Hvenær ætti barnið þitt að láta skírast?
„ÉG ER mjög ánægður með að dóttir mín skuli vera orðin vígður þjónn Jehóva og ég veit að hún er líka ánægð,“ sagði Carlosa sem er vottur á Filippseyjum. Faðir einn í Grikklandi sagði: „Börnin okkar þrjú létu skírast strax á unglingsaldri, okkur hjónunum til mikillar ánægju. Þau taka stöðugt framförum í sannleikanum og þjóna Jehóva með gleði.“
Kristnir foreldrar hafa fulla ástæðu til að fagna þegar börn þeirra láta skírast en stundum fylgir því einnig kvíði. „Ég var mjög hamingjusöm,“ sagði móðir ein, „en líka áhyggjufull.“ Hvers vegna þessar blendnu tilfinningar? „Ég gerði mér grein fyrir því að sonur minn var nú sjálfur ábyrgur gagnvart Jehóva Guði.“
Unga fólkið í söfnuðinum ætti að hafa það að markmiði að láta skírast sem þjónar Jehóva. En sumir foreldrar hugsa kannski sem svo: „Barnið mitt tekur framförum í trúnni en hefur það nægan styrk til að standast hópþrýsting og halda sér siðferðilega hreinu frammi fyrir Jehóva?“ Aðrir hugsa kannski: „Mun barnið mitt halda áfram að þjóna Jehóva með gleði og af kappi þrátt fyrir efnishyggju heimsins?“ Hvaða biblíulegu ráð geta hjálpað foreldrum að ákveða hvort barn þeirra sé tilbúið til að láta skírast?
Að vera lærisveinn Jesú er meginskilyrði
Orð Guðs tilgreinir ekki ákveðinn aldur heldur útskýrir hverjir séu hæfir til að láta skírast. Jesús gaf fylgjendum sínum þessi fyrirmæli: „Gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá.“ (Matt. 28:19) Þeir sem vilja láta skírast þurfa því að vera orðnir lærisveinar Jesú.
Hvað er lærisveinn? Í Insight on the Scriptures segir: „Þetta hugtak er aðallega notað um þá sem bæði trúa á kennslu Jesú og fylgja leiðbeiningum hans náið.“ En eru tiltölulega ungir krakkar færir um að vera trúir lærisveinar Jesú? Trúsystir okkar, sem hefur verið trúboði í Suður-Ameríku í meira en 40 ár, skrifar um sig og tvær systur sínar: „Við vorum nógu gamlar til að skilja að við vildum þjóna Jehóva og lifa í paradís. Hollusta okkar við hann var okkur styrkur þegar við stóðum frammi fyrir freistingum unglingsáranna. Við sjáum alls ekki eftir því að hafa vígt okkur Guði á unga aldri.“
Hvernig geturðu gengið úr skugga um að barnið þitt sé í raun lærisveinn Jesú? Í Biblíunni segir: „Jafnvel má þekkja af verkum barnsins hvort athafnir þess eru hreinar og einlægar.“ (Orðskv. 20:11) Skoðum nokkur atriði sem eru augljós merki um að barnið sé lærisveinn Jesú. — 1. Tím. 4:15.
Merki um að barnið sé lærisveinn Jesú
Hlýðir barnið þér? (Kól. 3:20) Sinnir barnið verkefnum sínum á heimilinu? Í Biblíunni segir um Jesú þegar hann var 12 ára: „Jesús . . . var þeim [foreldrum sínum] hlýðinn.“ (Lúk. 2:51) Að sjálfsögðu er ekkert barn fullkomlega hlýðið foreldrum sínum. En sannir lærisveinar Jesú eiga að „feta í fótspor hans“ eins dyggilega og þeir geta. Börn eða unglingar, sem vilja láta skírast, ættu því að vera þekkt fyrir að vera hlýðin foreldrum sínum. — 1. Pét. 2:21.
Hugleiddu eftirfarandi spurningar: Sýnir barnið þitt að það ,leiti fyrst ríkis Guðs‘ með því að taka fullan þátt í boðunarstarfinu? (Matt. 6:33) Fer barnið fúslega í boðunarstarfið eða þarftu að beita það fortölum til að fara út í starfið og tala við fólk? Hugar barnið að ábyrgð sinni sem óskírður boðberi? Hefur það áhuga á að fara aftur til fólks sem sýnir boðskapnum áhuga? Segir sonur þinn eða dóttir skólafélögum og kennurum að það sé vottur Jehóva?
