Pét. 3:11, 12) Jehóva tekur eftir trúfesti okkar. Páll postuli hvetur okkur: „Þreytumst ekki að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp.“ — Gal. 6:9.
Nú er alls ekki rétti tíminn til að leyfa röngu hugarfari að blekkja okkur til að halda að degi Jehóva hafi verið slegið á frest. Nú er rétti tíminn til að vera staðföst því að dagur Jehóva er nálægur.
[Mynd á bls. 4]
Haggaí og Sakaría hvöttu Gyðingana til að byggja.
[Mynd á bls. 5]
Hvað ef þau hefðu vitað að þjófurinn kæmi?