NÁMSGREIN 6
Jehóva faðir okkar elskar okkur heitt
„Þið skuluð biðja þannig: ,Faðir okkar á himnum.‘“ – MATT. 6:9.
SÖNGUR 135 Jehóva hvetur: „Vertu vitur, sonur minn“
YFIRLITa
1. Hvað þurfti að gera áður en maður gekk fyrir Persakonung?
ÍMYNDAÐU þér að þú búir í Persíu fyrir um 2.500 árum. Þú vilt tala við konunginn um ákveðið mál og ferð því til konungsborgarinnar Súsa. Þér myndi ekki einu sinni detta í hug að tala við konunginn án þess að vera búinn að fá leyfi hans. Ef þú gerðir það gæti það kostað þig lífið. – Est. 4:11.
2. Hvernig vill Jehóva að við nálgumst hann?
2 Við erum innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli ekki vera eins og þessi Persakonungur. Jehóva er langtum æðri mennskum stjórnendum en hann býður okkur samt að leita til sín hvenær sem er. Hann vill að okkur finnist við alltaf geta talað við hann. Þó að Jehóva beri háleita titla eins og „mikill skapari“, „almáttugur“ og „alvaldur Drottinn“ býður hann okkur að ávarpa sig „faðir“. (Matt. 6:9) Það gleður okkur mjög að Jehóva skuli vilja að við eigum svo hlýlegt og náið samband við sig.
3. Hvers vegna getum við kallað Jehóva föður og hvað skoðum við í þessari grein?
3 Við getum réttilega kallað Jehóva föður vegna þess að hann er uppspretta lífs okkar. (Sálm. 36:10) Og af því að hann er faðir okkar ber okkur að hlýða honum. Þegar við gerum það sem hann biður okkur um hljótum við ríkulega blessun. (Hebr. 12:9) Hún felur meðal annars í sér eilíft líf, hvort heldur á himni eða jörð. Við njótum einnig góðs af því núna að hlýða honum. Í þessari grein sjáum við hvernig Jehóva reynist kærleiksríkur faðir núna og hvers vegna við getum verið viss um að hann muni aldrei yfirgefa okkur. Fyrst skulum við skoða hvers vegna við getum treyst að himneskur faðir okkar elski okkur heitt og láti sér annt um okkur.
JEHÓVA ER KÆRLEIKSRÍKUR OG UMHYGGJUSAMUR FAÐIR
4. Hvers vegna finnst sumum erfitt að líta á Jehóva sem föður sinn?
4 Finnst þér erfitt að hugsa um Guð sem föður þinn? Sumum finnst þeir svo litlir og ómerkilegir í samanburði við Jehóva að þeir efast um að alvöldum Guði sé annt um þá persónulega. En kærleiksríkur faðir okkar vill ekki að við hugsum þannig. Hann gaf okkur lífið og vill að við eigum samband við sig. Eftir að hafa bent á þá staðreynd sagði Páll postuli við áheyrendur sína í Aþenu að Jehóva væri „ekki langt frá neinum okkar“. (Post. 17:24–29) Guð vill að hvert og eitt okkar leiti til hans rétt eins og barni er eðlilegt að leita til kærleiksríks foreldris sem lætur sér annt um það.
5. Hvað lærum við af reynslu systur einnar?
5 Öðrum getur fundist erfitt að líta á Jehóva sem föður sinn vegna þess að pabbi þeirra sýndi þeim litla eða enga ást og umhyggju. Tökum sem dæmi það sem systir ein sagði: „Pabbi minn beitti mig andlegu ofbeldi. Þegar ég byrjaði að kynna mér Biblíuna fannst mér erfitt að tengjast himneskum föður. En það breyttist eftir að ég kynntist Jehóva.“ Líður þér eins? Ef svo er máttu vera viss um að þú getur líka lært að líta á Jehóva sem besta föður sem hugsast getur.
6. Hver er ein leið sem Jehóva hefur notað til að hjálpa okkur að líta á sig sem kærleiksríkan föður okkar, samanber Matteus 11:27?
6 Ein leið sem Jehóva hefur notað til að hjálpa okkur að líta á sig sem kærleiksríkan föður okkar er að láta skrá orð og verk Jesú í Biblíuna. (Lestu Matteus 11:27.) Jesús endurspeglaði persónuleika föður síns svo fullkomlega að hann gat sagt: „Sá sem hefur séð mig hefur líka séð föðurinn.“ (Jóh. 14:9) Jesús lýsti Jehóva oft sem föður. Í guðspjöllunum fjórum kallar hann Jehóva föður um 165 sinnum. Hvers vegna talaði Jesús svona mikið um Jehóva? Ein ástæðan var sú að hann vildi sannfæra fólk um að Jehóva væri kærleiksríkur faðir. – Jóh. 17:25, 26.
7. Hvað lærum við um Jehóva af því hvernig hann kom fram við son sinn?
7 Hugleiðum hvað við getum lært um Jehóva af því hvernig hann kom fram við Jesú son sinn. Jehóva hlustaði alltaf á bænir Jesú. En hann hlustaði ekki bara á þær heldur svaraði þeim líka. (Jóh. 11:41, 42) Jesús fann fyrir kærleika og stuðningi föður síns í öllum prófraunum sem hann gekk í gegnum. – Lúk. 22:42, 43.
