SAMRÆÐUR UM BIBLÍUNA
Hvenær tók ríki Guðs til starfa? – 2. HLUTI
Hér á eftir fara fram dæmigerðar samræður sem vottar Jehóva eiga við fólk. Við skulum gera okkur í hugarlund að vottur, sem heitir Garðar, sé kominn aftur til Jóhanns til að ræða við hann um Biblíuna.
STUTT SAMANTEKT Á DRAUMI NEBÚKADNESARS
Garðar: Það er gott að sjá þig aftur, Jóhann. Mér finnst alltaf jafn ánægjulegt að koma til þín og ræða við þig um Biblíuna.a Hvernig hefurðu annars haft það þessa vikuna?
Jóhann: Ég hef haft það fínt, þakka þér fyrir.
Garðar: Það er gott að heyra. Í síðustu viku töluðum við um það af hverju Vottar Jehóva segja að ríki Guðs hafi tekið til starfa árið 1914.b Og við skoðuðum mikilvæga sönnun fyrir því í 4. kafla Daníelsbókar í Biblíunni. Manstu um hvað kaflinn fjallar?
Jóhann: Já, fjallaði hann ekki um draum Nebúkadnesars konungs um stórt og mikið tré?
Garðar: Jú, alveg rétt. Nebúkadnesar dreymdi gríðarstórt tré sem náði alla leið til himins. Hann heyrði engil Guðs gefa skipun um að höggva tréð en skilja rótarstubbinn eftir í moldinni. Tréð myndi síðan vaxa upp aftur eftir „sjö tíðir“.c Við ræddum líka um að spádómurinn rætist tvisvar. Manstu hvernig hann rættist í fyrra skiptið?
Jóhann: Já, hafði það ekki eitthvað með Nebúkadnesar að gera? Hann missti vitið í sjö ár.
Garðar: Það er hárrétt. Þegar Nebúkadnesar missti vitið var gert hlé á stjórn hans. En spádómurinn rættist síðan í enn stærri mæli í tengslum við stjórn Guðs. Í sjö tíðir yrði hlé á stjórn Guðs yfir jörðinni. Þessar sjö tíðir hófust þegar Jerúsalem var eytt árið 607 f.Kr. Upp frá því ríkti enginn konungur framar í umboði Jehóva yfir þjóð hans. Þegar þessum sjö tíðum lyki myndi Guð hins vegar krýna nýjan konung til að ríkja yfir fólki sínu og sá konungur yrði á himnum. Það merkir að þegar tíðunum sjö lyki tæki ríki Guðs til starfa á himnum. Við höfum nú þegar komist að því hvaða ár þessar sjö tíðir hófust. Ef við getum reiknað út hvenær þeim lauk sjáum við hvaða ár ríki Guðs tók til starfa.
Jóhann: Já, alveg rétt. Þetta er smám saman að rifjast upp fyrir mér núna.
Garðar: Stórfínt. Við skulum þá bara halda áfram og kanna hversu langt tímabil tíðirnar sjö eru. Ég var að lesa mér aðeins til um þetta áðan og ég skal reyna að útskýra þetta eins vel og ég get.
Jóhann: Já, allt í lagi.
TÍÐUNUM SJÖ LÝKUR OG SÍÐUSTU DAGAR HEFJAST
Garðar: Þegar spádómurinn rættist á Nebúkadnesari voru þessar sjö tíðir augljóslega sjö bókstafleg ár. En þegar spádómurinn rættist í stærri mæli í tengslum við ríki Guðs, hljóta þessar sjö tíðir að hafa staðið miklu lengur en í sjö bókstafleg ár.
Jóhann: Af hverju segirðu það?
Garðar: Jú, mundu að tíðirnar sjö hófust þegar Jerúsalem var eytt árið 607 f.Kr. Ef við teljum sjö bókstafleg ár frá árinu 607 komum við að árinu 600 f.Kr. En engir markverðir atburðir áttu sér stað það ár sem gáfu til kynna að Guð hefði krýnt konung sinn til valda á himnum. Og eins og við ræddum síðast gaf Jesús líka til kynna að tíðirnar sjö stæðu enn yfir þegar hann var hér á jörð.
Jóhann: Já, það er satt.
Garðar: Í stað þess að tíðirnar sjö séu sjö bókstafleg ár hljóta þær að vera miklu lengra tímabil.
Jóhann: Hversu langt tímabil?
Garðar: Spádómarnir í Opinberunarbókinni, sem kallast á við spádóma Daníelsbókar, gera okkur kleift að reikna nákvæmlega út hve langt tímabil þessar sjö tíðir eru. Þar er bent á að þrjár og hálf tíð jafngildi 1.260 dögum.d Tíðirnar sjö, sem eru tvisvar sinnum þrjár og hálf tíð, eru því samtals 2.520 dagar. Er þetta nokkuð of flókið?
