Orð Guðs er sannleikur
„Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.“ — JÓHANNES 17:17.
1. Hvernig leit hinn hebreski sálmaritari á Biblíuna en hvernig hugsa margir nútímamenn um hana?
„ÞITT orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.“ (Sálmur 119:105) Svo mælti hinn hebreski sálmaritari. Einungis minnihluti nútímamanna ber slíka virðingu fyrir orð Guðs. Núna á 20. öldinni er orð Guðs til í rituðu formi sem heilög Biblía. Hún hefur verið þýdd á fleiri tungumál og dreift í stærra upplagi en nokkur önnur bók í sögu mannkyns. Samt sem áður vilja fæstir viðurkenna hana sem lampa fóta sinna. Jafnvel þeir sem segjast vera kristnir menn fylgja að langmestu leyti sínum eigin hugmyndum í stað þess að láta Biblíuna vísa sér veginn. — 2. Tímóteusarbréf 3:5.
2, 3. Hvernig líta vottar Jehóva á Biblíuna og hvernig hefur það verið þeim til góðs?
2 Við sem erum vottar Jehóva tökum hins vegar undir með sálmaritaranum. Í okkar augum er Biblían handbók frá Guði. Við vitum að „sérhver Ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Ólíkt mörgum nútímamönnum viljum við ekki gera tilraunir á sviði siðferðismála og mannlegrar hegðunar. Við vitum hvað er rétt vegna þess að Biblían segir okkur það.
3 Þessi afstaða hefur verið okkur til mikillar blessunar. Við höfum kynnst Jehóva og lært um stórfenglegan tilgang hans með jörðina og mannkynið, þannig að við horfum með trúartrausti til þeirrar björtu framtíðar sem stendur okkur og fjölskyldum okkar til boða. Við tökum af öllum hjarta undir með sálmaritaranum sem sagði: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það. Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru, því að þau heyra mér til um eilífð.“ — Sálmur 119:97, 98.
Borið vitni með hegðun
4. Hvaða skyldu leggur það okkur á herðar að viðurkenna Biblíuna sem orð Guðs?
4 Við höfum því fullt tilefni til að taka undir orð Jesú til föður síns: „Þitt orð er sannleikur.“ (Jóhannes 17:17) En það að viðurkenna þessa staðreynd leggur okkur skyldu á herðar. Við verðum að hjálpa öðrum að viðurkenna orð Guðs sem sannleika. Þannig geta þeir líka fengið að njóta þeirrar blessunar sem við njótum. Hvernig getum við hjálpað þeim til þess? Í fyrsta lagi verðum við að leggja okkur af alefli fram við að fylgja meginreglum Biblíunnar í daglegu lífi. Þannig mun réttsinnað fólk sjá að vegur Biblíunnar er í rauninni sá besti.
5. Hvaða ráð gaf Pétur um það að bera vitni með breytni okkar?
5 Það var kjarninn í heilræðum Péturs postula til kristinna kvenna sem höfðu menn sína ekki í trúnni: „Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna.“ (1. Pétursbréf 3:1) Sama meginregla bjó að baki heilræðum hans til allra kristinna manna — karla, kvenna og barna — er hann sagði: „Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.“ — 1. Pétursbréf 2:12; 3:16.
Hin mikla viska Biblíunnar
6. Hvernig bendir Pétur okkur á að við ættum að hjálpa öðrum að meta Biblíuna að verðleikum?
6 Kristnir menn geta einnig hjálpað öðrum að meta Biblíuna að verðleikum ef þeir gera eins og Pétur ráðleggur annars staðar: „En helgið Krist sem Drottin í hjörtum yðar. Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er. En gjörið það með hógværð og virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:15, 16) Kristnir þjónar orðsins ættu að geta varið Biblíuna og sýnt öðrum fram á að hún sé orð Guðs. Hvernig geta þeir gert það?
7. Hvað er það við Biblíuna sem sýnir að hún hlýtur að vera orð Guðs?
7 Í Orðskviðunum er að finna mjög sannfærandi rökfærslu. Þar lesum við: „Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, . . . þá munt þú . . . öðlast þekking á Guði. Því að [Jehóva] veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.“ (Orðskviðirnir 2:1-6) Á síðum Biblíunnar finnum við visku Guðs sjálfs. Þegar einlægur maður kemur auga á hina djúptæku visku Biblíunnar fer ekki hjá því að hann geri sér ljóst að hún hljóti að vera meira en orð manna.