8. Hvernig sá Jehóva fyrir Jesú?
8 Jesús viðurkenndi að faðir hans hefði gefið honum lífið og að hann viðhéldi því þegar hann sagði: „Ég lifi vegna föðurins.“ (Jóh. 6:57) Jesús treysti föður sínum fullkomlega og Jehóva sá honum fyrir efnislegum nauðsynjum. En það sem mestu máli skipti var að Jehóva sá fyrir andlegum þörfum hans. – Matt. 4:4.
9. Hvernig sýndi Jehóva að hann væri kærleiksríkur og umhyggjusamur faðir Jesú?
9 Jehóva er kærleiksríkur faðir og sá því til þess að Jesús vissi að hann hefði stuðning hans. (Matt. 26:53; Jóh. 8:16) Þó að Jehóva hafi ekki verndað Jesú fyrir öllum skaða hjálpaði hann honum að standast prófraunir. Jesús vissi að engar þjáningar sem hann mátti þola væru varanlegar. (Hebr. 12:2) Jehóva sannaði umhyggju sína fyrir Jesú með því að hlusta á hann, sjá honum fyrir nauðsynjum, þjálfa hann og styðja. (Jóh. 5:20; 8:28) Skoðum núna hvernig himneskur faðir okkar annast okkur á svipaðan hátt.
KÆRLEIKSRÍKUR FAÐIR OKKAR ANNAST OKKUR
10. Hvernig sýnir Jehóva að hann elskar okkur eins og sjá má af Sálmi 66:19, 20?
10 Jehóva hlustar á bænir okkar. (Lestu Sálm 66:19, 20.) Hann vill ekki að við höldum aftur að bænum okkar heldur hvetur hann okkur til að biðja oft. (1. Þess. 5:17) Við getum beðið til Guðs hvar og hvenær sem er. Hann er aldrei of upptekinn til að hlusta á okkur og veitir bænum okkar alltaf athygli sína. Við löðumst að Jehóva þegar við skiljum að hann hlustar á bænir okkar. Sálmaritarinn sagði: „Ég elska Drottin af því að hann heyrir grátbeiðni mína.“ – Sálm. 116:1.
11. Hvernig svarar Jehóva bænum okkar?
11 Faðir okkar hlustar ekki bara á bænir okkar heldur svarar hann þeim einnig. Jóhannes postuli fullvissar okkur um að Guð „heyri okkur, hvað sem við biðjum um samkvæmt vilja hans“. (1. Jóh. 5:14, 15) Auðvitað svarar Jehóva bænum okkar ekki alltaf á þann hátt sem við búumst við. Hann veit hvað er okkur fyrir bestu og þess vegna svarar hann stundum neitandi eða vill að við bíðum. – 2. Kor. 12:7–9.
12, 13. Hvernig sér himneskur faðir okkar fyrir okkur?
12 Jehóva sér okkur fyrir nauðsynjum. Hann gerir það sem hann ætlast til af öllum feðrum. (1. Tím. 5:8) Hann sér börnum sínum fyrir efnislegum nauðsynjum. Hann vill ekki að við höfum áhyggjur af mat, fatnaði eða húsaskjóli. (Matt. 6:32, 33; 7:11) Vegna þess að Jehóva er kærleiksríkur faðir hefur hann einnig gert ráðstafanir til að sjá okkur fyrir öllu sem við þurfum í framtíðinni.
13 En það sem mestu máli skiptir er að Jehóva sér fyrir andlegri þörf okkar. Í Biblíunni hefur hann opinberað sannleikann um sjálfan sig, fyrirætlun sína, tilgang lífsins og framtíðina. Hann sýndi okkur persónulega athygli þegar við kynntumst sannleikanum með því að fela foreldrum okkar eða öðrum að fræða okkur um hann. Og við fáum enn þá góða aðstoð frá kærleiksríkum öldungum og öðrum þroskuðum trúsystkinum. Auk þess leiðbeinir Jehóva okkur á samkomum þar sem við fáum kennslu ásamt bræðrum og systrum. Jehóva sýnir okkur meðal annars á þennan hátt að hann hefur föðurlegan áhuga á hverju og einu okkar. – Sálm. 32:8.
14. Hvers vegna þjálfar Jehóva okkur og hvernig gerir hann það?
14 Jehóva þjálfar okkur. Ólíkt Jesú erum við ófullkomin. Þess vegna þurfum við stundum að fá ögun frá kærleiksríkum föður okkar þegar hann þjálfar okkur. Í orði Guðs erum við minnt á að „Jehóva agar þá sem hann elskar“. (Hebr. 12:6, 7) Jehóva agar okkur á marga vegu. Við gætum til dæmis lesið eitthvað í Biblíunni eða heyrt eitthvað á samkomu sem leiðréttir okkur. Leiðréttingin sem við þurfum gæti líka komið frá öldungunum. Jehóva agar okkur alltaf vegna þess að hann elskar okkur, hvernig sem við hljótum agann. – Jer. 30:11.
