Vinnum að friði
„Keppum . . . eftir því sem til friðar heyrir.“ – RÓMV. 14:19.
1, 2. Af hverju búa vottar Jehóva við frið innan safnaðarins?
SANNUR friður er vandfundinn í heimi nútímans. Jafnvel þótt fólk sé sömu þjóðar og tali sama tungumál er það oft sundrað vegna ólíkra trúar- eða stjórnmálaskoðana, menntunar eða fjárhags. Hins vegar eru þjónar Jehóva sameinaðir þó svo að þeir séu „af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum“. – Opinb. 7:9.
2 Friðurinn, sem við njótum að jafnaði innan safnaðarins, er engin tilviljun. Hann stafar fyrst og fremst af því að við höfum „frið við Guð“ vegna þess að við trúum á son hans sem friðþægði fyrir syndir okkar með blóði sínu. (Rómv. 5:1; Ef. 1:7) Hinn sanni Guð gefur trúum þjónum sínum heilagan anda og friður er ávöxtur hans. (Gal. 5:22) Önnur ástæða fyrir því að við erum sameinuð og búum við frið er sú að við erum „ekki af heiminum“. (Jóh. 15:19) Við erum hlutlaus og tökum ekki afstöðu í pólitískum málum. Við höfum ,smíðað plógjárn úr sverðum okkar‘ og blöndum okkur ekki stríðsátök, hvorki innanlands né milli þjóða. – Jes. 2:4.
3. Hvaða áhrif hefur friðurinn í söfnuðinum og um hvað er fjallað í þessari námsgrein?
3 Friðurinn, sem við getum átt hvert við annað, er annað og meira en að vinna ekki hvert öðru mein. Við ,elskum hvert annað‘ í söfnuðinum okkar þó að við séum af mörgum þjóðernum og séum sprottin úr ólíkri menningu. (Jóh. 15:17) Friðurinn gerir okkur kleift að „gera öllum gott og einkum trúsystkinum okkar“. (Gal. 6:10) Andlega paradísin, sem við búum í, er ákaflega verðmæt. Við þurfum að varðveita hana. Við skulum nú kanna hvernig við getum unnið að friði í söfnuðinum.
Þegar við gerum eitthvað á hlut annars
4. Hvernig getum við unnið að friði ef okkur verður það á að móðga einhvern?
4 „Öll hrösum við margvíslega,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. „Hrasi einhver ekki í orði þá er hann maður fullkominn.“ (Jak. 3:2) Þar af leiðandi hlýtur af og til að koma upp ágreiningur eða misskilningur milli fólks í söfnuðinum. (Fil. 4:2, 3) Hins vegar er hægt að útkljá slík mál án þess að raska friði safnaðarins. Við skulum líta á leiðbeiningar sem við eigum að fylgja ef við höldum að við höfum móðgað einhvern. – Lestu Matteus 5:23, 24.
5. Hvernig getum við stuðlað að friði ef einhver gerir eitthvað á hlut okkar?
5 Hvað eigum við að taka til bragðs ef einhver gerir eitthvað smávægilegt á hlut okkar? Eigum við að ætlast til þess að hinn brotlegi komi til okkar og biðjist afsökunar? Í 1. Korintubréfi 13:5 segir að kærleikurinn sé „ekki langrækinn“. Þegar eitthvað er gert á hlut okkar stuðlum við að friði með því að fyrirgefa og gleyma, það er að segja með því að vera ekki langrækin. (Lestu Kólossubréfið 3:13.) Best er að afgreiða smávægilegar ávirðingar með þessum hætti. Það stuðlar að friði milli trúsystkina og veitir okkur hugarró. „Það er viska . . . að láta rangsleitni ekki á sig fá,“ segir í Orðskviðunum 19:11.
