NÁMSGREIN 15
Hvað lærum við af kraftaverkum Jesú?
„Hann fór um landið, gerði gott og læknaði.“ – POST. 10:38.
SÖNGUR 13 Kristur, fyrirmynd okkar
YFIRLITa
1. Við hvaða aðstæður gerði Jesús fyrsta kraftaverkið?
SJÁÐU þetta fyrir þér. Það er síðla árs 29 og Jesús er að hefja þjónustu sína. Jesú, Maríu móður hans og nokkrum af lærisveinum hans er boðið í brúðkaupsveislu í Kana, þorp norðan við Nasaret, heimabæ Jesú. María er fjölskylduvinur brúðhjónanna og er að því er virðist að hjálpa til í veislunni. En þá kemur upp vandamál sem hefði getað orðið mjög vandræðalegt fyrir fjölskylduna og ungu hjónin – vínið klárast.b Kannski komu fleiri gestir en búist var við. María bregst skjótt við, fer til sonar síns og segir: „Þau eiga ekki meira vín.“ (Jóh. 2:1–3) Hvernig bregst Jesús við? Hann gerir nokkuð einstakt – með kraftaverki breytir hann vatni í ‚gott vín‘. – Jóh. 2:9, 10.
2, 3. (a) Hvernig notaði Jesús mátt sinn til að gera kraftaverk? (b) Hvaða gagn höfum við af því að hugleiða kraftaverk Jesú?
2 Eftir þetta gerði Jesús mörg kraftaverk meðan á þjónustu hans stóð.c Hann notaði mátt sinn til að gera kraftaverk í þágu þúsunda. Til dæmis gætu tvö af kraftaverkum hans – að metta 5.000 karlmenn og síðar 4.000 – hafa snert um 27.000 manns, þar með talin konur og börn sem voru viðstödd. (Matt. 14:15–21; 15:32–38) Við bæði þessi tækifæri læknaði Jesús líka marga sem voru veikir. (Matt. 14:14; 15:30, 31) Ímyndaðu þér hvað allt þetta fólk hefur verið hissa þegar Jesús læknaði það og gaf því að borða með kraftaverki!
3 Kraftaverk Jesú eru mjög þýðingarmikil fyrir okkur. Í þessari námsgrein skoðum við hvað við getum lært af þeim og hvernig þau geta styrkt trú okkar. Síðan skoðum við hvernig við getum líkt eftir þeirri auðmýkt og samúð sem Jesús sýndi þegar hann gerði kraftaverk.
ÞAÐ SEM VIÐ LÆRUM UM JEHÓVA OG JESÚ
4. Hvað lærum við af kraftaverkum Jesú sem styrkir trú okkar?
4 Það sem við lærum af kraftaverkum Jesú styrkir trú okkar og kennir okkur ýmislegt bæði um Jesú og föður hans. Jehóva sjálfur stóð á bak við kraftaverkin. Í Postulasögunni 10:38 segir: „Guð smurði hann [Jesú] heilögum anda og gaf honum kraft. Hann fór um landið, gerði gott og læknaði alla sem Djöfullinn þjakaði því að Guð var með honum.“ Munum líka að í öllu sem Jesús sagði og gerði – þar á meðal þegar hann gerði kraftaverk – endurspeglaði hann fullkomlega hugsun og tilfinningar föður síns. (Jóh. 14:9) Skoðum þrennt sem við getum lært af kraftaverkum Jesú.
5. Hvað knúði Jesú til að gera kraftaverk? (Matteus 20:30–34)
5 Í fyrsta lagi elska Jesús og faðir hans okkur innilega. Þegar Jesús var á jörðinni sýndi hann hversu annt honum var um fólk. Hann notaði máttinn sem Jehóva gaf honum til að lina þjáningar þess. Eitt sinn hrópuðu tveir blindir menn á hann og báðu um hjálp. (Lestu Matteus 20:30–34.) Tökum eftir að Jesús „kenndi í brjósti um þá“ og það fékk hann til að lækna þá. Gríska sögnin sem er þýdd „kenndi í brjósti um“ lýsir innilegri samúð sem ristir djúpt. Þessi sterka samúð sýndi hversu vænt Jesú þótti um fólk. Hún knúði hann líka til að gefa svöngum að borða og lækna holdsveikan mann. (Matt. 15:32; Mark. 1:41) Við getum verið viss um að Jehóva, sem hefur ‚innilega samúð‘, og sonur hans elski okkur innilega og að þeim þyki sárt að sjá okkur þjást. (Lúk. 1:78; 1. Pét. 5:7) Þeir hljóta að hlakka mikið til að leysa öll vandamál mannkynsins.
