Öldungar, verið duglegir að þjálfa aðra
„Öllu er afmörkuð stund.“ – PRÉD. 3:1.
1, 2. Hverju hafa farandhirðar veitt athygli í mörgum söfnuðum?
FARANDHIRÐIRINN var í þann mund að ljúka fundi sínum með öldungaráðinu. Hann renndi augunum yfir hópinn. Honum þótti vænt um þessa duglegu umsjónarmenn sem sumir hverjir voru nógu gamlir til að geta verið faðir hans. Samt var ekki laust við að hann hefði nokkrar áhyggjur. Hann spurði: „Bræður, hvað hafið þið gert til að þjálfa aðra til að taka að sér ábyrgðarstörf í söfnuðinum?“ Öldungarnir mundu mætavel að í síðustu heimsókn hafði farandhirðirinn hvatt þá til að leggja meiri áherslu á að þjálfa aðra. Loks svaraði einn þeirra: „Satt best að segja höfum við gert ósköp lítið.“ Hinir öldungarnir kinkuðu kolli.
2 Ef þú ert safnaðaröldungur geturðu líklega sett þig í spor öldunganna á þessum fundi. Farandhirðar um allan heim hafa veitt því athygli að víða þarf að leggja meiri áherslu á að þjálfa bræður á öllum aldri til að taka þátt í að gæta hjarðarinnar. En það er hægara sagt en gert. Hvers vegna?
3. (a) Hvernig kemur fram í Biblíunni að það sé mikilvægt að þjálfa aðra og hvers vegna ættum við öll að hafa áhuga á því? (Sjá neðanmálsgrein.) (b) Hvers vegna getur öldungum fundist erfitt að þjálfa aðra?
3 Sem umsjónarmaður gerirðu þér eflaust grein fyrir að það er mikilvægt að þjálfa bræður persónulega.a Þú veist að það vantar fleiri bræður til að halda núverandi söfnuðum sterkum í trúnni og til að hægt sé að stofna fleiri söfnuði. (Lestu Jesaja 60:22.) Þú veist líka að öldungarnir eru hvattir í Biblíunni til að „kenna öðrum“. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 2:2.) En það getur verið þrautin þyngri fyrir þig, rétt eins og öldungana sem nefndir eru í upphafi greinarinnar. Eftir að þú ert búinn að sinna þörfum fjölskyldunnar, vinnunni, skyldum þínum í söfnuðinum og öðrum aðkallandi málum virðist bara enginn tími aflögu til að þjálfa bræður í söfnuðinum. Í ljósi þessa skulum við velta fyrir okkur hve mikla áherslu eigi að leggja á að þjálfa aðra.
ÞAÐ ER ÁRÍÐANDI AÐ ÞJÁLFA BRÆÐUR
4. Nefndu eina ástæðu fyrir því að það dregst stundum að þjálfa bræður til starfa.
4 Hvers vegna gæti öldungum fundist erfitt að gefa sér tíma til að þjálfa aðra? Sumir hugsa kannski sem svo að það sé vissulega mikilvægt að veita þjálfun en þó ekki jafn áríðandi og önnur safnaðarmál sem þola bara enga bið. Þeir segja við sjálfa sig: ,Söfnuðurinn heldur sínu striki þó að ég bíði enn um sinn með það að þjálfa aðra.‘ Það er auðvitað rétt að sumum málum þarf að sinna þegar í stað. Hins vegar getur það verið söfnuðinum til tjóns ef það dregst að þjálfa fleiri bræður til starfa.
5, 6. Hvað má læra af dæminu um bílstjórann og viðhald vélarinnar, og hvernig má heimfæra það upp á þjálfun í söfnuðinum?
5 Lýsum þessu með dæmi: Bílstjóri veit að til að halda bílnum við og vélinni í góðu standi þarf hann að skipta reglulega um olíu. En honum finnst það kannski ekki eins áríðandi og að fylla tankinn því að bíllinn stöðvast bráðlega ef hann setur ekki eldneyti á hann. ,Vélin gengur áfram, að minnsta kosti um tíma, þó að ég megi ekki vera að því að skipta um olíu,‘ hugsar hann ef til vill. En hver er áhættan? Ef bílstjórinn frestar í sífellu að skipta um olíu á vélinni stöðvast hún fyrir fullt og allt einn góðan veðurdag. Ef það gerist þarf hann að eyða miklum tíma og peningum í að gera við bílinn svo að hann verði gangfær á nýjan leik. Hver er lærdómurinn?