15. Hvernig verndar Jehóva okkur?
15 Jehóva styður okkur í prófraunum. Himneskur faðir okkar heldur okkur uppi í prófraunum rétt eins og mennskur faðir styður börn sín á erfiðum tímum. Hann notar heilagan anda sinn til að vernda okkur gegn því sem gæti skaðað sambandið við hann. (Lúk. 11:13) Jehóva hjálpar okkur líka þegar við erum kjarklítil. Hann gefur okkur til dæmis stórkostlega von. Þessi framtíðarvon hjálpar okkur að þola erfiðleika. Hugsaðu þér: Sama hvaða skaða við verðum fyrir mun kærleiksríkur faðir okkar gera hann að engu. Allir erfiðleikar sem við þurfum að þola núna eru stundlegir en blessunin frá Jehóva varir að eilífu. – 2. Kor. 4:16–18.
FAÐIR OKKAR YFIRGEFUR OKKUR ALDREI
16. Hvað gerðist þegar Adam óhlýðnaðist kærleiksríkum föður sínum?
16 Við sjáum kærleika Jehóva til okkar í því hvernig hann brást við óhlýðni Adams. Adam og afkomendur hans fengu ekki lengur að tilheyra hamingjusamri fjölskyldu Jehóva eftir að hann óhlýðnaðist. (Rómv. 5:12; 7:14) En Jehóva kom afkomendum Adams til hjálpar.
17. Hvað gerði Jehóva strax eftir að Adam óhlýðnaðist?
17 Jehóva refsaði Adam en gaf ófæddum afkomendum hans von. Hann lofaði strax að hlýðnir menn myndu aftur fá að tilheyra fjölskyldu hans. (1. Mós. 3:15; Rómv. 8:20, 21) Jehóva gerði það mögulegt með lausnarfórn Jesú, ástkærs sonar síns. Jehóva sýndi hve heitt hann elskar okkur með því að gefa son sinn í okkar þágu. – Jóh. 3:16.
18. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva vill vera faðir okkar, jafnvel þó að við höfum villst frá honum?
18 Þó að við séum ófullkominn vill Jehóva hafa okkur í fjölskyldu sinni og hann lítur aldrei á okkur sem byrði. Við gætum valdið Jehóva vonbrigðum eða vikið af réttri braut um stutta stund en hann gefst samt aldrei upp á okkur. Jesús lýsti því hve heitt Jehóva elskar börn sín með dæmisögunni um týnda soninn. (Lúk. 15:11–32) Faðirinn í dæmisögunni gaf aldrei upp vonina um að sonur hans myndi snúa aftur. Þegar sonurinn sneri aftur heim tók faðir hans fagnandi á móti honum. Ef við höfum villst frá Jehóva en iðrumst getum við verið viss um að kærleiksríkur faðir okkar er fús til að taka á móti okkur aftur.
19. Hvernig bætir Jehóva skaðann sem Adam olli?
19 Faðir okkar á eftir að bæta allan skaðann sem Adam olli. Eftir uppreisn Adams ákvað Jehóva að ættleiða 144.000 einstaklinga frá jörðinni sem eiga að ríkja sem konungar og prestar á himni með syni hans. Í nýja heiminum hjálpa Jesús og þessir meðstjórnendur hans hlýðnum mönnum að verða fullkomnir. Guð veitir þeim eilíft líf eftir að þeir standast lokapróf í hlýðni. Faðir okkar nýtur þess þá að sjá jörðina fyllast fullkomnum sonum hans og dætrum. Það verður dásamlegur tími!
20. Hvernig hefur Jehóva sýnt að hann elskar okkur heitt og um hvað er rætt í næstu grein?
20 Jehóva hefur sýnt að hann elskar okkur heitt. Hann er besti faðirinn. Hann hlustar á bænir okkar og sér okkur fyrir því sem við þurfum, bæði efnislega og andlega. Hann þjálfar okkur og styður. Hann lofar okkur líka ríkulegri blessun. Okkur hlýnar um hjartarætur að vita að faðir okkar elskar okkur og annast. Í næstu grein ræðum við um hvernig við sem erum börn hans getum sýnt að við metum kærleika hans mikils.
SÖNGUR 108 Elska Guðs er trúföst
a Við hugsum oft um Jehóva sem skapara okkar og alvaldan Drottinn. En við höfum einnig góðar ástæður til að líta á hann sem kærleiksríkan og umhyggjusaman föður. Við skoðum þessar ástæður í greininni. Við skoðum líka hvers vegna við getum verið viss um að Jehóva yfirgefi okkur aldrei.
b MYNDIR: Hver mynd sýnir föður með barni sínu: (1) Faðir hlustar með athygli á son sinn. (2) Faðir sér dóttur sinni fyrir nauðsynjum. (3) Faðir þjálfar son sinn. (4) Faðir huggar son sinn. Teikningin af hendi Jehóva í bakgrunni myndanna minnir okkur á að Jehóva annast okkur á svipaðan hátt.