Hvernig eigum við að koma fram við aðra?
„Eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera.“ — LÚK. 6:31.
1, 2. (a) Hvað er fjallræðan? (b) Yfir hvað verður farið í þessari grein og þeirri næstu?
JESÚS KRISTUR var einstakur kennari. Þegar trúarlegir andstæðingar hans sendu menn til að handtaka hann sneru mennirnir aftur tómhentir og sögðu: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ (Jóh. 7:32, 45, 46) Fjallræðan er dæmi um snilldarlega kennslu Jesú. Hana er að finna í 5. til 7. kafla Matteusarguðspjalls og svipað efni er að finna í Lúkasarguðspjalli 6:20-49.a
2 Þekktustu orðin í þessari ræðu eru ef til vill gullna reglan sem svo er nefnd. Hún tengist því hvernig við komum fram við aðra. „Eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera,“ sagði Jesús. (Lúk. 6:31) Og það var ekki lítið sem hann gerði fyrir aðra. Hann læknaði sjúka og reisti jafnvel upp dána. En það besta sem hann gerði fyrir fólk var að flytja því fagnaðarerindið. (Lestu Lúkas 7:20-22.) Vottar Jehóva hafa mikla ánægju af að boða Guðsríki líkt og hann gerði. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Í þessari grein og þeirri næstu skoðum við það sem Jesús sagði um boðunarstarfið og annað í fjallræðunni sem tengist því hvernig við eigum að koma fram við aðra.
Verum hógvær
3. Hvað er hógværð?
3 Jesús sagði: „Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa.“ (Matt. 5:5) Hógværð, eins og henni er lýst í Biblíunni, á ekkert skylt við veikleika. Hógværð er mildi sem við sýnum í samræmi við kröfur Guðs og hún birtist í framkomu okkar við aðra. Við gjöldum til dæmis engum illt fyrir illt. — Rómv. 12:17-19.
4. Af hverju eru hinir hógværu sælir?
4 Hinir hógværu eru sælir því að „þeir munu jörðina erfa“. Jesús var „hógvær og af hjarta lítillátur“. (Matt. 11:29) Hann er ‚erfingi allra hluta‘ og því aðalerfingi jarðarinnar. (Hebr. 1:2; Sálm. 2:8) Því hafði verið spáð að ‚mannssonurinn‘, Messías, myndi eiga sér meðstjórnendur í ríkinu á himnum. (Dan. 7:13, 14, 21, 22, 27) Þessir hógværu „samarfar Krists“ eru 144.000 talsins og smurðir heilögum anda. Þeir munu erfa jörðina ásamt Jesú. (Rómv. 8:16, 17; Opinb. 14:1) Annað hógvært fólk hlýtur eilíft líf á jörðinni undir stjórn Guðsríkis. — Sálm. 37:11.
5. Hvaða áhrif hefur það ef við erum hógvær eins og Jesús?
5 Ef við værum hranaleg í framkomu myndum við eflaust reyna á þolinmæði annarra og virka fráhrindandi á þá. En ef við erum hógvær eins og Jesús var verðum við þægileg í umgengni og uppbyggjandi fyrir aðra í söfnuðinum. Hógværð er hluti af þeim ávexti sem heilagur andi Guðs kallar fram í okkur ef við ‚lifum í andanum‘. (Lestu Galatabréfið 5:22-25.) Við viljum örugglega vera meðal þeirra hógværu einstaklinga sem heilagur andi Jehóva leiðir.
Sælir eru miskunnsamir
6. Hvaða eiginleika sýna „miskunnsamir“?
6 Jesús sagði einnig í fjallræðunni: „Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða.“ (Matt. 5:7) „Miskunnsamir“ sýna bágstöddum innilega umhyggju, nærgætni og jafnvel meðaumkun. Jesús vann kraftaverk til að lina þjáningar manna vegna þess að hann „kenndi í brjósti um þá“. (Matt. 14:14; 20:34) Við ættum líka að finna til með bágstöddum og sýna þeim miskunn og umhyggju. — Jak. 2:13.
7. Hvað gerði Jesús af því að hann kenndi í brjósti um fólk?
7 Jesús hafði hugsað sér að hvílast þegar hópur manna kom til móts við hann. Hvernig brást hann við? „Hann kenndi í brjósti um þá því að þeir voru sem sauðir er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.“ (Mark. 6:34) Við höfum líka mikla ánægju af því að segja öðrum frá ríki Guðs og mikilli miskunn hans.
8. Af hverju eru hinir miskunnsömu sælir?
8 Hinir miskunnsömu eru sælir því að „þeim mun miskunnað verða“. Þegar við sýnum miskunn í samskiptum við aðra eru þeir yfirleitt miskunnsamir við okkur. (Lúk. 6:38) Auk þess sagði Jesús: „Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður.“ (Matt. 6:14) Aðeins hinir miskunnsömu þekkja þá gleði sem hlýst af því að hljóta syndafyrirgefningu og velþóknun Guðs.
Af hverju eru „friðflytjendur“ sælir?