6. Hvað er til ráða ef okkur finnst erfitt að horfa fram hjá einhverju sem gert var á hlut okkar?
6 En segjum sem svo að okkur finnist erfitt að fyrirgefa og gleyma einhverju sem gert var á hlut okkar. Það er engum greiði gerður að tala um það við alla sem vilja heyra. Slúður gerir ekkert annað en að raska friði safnaðarins. Hvað á þá að gera til að útkljá málið á friðsamlegan hátt? Í Matteusi 18:15 segir: „Ef bróðir þinn syndgar gegn þér skaltu fara og tala um fyrir honum og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast hefur þú endurheimt bróður þinn.“ Þó að leiðbeiningarnar í Matteusi 18:15-17 fjalli um það hvernig eigi að útkljá alvarlegar syndir getur meginreglan í 15. versinu átt við aðrar aðstæður líka. Þegar einhver hefur gert eitthvað á hlut þinn er því best að tala vinsamlega við hann í einrúmi og reyna að sættast við hann.a
7. Af hverju ættum við að vera fljót til að setja niður ágreining?
7 Páll postuli skrifaði: „Ef þið reiðist þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ (Ef. 4:26, 27) „Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn,“ sagði Jesús. (Matt. 5:25) Við þurfum að útkljá ágreiningsmál eins fljótt og auðið er til að vinna að friði. Þá komum við í veg fyrir að ágreiningurinn magnist eins og sýking í óhreinu sári. Látum ekki stolt, öfund eða efnishyggju koma í veg fyrir að við setjum niður ágreining eins fljótt og auðið er. – Jak. 4:1-6.
Þegar ágreiningur snertir marga
8, 9. (a) Hvaða ólík sjónarmið voru uppi í kristna söfnuðinum í Róm á fyrstu öld? (b) Hvernig ráðlagði Páll söfnuðinum í Róm að setja niður ágreininginn?
8 Stundum kemur upp ágreiningur sem snertir ekki aðeins tvo í söfnuðinum heldur marga. Þetta gerðist meðal kristinna manna í Róm, og Páll skrifaði þeim innblásið bréf. Þar hafði komið upp ágreiningur milli safnaðarmanna af gyðingaættum og annarra í söfnuðinum. Sumir virðast hafa litið niður á þá sem voru með viðkvæma samvisku. Báðir hóparnir voru hneykslaðir hvor á öðrum þó að málið snerist að öllu leyti um persónulegt val. Hvað ráðlagði Páll söfnuðinum? – Rómv. 14:1-6.
9 Páll gaf báðum hópunum góð ráð. Þeir sem skildu að þeir voru ekki bundnir af Móselögunum áttu ekki að líta niður á trúsystkini sín. (Rómv. 14:2, 10) Slíkt hugarfar gat hneykslað safnaðarmenn sem bauð enn þá við mat sem bannað var að borða samkvæmt lögmálinu. „Brjóttu ekki niður verk Guðs vegna matar,“ sagði hann. „Það er rétt að eta hvorki kjöt né drekka vín eða gera neitt það annað sem kemur illa við bróður þinn eða systur.“ (Rómv. 14:14, 15, 20, 21) Páll ráðlagði síðan þeim sem voru með viðkvæma samvisku að dæma ekki þá sem voru víðsýnni og telja þá ótrúa Guði. (Rómv. 14:13) Hann skrifaði: „Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi.“ (Rómv. 12:3) Eftir að hafa leiðbeint báðum hópunum sem deildu skrifaði hann: „Keppum þess vegna eftir því sem til friðar heyrir og eflir samfélagið.“ – Rómv. 14:19.
10. Hvað þarf að gera til að leysa ágreiningsmál, líkt og gerðist í söfnuðinum í Róm á fyrstu öld?
10 Við getum verið viss um að söfnuðurinn í Róm tók leiðbeiningum Páls vel og breytti því sem breyta þurfti. Við getum líka leyst ágreiningsmál, sem upp kunna að koma í söfnuðinum, á kærleiksríkan hátt ef við erum auðmjúk og förum eftir leiðbeiningum Biblíunnar. Þeir sem deila geta þurft að breyta hugarfari sínu til að halda frið sín á milli, rétt eins og gerðist í Róm. – Mark. 9:50.