8, 9. Hvernig hafa þau heilræði Biblíunnar að forðast öfgar í eftirsókn eftir efnislegum gæðum sýnt sig vera rétt?
8 Lítum á fáein dæmi. Nú á dögum er velgengni manna í lífinu venjulega mæld í peningum. Því meiri sem tekjur manna eru, þeim mun meiri er velgengni þeirra talin. Biblían varar okkur hins vegar við að leggja of mikla áherslu á efnislega hluti. Páll postuli skrifaði: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10; samanber Matteus 6:24.
9 Reynslan hefur sýnt hve viðeigandi þessi aðvörun er. Sálfræðingur segir: „Það að verða fremstur allra og auðugur gefur mönnum ekki þá tilfinningu að þeir njóti lífsfyllingar og ósvikinnar virðingar og ástar.“ Þeir sem eyða öllum sínum kröftum í að safna sér auði eru oft beiskir og vonsviknir þegar upp er staðið. Þótt Ritningin viðurkenni að peningar hafi sitt gildi bendir hún á að til sé annað langtum þýðingarmeira: „Spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu, en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.“ — Prédikarinn 7:12.
10. Hvers vegna ættum við að taka til okkar heilræði Biblíunnar þess efnis að gæta að félagsskap okkar?
10 Í Biblíunni er að finna margar slíkar lífsreglur. Hér kemur önnur: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Reynslan hefur einnig sýnt að þetta er hverju orði sannara. Hópþrýstingur hefur oft leitt ungt fólk út í drykkjuskap, fíkniefnaneyslu og siðleysi. Hver sá sem leggur lag sitt við þá sem tala gróft mál fer sjálfur að tala gróft mál með tíð og tíma. Margir stela frá vinnuveitanda sínum vegna þess að ‚allir gera það.‘ Það er dagsatt sem Biblían segir: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ — 1. Korintubréf 15:33.
11. Hvernig leiddi rannsókn í ljós gildi þess að fylgja gullnu reglunni?
11 Einhver frægustu heilræði Biblíunnar eru hin svonefnda gullna regla: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matteus 7:12) Ef mannkynið fylgdi þessari reglu væri heimurinn betri en hann er. En jafnvel þótt þorri manna fylgi ekki þessari reglu er eftir sem áður betra fyrir þig að gera það. Hvers vegna? Vegna þess að við erum þannig úr garði gerð að okkur er hollt að láta okkur annt um aðra. (Postulasagan 20:35) Rannsókn, sem gerð var í Bandaríkjunum til að kanna hvaða áhrif það hefði á fólk að vera hjálpsamt við aðra, leiddi þetta í ljós: „Umhyggja fyrir öðrum virðist vera jafnríkur þáttur í eðli mannsins og umhyggja fyrir sjálfum okkur.“ — Matteus 22:39.
Heilræði Biblíunnar eru einstök
12. Nefndu eitt atriði sem gerir Biblíuna einstæða.
12 Að sjálfsögðu er hægt að leita sér ráða annars staðar en í Biblíunni. Þar er af mörgu að taka. Í dagblöðum og tímaritum eru stundum fastir heilræðadálkar og margar bækur hafa verið gefnar út um hvernig menn geti hjálpað sér sjálfir. Auk þess má nefna sálfræðinga, ráðgjafa og aðra sem bjóða fram ráð sín á ýmsum sviðum. En Biblían er einstæð í það minnsta að þrennu leyti. Í fyrsta lagi eru heilræði hennar alltaf gagnleg. Þau eru aldrei eingöngu fræðileg og aldrei til tjóns. Hver sá sem fylgir ráðum Biblíunnar hlýtur að taka undir með sálmaritaranum er hann sagði við Guð í bæn: „Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir.“ — Sálmur 93:5.
13. Hvað sýnir að Biblían stendur mannlegri visku langtum framar?
13 Í öðru lagi hefur Biblían staðist tímans tönn. (1. Pétursbréf 1:25; Jesaja 40:8) Ráðleggingar manna eru síbreytilegar og því sem er í tísku eitt árið er gjarnan fundið allt til foráttu það næsta. En þótt ritun Biblíunnar hafi verið lokið fyrir nálega 2000 árum eru ráð hennar enn þau viturlegustu sem hægt er að fá og orð hennar eiga við óháð stað og stund. Þau eiga jafnvel við í Afríku, Asíu, Suður- og Norður-Ameríku, Evrópu og eyjum hafsins.