9. Hvernig hegðum við okkur ef við erum „friðflytjendur“?
9 Jesús nefndi aðra ástæðu fyrir því að við getum verið sæl og sagði: „Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“ (Matt. 5:9) Gríska orðið, sem hér er þýtt „friðflytjendur“, þýðir bókstaflega „friðsemjendur“. Ef við erum friðsemjendur líðum við ekki eða tökum þátt í neinu á borð við rógburð sem gæti valdið „vinaskilnaði“. (Orðskv. 16:28) Við stuðlum að friði við fólk innan og utan safnaðarins bæði í orði og verki. (Hebr. 12:14) Umfram allt viljum við gera okkar ýtrasta til að eiga frið við Jehóva Guð. — Lestu 1. Pétursbréf 3:10-12.
10. Af hverju eru „friðflytjendur“ sælir?
10 Jesús sagði að „friðflytjendur“ væru sælir „því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða“. Andasmurðir kristnir menn hafa „rétt til að verða Guðs börn“ því að þeir trúa á Jesú sem Messías. (Jóh. 1:12; 1. Pét. 2:24) En hvað um „aðra sauði“ Jesú sem eru líka friðflytjendur? Hann verður „Eilífðarfaðir“ þeirra þegar hann ríkir um þúsund ár með himneskum samerfingjum sínum. (Jóh. 10:14, 16; Jes. 9:5; Opinb. 20:6) Við lok þúsundáraríkisins verða þessir friðflytjendur jarðnesk börn Guðs í fullum skilningi. — 1. Kor. 15:27, 28.
11. Hvernig komum við fram við aðra ef við látum þá „speki sem að ofan er“ leiða okkur?
11 Til að eiga náið samband við Jehóva, „Guð friðarins“, verðum við að tileinka okkur eiginleika hans, þar á meðal friðsemd. (Fil. 4:9) Ef við látum þá „speki sem að ofan er“ leiða okkur erum við friðsöm í samskiptum við aðra. (Jak. 3:17) Já, við verðum sælir friðflytjendur.
„Þannig lýsi ljós yðar“
12. (a) Hvað sagði Jesús um andlegt ljós? (b) Hvernig getum við látið ljós okkar lýsa?
12 Besta hjálpin, sem við getum veitt fólki, er að miðla til þess andlegu ljósi frá Guði. (Sálm. 43:3) Jesús sagði lærisveinunum að þeir væru „ljós heimsins“ og hvatti þá til að láta ljós sitt lýsa svo að fólk sæi „góð verk“ þeirra í þágu annarra. Það myndi stuðla að andlegri upplýsingu „meðal mannanna“. (Lestu Matteus 5:14-16.) Núna látum við ljós okkar lýsa „um heim allan“ með því að gera náunganum gott og taka þátt í því að prédika „öllum þjóðum“ fagnaðarerindið. (Matt. 26:13, Biblían 1981; Mark. 13:10) Þetta er mikill heiður.
13. Hvað erum við þekkt fyrir?
13 „Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist,“ sagði Jesús. Borg sést auðveldlega ef hún er reist á fjalli. Á svipaðan hátt tekur fólk eftir góðum verkum okkar sem boðberum Guðsríkis og eiginleikum á borð við hófsemi og hreinleika. — Tít. 2:1-14.
14. (a) Lýstu dæmigerðum lampa á fyrstu öld. (b) Hvað merkir það að setja ekki andlegt ljós undir „mæliker“?
14 Jesús sagði að enginn kveikti ljós og setti það undir mæliker heldur væri það sett á ljósastiku svo að það lýsti öllum í húsinu. Dæmigerður lampi á fyrstu öld var leirkrús með kveik sem leiddi olíu (yfirleitt ólífuolíu) með hárpípukrafti til að næra logann. Lampinn var oft settur á ljósastiku úr tré eða málmi þannig að hann gæti lýst „öllum í húsinu“. Fólk kveikti ekki ljós og setti undir „mæliker“ — stórt ílát sem rúmaði um níu lítra. Lærisveinar Jesú áttu ekki að fela andlegt ljós sitt undir mælikeri ef svo má að orði komast. Við ættum því að láta ljós okkar lýsa. Við skulum aldrei fela sannleika Biblíunnar eða halda honum út af fyrir okkur vegna andstöðu eða ofsókna.
15. Hvaða áhrif hafa „góð verk“ okkar á suma?
15 Eftir að Jesús hafði talað um lýsandi lampa sagði hann við lærisveinana: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“ Sumir vegsama Guð með því að gerast þjónar hans vegna góðra verka okkar. Það er okkur hvatning til að halda áfram að lýsa „eins og ljós í heiminum“. — Fil. 2:15.
16. Hvað verðum við að gera til að vera „ljós heimsins“?
16 Til að vera „ljós heimsins“ verðum við að prédika fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. En við þurfum að gera meira. „Hegðið ykkur . . . eins og börn ljóssins,“ skrifaði Páll postuli, „því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.“ (Ef. 5:8, 9) Við verðum alltaf að vera til fyrirmyndar og hegða okkur í samræmi við háleitar kröfur Guðs. Við verðum að fylgja ráðum Péturs postula: „Hegðið ykkur vel meðal þjóðanna, til þess að þeir sem nú hallmæla ykkur sem illgjörðamönnum sjái góðverk ykkar og vegsami Guð þegar hann kemur.“ (1. Pét. 2:12) En hvað á að gera ef ósætti kemur upp milli trúsystkina?