Þegar öldungur er beðinn um aðstoð
11. Hvað ætti öldungur að varast ef bróðir eða systir vill ræða við hann um ágreining við trúsystkini?
11 Segjum að einhver í söfnuðinum vilji fá að tala við öldung um ósætti við ættingja eða trúsystkini. Í Orðskviðunum 21:13 segir: „Sá sem daufheyrist við kveini hins fátæka mun sjálfur kalla og ekki fá bænheyrslu.“ Öldungur ætti auðvitað ekki að daufheyrast við. Í öðrum orðskvið segir hins vegar: „Sá er fyrst flytur mál sitt virðist hafa á réttu að standa uns andstæðingurinn vefengir rök hans.“ (Orðskv. 18:17) Öldungur ætti að hlusta vinsamlega en hann þarf að gæta þess að taka ekki afstöðu með þeim sem skýrir frá vandanum. Eftir að hafa hlustað spyr hann líklega hvort hinn hafi talað við þann sem gerði á hlut hans. Öldungurinn getur sömuleiðis farið yfir það sem Biblían hvetur til að gert sé til að varðveita frið.
12. Nefndu dæmi sem sýna fram á að það er varhugavert að taka afstöðu í fljótræði eftir að hafa hlustað á ásökun.
12 Við skulum líta á þrjár frásögur í Biblíunni sem draga vel fram hve varhugavert það er að ákveða sig í fljótfærni eftir að hafa hlustað á aðeins aðra hlið máls. Pótífar trúði konunni sinni þegar hún hélt því fram að Jósef hefði reynt að nauðga henni. Hann reiddist og lét varpa Jósef í fangelsi. (1. Mós. 39:19, 20) Davíð konungur trúði Síba þegar hann sagði að Mefíbóset, húsbóndi hans, hefði skipað sér í flokk með óvinum Davíðs. „Hér með átt þú allt sem Mefíbóset átti,“ svaraði Davíð um hæl. (2. Sam. 16:4; 19:26-28) Artaxerxesi konungi var sagt að Gyðingar væru að endurreisa múra Jerúsalem og væru í þann mund að gera uppreisn gegn Persaveldi. Konungur trúði lygunum og fyrirskipaði að endurreisn Jerúsalem skyldi hætt að fullu og öllu. Í framhaldi af því lögðu Gyðingar niður vinnu við musteri Guðs. (Esra. 4:11-13, 23, 24) Það er skynsamlegt af safnaðaröldungum að gera eins og Páll ráðlagði Tímóteusi og taka ekki afstöðu fyrr en þeir hafa heyrt alla málavexti. – Lestu 1. Tímótusarbréf 5:21.
13, 14. (a) Hvaða takmörk eru okkur sett varðandi deilumál annarra? (b) Hvað getur hjálpað öldungum að skera úr málum á réttan hátt?
13 Við höldum kannski að við þekkjum báðar hliðar málsins. En í Biblíunni segir: „Ef einhver þykist þekkja eitthvað þá þekkir hann enn ekki svo sem þekkja ber.“ (1. Kor. 8:2) Vitum við virkilega í smáatriðum hver var kveikjan að deilunni? Þekkjum við til hlítar fólkið sem á í deilu? Þegar öldungar eru beðnir að skera úr deilu er mikilvægt að þeir láti ekki blekkjast af ósannindum, kænskubrögðum eða orðrómi. Jesús Kristur, dómarinn sem Guð hefur valið, dæmir með réttlæti. „Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra.“ (Jes. 11:3, 4) Jesús hefur anda Guðs sér til leiðsagnar. Safnaðaröldungar þurfa líka að láta anda Guðs leiðbeina sér.
14 Áður en öldungar fella úrskurð í máli trúsystkina þurfa þeir að biðja um handleiðslu anda Jehóva. Þeir fá leiðsögn andans með því að leita ráða í Biblíunni og ritum hins trúa og hyggna þjóns. – Matt. 24:45.
Á að varðveita friðinn hvað sem það kostar?
15. Í hvaða tilfelli ættum við að skýra öldungunum frá alvarlegri synd sem við vitum af?
