Hjónaskilnaðafaraldurinn
„SKILNAÐARSKARTGRIPIR.“ Þessi óvenjulega fyrirsögn birtist fyrir nokkru í vinsælu kvennatímariti. Í greininni sagði: „Er hjónabandið búið að vera og þú í sárum? Hví ekki að bræða upp minningarnar sem enn troðfylla skartgripaskrínið þitt?“ Fólk gat farið til ákveðins gullsmiðs og fengið, gegn gjaldi, að beina lóðlampanum að trúlofunar- og giftingarhringjunum sínum og bræða þá. Síðan smíðaði gullsmiðurinn nýja skartgripi úr efninu sem minntu fólk ekki á hjónabandið sem farið var út um þúfur.
Nú á dögum virðast margir líta á hjónabönd eins og einnota vöru — það má kasta því eftir notkun líkt og pennum, diskum, bleium og rakhnífum. ‚Hentu því bara í ruslið ef þú ert leiður á því‘ — þannig virðist hið almenna viðhorf vera.
„Hjónabandið sem slíkt er ekki til lengur,“ segir Lorenz Wachinger sem er kunnur rithöfundur, sálfræðingur og meðferðaraðili í München í Þýskalandi. Er það ekki fulldjúpt í árinni tekið? Ef til vill, en það er ekki vandséð hvers vegna hann er þeirrar skoðunar. Að sögn dagblaðsins Stuttgarter Zeitung skilja um 130.000 hjón í Þýskalandi ár hvert. En hjónaskilnaðir eru ekkert sérþýskt fyrirbæri.
Heimsfyrirbæri
Svipuð mynd blasir við um allan heim. Á Íslandi skildu til dæmis 2433 hjón á árabilinu 1986-90 — fern hjón á hverjum þrem dögum að meðaltali — og hjónavígslur voru 6013 á sama tímabili. Það svarar hér um bil til þess að tvenn hjón hafi skilið á móti hverjum fimm sem gefin voru saman.
Í sögulegu samhengi lýsa þessar tölur gífurlega aukinni skilnaðatíðni. Rétt upp úr aldamótunum var að meðaltali aðeins einn hjónaskilaður á móti hverjum 60 hjónavígslum hér á landi. Skilnaðatíðnin hefur aukist jafnt og þétt síðan og nemur nú einum skilnaði fyrir hverjar 2,5 hjónavígslur. Síðastliðna þrjá áratugi hefur tala lögskilnaða rúmlega þrefaldast en tvöfaldast miðað við íbúatölu.
Í Bandaríkjunum skilja 1.160.000 hjón á ári — að meðaltali eru tveir skilnaðir á mínútu allan sólarhringinn. Í Danmörku er tíðni hjónaskilnaða svipuð og í Bandaríkjunum eða um einn skilnaður fyrir hverjar tvær hjónavígslur. Um miðbik síðasta áratugar (ekki liggja fyrir nýrri tölur sem byggjandi er á) voru hjónaskilnaðir í ýmsum löndum heims sem hér segir: Sovétríkin, 940.000 á ári; Japan, 178.000; Bretland, 159.000; Frakkland, 107.000; Kanada 61.000; Ástralía 43.000 og Danmörk 15.000. Jafnvel í löndum, þar sem trúarbrögð og löggjöf hafa haldið hjónaskilnuðum í skefjum, er breytinga þegar farið að gæta. Í Hong Kong er til dæmis enn þá aðeins einn hjónaskilnaður á móti hverjum 17 hjónavígslum; en tala hjónaskilnaða tvöfaldaðist þó þar frá 1981 til 1987. Tímaritið India Today segir að það þyki ekki jafnmikil skömm og áður meðal miðstéttarfólks á Indlandi að hjón skilji. Nýir dómstólar hafa verið settir á laggirnar í ýmsum ríkjum Indlands í þeim tilgangi að ráða við fjölgun hjónaskilnaða sem hefur numið allt frá 100 prósent upp í 328 prósent á einum áratug.
Talnaskýrslur segja auðvitað lítið um þá harmleiki sem liggja að baki þessum háu tölum. Því miður snerta hjónaskilnaðir nálega alla einfaldlega vegna þess að hjónabandið er almennt sambúðarform. Ef við erum ekki sjálf í hjónabandi voru eða eru foreldrar okkar og margir vinir það vafalaust. Þannig geta hjónaskilnaðir höggvið nærri okkur öllum á einn eða annan veg þótt við höfum sjálf sloppið fram til þessa.
Hvað liggur að baki öllum þessum skilnuðum? Ef til vill má að einhverju leyti rekja þá til breytinga á vettvangi stjórnmálanna. Víða um lönd hafa bönn stjórnvalda við hjónaskilnuðum — sem lengi nutu stuðnings valdamikilla trúfélaga — verið felld úr gildi á síðustu árum. Á síðasta áratug lýsti Argentína til dæmis yfir að lög, sem leyfðu alls enga hjónaskilnaði, stríddu gegn stjórnarskránni. Spánn og Ítalía hafa einnig opnað möguleika á lögskilnuðum. Ekki fylgir þó alltaf stórt stökk í tíðni hjónaskilnaða í kjölfar slíkra lagabreytinga.
Lagabreytingar ná því ekki að skýra hjónaskilnaðafaraldurinn í heiminum. Orsökin hlýtur að vera önnur og dýpri. Rithöfundurinn Joseph Epstein skrifaði að ekki sé langt síðan „það að vera fráskilinn jafngilti því að ganga með lagalega staðfestingu upp á vasann fyrir því að skorta trausta og stöðuga skapgerð.“ Hann segir að nú sé hins vegar svo komið að „meðal sumra umgengnishópa virðist það að hafa ekki gengið gegnum skilnað sjaldgæfara en að hafa gert það; hér virðist það jafnvel álitið bera vott um fátæklegt ímyndunarafl að lifa alla ævi innan marka eins og sama hjónabandsins.“ — Divorced in America.
Grundvallarviðhorf fólks til hjónabandsins hafa með öðrum orðum breyst. Virðing fyrir þessari hefð, sem löngum hefur verið álitin heilög, er á undanhaldi. Hjónaskilnaðir eru því að verða boðlegri í hugum fólks víða um lönd en áður var. Hvers vegna? Hvað hefur komið fólki til að sætta sig við hlut sem áður var litinn hornauga? Getur hugsast að hjónaskilnaðir séu alls ekki svo slæmir þegar allt kemur til alls?