GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI
Áhrif skilnaðar á börn
Sumir sem eru ósáttir í hjónabandi telja sér trú um að skilnaður sé betri kostur fyrir börnin en að búa með ósáttum foreldrum. Hvað sýna staðreyndir?
Hvaða áhrif hefur skilnaður á börn?
Rannsóknir sýna að áhrif skilnaðar á börn er mjög neikvæður. Skilnaðarbörn eru líklegri til að:
upplifa reiði, kvíða og depurð.
þróa með sér skaðlega hegðun.
dragast aftur úr í skóla eða detta út úr námi.
vera viðkvæm fyrir veikindum.
Þar að auki kenna mörg skilnaðarbörn sjálfum sér um skilnaðinn og hugsa sem svo að þau hafi annað hvort valdið honum eða hefðu getað komið í veg fyrir hann.
Erfiðleikarnir sem skilnaðarbörn upplifa halda stundum áfram á fullorðinsárum þar sem þau eru líklegri til að hafa lágt sjálfsmat og eiga erfiðara með að treysta öðrum. Þau eru líka líklegri til að skilja við maka sinn þegar erfiðleikar koma upp í þeirra eigin hjónabandi.
Kjarni málsins: Þótt sumir sem íhuga að skilja telji sér trú um að skilnaður sé betri fyrir börnin styðja rannsóknir ekki þá hugmynd. „Skilnaður veldur börnum vanlíðan,“ segir Penelope Leach, sérfræðingur í umönnun barna.a
Meginregla Biblíunnar: „Hugsið ekki aðeins um eigin hag heldur einnig hag annarra.“ – Filippíbréfið 2:4.
Er betra fyrir barnið mitt að við skiljum?
Sumir myndu svara því játandi. En ekki gleyma því að þarfir foreldra og þarfir barna eru oftast ólíkar. Sá sem íhugar skilnað óskar sér að hefja nýtt líf. Barnið vill venjulega halda í það líf sem það á með pabba og mömmu saman.
Eftir að hafa rannsakað þúsundir skilnaða er niðurstaða höfundar bókarinnar The Unexpected Legacy of Divorce skýr: „Börnin segjast ekki vera ánægðari. Þau segja án þess að hika að skilnaður foreldra þeirra marki endi æsku þeirra.“ Í bókinni segir líka að börnin sjái heiminn sem langtum óöruggari og hættulegri stað þar sem nánustu tengslin sem þau þekkja séu ekki lengur traust.
Kjarni málsins: Það er ólíklegra að börn verði hamingjusöm eftir skilnað foreldra sinna.
Meginregla Biblíunnar: „Depurð dregur úr manni allan þrótt.“ – Orðskviðirnir 17:22.
Hvað er gott að vita um sameiginlegt forræði?
Sum hjón sem skilja reyna að deila ábyrgðinni við uppeldi barns síns eins og þau hefðu gert ef þau væru enn í hjónabandi. En það er erfitt. Rannsóknir sýna að þeir sem hafa skilið:
nota oft minni tíma með börnunum sínum.
eru gjarnan með áherslur í uppeldinu sem stangast á.
eru oft undanlátssamir við barnið vegna sektarkenndar eða þreytu.
Skilnaðarbarni getur líka fundist að það þurfi ekki að hlusta á foreldra sína. Þeim mistókst sjálfum að fylgja gildum eins og að standa við skuldbindingu og standa undir trausti. Barnið gæti hugsað: Hvers vegna ætti ég að hlusta á þau?
Kjarni málsins: Sameiginlegt forræði er oft erfitt fyrir foreldra sem skilja. En það er enn erfiðara fyrir börnin.
Meginregla Biblíunnar: „Reitið ekki börn ykkar til reiði svo að þau missi ekki kjarkinn.“ – Kólossubréfið 3:21.
Er til betri kostur?
Það krefst mikillar vinnu að hefja nýtt líf eftir skilnað. Oft væri þeirri vinnu betur varið í að styrkja hjónabandið. „Þótt það geti verið erfiðleikar í hjónabandinu merkir það ekki að þeir taki aldrei enda,“ segir í bókinni The Case for Marriage. „Óhamingjusömustu hjón, sem hafa haldið hjónabandinu áfram, hafa með tímanum orðið langtum hamingjusamari.“ Þegar á heildina er litið líður börnum best þegar foreldrar þeirra eru saman.
Þetta merkir ekki að skilnaður eigi aldrei rétt á sér. Biblían leyfir skilnað ef um kynferðislegt siðleysi er að ræða. (Matteus 19:9) En hún segir jafnframt að ‚skynsamur maður íhugi hvert skref‘. (Orðskviðirnir 14:15) Eiginmenn og eiginkonur sem upplifa erfiðleika í hjónabandi ættu að skoða málin frá öllum sjónarhornum, líka áhrifin sem skilnaður myndi hafa á börnin þeirra.
Það er að sjálfsögðu meira krafist en bara að þrauka. Biblían sér fyrir bestu ráðunum til að hjálpa eiginmönnum og eiginkonum að þroska með sér þá eiginleika sem þarf til að láta hjónabandið endast og vera hamingjuríkt. Það kemur ekki á óvart þar sem höfundur Biblíunnar, Jehóva, stofnaði hjónabandið. – Matteus 19:4–6.
Meginregla Biblíunnar: „Ég, Jehóva, er Guð þinn sem kenni þér það sem er þér fyrir bestu.“ – Jesaja 48:17.
a Úr bókinni Your Growing Child – From Babyhood Through Adolescence.