Sæstu við bróður þinn
17-19. (a) Um hvaða fórn var að ræða í Matteusi 5:23, 24? (b) Hve mikilvægt er að sættast við bróður sinn og hvernig benti Jesús á það?
17 Í fjallræðunni varaði Jesús lærisveinana við því að ala á gremju í garð bróður síns eða fyrirlíta hann. Þeir áttu að vera skjótir til að sættast við bróður sem hafði eitthvað á móti þeim. (Lestu Matteus 5:21-25.) Taktu vandlega eftir orðum Jesú. Hvað átti sá að gera sem var að færa fórn sína á altarið og mundi þá að bróðir hans hafði eitthvað á móti honum? Hann átti að skilja gjöfina eftir við altarið og fara og sættast við bróður sinn. Eftir það gat hann snúið til baka og fært fórnina.
18 Oft var um að ræða fórn sem færð var í musteri Jehóva. Dýrafórnir voru mjög mikilvægar því að þær voru færðar samkvæmt fyrirmælum Guðs í Móselögunum og voru hluti af tilbeiðslu Ísraelsmanna. En ef einhver mundi að bróðir hans hafði eitthvað á móti honum lá meira á að leysa það mál en að færa fórnina. Jesús sagði: „Þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.“ Það var mikilvægara að sættast við bróður sinn en að inna af hendi skyldur sem kveðið var á um í lögmálinu.
19 Jesús tilgreindi ekki ákveðnar fórnir og vissar misgerðir. Ef einhver mundi að bróðir hans hafði eitthvað á móti honum skipti ekki máli hvers konar fórn hann var að færa. Hann átti að fresta henni. Ef hann ætlaði að færa dýrafórn átti hann að skilja dýrið eftir lifandi fyrir framan brennifórnaraltarið í forgarði prestanna í musterinu. Þegar búið var að leysa ágreininginn gat hinn brotlegi snúið til baka og fært fórnina.
20. Af hverju ættum við að vera skjót til að sættast ef við reiðumst við trúsystkini?
20 Frá sjónarhóli Jehóva er samband okkar við trúsystkini mikilvægur hluti sannrar tilbeiðslu. Dýrafórnir voru einskis virði í augum hans ef þeir sem færðu þær komu ekki vel fram við náungann. (Míka 6:6-8) Þess vegna hvatti Jesús lærisveinana til að ‚vera skjótir til sátta‘. (Matt. 5:25) Páll sagði sömuleiðis: „Ef þið reiðist þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ (Ef. 4:26, 27) Ef við reiðumst með réttu ættum við að vera skjót til að leysa málin og losa okkur við reiðina til gefa djöflinum ekkert færi á okkur. — Lúk. 17:3, 4.
Sýndu öðrum ávallt virðingu
21, 22. (a) Hvernig getum við farið eftir þeim ráðum Jesú sem við höfum fjallað um í greininni? (b) Um hvað verður rætt í næstu grein?
21 Nú höfum við farið yfir sumt af því sem Jesús sagði í fjallræðunni. Það ætti að hjálpa okkur að sýna öðrum góðvild og virðingu. Þótt við séum öll ófullkomin getum við farið eftir ráðum Jesú því að hann ætlast ekki til meira af okkur en við getum gert. Faðir okkar á himnum gerir það ekki heldur. Við getum verið hógvær, miskunnsöm og friðsöm ef við biðjum til Guðs, þiggjum hjálp hans og leggjum okkur einlæglega fram. Við getum endurvarpað andlegu ljósi sem lýsir Jehóva til lofs. Og við getum sæst við trúsystkini ef missætti kemur upp.
22 Við verðum að koma vel fram við náungann til að tilbeiðsla okkar sé Jehóva þóknanleg. (Mark. 12:31) Í næstu grein skoðum við fleira í hinni óviðjafnalegu ræðu Jesú sem hjálpar okkur að gera öðrum gott. En eftir að hafa hugleitt þau atriði í fjallræðunni sem við höfum nú þegar farið yfir gætum við spurt okkur: „Hvernig gengur mér að koma vel fram við aðra?“
[Neðanmáls]
a Áður en þú ferð yfir þessa námsgrein og þá næstu gæti verið gagnlegt fyrir þig að lesa þessi vers í sjálfsnámi þínu.
Hvert er svarið?
• Hvað er fólgið í því að vera hógvær?
• Af hverju eru „miskunnsamir“ sælir?
• Hvernig getum við látið ljós okkar lýsa?
• Af hverju verðum við að vera skjót til að ‚sættast við bróður okkar‘?
[Mynd á blaðsíðu 4]
Við látum ljós okkar lýsa með því að boða fagnaðarerindið.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Vottar Jehóva verða að vera til fyrirmyndar og hegða sér í samræmi við kröfur Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 6]
Gerðu þitt ýtrasta til að sættast við trúsystkini.