Fórnir sem voru Guði þóknanlegar
„Sérhver æðsti prestur er skipaður til þess að bera fram bæði gjafir og fórnir.“ — HEBREABRÉFIÐ 8:3.
1. Af hverju finnur fólk þörf hjá sér fyrir að leita til Guðs?
„ÞAÐ virðist vera manninum ‚jafneðlislægt‘ að færa fórnir og að biðja; sá er fórnar gefur til kynna hvað honum finnst um sjálfan sig en sá er biður hvað honum finnst um Guð,“ skrifar sagnfræðingurinn Alfred Edersheim. Frá því að syndin kom inn í heiminn hefur fylgt henni sektarsársauki, bjargarleysi og viðskilnaður við Guð. Fólk þráir lausn og það er skiljanlegt að það finni hjá sér þörf fyrir að leita hjálpar Guðs í þessum hremmingum. — Rómverjabréfið 5:12.
2. Hvaða frásögur finnum við snemma í biblíusögunni um fórnir til Guðs?
2 Biblían minnist fyrst á fórnir til Guðs í sambandi við Kain og Abel. Við lesum: „Er fram liðu stundir, færði Kain [Jehóva] fórn af ávexti jarðarinnar. En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra.“ (1. Mósebók 4:3, 4) Næst er greint frá því að Nói hafi ‚fórnað Jehóva brennifórn á altari‘ eftir að honum var bjargað úr flóðinu mikla er afmáði hina óguðlegu kynslóð þess tíma. (1. Mósebók 8:20) Abraham, trúfastur þjónn og vinur Jehóva, hreifst svo af fyrirheitum hans og blessun að hann reisti honum oftar en einu sinni „altari og ákallaði nafn [Jehóva].“ (1. Mósebók 12:8; 13:3, 4, 18) Síðar stóð hann frammi fyrir mestu trúarprófraun sinni þegar Jehóva bað hann um að fórnfæra Ísak, syni sínum. (1. Mósebók 22:1-14) Þessar stuttu frásögur segja margt um fórnir eins og við sjáum hér á eftir.
3. Hvaða hlutverki gegna fórnir í tilbeiðslu?
3 Þessar og aðrar biblíufrásögur sýna glöggt að fórnfæringar í einhverri mynd voru snar þáttur í tilbeiðslu löngu áður en Jehóva gaf ákveðin lög þar að lútandi. Alfræðibók skilgreinir sögnina „að fórna“ þannig: „Helgiathöfn sem er fólgin í því að færa guðdómi eitthvað til að koma á, viðhalda eða endurheimta vinsamlegt samband mannsins við hið heilaga.“ Þetta vekur nokkrar spurningar sem mikilvægt er að íhuga vandlega: Hvers vegna er fórnar þörf í tilbeiðslu? Hvers konar fórnir eru Guði þóknanlegar? Og hvaða þýðingu hafa fórnir fortíðar fyrir okkur nú á tímum?
Hvers vegna er fórnar þörf?
4. Hvernig fór fyrir Adam og Evu þegar þau syndguðu?
4 Synd Adams var viljaverk. Hann óhlýðnaðist vitandi vits þegar hann át af skilningstré góðs og ills. Refsingin fyrir óhlýðnina var dauði eins og Guð hafði greinilega sagt: „Jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:17) Um síðir uppskáru Adam og Eva syndarlaunin og dóu. — 1. Mósebók 3:19; 5:3-5.
5. Hvers vegna tók Jehóva frumkvæðið í sambandi við afkomendur Adams og hvað gerði hann fyrir þá?
5 En hvað um afkomendur Adams? Þeir voru fjarlægir Guði af því að þeir höfðu erft synd og ófullkomleika frá Adam og voru undirorpnir vonleysi og dauða líkt og fyrstu mannhjónin. (Rómverjabréfið 5:14) En Jehóva er ekki bara Guð réttlætis og máttar heldur einnig — og reyndar fyrst og fremst — