NÁMSGREIN 52
Ungu systur – hvernig getið þið náð þroska í trúnni?
„Konur eiga sömuleiðis að … vera hófsamar og trúar í öllu.“ – 1. TÍM. 3:11.
SÖNGUR 133 Tilbiðjum Jehóva á æskuárunum
YFIRLITa
1. Hvað verðum við að gera til að ná kristnum þroska?
VIÐ undrumst hversu hratt börn vaxa úr grasi og fullorðnast. Þetta virðist gerast af sjálfu sér. En að ná kristnum þroska gerist ekki sjálfkrafa.b (1. Kor. 13:11; Hebr. 6:1) Til að ná því takmarki þurfum við að eiga náin og persónuleg tengsl við Jehóva. Við þurfum líka á heilögum anda hans að halda til að þroska með okkur eiginleika honum að skapi, tileinka okkur hagnýta færni og búa okkur undir að geta axlað ábyrgð í framtíðinni. – Orðskv. 1:5.
2. Hvað lærum við af 1. Mósebók 1:27 og hvað skoðum við í þessari námsgrein?
2 Jehóva skapaði mannkynið til að vera karla og konur. (Lestu 1. Mósebók 1:27.) Kynin eru augljóslega ólík líkamlega en þau eru það líka á fleiri vegu. Jehóva skapaði til dæmis karla og konur með ákveðin hlutverk í huga og þau þurfa því ákveðna eiginleika og færni sem hjálpa þeim að sinna sínum verkefnum. (1. Mós. 2:18) Í þessari námsgrein veltum við fyrir okkur hvað ungar systur geta gert til að verða þroskaðar kristnar konur. Í næstu námsgrein skoðum við hvað ungir bræður geta gert.
ÞROSKIÐ MEÐ YKKUR EIGINLEIKA GUÐI AÐ SKAPI
3, 4. Hvar geta ungar systur fundið góðar fyrirmyndir? (Sjá einnig mynd.)
3 Í Biblíunni er minnst á margar einstakar konur sem elskuðu Jehóva og þjónuðu honum. (Sjá greinina „Konur í Biblíunni – hvað getum við lært af frásögunum um þær?“ á jw.org.) Þær voru „hófsamar og trúar í öllu“, eins og segir í titilversi þessarar námsgreinar. Auk þess geta systur fundið konur í sínum eigin söfnuði sem elska Jehóva og þær geta lært margt af.
4 Þekkið þið, ungu systur, þroskaðar systur sem þið gætuð líkt eftir? Takið eftir dýrmætum eiginleikum þeirra. Hugleiðið síðan hvernig þið getið tileinkað ykkur þá. Skoðum nú þrjá mikilvæga eiginleika sem þroskaðar systur þurfa að hafa til að bera.
5. Hvers vegna er auðmýkt nauðsynlegur eiginleiki fyrir þroskaða kristna konu?
5 Til að ná þroska í trúnni er nauðsynlegt að hafa auðmýkt til að bera. Auðmjúk kona hefur gott samband við Jehóva og við aðra. (Jak. 4:6) Kona sem elskar Jehóva velur auðmjúk að styðja fyrirkomulag hans varðandi forystu sem himneskur faðir hennar hefur sett. (1. Kor. 11:3) Meginreglan um forystu gildir í söfnuðinum og í fjölskyldunni.c
6. Hvað geta ungar systur lært um auðmýkt af Rebekku?
6 Athugum hvað við getum lært af Rebekku. Hún var skynsöm og hugrökk kona sem var tilbúin að taka frumkvæði með viðeigandi hætti allt sitt líf. (1. Mós. 24:58; 27:5–17) En hún sýndi samt virðingu og undirgefni. (1. Mós. 24:17, 18, 65) Þú getur haft jákvæð áhrif á fjölskyldu þína og söfnuðinn ef þú styður fyrirkomulag Jehóva af auðmýkt eins og Rebekka.
7. Hvernig geta ungar systur líkt eftir Ester í að sýna hógværð?
7 Hógværð er annar mikilvægur eiginleiki sem þroskaður kristinn einstaklingur þarf að búa yfir. Biblían segir: „Hjá hógværum er viska.“ (Orðskv. 11:2) Ester var hógvær kona og trúföst Jehóva. Hógværð hennar kom í veg fyrir að hún yrði hrokafull. Hún hlustaði á ráð Mordekaí, sem var eldri frændi hennar, og fylgdi þeim. (Est. 2:10, 20, 22) Þú getur líka sýnt hógværð með því að leita ráða annarra og fylgja þeim. – Tít. 2:3–5.
8. Hvernig hjálpar hógværð systrum að taka skynsamlegar ákvarðanir varðandi klæðaburð og snyrtingu samkvæmt 1. Tímóteusarbréfi 2:9, 10?
8 Ester sýndi hógværð á fleiri sviðum. Hún var „fallega vaxin og aðlaðandi“ en reyndi ekki að draga athyglina að sjálfri sér. (Est. 2:7, 15) Hvað geta systur lært af Ester? Það er bent á eitt í 1. Tímóteusarbréfi 2:9, 10. (Lestu.) Páll postuli segir kristnum konum að klæða sig með „hógværð og skynsemi“. Grísku orðin sem eru þýdd þannig gefa til kynna að klæðnaður kristinnar konu ætti að vera virðulegur og endurpegla tillitssemi við tilfinningar og skoðanir annarra. Við erum stolt af þroskuðum systrum fyrir að sýna hógværð í klæðaburði.
9. Hvað getum við lært af Abígail?
9 Dómgreind er annar eiginleiki sem systur þurfa að tileinka sér til að ná þroska í trúnni. Hvað er dómgreind? Það er hæfileikinn til að greina rétt frá röngu og velja það sem er skynsamlegt. Tökum Abígail sem dæmi. Eiginmaður hennar tók slæma ákvörðun sem hefði getað haft hræðilegar afleiðingar fyrir allt heimilisfólk hans. Abígail brást við þegar í stað. Góð dómgreind hennar bjargaði mannslífum. (1. Sam. 25:14–23, 32–35) Dómgreind hjálpar okkur líka að vita hvenær við ættum að tala og hvenær að þegja. Og hún hjálpar okkur að sýna öðrum áhuga án þess að þeim finnist það vandræðalegt. – 1. Þess. 4:11.
LÆRIÐ TIL VERKA
10, 11. Hvernig nýtist það þér og öðrum að vera vel læs og skrifandi? (Sjá einnig mynd.)
10 Kristnar konur þurfa að tileinka sér færni á ýmsum sviðum. Sumt af því sem stúlkur læra í æsku nýtist þeim í gegnum allt lífið. Skoðum fáein dæmi.
11 Að læra að lesa og skrifa. Í sumum menningarsamfélögum er ekki álitið mikilvægt að konur læri að lesa og skrifa. Það er hins vegar mjög mikilvægt fyrir alla þjóna Guðs.d (1. Tím. 4:13) Láttu ekkert stoppa þig í að læra að lesa og skrifa vel. Hvernig kemur það sér vel fyrir þig? Það getur hjálpað þér að finna vinnu og halda henni. Það hjálpar þér að vera betri nemandi og kennari orðs Guðs. Og það sem mestu máli skiptir er að þú nálgast Jehóva meir þegar þú lest og hugleiðir orð hans. – Jós. 1:8; 1. Tím. 4:15.
12. Hvað má læra af Orðskviðunum 31:26?
12 Að læra að eiga góð samskipti við fólk. Það er mikilvægt fyrir þjóna Guðs að þeir kunni að eiga góð samskipti við aðra. Lærisveinninn Jakob gefur okkur gott ráð: „Hver og einn á að vera fljótur til að heyra, seinn til að tala.“ (Jak. 1:19) Þú sýnir samkennd þegar þú hlustar vel þegar aðrir tala. (1. Pét. 3:8) Ef þú ert ekki viss um að þú skiljir það sem viðmælandi þinn segir eða hvernig honum líður skaltu spyrja viðeigandi spurninga. Taktu þér síðan smá tíma til að hugsa áður en þú talar. (Orðskv. 15:28, neðanmáls) Spyrðu þig: Er það sem ég ætla að segja rétt og uppbyggjandi? Endurspeglar það virðingu og góðvild? Lærðu af þroskuðum systrum sem hafa tileinkað sér þetta. (Lestu Orðskviðina 31:26.) Taktu eftir því hvernig þær tala. Því betur sem þú tileinkar þér þessa færni því betra verður samband þitt við aðra.