6. Hvaða kraft hefur Guð gefið Jesú?
6 Í öðru lagi hefur Guð gefið Jesú mátt til að leysa öll vandamál mannkynsins. Þegar Jesús gerði kraftaverk sýndi hann að hann hefur mátt til að yfirstíga hindranir sem við gætum aldrei yfirstigið á eigin spýtur. Hann hefur til dæmis mátt til að frelsa okkur frá því sem veldur vandamálum mannkynsins – erfðasyndinni og afleiðingum hennar, veikindum og dauða. (Matt. 9:1–6; Rómv. 5:12, 18, 19) Kraftaverk hans sýna að hann getur læknað „hvers kyns“ veikindi og jafnvel reist dána til lífs aftur. (Matt. 4:23; Jóh. 11:43, 44) Hann hefur auk þess mátt til að stjórna miklum stormum og yfirbuga illa anda. (Mark. 4:37–39; Lúk. 8:2) Það er hughreystandi að vita að Jehóva hefur gefið syni sínum slíkan kraft.
7, 8. (a) Hverju getum við treyst vegna kraftaverkanna sem Jesús gerði? (b) Hvaða kraftaverk hlakkar þú til að upplifa í nýja heiminum?
7 Í þriðja lagi getum við treyst því að framtíðarloforðin eigi eftir að rætast undir stjórn Guðsríkis. Kraftaverkin sem Jesús gerði sem maður á jörðinni sýna okkur hvað hann mun gera í miklu stærri mæli sem himneskur konungur í Guðsríki. Hverju eigum við bráðlega von á undir stjórn Krists? Við verðum með fullkomna heilsu vegna þess að hann mun afmá öll veikindi og fötlun sem þjaka mannkynið. (Jes. 33:24; 35:5, 6; Opinb. 21:3, 4 ) Við sveltum aldrei og þurfum aldrei að horfa upp á eyðileggingu af völdum náttúruhamfara. (Jes. 25:6; Mark. 4:41) Við munum njóta þeirrar miklu gleði að taka á móti ástvinum okkar úr „minningargröfunum“. (Jóh. 5:28, 29) Hvaða kraftaverk hlakkar þú sérstaklega til að upplifa í nýja heiminum?
8 Þegar Jesús gerði kraftaverk sýndi hann mikla auðmýkt og samúð. Það eru eiginleikar sem við ættum að líkja eftir. Við skulum skoða tvö dæmi og byrja á frásögunni af brúðkaupsveislunni í Kana.
ÞAÐ SEM VIÐ LÆRUM UM AUÐMÝKT
9. Hvað gerði Jesús í brúðkaupsveislunni? (Jóhannes 2:6–10)
9 Lestu Jóhannes 2:6–10. Bar Jesú skylda til að gera eitthvað þegar vínið kláraðist í brúðkaupsveislunni? Nei. Það var enginn spádómur sem sagði að Messías myndi búa til vín með kraftaverki. En ímyndaðu þér hvernig þér liði ef drykkirnir kláruðust í brúðkaupinu þínu. Jesús fann örugglega til samúðar með fjölskyldunni, sérstaklega brúðhjónunum, og vildi hlífa þeim við niðurlægingu. Hann gerði því kraftaverk eins og minnst var á í upphafi námsgreinarinnar. Hann breytti um 390 lítrum af vatni í gæðavín. Hann var kannski svona rausnarlegur svo að það væri afgangur til að nota síðar eða jafnvel til að hægt væri að selja það til að styrkja ungu hjónin fjárhagslega. Nýgiftu hjónunum hlýtur að hafa verið mjög létt.
10. Hvað er áhugavert við frásöguna í Jóhannesi 2. kafla? (Sjá einnig mynd.)
10 Skoðum nánar frásöguna í Jóhannesi 2. kafla. Tókstu eftir að það var ekki Jesús sem fyllti steinkerin með vatni? Frekar en að draga athyglina að sjálfum sér bað hann þjónana að fylla kerin. (Vers 6 og 7) Og þegar hann hafði breytt vatninu í vín fór hann ekki sjálfur með það til veislustjórans heldur bað þjónana að gera það. (Vers 8) Það var fjarri Jesú að taka bikar af víni, halda honum að gestunum og segja gortandi: Smakkið vínið sem ég var að búa til!