6 Öldungar hafa margt á sinni könnu sem er mikilvægt að sinna tafarlaust, annars kemur það niður á söfnuðinum. Öldungar þurfa að ,meta þá hluti rétt sem máli skipta‘, ekki ósvipað og bílstjórinn sem gætir þess að fylla eldsneytistankinn reglulega. (Fil. 1:10) Sumir öldungar eru hins vegar svo uppteknir af því að sinna aðkallandi málum að þeir vanrækja að þjálfa aðra – það er að segja að halda vélinni við ef svo má að orði komast. En ef öldungar fresta í sífellu að veita nauðsynlega þjálfun kemur að því fyrr eða síðar að það vantar bræður sem eru hæfir til að gera allt sem gera þarf í söfnuðinum.
7. Hvernig eigum við að líta á öldunga sem gefa sér tíma til að þjálfa aðra?
7 Við þurfum því greinilega að varast að hugsa sem svo að það sé ekki sérlega áríðandi að veita öðrum þjálfun. Öldungar, sem horfa til lengri tíma og gefa sér góðan tíma til að þjálfa óreyndari bræður, eru vitrir ráðsmenn og öllum söfnuðinum til blessunar. (Lestu 1. Pétursbréf 4:10.) Hvernig nýtur söfnuðurinn góðs af störfum þeirra?
TÍMANUM ER VEL VARIÐ
8. (a) Hvað er öldungum hvatning til að þjálfa aðra? (b) Hvaða aðkallandi verkefni hafa öldungar sem starfa þar sem þörfin er meiri? (Sjá greinina „Áríðandi verkefni“.)
8 Reyndustu öldungar þurfa að sýna þá hógværð að viðurkenna að með aldrinum geta þeir ekki gert eins mikið í söfnuðinum og áður. (Míka 6:8) Þeir ættu líka að vera raunsæir og horfast í augu við að „tími og tilviljun“ geta skyndilega valdið því að þeir geta ekki lengur sinnt verkefnum sínum í söfnuðinum. (Préd. 9:11, 12; Jak. 4:13, 14) Framsýnir öldungar láta sér annt um velferð sauða Jehóva og byrja nógu snemma að miðla yngri bræðrum af reynslu sinni sem þeir hafa aflað sér í áralangri þjónustu við Jehóva. – Lestu Sálm 71:17, 18.
9. Hvað gerist í náinni framtíð sem veldur því að það er afar áríðandi að þjálfa aðra?
9 Hvaða fleiri ástæður eru fyrir því að öldungar, sem þjálfa aðra, eru hjörðinni til blessunar? Þeir styrkja varnir safnaðarins. Hvernig? Þegar öldungar þjálfa aðra verða fleiri bræður tilbúnir til að hjálpa söfnuðinum að vera sterkur og sameinaður, ekki aðeins núna heldur líka í því umróti sem fylgir þrengingunni miklu. (Esek. 38:10-12; Míka 5:4, 5) Þess vegna hvetjum við ykkur, kæru öldungar, til að hefjast handa þegar í stað að þjálfa aðra og hafa það sem fastan þátt í starfi ykkar.
10. Hvað getur öldungur þurft að gera til að hafa tíma til að þjálfa aðra?
10 Við skiljum auðvitað að þið hafið meira en nóg á ykkar könnu við að sinna mikilvægum safnaðarmálum. Ykkur finnst ef til vill að þið hafið engan tíma aflögu. Þess vegna gætuð þið þurft að taka einhvern tíma frá þessum safnaðarmálum og nota hann til að þjálfa aðra. (Préd. 3:1) Þeim tíma væri vel varið.
AÐ SKAPA RÉTTAR AÐSTÆÐUR
11. (a) Hvað er athyglisvert varðandi tillögur sem öldungar í ýmsum löndum hafa gefið um þjálfun? (b) Hvers vegna er gott að skoða tillögur annarra öldunga, samanber Orðskviðina 15:22?