14. Á hvaða veg bera heilræði orðs Guðs af?
14 Að lokum er Biblían óviðjafnanleg fyrir það hve breitt svið heilræði hennar spanna. Orðskviður segir: „[Jehóva] veitir speki,“ og það gildir einu hvaða vandamáli eða ákvörðun við stöndum frammi fyrir; Biblían geymir visku sem hjálpar okkur að leysa það. (Orðskviðirnir 2:6) Börn, unglingar, foreldrar, gamalmenni, launþegar, vinnuveitendur og valdamenn geta allir sannreynt að viska Biblíunnar á við þá. (Orðskviðirnir 4:11) Jafnvel þótt mæti okkur aðstæður sem voru óþekktar á dögum Jesú og postula hans gefur Biblían okkur ráð sem duga. Til dæmis voru tóbaksreykingar óþekktar í Miðausturlöndum á fyrstu öld. Nú eru þær útbreiddar. Eigi að síður mun hver sá sem veitir athygli því ráði Biblíunnar að hann ‚megi ekki láta neitt fá vald yfir sér‘ og að honum beri að ‚hreinsa sig af allri saurgun á líkama og sál‘ forðast tóbaksnotkun sem er bæði vanabindandi og heilsuspillandi. — 1. Korintubréf 6:12; 2. Korintubréf 7:1.
Fyrir bestu til langs tíma litið
15. Hvers vegna staðhæfa margir að Biblían sé úrelt?
15 Að vísu segja margir að Biblían sé úrelt og hafi ekkert gildi núna á 20. öldinni. Ástæðan er þó líklega sú að Biblían segir ekki það sem menn vilja heyra. Það er okkur fyrir bestu til langs tíma litið að fylgja heilræðum Biblíunnar, en oft kostar það aga og sjálfsafneitun — og þetta tvennt á ekki vinsældum að fagna í heimi sem hvetur menn til að fullnægja löngunum sínum þegar í stað. — Orðskviðirnir 1:1-3.
16, 17. Hvaða staðla setur Biblían í siðferðismálum og hvernig hafa þeir verið virtir á okkar tímum?
16 Lítum á siðferði sem dæmi. Siðferðisstaðlar Biblíunnar eru mjög strangir. Hún segir að kynmök megi aðeins eiga sér stað innan vébanda hjónabands og bannar öll slík mök utan hjónabands. Við lesum: „Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar . . . Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:9, 10) Enn fremur krefst Biblían einkvænis af kristnum mönnum. (1. Tímóteusarbréf 3:2) Og þótt skilnaður eða samvistarslit kunni að koma til greina í sjaldgæfum tilvikum segir Biblían að í grundvallaratriðum sé hjónabandið ævilangt. Jesús sagði sjálfur: „Skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu og sagði: ‚Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu vera einn maður.‘ Þannig eru þau ekki framar tvö heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ — Matteus 19:4-6, 9; 1. Korintubréf 7:12-16.
17 Þessi staðall er lítið virtur nú til dags. Lauslæti í siðferðismálum er umborið víðast hvar. Kynmök unglinga eru talin eðlileg. Óvígð sambúð er viðurkennd. Ekki er óalgengt að gift fólk eigi ástarævintýri utan hjónabands. Hjónaskilnaðir eru eins og faraldur í heimi nútímans. En þótt slakað hafi verið svona á siðferðiskröfunum hefur það ekki veitt mönnum hamingju. Hinn slæmi ávöxtur hefur sannað að hinar ströngu siðferðiskröfur Biblíunnar eru réttar þegar allt kemur til alls.
18, 19. Hvaða afleiðingar hefur hið útbreidda virðingarleysi fyrir siðferðisreglum Jehóva haft?
18 Tímaritið Ladies Home Journal segir: „Sú áhersla á kynlíf, sem einkenndi sjöunda og áttunda áratuginn, hefur ekki fært mönnum takmarkalausa hamingju heldur mikla eymd.“ Þessi „mikla eymd,“ sem hér er vitnað til, nær meðal annars til barna sem beðið hafa mikið tilfinningatjón af skilnaði foreldra sinna, og fullorðinna sem þola mikla sálarkvöl. Hún felur einnig í sér mikla fjölgun einstæðra foreldra og faraldur einhleypra unglingsstúlkna sem eignast börn meðan þær eru nánast á barnsaldri sjálfar. Auk þess felur hún í sér heimsfaraldur samræðissjúkdóma svo sem herpes, lekanda, sýfilis, klamýdíu og eyðni.