Er barninu þínu mikilvægt að sækja safnaðarsamkomur? (Sálm. 122:1) Hefur það ánægju af að taka þátt í Varðturnsnáminu og safnaðarbiblíunáminu? Er barnið duglegur nemandi í Boðunarskólanum? — Hebr. 10:24, 25.
Kappkostar barnið þitt að halda sér siðferðilega hreinu með því að forðast slæman félagsskap í skólanum og annars staðar? (Orðskv. 13:20) Hvers konar tónlist, kvikmyndir og sjónvarpsþætti kýs barnið helst að hlusta eða horfa á? Hvaða tölvuleikjum hefur það áhuga á og hvernig notar það Netið? Sýna orð þess og verk að það vill fylgja siðferðisreglum Biblíunnar?
Hversu mikla þekkingu hefur barnið á Biblíunni? Getur það rifjað upp með eigin orðum það sem það lærir á biblíunámskvöldi fjölskyldunnar? Getur það útskýrt grundvallarsannindi Biblíunnar? (Orðskv. 2:6-9) Er það eitt af hugðarefnum barnsins að lesa í Biblíunni og ritum frá trúa og hyggna þjóninum? (Matt. 24:45) Langar það að læra meira um kenningar Biblíunnar eða ákveðna ritningarstaði?
Þessar spurningar hjálpa þér að leggja mat á samband barnsins við Jehóva. Þú gætir komist að raun um að barnið þurfi að taka framförum á einhverjum sviðum áður en það lætur skírast. Ef barnið sýnir hins vegar með lífsstefnu sinni að það sé lærisveinn Jesú og hafi nú þegar vígt sig Guði gætirðu gefið samþykki þitt fyrir því að það láti skírast.
Ungt fólk getur heiðrað Jehóva
Margir af þjónum Guðs hafa verið trúfastir og hollir honum allt frá unglingsárum eða jafnvel fyrr. Sem dæmi má nefna Jósef, Samúel, Jósía og Jesú. (1. Mós. 37:2; 39:1-3; 1. Sam. 1:24-28; 2:18-20; 2. Kron. 34:1-3; Lúk. 2:42-49) Fjórar dætur Filippusar voru allar gæddar spádómsgáfu. Þær hljóta að hafa fengið góða kennslu frá unga aldri. — Post. 21:8, 9.
Vottur í Grikklandi sagði: „Ég lét skírast þegar ég var 12 ára og hef aldrei séð eftir þeirri ákvörðun. Það eru 24 ár síðan og ég hef verið brautryðjandi í 23 ár. Það sem hjálpaði mér í gegnum unglingsárin var kærleikur minn til Jehóva. Þegar ég var 12 ára hafði ég ekki jafn mikla þekkingu á Biblíunni og ég hef núna en ég vissi að ég elskaði Jehóva og vildi þjóna honum að eilífu. Hann hefur ávallt stutt mig í þjónustunni við sig og fyrir það er ég mjög þakklátur.“
Sá sem sýnir merki um að hann sé sannur lærisveinn ætti að láta skírast hvort sem hann er ungur eða gamall. Páll postuli skrifaði: „Með hjartanu er trúað til réttlætis, með munninum játað til hjálpræðis.“ (Rómv. 10:10) Þegar ungur lærisveinn Jesú stígur það skref að láta skírast hafa bæði hann og foreldrarnir náð merkum áfanga. Láttu ekkert hindra þig eða börnin þín í að njóta ánægjunnar sem því fylgir.
[Neðanmáls]
a Sumum nöfnum hefur verið breytt.
[Rammi á bls. 5]
Rétt viðhorf til skírnar
Sumir foreldrar líta á skírn barnsins sem mikilvægt skref sem þó feli í sér ákveðna áhættu, ekki ósvipað því að fá ökuréttindi. En getur skírn og heilög þjónusta við Guð ógnað framtíð barnsins að einhverju leyti? Ekki samkvæmt Biblíunni. Í Orðskviðunum 10:22 segir: „Blessun Jehóva — það er hún sem auðgar og hann lætur enga kvöl fylgja henni.“ (NW) Og Páll skrifaði hinum unga Tímóteusi: „Trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur.“ — 1. Tím. 6:6.