11. Hvað lærum við af kraftaverki Jesú?
11 Hvað lærum við af kraftaverki Jesú þegar hann breytti vatni í vín? Við lærum að vera auðmjúk. Jesús gortaði ekki af kraftaverkinu. Hann gortaði reyndar aldrei af afrekum sínum. Þess í stað var hann auðmjúkur og gaf föður sínum alltaf heiðurinn. (Jóh. 5:19, 30; 8:28) Ef við líkjum eftir Jesú og lítum ekki of stórt á okkur sjálf gortum við ekki af því sem við áorkum. Stærum okkur aldrei af því sem við gerum í þjónustu Jehóva, hvaða hlutverki sem við gegnum. Stærum okkur þess í stað af því að fá að þjóna okkar dásamlega Guði. (Jer. 9:23, 24) Gefum honum þann heiður sem hann á skilið. Við gætum hvort sem er aldrei áorkað neinu án hjálpar Jehóva. – 1. Kor. 1:26–31.
12. Lýstu með dæmi hvernig við getum líkt eftir auðmýkt Jesú.
12 Skoðum hvernig við getum líkt eftir auðmýkt Jesú á annan veg. Sjáðu fyrir þér öldung hjálpa ungum þjóni í söfnuðinum að undirbúa fyrsta opinbera fyrirlesturinn sinn. Ungi bróðirinn flytur síðan hvetjandi ræðu sem söfnuðurinn er ánægður með. Eftir samkomuna kemur einhver til öldungsins og segir: „Fannst þér þetta ekki frábær ræða hjá honum?“ Öldungurinn gæti sagt: „Jú, en ég notaði nú góðan tíma til að hjálpa honum.“ En hann gæti líka sýnt auðmýkt og sagt: „Jú, mér fannst það. Ég er mjög stoltur af honum.“ Þegar við erum auðmjúk þurfum við ekki að eigna okkur heiðurinn af því góða sem við gerum fyrir aðra. Okkur nægir að vita að Jehóva sér og kann að meta það sem við gerum. (Samanber Matteus 6:2–4; Hebr. 13:16) Við gleðjum Jehóva þegar við erum auðmjúk eins og Jesús. – 1. Pét. 5:6.
ÞAÐ SEM VIÐ LÆRUM UM SAMÚÐ
13. Hvað sér Jesús þegar hann kemur að borginni Nain og hvað gerir hann? (Lúkas 7:11–15)
13 Lestu Lúkas 7:11–15. Sjáðu fyrir þér atburð sem átti sér stað þegar Jesús var um það bil hálfnaður með þjónustu sína. Hann kemur til Nain, borgar í Galíleu. Hún er í nágrenni Súnem þar sem Elísa spámaður hafði reist upp látinn son konu um það bil 900 árum áður. (2. Kon. 4:32–37) Þegar Jesús kemur að borgarhliðinu mætir honum líkfylgd á leiðinni út úr borginni. Þetta er ákaflega sorglegt. Ekkja hefur misst eina barnið sitt. En hún er ekki ein, mikill mannfjöldi úr borginni fylgir henni. Jesús stöðvar líkfylgdina og gerir einstakt góðverk fyrir þessa syrgjandi móður – hann reisir son hennar aftur upp til lífs. Þetta er fyrsti einstaklingurinn af þrem sem guðspjöllin segja frá að Jesús hafi reist upp.
14. Nefndu áhugaverð atriði í Lúkasi 7. kafla. (Sjá einnig mynd.)
14 Skoðum nánar nokkur áhugaverð atriði í frásögunni í Lúkasi 7. kafla. Tókstu eftir að Jesús „kom auga á“ syrgjandi móðurina og síðan „kenndi hann í brjósti um hana“? (Vers 13) Það sem hann tók eftir – kannski að hún gekk grátandi á undan líkbörum sonar síns – kallaði fram innilega samúð í hjarta hans. Jesús fann ekki aðeins til samúðar með móðurinni, heldur sýndi hana í verki. Hann sagði vafalaust hlýlega við hana: „Ekki gráta.“ Síðan hjálpaði hann henni. Hann reisti soninn til lífs aftur og „gaf hann móður hans“. – Vers 14 og 15.