19 Í ljósi alls þessa sagði prófessor í félagsfræði: „Kannski erum við nógu þroskuð til að íhuga hvort það myndi ekki þjóna okkur öllum betur að beita okkur fyrir skírlífi fyrir hjónaband, á þeim forsendum að það svari best þörfum okkar sem borgara og rétti allra til frelsis: frelsis frá sjúkdómum og frelsis frá óæskilegum þungunum.“ Biblían segir réttilega: „Sæll er sá maður, er gjörir [Jehóva] að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.“ (Sálmur 40:5) Þeir sem treysta Biblíunni láta ekki blekkjast af lygum þeirra sem bjóða Biblíunni byrginn og segja að lausung í siðferðismálum hafi hamingju í för með sér. Hinir viturlegu en ströngu staðlar Biblíunnar eru mönnum fyrir bestu.
Erfið vandamál í lífinu
20. Hvaða meginreglur Biblíunnar hafa reynst til góðs þeim sem búa við mikla fátækt?
20 Viska Biblíunnar hjálpar okkur líka að takast á við erfið vandamál sem við stöndum frammi fyrir í lífinu. Víða um lönd þurfa kristnir menn til dæmis að búa við afarmikla fátækt. Samt sem áður spjara þeir sig og geta verið hamingjusamir. Hvernig? Með því að fylgja innblásnu orði Guðs. Þeir taka alvarlega hin hughreystandi orð í Sálmi 55:23: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ Þeir reiða sig á kraft frá Guði til að halda út. Síðan fylgja þeir meginreglum Biblíunnar um að forðast skaðlega og dýra ósiði svo sem reykingar og drykkjuskap. Þeir eru iðjusamir eins og Biblían hvetur til og tekst því oft að ala önn fyrir fjölskyldu sinni þegar þeim sem eru latir eða sökkva niður í örvæntingu mistekst. (Orðskviðirnir 6:6-11; 10:26) Að síðustu fylgja þeir aðvörun Biblíunnar: „Öfunda eigi þá er ranglæti fremja.“ (Sálmur 37:1) Þeir leiðast ekki út í fjárhættuspil eða afbrot svo sem fíkniefnasölu. Slíkt gæti að vísu virst bjóða upp á skjóta „lausn“ á vandamálum þeirra, en langtímaáhrifin eru ekki glæsileg.
21, 22. (a) Hvernig sótti kristin kona hjálp og hughreystingu til Biblíunnar? (b) Nefndu annað atriði sem sýnir okkur að Biblían er orð Guðs.
21 Geta þessi ráð Biblíunnar og önnur áþekk hjálpað þeim sem búa við sárustu fátækt? Já, og reynsla fólks í ýmsum heimshornum sannar það. Kristin ekkja í Asíu skrifar: „Enda þótt ég lifi við fátækramörk er ég hvorki gröm né beisk. Sannindi Biblíunnar fylla mig jákvæðum viðhorfum.“ Hún segir að athyglisvert loforð sem Jesús gaf hafi uppfyllst hjá henni. Jesús sagði: „En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:33) Hún lætur þjónustuna við Guð ganga fyrir og segir að hún fái alltaf með einum eða öðrum hætti brýnustu nauðsynjar. Og hin kristna þjónusta gefur henni reisn og markmið í lífinu sem gerir henni fátæktina þolanlega.
22 Hin djúptæka viska Biblíunnar ber þess skýr merki að hún sé í raun og veru orð Guðs. Engin bók, sem væri eingöngu verk manna, gæti fjallað um svona marga þætti lífsins og verið svona djúpvitur og sjálfri sér samkvæm út í gegn. En Biblían hefur annað til brunns að bera sem sýnir að hún er bók Guðs. Hún býr yfir krafti til að breyta fólki til betri vegar. Við munum ræða það í næstu grein.
Getur þú svarað?
◻ Hvernig er það vottum Jehóva til blessunar að þeir skuli viðurkenna Biblíuna sem orð Guðs?
◻ Hver er skylda okkar sem trúum á orð Guðs og hvernig getum við rækt þessa skyldu, meðal annars með breytni okkar?
◻ Hvað gerir hin viturlegu ráð Biblíunnar fremri ráðum manna?
◻ Nefndu dæmi um hina djúptæku visku Biblíunnar.