Farsælt fjölskyldulíf
Hjálpaðu börnum þínum að tileinka sér góð siðferðisgildi
Loida,a sem er móðir í Mexíkó, segir: „Smokkum er dreift í skólum þannig að unglingum finnst allt í lagi að stunda kynlíf, svo framarlega sem það er,öruggt kynlíf‘.“
Nobu, sem er móðir í Japan, segir: „Ég spurði son minn hvað hann myndi gera ef hann og kærastan hans væru saman ein. Hann svaraði:,Ég veit það ekki.‘“
TRYGGÐIR þú öryggi barna þinna á heimilinu þegar þau voru lítil? Sennilega hefur þú varið rafmagnsinnstungur, falið beitta og oddhvassa hluti og sett hlið fyrir stigaop, allt til þess að vernda börnin.
Bara að það væri svona einfalt að vernda unglingana. Nú gerirðu þér meiri áhyggjur, til dæmis af því hvort sonur þinn hafi aðgang að klámefni eða hvort dóttir þín sé farin að senda klúrar myndir af sér í gegnum farsíma að ekki sé minnst á það sem margir foreldrar óttast, að unglingurinn sé farinn að stunda kynlíf.
Stöðugt eftirlit veitir falskt öryggi
Sumir foreldrar reyna að halda uppi sólarhringseftirliti með unglingunum sínum og fylgjast með hverju fótmáli þeirra. En margir komast að því að þetta stranga eftirlit leiðir bara til þess að börnin fara á bak við foreldra sína. Þau verða leikin í að fela einmitt þá hegðun sem foreldrarnir eru að reyna að koma í veg fyrir.
Stöðugt eftirlit er augljóslega ekki lausnin. Jehóva Guð beitir ekki þessari aðferð til að fá sköpunarverur sínar til að sýna hlýðni. Foreldrar ættu ekki heldur að gera það. (5. Mósebók 30:19) Hvað geturðu þá gert til að hjálpa unglingunum að taka skynsamlegar ákvarðanir í siðferðismálum? — Orðskviðirnir 27:11.
Það er algjört grundvallaratriði að ræða oft við börnin alveg frá því að þau eru lítil.b (Orðskviðirnir 22:6) Haltu svo áfram að ræða við þau þegar þau komast á unglingsárin. Unglingarnir ættu að geta fengið áreiðanlegustu upplýsingarnar hjá ykkur foreldrunum. „Margir halda að við viljum frekar tala við vini okkar um kynlíf,“ segir Alicia frá Bretlandi, „en það er ekki rétt. Við viljum helst fá slíkar upplýsingar frá foreldrum okkar. Við treystum því sem þau segja.“
Góð siðferðisgildi eru nauðsynleg
Þegar börnin eldast þurfa þau að vita meira um kynlíf en það eitt hvernig börn verða til. Þau ættu líka að læra að ,aga hugann til að greina gott frá illu‘. (Hebreabréfið 5:14) Þau þurfa að hafa góða siðferðiskennd, það er að segja fastmótaða afstöðu til kynferðismála, og haga sér í samræmi við afstöðu sína. Hvernig getur þú hjálpað syni þínum eða dóttur á unglingsaldri að tileinka sér gott siðferði?
Byrjaðu á því að velta fyrir þér þínum eigin siðferðisgildum. Þú hefur kannski þá eindregnu afstöðu að kynlíf ógiftra einstaklinga sé rangt. (1. Þessaloníkubréf 4:3) Sennilega vita börnin þín hvaða afstöðu þú hefur til þessara mála. Kannski geta þau meira að segja vitnað í biblíuvers, skoðun þinni til stuðnings. Væru þau spurð myndu þau líklega svara strax að kynlíf fyrir hjónaband sé rangt.