15. Hvað getum við lært af kraftaverki Jesú?
15 Hvað getum við lært af kraftaverki Jesú þegar hann reisti son ekkjunnar aftur til lífs? Við lærum að sýna þeim sem syrgja samúð. Við getum að sjálfsögðu ekki reist látna til lífs eins og Jesús gerði. En við getum eins og hann sýnt þeim samúð sem syrgja með því að vera vakandi fyrir þörfum þeirra. Við getum sýnt þeim samúð með því að eiga frumkvæði og gera það sem við getum til að hjálpa þeim og hugga.d (Orðskv. 17:17; 2. Kor. 1:3, 4; 1. Pét. 3:8) Jafnvel fáein orð eða lítið góðverk geta haft mikla þýðingu.
16. Hvað lærum við af reynslu systur sem hafði nýlega misst barnið sitt? (Sjá sviðsetta mynd.)
16 Skoðum dæmi. Fyrir nokkrum árum var systir að syngja á samkomu þegar hún tók eftir annarri systur sem grét. Söngurinn fjallaði um upprisuvonina og þessi systir hafði nýlega misst unga dóttur sína. Systirin vissi af því og fór strax yfir til hennar, tók utan um hana og söng það sem eftir var af söngnum með henni. Syrgjandi systirin sagði síðar: „Mér þótti svo vænt um trúsystkini mín þegar hún gerði þetta.“ Hún var mjög ánægð að hafa farið á samkomu. Hún sagði: „Það er einmitt þar sem við fáum hjálp, í ríkissalnum.“ Við megum vera viss um að Jehóva tekur eftir hverju því sem við gerum til að sýna samúð „þeim sem eru niðurbrotnir“ og syrgja, og kann að meta það. – Sálm. 34:18.
TRÚSTYRKJANDI NÁMSVERKEFNI
17. Hvað höfum við lært í þessari námsgrein?
17 Frásögur guðspjallanna af kraftaverkum Jesú eru ágætis grunnur fyrir trústyrkjandi námsverkefni. Þær fullvissa okkur um að Jehóva og Jesús elski okkur innilega, að Jesús hafi mátt til að leysa öll vandamál mannkynsins og að við getum treyst því að framtíðarloforðin eigi bráðlega eftir að rætast undir stjórn Guðsríkis. Þegar við rannsökum þessar frásögur getum við hugleitt hvernig við getum líkt eftir Jesú. Hvernig væri að velja námsverkefni í sjálfsnámi eða fjölskyldunámi sem fjallar um önnur kraftaverk Jesú? Skoðaðu hvað þú lærir af þeim og ræddu svo um það við aðra. Hugsaðu þér hvað það getur skapað skemmtilegar og uppbyggilegar samræður! – Rómv. 1:11, 12.
18. Hvað ræðum við um í næstu námsgrein?
18 Biblían greinir frá þrem einstaklingum sem Jesús reisti upp frá dauðum. Þann þriðja reisti hann upp við lok þjónustu sinnar. En sú upprisa hafði sérstöðu vegna þess að hann reisti upp góðan vin sinn og hann gerði það eftir að vinur hans hafði legið í gröfinni í fjóra daga. Hvað lærum við af því sem guðspjallið segir um þetta kraftaverk? Og hvernig getum við styrkt trú okkar á upprisuna? Í næstu námsgrein er þessum spurningum svarað?
SÖNGUR 20 Þú gafst þinn kæra son
a Hann lægði mikinn storm, læknaði sjúka og reisti dána aftur til lífs. Það er mjög spennandi að lesa um kraftaverkin sem Jesús gerði. Þessar frásögur eru ekki skrifaðar til að skemmta okkur heldur til að við getum lært af þeim. Þegar við skoðum þær styrkja þær trú okkar á Jehóva og Jesú og við komum auga á góða eiginleika sem er gott að tileinka sér.
b Biblíufræðingur segir: „Í Austurlöndum var gestrisni álitin heilög skylda. Það þurfti að bjóða gestum meira en nóg. Sönn gestrisni, einkum í brúðkaupsveislu, kallaði á gnótt matar og drykkjar.“
c Guðspjöllin nefna fleiri en 30 tilvik þar sem Jesús gerði kraftaverk. Í sumum þeirra gerði hann mörg kraftaverk. Í eitt skiptið komu „allir borgarbúar“ til hans og „hann læknaði marga sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum“. – Mark. 1:32–34.
d Sjá greinina „Að hughreysta syrgjendur“ í Varðturninum 2016 nr. 3 til að fá hugmyndir um það sem þú getur sagt eða gert til að hugga þá sem syrgja.
e MYNDIR: Brúðhjónin og gestir þeirra njóta þess að drekka góða vínið. Jesús stendur til hliðar.