Ef skilnaður verður fyrir valinu
„Ef eiginmaðurinn deyr er fólk skilningsríkt, jafnvel þótt þú hafir ekki verið besta eiginkona í heimi. En ef hann fer frá þér hugsa sumir með sér að maður hafi ekki lagt sig nógu vel fram. HJÁLP!“ — Lesandi Vaknið! í Suður-Afríku.
ÓTRYGGÐ og hjónaskilnaður geta verið ógurlegt áfall. Þótt margir hafi getað sæst við maka sinn og viðhaldið hjónabandinu hafa aðrir gildar ástæður til að velja þann kost að skilja við ótrúan maka sinn, og það er valkostur sem Guð býður upp á. (Matteus 5:32; 19:9) Til dæmis er hugsanlegt að öryggi, andlegu hugarfari og almennri velferð trúfastrar eiginkonu og barnanna sé stefnt í voða. Ef til vill óttast hún einnig að smitast af kynsjúkdómi. Kannski hefur hún fyrirgefið eiginmanni sínum framhjáhaldið en eygir litla von um að hægt sé að byggja upp ósvikið traust á nýjan leik svo að hún geti haldið áfram að búa með honum sem eiginmanni.
„Þetta er erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið á ævinni,“ viðurkennir örvilnuð kona. Já, þetta er erfið ákvörðun — ekki einungis vegna þess hve sársaukafull svikin eru heldur einnig vegna þess að skilnaðurinn hefur víðtækar afleiðingar fyrir allt líf hennar. Það er því einkamál hvort kona skilur við ótrúan eiginmann sinn eða ekki. Það er biblíulegur réttur hins saklausa að taka þessa ákvörðun og aðrir ættu að virða hann.
En margir rjúka því miður út í skilnað án þess að reikna kostnaðinn almennilega. (Samanber Lúkas 14:28.) Hvaða þætti þarf að hugleiða þegar skilnaður kemur til álita?
Ef þið eigið börn
„Foreldrar eru oft svo uppteknir af eigin vandamálum að þeir gleyma þörfum barnanna eða sinna þeim ekki,“ segir bókin Couples in Crisis. Þegar þú veltir fyrir þér hvort þú eigir að skilja er því rétt að hugsa um andlegt ástand barnanna og velferð þeirra. Margir rannsóknarmenn benda á að því friðsamlegri sem skilnaður sé, þeim mun minni líkur séu á að börnin líði fyrir hann. Hógværð og mildi hjálpa manni jafnvel við erfiðustu aðstæður að forðast ‚ófrið, vera ljúfur við alla og þolinn í þrautum.‘ — 2. Tímóteusarbréf 2:24, 25.a
Ef skilnaður verður ofan á ætti að hafa hugfast að það eru hjónin — ekki börnin — sem eru að skilja. Börnin þarfnast beggja foreldra sinna eftir sem áður. Auðvitað þarf að taka tillit til óvenjulegra aðstæðna, til dæmis ef hætta er á misþyrmingum eða kynferðislegri misnotkun. En það ætti aldrei að láta trúarlegan eða persónulegan ágreining koma í veg fyrir að börnin fái notið beggja foreldra sinna.
Eins má ekki gleyma því að barnssálin er viðkvæm og ung börn þarfnast hughreystingar, kærleika og ástúðar í ríkum mæli. „Með því að njóta ástar beggja foreldranna áfram hafa börnin bæði skilyrði til að takast á við breyttar aðstæður og grundvöll til þess,“ segir í bók einni. Og með því að sinna andlegum þörfum þeirra dag frá degi má auðvelda þeim að halda jafnvægi. — 5. Mósebók 6:6, 7; Matteus 4:4.
Fjármál og lögfræðikostnaður
Við skilnað tapa bæði hjónin hluta af tekjum sínum og eignum, einhverjum þægindum og jafnvel hjartfólgnu heimili. Og þar eð einstaklingur getur þurft að standa undir hærri útgjöldum en áður með lægri tekjum er hyggilegt að semja raunhæfa fjárhagsáætlun og raða hlutunum í rétta forgangsröð. Það er varhugavert að bæta sér missinn og tilfinningasárindin með aukinni eyðslu eða skuldasöfnun.