13. Hvernig geturðu lært að sjá um heimili? (Sjá einnig mynd.)
13 Að læra að sjá um heimili. Víða er það að miklu leyti í verkahring kvenna að sjá um heimilið. Mamma þín eða önnur hæf trúsystir gæti hjálpað þér að læra það sem er nauðsynlegt á þessu sviði. Systir sem heitir Cindy segir: „Eitt af því dýrmætasta sem mamma gaf mér var að kenna mér að hafa ánægju af vinnu. Að læra að elda, þrífa, sauma og versla auðveldaði mér lífið og opnaði möguleikann á að gera meira í þjónustu Jehóva. Mamma kenndi mér líka að vera gestrisin og þannig kynntist ég yndislegum bræðrum og systrum sem ég hef lært af.“ (Orðskv. 31:15, 21, 22) Dugleg og gestrisin kona sem hefur lært að sjá um heimili er blessun fyrir alla í fjölskyldu sinni og söfnuðinum. – Orðskv. 31:13, 17, 27; Post. 16:15.
14. Hvað geturðu lært af Crystal og hvað ættirðu að hafa í huga?
14 Að læra að vera sjálfbjarga. Það er mikilvægt markmið fyrir alla þjóna Jehóva að vera sjálfbjarga. (Fil. 4:11) Systir sem heitir Crystal segir: „Foreldrar mínir hjálpuðu mér að velja áfanga í framhaldsskóla sem myndu gagnast mér seinna meir. Pabbi hvatti mig til að taka bókhaldsáfanga en það reyndist mér mjög gagnlegt.“ Auk þess að læra að vinna til að sjá fyrir þér skaltu læra að fara vel með peninga. (Orðskv. 31:16, 18) Þú getur haft andleg markmið í fyrirrúmi með því að forðast óþarfa skuldir og láta þér nægja einfaldan lífsstíl. – 1. Tím. 6:8.
BÚIÐ YKKUR UNDIR VERKEFNI Í FRAMTÍÐINNI
15, 16. Hvers vegna eru einhleypar systur dýrmætar? (Markús 10:29, 30)
15 Þegar þú þroskar með þér andlega eiginleika og verðmæta færni ertu betur í stakk búin fyrir verkefni í framtíðinni. Skoðum dæmi um það sem þú getur gert.
16 Þú gætir verið einhleyp um tíma. Í samræmi við það sem Jesús sagði hafa sumar konur kosið að giftast ekki, jafnvel í menningarsamfélögum þar sem það er ekki talið ákjósanlegt. (Matt. 19:10–12) Aðrar konur eru einhleypar af öðrum ástæðum. Þeir sem eru einhleypir eru alls ekki minna virði í augum Jehóva og Jesú. Einhleypar systur um allan heim hafa jákvæð áhrif á söfnuðinn. Kærleikur þeirra í garð annarra og einlægur áhugi gerir það að verkum að þessar kristnu konur eru andlegar systur og mæður margra. – Lestu Markús 10:29, 30; 1. Tím. 5:2.
17. Hvernig getur ung systir búið sig undir að þjóna Jehóva í fullu starfi?
17 Þú gætir þjónað Jehóva í fullu starfi. Kristnar konur eiga stóran þátt í boðuninni um allan heim. (Sálm. 68:11) Gætir þú stefnt að því að þjóna í fullu starfi? Þú gætir orðið brautryðjandi, sjálfboðaliði í byggingarstarfi eða Betelíti. Talaðu um markmið þitt við Jehóva í bæn. Talaðu við aðra sem hafa náð slíku markmiði og kynntu þér hvað þú þarft að gera til að vera hæf. Gerðu síðan raunhæfa áætlun. Þegar þú nærð markmiði þínu opnast þér margir spennandi möguleikar í þjónustu Jehóva.