11 Öldungar í nokkrum löndum, sem hefur tekist vel að hjálpa bræðrum að taka út andlegan þroska, voru spurðir nýverið hvaða aðferð þeir noti við að þjálfa aðra.b Þó að aðstæður þessara bræðra séu æði ólíkar voru ráðleggingar þeirra ótrúlega líkar. Hvaða ályktun má draga af því? Að biblíutengd þjálfun virki „alls staðar í hverjum söfnuði“, rétt eins og á dögum Páls postula. (1. Kor. 4:17) Við ætlum því að líta á nokkrar tillögur öldunganna í þessari grein og þeirri næstu. (Orðskv. 15:22) Til einföldunar verður talað um þá sem veita þjálfunina og þá sem þiggja hana sem „kennara“ og „nemendur“.
12. Hvað þarf kennari að skapa og hvers vegna?
12 Kennari þarf að skapa réttar aðstæður til að veita þjálfun. Hann þarf að búa hjarta nemandans undir að læra eitthvað nýtt, ekki ósvipað og garðyrkjumaður þarf að losa um jarðveginn til að undirbúa hann fyrir sáningu. Hvernig fer kennari að því að skapa réttar aðstæður til að þjálfa aðra? Með því að nota svipaða aðferð og spámaður nokkur gerði endur fyrir löngu. Hvaða aðferð er það?
13-15. (a) Hvaða verkefni fékk Samúel spámaður? (b) Hvernig leysti Samúel verkefnið af hendi? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (c) Hvers vegna er þessi frásaga Biblíunnar af Samúel sérlega áhugaverð fyrir öldunga?
13 Dag einn fyrir meira en 3.000 árum sagði Jehóva Samúel spámanni sem þá var orðinn aldraður: „Um þetta leyti á morgun sendi ég til þín mann frá landi Benjamíns. Þú skalt smyrja hann til höfðingja yfir þjóð mína, Ísrael.“ (1. Sam. 9:15, 16) Samúel var ljóst að hann hafði lokið hlutverki sínu sem leiðtogi og að Jehóva hafði falið honum að vígja arftaka sinn til starfa. Samúel hlýtur að hafa velt fyrir sér hvernig hann gæti búið manninn undir þetta hlutverk. Hann fékk hugmynd og gerði síðan áætlun.
14 Daginn eftir, þegar Samúel spámaður sá Sál, sagði Jehóva honum: „Þetta er maðurinn.“ Þá hrinti Samúel áætlun sinni í framkvæmd. Hann bauð Sál að ganga í matsal nokkurn til að borða. Hann vísaði honum og vinnumanni hans til sætis á besta stað, bar fyrir þá úrvalskjöt og sagði: „Taktu nú til matar þíns og snæddu því að þetta var geymt handa þér.“ Eftir matinn gengu þeir Sál og Samúel heim til spámannsins og ræddu saman á leiðinni. Samúel vildi nýta sem best notalegt andrúmsloftið sem skapaðist við það að borða góðan mat og ganga saman í rólegheitum. Hann bauð Sál upp á þak hússins. Þeir ræddu saman í kvöldsvalanum uppi á húsþakinu þangað til þeir lögðust til svefns. Daginn eftir smurði Samúel Sál, kyssti hann, gaf honum nánari leiðbeiningar og lét hann fara leiðar sinnar. Sál var nú búinn undir þá atburði sem voru fram undan. – 1. Sam. 9:17-27; 10:1.
15 Það er auðvitað ekki sami hluturinn að smyrja mann sem þjóðarleiðtoga og að þjálfa bróður til að verða öldungur eða safnaðarþjónn. Öldungar geta samt sem áður dregið ýmsa lærdóma af aðferð Samúels. Lítum á tvo þeirra.
FÚSIR KENNARAR OG SANNIR VINIR
16. (a) Hvernig var Samúel innanbrjósts þegar Ísraelsmenn báðu um að fá konung? (b) Með hvaða hugarfari gerði Samúel eins og Jehóva sagði honum og smurði Sál til konungs?
16 Vertu fús en ekki tregur til. Samúel var vonsvikinn í fyrstu þegar hann heyrði að Ísraelsmenn vildu fá mennskan konung. Honum fannst þjóðin hafa hafnað sér. (1. Sam. 8:4-8) Hann var svo tregur til að gera eins og þjóðin krafðist að Jehóva þurfti að segja honum þrisvar að verða við kröfum hennar. (1. Sam. 8:7, 9, 22) En Samúel leyfði sér ekki að verða bitur eða gramur í garð mannsins sem átti að taka við af honum. Spámaðurinn hlýddi þegar Jehóva sagði honum að smyrja Sál. Hann gerði það ekki með tregðu og af skyldukvöð einni saman heldur fúslega og af kærleika.