Ef skilnaður er ákveðinn er einnig nauðsynlegt að ganga frá því hvernig farið skuli með sameiginlega bankareikninga. Til að koma í veg fyrir misnotkun þeirra getur verið hyggilegt að skipta með sér bankainnstæðum og stofna nýja bankareikninga.
Það er líka skynsamlegt að halda nákvæmt bókhald yfir tekjur og útgjöld til að undirbúa samninga um framfærslulífeyri. Og nauðsynlegt getur verið að tilkynna skattayfirvöldum um breytta hjúskaparstöðu.
Oft leitar fólk aðstoðar lögfræðings með reynslu af skilnaðarmálum. Foreldrar ættu að reyna að komast að friðsamlegu samkomulagi og hlífa börnunum sem mest við átökum og áhyggjum, í stað þess að reyna að bera sem mest úr býtum við skilnaðinn. Stundum er það hreinlega of dýrt, bæði peningalega og tilfinningalega, að ná fram vissum fjárhagslegum ávinningi.
Breytt samskipti
„Við ættum ekki að vanmeta það hve vandræðalegir og óöruggir margir eru í samskiptum við fráskilda vini sína,“ segir rannsóknarmaður. Jafnvel þótt trúi makinn fari að öllu leyti samkvæmt lagalegum, siðferðilegum og biblíulegum réttindum sínum getur verið að sumum finnist hann bera ábyrgð á því að hjónabandið fór út um þúfur. Viðbrögð fólks geta verið allt frá kuldalegri kveðju upp í það að sniðganga þig. Það sem verra er, náin vinátta getur snúist upp í hreina óvild.
Margir gera sér enga grein fyrir því hve mikinn stuðning fólk þarf að fá þegar það gengur gegnum skilnað. Oft halda menn að stutt bréf eða kort nægi. En yfirleitt á fólk vini sem eru „nægilega tilfinninganæmir til að koma við og kanna hvort maður vilji verða samferða eitthvað, þurfi aðstoð við eitthvað eða langi bara til að tala,“ segir bókin Divorce and Separation. Á slíkum stundum í lífinu þarfnast maður ‚ástvinar sem er tryggari en bróðir,‘ svo notuð séu orð Biblíunnar. — Orðskviðirnir 18:24.
Að ná sér aftur á strik
Móðir nokkur viðurkennir sextán árum eftir skilnað að stundum sé hún ótrúlega einmana enn þá, jafnvel innan um aðra. Hvernig tekst hún á við það? „Ég er búin að þróa með mér alls konar varnartækni,“ segir hún, „til dæmis að vera önnum kafin í vinnunni, hugsa um son minn og halda heimilinu hreinu og snyrtilegu. Ég fór líka að sækja samkomur hjá vottum Jehóva, segja öðrum frá trú minni og gera eitthvað fyrir aðra. Það hjálpaði mér heilmikið.“
Vissar dagsetningar eða ákveðnir árstímar geta vakið upp sársaukafullar minningar og tilfinningar, svo sem dagurinn þegar framhjáhaldið kom í ljós eða makinn fór að heiman eða skilnaðardagurinn. Tilhugsunin um ánægjustundir sem hjónin áttu saman, svo sem sumarfrí og brúðkaupsafmæli, getur verið erfið. „Ég glími við þessa daga með því að vera með ættingjum eða nánum vinum sem til þekkja,“ segir Pálína. „Við gerum ýmislegt til að bægja frá okkur tilhugsuninni um fortíðina og búa til nýjar minningar. En sambandið við Jehóva er mesta hjálpin — sú vitneskja að hann skilur hvernig mér líður.“
Örvæntu ekki
Þeir sem fylgja meginreglum Biblíunnar og ákveða að notfæra sér rétt sinn til að skilja við ótrúan maka sinn þurfa ekki að finna til sektarkenndar eða óttast að Jehóva hafi yfirgefið sig. Það sem Guð hatar er sviksemi hins ótrúa sem hefur valdið „gráti og andvörpunum.“ (Malakí 2:13-16) Jehóva er meðaumkunarsamur og miskunnsamur Guð og veit hvernig það er að vera hafnað af ástvini. (Lúkas 1:78; Jeremía 3:1; 31:31, 32) Þú mátt því vera viss um að hann „hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu.“ — Sálmur 37:28.