En það þarf meira til. Í bókinni Sex Smart kemur fram að sumir unglingar segist hafa sömu afstöðu og foreldrar þeirra til kynlífs. Í bókinni segir: „Þeir [unglingarnir] eru ekki nógu öruggir til að mynda sér sína eigin skoðun. Þegar þeir standa frammi fyrir óvæntum aðstæðum og þurfa skyndilega að ákveða ,hvað sé í lagi að ganga langt‘ verða þeir ruglaðir í ríminu og lenda í verulegum vanda.“ Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að það er mikilvægt að hafa góða siðferðiskennd. Hvernig getur þú hjálpað syni þínum eða dóttur að tileinka sér góð siðferðisgildi?
Gefðu skýr skilaboð.
Finnst þér að kynlíf eigi aðeins heima innan hjónabandsins? Ef svo er skaltu segja unglingnum það oft og tæpitungulaust. Í bókinni Beyond the Big Talk kemur fram að rannsóknir sýni að það séu meiri líkur á að unglingar bíði með að hefja kynlíf ef foreldrar þeirra segjast vera mótfallnir kynmökum unglinga.
Eins og áður sagði er auðvitað ekki nóg fyrir þig að taka fram hvaða siðferðisgildi þú hefur til að tryggja að sonur þinn eða dóttir vilji tileinka sér þau. Samt sem áður eru skýr siðferðisgildi fjölskyldunnar góður grunnur sem börnin geta byggt skoðanir sínar á. Kannanir hafa líka leitt í ljós að margir unglingar tileinka sér með tímanum sömu siðferðisgildi og foreldrar þeirra, jafnvel þótt þau virðast hafa lagt þau til hliðar á unglingsárunum.
PRÓFIÐ ÞETTA: Notaðu nýlega frétt til að hefja samræður og láta í ljós afstöðu þína í siðferðismálum. Þú gætir til dæmis sagt í tengslum við frétt af kynferðisglæp: „Mér blöskrar hvað sumir karlmenn fara illa með konur. Hvar heldurðu að þeir fái svona hugmyndir?“
Kenndu börnunum að hafa rétt viðhorf til kynlífs.
Vissulega eru viðvaranir nauðsynlegar. (1. Korintubréf 6:18; Jakobsbréfið 1:14, 15) Í Biblíunni er hins vegar fyrst og fremst fjallað um kynlíf sem gjöf frá Guði en ekki snöru Satans. (Orðskviðirnir 5:18, 19; Ljóðaljóðin 1:2) Ef þú segir unglingunum aðeins frá hættunum geta þeir fengið bjagaða og óbiblíulega mynd af kynlífi. Corrina, sem er ung kona í Frakklandi, segir: „Foreldrar mínir töluðu mikið um hvað kynferðislegt siðleysi væri slæmt, það varð til þess að ég hafði neikvætt viðhorf til kynlífs.“
Vertu viss um að börnin þín fái rétt viðhorf til kynlífs. Móðir í Mexíkó, sem heitir Nadia, segir: „Ég hef alltaf reynt að láta unglingana skilja að kynlíf sé eðlilegt og fallegt. Það er gjöf frá Jehóva Guði og á að veita fólki ánægju. En það á aðeins rétt á sér innan hjónabandsins. Það getur veitt hamingju eða valdið þjáningum, allt eftir því hvernig við förum með þessa gjöf.“
PRÓFIÐ ÞETTA: Næst þegar þú ræðir við son þinn eða dóttur á unglingsaldri um kynlíf skaltu enda samræðurnar á jákvæðum nótum. Ekki vera feiminn við að tala um kynlíf sem gjöf frá Guði sem unglingurinn getur notið í hjónabandi síðar meir. Sýndu að þú treystir því að sonur þinn eða dóttir geti fylgt siðferðisreglum Guðs þangað til.
Hjálpaðu unglingnum að gera sér grein fyrir afleiðingunum.