Jóhann: Nei, en ég skil samt ekki enn hvernig þetta sýnir fram á að ríki Guðs hafi tekið til starfa árið 1914.
Garðar: Allt í lagi, við skulum skoða það saman núna. Í spádómum Biblíunnar táknar einn dagur stundum heilt ár.e Ef við miðum við meginregluna um að einn dagur tákni heilt ár þá samsvara tíðirnar sjö alls 2.520 árum. Þegar við teljum 2.520 ár frá árinu 607 f.Kr. endum við á árinu 1914.f Þannig er hægt að reikna út að tíðunum sjö lauk árið 1914 og þá tók Jesús að ríkja sem konungur Guðsríkis. Frá og með árinu 1914 hafa líka afdrifaríkir atburðir átt sér stað í heiminum, atburðir sem Biblían spáði að myndu einkenna síðustu daga.
Jóhann: Hvaða atburðir?
Garðar: Lítum á hvað stendur í Matteusi 24:7. Jesús sagði fyrir hvað myndi gerast þegar hann tæki að ríkja sem konungur á himnum: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.“ Taktu eftir að Jesús sagði að á þessu tímabili yrði hungur og jarðskjálftar víða í heiminum. Við mennirnir höfum svo sannarlega ekki farið varhluta af slíkum erfiðleikum síðastliðna öld.
Jóhann: Nei, það er satt.
Garðar: Jesús nefndi líka í þessu versi að þegar hann tæki að ríkja sem konungur Guðsríkis myndu brjótast út stríð. Og í Opinberunarbókinni var spáð að á tíma endalokanna yrðu stríð ekki aðeins bundin við takmörkuð svæði heldur myndu brjótast út styrjaldir sem hefðu áhrif á alla heimsbyggðina.g Manstu hvaða ár fyrri heimsstyrjöldin hófst?
Jóhann: Hún hófst árið 1914. Það er sama ár og þú segir að Jesús hafi byrjað að ríkja sem konungur. Ég var ekki búinn að hugsa út í það.
Garðar: Þegar við sjáum hvernig allir þessir spádómar tengjast – spádómurinn um tíðirnar sjö og aðrir spádómar Biblíunnar um tíma endalokanna – verður heildarmyndin skýrari. Við, Vottar Jehóva, erum sannfærð um að Jesús byrjaði að ríkja sem konungur Guðsríkis árið 1914 og að síðustu dagar hófust þá.h
Jóhann: Já, ég held að ég sé farinn að skilja þetta betur núna.
Garðar: Það er gott að heyra. Eins og ég sagði þér í síðustu viku þurfti ég líka tíma til að meðtaka þetta allt saman. Ég vona líka að þú sjáir að Vottar Jehóva byggja trú sína varðandi árið 1914 á Biblíunni, þótt hún minnist hvergi á þetta ártal.
Jóhann: Já, mér hefur alltaf fundist aðdáunarvert að þið rökstyðjið allar kenningar ykkar með Biblíunni. Þetta eru ekki bara ykkar eigin skoðanir. En ég er samt að velta fyrir mér hvers vegna þetta þarf að vera svona flókið. Hvers vegna lét Guð ekki bara skrifa orðrétt í Biblíuna að Jesús myndi byrja að ríkja á himnum árið 1914?
Garðar: Það er góð spurning, Jóhann. Það er rétt að Biblían útskýrir ekki alltaf allt í smáatriðum. En af hverju ætli Guð hafi látið skrifa Biblíuna þannig að fólk þyrfti að leggja eitthvað á sig til að geta skilið hana? Hvernig litist þér á að við ræddum um það næst þegar við hittumst?
Jóhann: Já, mér líst mjög vel á það.
Viltu fá svar við einhverri biblíuspurningu sem þú hefur velt fyrir þér? Langar þig til að vita meira um Votta Jehóva eða trú þeirra? Hikaðu þá ekki við að ræða um það næst þegar þú hittir einhvern þeirra. Vottum Jehóva væri sönn ánægja að svara spurningum þínum.
a Vottar Jehóva bjóða upp á ókeypis biblíunámskeið þar sem þeir ræða við fólk um sannindi Biblíunnar lið fyrir lið.
b Sjá greinina „Samræður um Biblíuna: Hvenær tók ríki Guðs til starfa – 1. hluti“ í Varðturninum nóvember-desember 2014.
c Sjá Daníel 4:20-22.
d Sjá Opinberunarbókina 12:6, 14. Í versi 14 segir samkvæmt Biblíunni 1859: „Eina tíð, (tvær) tíðir og hálfa tíð.“
f Sjá skýringarmyndina „Draumur Nebúkadnesars um tréð“.
g Sjá Opinberunarbókina 6:4.
h Sjá 9. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva. Einnig fáanleg á www.jw.org/is.