Langbest væri auðvitað að forðast ótryggð í hjónabandi og átakanlegar afleiðingar hennar. Bækurnar Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt og The Secret of Family Happinessb hafa hjálpað fólki um heim allan að byggja upp hamingjusamt hjónaband og varðveita tryggð við maka sinn í blíðu og stríðu. Þær fjalla um leiðir til að byggja upp hamingjusamt hjónaband, um barnauppeldi og um leiðir til að takast á við vandamál hjóna. Vottar Jehóva eða útgefendur þessa tímarits munu fúslega veita þér nánari upplýsingar um þetta mál.
[Neðanmáls]
a Ítarlegri upplýsingar er að finna í greinaröðinni „Child Custody — What Is the Balanced View?“ í Vaknið! (enskri útgáfu), 8. desember 1997 og greininni „Skilnaðarbörnum veitt hjálp“ í Vaknið! apríl-júní 1991.
b Gefnar út af Watchtower Bible and Tract Society.
[Rammagrein á blaðsíðu 10]
BÖRN VERÐSKULDA EKKI SKILNAÐ
Díana prinsessa af Wales sagði árið 1988 að daglega gengju 420 börn á Bretlandseyjum gegnum skilnað foreldra sinna. Þriðjungur þessara barna er yngri en fimm ára. Því miður missa allt að 40 prósent barna tengslin við annað foreldra sinna eftir skilnað.
Gagnstætt því sem margir halda er „afar sjaldgæft að börn fagni skilnaði foreldra sinna,“ segir virtur rithöfundur sem skrifar um heilbrigðismál og læknisfræði. „Mikill meirihluti barna vill sjá foreldra sína búa saman, jafnvel þótt andrúmsloftið á heimilinu sé ekki sem best.“ Þó að rifrildi séu tíð á þeim tíma sem ótryggðin kemur fram í dagsljósið ættu hjónin ekki að álykta fljótfærnislega að það sé betra fyrir börnin að þau skilji. Með því að breyta viðhorfum sínum og hegðun tekst hjónunum kannski að halda saman, sjálfum sér og börnunum til heilla.
„Lauslátir eiginmenn ættu að hugsa um sársaukann í augum barnanna þegar heimilið leysist upp vegna heimsku þeirra,“ segir rithöfundurinn Pamela Winfield.
[Rammagrein á blaðsíðu 11]
HATAR GUÐ ALLA HJÓNASKILNAÐI?
„Sú tilhugsun að ‚Jehóva hati hjónaskilnað‘ olli mér verulegum áhyggjum,“ segir Pálína. „Sú spurning leitaði stöðugt á mig hvort ég væri að þóknast honum með því sem ég var að gera.“
Við skulum leita svars við þessari spurningu með því að líta á samhengi orðanna í Malakí 2:16. Á dögum Malakís var algengt að karlmenn í Ísrael skildu við eiginkonur sínar, kannski til að giftast yngri konum sem voru heiðnar. Guð fordæmdi þessa sviksemi. (Malakí 2:13-16) Það sem hann hatar er léttúðugur skilnaður í þeim tilgangi að skipta um maka. Sá sem drýgir hór með slík svik í huga og skilur síðan við maka sinn eða neyðir hann til að skilja við sig gerir sig sekan um andstyggilega synd.
En þessi biblíuvers eru ekki fordæming á öllum hjónaskilnuðum eins og sjá má af orðum Jesú: „Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór.“ (Matteus 19:9) Jesús viðurkennir hér að hórdómur sé boðleg og biblíuleg skilnaðarástæða — raunar eina forsenda skilnaðar sem heimilar manni að ganga í hjónaband að nýju. Hinn saklausi getur ákveðið að fyrirgefa brotlegum maka sínum. Og sá sem ákveður að notfæra sér orð Jesú til að skilja við ótrúan maka sinn er ekki að gera neitt sem Jehóva hatar. Það er sviksemi ótrúa makans sem Guð hatar.
[Myndir á blaðsíðu 10]
Saklausi aðilinn og börnin þarfnast kærleika og stuðnings.