17. Hvernig líkja safnaðaröldungar eftir hugarfari Samúels og hvað uppskera þeir?
17 Reyndir öldungar eru jákvæðir gagnvart þeim sem þeir þjálfa, ekki ósvipað og Samúel. (1. Pét. 5:2) Þeir eru ekki tregir til að þjálfa aðra af ótta við að missa ákveðin verkefni í söfnuðinum í hendur nemenda sinna. Hjartahlýir kennarar líta ekki á fúsa nemendur sem keppinauta heldur sem „samverkamenn“ – og þeir vita að þeir eru söfnuðinum verðmætir. (2. Kor. 1:24; Hebr. 13:16) Og óeigingjarnir kennarar uppskera ómælda ánægju þegar þeir sjá nemendurna nota krafta sína og hæfileika í þágu safnaðarins. – Post. 20:35.
18, 19. Hvernig getur öldungur búið hjarta nemandans undir kennsluna og hvers vegna er það mjög mikilvægt?
18 Vertu vinur, ekki bara kennari. Daginn sem Samúel hitti Sál hefði hann getað dregið fram olíuflösku, hellt olíunni í flýti á höfuð Sáls og látið nýja konunginn fara leiðar sinnar – að vísu smurðan til embættis en algerlega óundirbúinn. Samúel gaf sér hins vegar tíma til að búa Sál undir verkefni sitt skref fyrir skref. Það var ekki fyrr en þeir voru búnir að borða góðan mat, fara í notalega gönguferð, tala saman vel og lengi og fá góðan nætursvefn að spámaðurinn taldi tímabært að smyrja Sál.
19 Kennari ætti sömuleiðis að byrja þjálfunina með því að gefa sér tíma til að skapa þægilegt andrúmsloft og mynda vináttutengsl við nemandann. Hvernig öldungur fer að því að mynda hlýlegt samband er eitthvað breytilegt frá einu landi til annars og ræðst af aðstæðum og siðvenjum á hverjum stað. En eitt er víst hvar sem þú býrð: Ef þú ert önnum kafinn öldungur og gefur þér tíma til að vera með nemandanum ertu í rauninni að segja honum að hann sé mikilvægur í þínum augum. (Lestu Rómverjabréfið 12:10.) Fúsir nemendur hvar sem er í heiminum meðtaka þessi skilaboð skýrt og greinilega þó að þau séu ekki sögð með orðum. Og það er þeim mikils virði.
20, 21. (a) Hvað hefur farsæll kennari til að bera? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?
20 Öldungar, munið eftirfarandi: Farsæll kennari er ekki bara maður sem hefur yndi af því að kenna heldur finnst honum líka vænt um nemandann. (Samanber Jóhannes 5:20.) Þetta er grundvallaratriði og nemandinn skynjar það fljótt. Það hefur síðan mikil áhrif á viðbrögð hans við þjálfuninni sem hann fær. Því skuluð þið, kæru öldungar, ekki bara vera kennarar þegar þið þjálfið aðra. Verið líka vinir þeirra. – Orðskv. 17:17; Jóh. 15:15.
21 Eftir að hafa búið hjarta nemandans undir þjálfunina er komið að því að kenna honum það sem hann þarf að læra. Hvaða aðferðum getur öldungurinn beitt? Það er rætt í næstu grein.
a Þessi grein og sú næsta eru samdar sérstaklega handa öldungum en allir í söfnuðinum ættu þó að hafa áhuga á efninu. Af hverju? Greinarnar minna alla skírða bræður á að þeir þurfa að fá þjálfun til að taka þátt í að annast söfnuðinn. Og allir njóta góðs af því að þeir leggi sitt af mörkum.
b Öldungarnir búa í Ástralíu, Bandaríkjunum, Bangladess, Belgíu, Brasilíu, Frakklandi, Frönsku Gvæjana, Japan, Kóreu, Mexíkó, Namibíu, Nígeríu, Réunion, Rússlandi og Suður-Afríku.