Til að geta tekið farsælar ákvarðanir á hvaða sviði sem er, þurfa unglingar að læra að átta sig á hvaða valkostir eru í stöðunni og vega síðan og meta hvað mælir með og hvað á móti hverjum valkosti. Ekki halda að það sé nóg að þeir viti hvað sé rétt og hvað rangt. Emma, sem er kristin kona í Ástralíu, sagði: „Þegar ég íhuga þau mistök sem ég gerði í æsku get ég ekki annað sagt en að það er eitt að þekkja siðferðisreglur Guðs og annað að vera sammála þeim. Það er nauðsynlegt að vita hvaða kosti það hefur að fara eftir þeim og hvaða afleiðingar það hefur að brjóta í bága við þær.“
Biblían getur komið að miklu gagni því að gildi margra boða hennar eru undirstrikuð með því að sýna fram á afleiðingar rangrar hegðunar. Sem dæmi má nefna að í Orðskviðunum 5:8, 9, er brýnt fyrir ungum manni að forðast hórdóm ,svo að hann gefi ekki öðrum æskublóma sinn‘. (Biblían 1981) Eins og fram kemur í þessum versum fórna þeir sem stunda kynlíf fyrir hjónaband hluta af siðferðisstyrk sínum, heiðarleika og sjálfsvirðingu. Og þar af leiðandi verða þeir ekki nærri eins aðlaðandi í augum hugsanlegs maka sem hefur sjálfur slíka kosti til að bera. Það getur orðið unglingum hvatning til að lifa samkvæmt lögum Guðs að íhuga hvernig brot á þeim getur valdið líkamlegum og tilfinningalegum skaða og eyðilagt sambandið við Guð.c
PRÓFIÐ ÞETTA: Notaðu líkingar til að hjálpa unglingnum að sjá hvað það er skynsamlegt að fara eftir siðferðisreglum Guðs. Þú gætir til dæmis sagt: „Varðeldur er gleðigjafi en skógareldur veldur skaða. Hver er munurinn á þessu tvennu og hvernig tengist svar þitt þeim takmörkunum sem Guð hefur sett varðandi kynlíf?“ Notaðu frásöguna í Orðskviðunum 5:3-14 til að hjálpa unglingnum að skilja hvað hórdómur getur haft alvarlegar afleiðingar.
Takao er 18 ára og býr í Japan. Hann segir: „Ég veit að ég ætti að gera það sem er rétt, en ég á í stöðugri baráttu við langanir holdsins.“ Unglingar geta huggað sig við það að þeir eru ekki einir á báti ef þeim er þannig innan brjósts. Páll postuli, sem var trúfastur kristinn maður, sagði meira að segja: „Þótt ég vilji gera hið góða er hið illa mér tamast.“ — Rómverjabréfið 7:21.
Það er gott fyrir unglinga að átta sig á því að slík barátta er ekki alltaf slæm. Hún getur orðið til þess að þeir íhugi hvers konar einstaklingar þá langi til að verða og velti fyrir sér eftirfarandi spurningum: Vil ég hafa stjórn á lífi mínu og vera þekktur fyrir gott siðgæði og ráðvendni, eða vil ég vera þekktur fyrir að fylgja straumnum og láta allt eftir mér? Unglingur með góða siðferðiskennd fer létt með að svara þessari spurningu skynsamlega.
a Sumum nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.
b Tillögur um hvernig hægt er að hefja samræður við börnin um kynlíf og veita fræðslu sem hæfir aldri þeirra má finna í Varðturninum janúar-mars 2011, bls. 12-14.
c Frekari upplýsingar er að finna í greininni „Ungt fólk spyr . . . Mun kynlíf styrkja sambandið?“ í Vaknið! júlí-september 2010 sem Vottar Jehóva gefa út.
SPYRÐU ÞIG . . .
Hvernig get ég séð hvort unglingurinn hafi sterka siðferðiskennd?
Þegar ég tala við unglinginn um kynlíf, fjalla ég þá um það sem gjöf frá Guði eða að snöru Satans?