15 Í Biblíunni erum við hvött til að varðveita frið. En þar segir einnig: „Sú speki sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm.“ (Jak. 3:17) Það er sem sagt mikilvægara að vera hreinn en að halda friðinn. Við verðum að fylgja hreinum siðferðisreglum Guðs og standast réttlátar kröfur hans. Ef kristinn maður veit að einhver í söfnuðinum hefur drýgt alvarlega synd ætti hann að hvetja hann til að játa syndina fyrir öldungunum. (1. Kor. 6:9, 10; Jak. 5:14-16) Ef hinn brotlegi gerir það ekki á sá sem veit af brotinu að láta öldungana vita. Ef hinn síðarnefndi þegir til að halda friðinn við hinn brotlega gerir hann sig meðsekan honum. – 3. Mós. 5:1; lestu Orðskviðina 29:24.
16. Hvaða lærdóm má draga af fundi Jehús og Jórams konungs?
16 Í frásögn af Jehú kemur fram að það er mikilvægara að framfylgja réttlæti Guðs en halda friðinn. Jehú var sendur til að fullnægja dómi Guðs á ætt Akabs konungs. Hinn illi konungur Jóram, sonur Akabs og Jesebelar, kom akandi í vagni sínum til fundar við Jehú og spurði: „Kemur þú með friði, Jehú?“ Jehú svaraði: „Hvernig get ég komið með friði á meðan Jesebel, móðir þín, hórast með hjáguðum og leggur stund á alls konar galdra?“ (2. Kon. 9:21, 22) Jehú greip síðan bogann og skaut svo að örin gekk gegnum hjarta Jórams. Öldungar safnaðarins verða að ganga hreint til verks, ekki ósvipað og Jehú. Þeir mega ekki sjá í gegnum fingur sér við þá sem syndga af ásettu ráði og iðrast einskis, bara til að halda friðinn. Þeir víkja syndurum, sem iðrast ekki, úr söfnuðinum svo að söfnuðurinn geti átt frið við Guð áfram. – 1. Kor. 5:1, 2, 11-13.
17. Hvernig getum við öll stuðlað að friði?
17 Árekstrar milli bræðra eru yfirleitt ekki svo alvarlegs eðlis að þeir þurfi að koma til kasta dómnefndar. Það er því gott að láta kærleikann breiða yfir ávirðingar annarra. „Sá sem breiðir yfir bresti annars leitar vinfengis en sá sem bregst trúnaði veldur vinaskilnaði,“ segir í Orðskviðunum 17:9. Ef við gerum þetta stuðlum við öll að friði í söfnuðinum og góðu sambandi við Jehóva. – Matt. 6:14, 15.
Guð blessar þá sem vinna að friði
18, 19. Hvaða blessun fylgir því að ástunda frið?
18 Það er okkur til mikillar blessunar að keppa eftir „því sem til friðar heyrir“. Við eigum nánara samband við Jehóva ef við líkjum eftir honum, og við stuðlum að friði og einingu andlegu paradísarinnar. Þegar við vinnum að friði innan safnaðarins lærum við einnig hvernig við getum átt friðsamleg samskipti við þá sem við boðum „fagnaðarboðin um frið“. (Ef. 6:15) Við erum þá vel í stakk búin til að ,vera ljúf við alla og þolin í þrautum‘. – 2. Tím. 2:24.
19 Við skulum einnig hafa hugfast að ,upp munu rísa bæði réttlátir og ranglátir‘. (Post. 24:15) Þegar það gerist hér á jörð koma fram á sjónarsviðið milljónir manna af ólíkum uppruna, með margs konar skapgerð og frá öllum tímaskeiðum, sumir hverjir „frá grundvöllun heims“. (Lúk. 11:50, 51) Það verður mikill heiður að fá að kenna hinum upprisnu að ástunda frið. Fræðslan og reynslan, sem við fáum núna, verður ómetanleg þegar að því kemur.
[Neðanmáls]
a Í Varðturninum 1. desember 1999, bls. 14-19, er að finna biblíulegar leiðbeiningar um það hvernig taka eigi á alvarlegum syndum eins og rógburði og svikum.
Hvað lærðir þú?
• Hvað getum við gert til að stuðla að friði ef við höfum móðgað einhvern?
• Hvernig getum við unnið að friði ef gert hefur verið á hlut okkar?
• Hvers vegna er óskynsamlegt að taka afstöðu til deilumála annarra?
• Af hverju á ekki að varðveita friðinn hvað sem það kostar?
[Myndir á bls. 29]
Jehóva elskar þá sem fyrirgefa fúslega.