18. Hvers vegna ætti systir að vanda val sitt á maka? (Sjá einnig mynd.)
18 Þú gætir kosið að gifta þig. Eiginleikarnir og færnin sem við höfum fjallað um hjálpa þér að verða góð eiginkona. Ef þú ert að hugsa um að ganga í hjónaband ættirðu að sjálfsögðu að vanda val þitt á maka. Þetta er ein mikilvægasta ákvörðunin sem þú munt nokkurn tíma taka. Ekki gleyma að þú þarft að fylgja forystu mannsins sem þú velur að giftast. (Rómv. 7:2; Ef. 5:23, 33) Spyrðu þig: Er hann þroskaður kristinn maður? Er Jehóva í fyrsta sæti í lífi hans? Tekur hann skynsamlegar ákvarðanir? Getur hann viðurkennt mistök sín? Sýnir hann konum virðingu? Er hann fær um að styðja mig andlega, efnislega og tilfinningalega? Er hann vel fær um að axla ábyrgð? Hvaða verkefni hefur hann til dæmis í söfnuðinum og hvernig sinnir hann þeim? (Lúk. 16:10; 1. Tím. 5:8) Ef þú vilt fá góðan eiginmann verður þú að sjálfsögðu að vera efni í góða eiginkonu.
19. Hvers vegna er það virðingarhlutverk að styðja eiginmanninn?
19 Biblían segir að góð kona sé félagi eigimanns síns og ‚geti stutt‘ hann. (1. Mós. 2:18) Gerir þetta lítið úr eiginkonunni? Nei! Hlutverk hennar sem félagi er virðingarhlutverk. Biblían lýsir Jehóva oft þannig að hann hjálpi. (Sálm. 54:4; Hebr. 13:6) Eiginkona hjálpar manni sínum þegar hún styður hann og vinnur í samræmi við ákvarðanir sem hann tekur og snerta fjölskylduna. Og þar sem hún elskar Jehóva stuðlar hún að því að eiginmanni hennar sé sýnd virðing. (Orðskv. 31:11, 12; 1. Tím. 3:11) Þú getur búið þig undir þetta hlutverk með því að styrkja kærleika þinn til Jehóva og hjálpa öðrum í fjölskyldunni og söfnuðinum.
20. Hvaða áhrif getur móðir haft?
20 Þú gætir orðið móðir. Eftir að þú hefur gift þig eignist þið hjónin kannski börn. (Sálm. 127:3) Það er gott að hugleiða hvað þarf til að vera góð móðir. Eiginleikarnir og færnin sem hefur verið fjallað um í þessari námsgrein hjálpa þér ef þú giftir þig og eignast börn. Kærleikur þinn, góðvild og þolinmæði munu stuðla að hlýlegu andrúmslofti þar sem börnin þín finna til öryggis og geta dafnað. – Orðskv. 24:3.
21. Hvað finnst þér um systur okkar og hvers vegna? (Sjá forsíðumynd.)
21 Við elskum ykkur systur fyrir allt sem þið gerið fyrir Jehóva og söfnuð hans. (Hebr. 6:10) Þið vinnið af kappi við að þroska með ykkur andlega eiginleika, læra færni sem auðgar líf ykkar og annarra. Þið leggið ykkur fram við að búa ykkur undir hlutverk í framtíðinni og eruð fyrir vikið mjög dýrmætar í söfnuði Jehóva.
SÖNGUR 137 Trúfastar konur og kristnar systur
a Kæru ungu systur, þið eruð söfnuðinum mjög dýrmætar. Þið getið náð kristnum þroska með því að rækta eiginleika Guði að skapi, læra hagnýta færni og búa ykkur undir hlutverk í framtíðinni. Fyrir vikið munuð þið njóta ríkulegrar blessunar í þjónustu Jehóva.
b ORÐASKÝRING: Sá sem hefur náð kristnum þroska lætur anda hans leiða sig en ekki veraldlega visku. Hann eða hún líkir eftir Jesú, leggur hart að sér að rækta náið samband við Jehóva og sýnir öðrum fórnfúsan kærleika.
d Frekari upplýsingar um mikilvægi lesturs er að finna í greininni „Why Reading Is Important for Children – Part 1: Read or Watch?“ á jw.org.