Það er að vísu ekki alltaf auðvelt að vera þjónn Jehóva. Jeremía upplifði oft erfiðleika sem spámaður Guðs. Samt skrifaði hann um tilbeiðslu sína á hinum sanna Guði: „Þegar orð þín komu gleypti ég þau, orð þín urðu gleði mín. Hjarta mitt fagnaði því að ég er kenndur við þig, Drottinn, Guð hersveitanna.“ (Jer. 15:16) Jeremía vissi að þjónustan við Guð gerði hann hamingjusaman. Heimur Satans gerir okkur hins vegar erfitt fyrir. Foreldrar verða að hjálpa börnum sínum að skilja þennan mun. — Jer. 1:19.
[Rammi/mynd á bls. 6]
Ætti barnið mitt að bíða með að láta skírast?
Stundum ákveða foreldrar að láta barn sitt bíða með skírn jafnvel þótt það sé hæft til að láta skírast. Hverjar gætu ástæður foreldranna verið?
Ég óttast að láti barnið mitt skírast verði því síðar vikið úr söfnuðinum ef það brýtur alvarlega af sér. Er skynsamlegt að álykta að barn, sem bíður með að láta skírast, sé ekki ábyrgt gagnvart Guði fyrir gerðum sínum? Salómon beindi orðum sínum til unga fólksins þegar hann sagði: „Vita skaltu að fyrir allt þetta [öll verk þín] leiðir Guð þig fyrir dóm.“ (Préd. 11:9) Og Páll talaði ekki til neins sérstaks aldurshóps þegar hann gaf þessa áminningu: „Þannig skal sérhvert okkar gera Guði skil á sjálfu sér.“ — Rómv. 14:12.
Bæði skírðir og óskírðir tilbiðjendur Guðs er ábyrgir gagnvart honum. Gleymdu ekki að Jehóva verndar þjóna sína með því að ,láta ekki reyna þá um megn fram‘. (1. Kor. 10:13) Ef þjónar hans hafa heilbrigt hugarfar og reyna að standast freistingar geta þeir treyst á stuðning hans. (1. Pét. 5:6-9) Kristin móðir skrifar: „Börn, sem eru skírð, hafa enn ríkari ástæðu til að forðast hið slæma í heiminum. Sonur minn lét skírast þegar hann var 15 ára og finnst það hafa verið sér til verndar. Hann sagði: ,Maður hugsar ekki um að gera neitt í trássi við lög Jehóva.‘ Skírnin er sterkur hvati til að vera ráðvandur.“
Ef þú hefur kennt börnum þínum í orði og verki að hlýða Jehóva geturðu verið viss um þau halda því áfram að eftir að þau láta skírast. Í Orðskviðunum 20:7 segir: „Réttlátur maður ástundar ráðvendni, sæl verða börn hans eftir hann.“
Ég myndi vilja að barnið mitt næði ákveðnum markmiðum fyrst. Ungt fólk ætti að læra að vinna svo að það geti séð fyrir sér sjálft þegar þar að kemur. En það er ákveðin hætta fólgin í því að hvetja þau til að láta menntun og fjárhagslegt öryggi ganga fyrir hreinni tilbeiðslu. Þegar Jesús talaði um að „sæði“, það er að segja orðið um ríkið, bæri ekki ávöxt sagði hann: „Það er sáð var meðal þyrna merkir þann sem heyrir orðið en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið svo það ber engan ávöxt.“ (Matt. 13:22) Ef unglingur skipuleggur líf sitt þannig að andleg markmið víkja fyrir veraldlegum markmiðum getur það kæft löngun hans til að þjóna Guði.
Reyndur öldungur nefndi hvað gæti gerst ef unglingur væri hæfur til að láta skírast en foreldrarnir væru ekki sammála því. Hann sagði: „Ef ungum boðbera er varnað að láta skírast getur það dregið úr honum kraft og stöðvað framfarir hans í trúnni.“ Farandhirðir skrifaði: „Barnið gæti þá orðið óöruggt í sannleikanum eða fundið til minnimáttarkenndar. Það gæti farið að leita á náðir heimsins til að finnast það einhvers metið“.
[Mynd]
Ætti háskólamenntun að ganga fyrir?
[Mynd á bls. 3]
Barn getur sýnt merki um að vera lærisveinn Jesú.
[Myndir á bls. 3]
Undirbúningur fyrir samkomur og þátttaka í þeim.
[Mynd á bls. 4]
Hlýðni við foreldra.
[Mynd á bls. 4]
Þátttaka í boðunarstarfinu.
[Mynd á bls. 4]
Bænasamband við Guð.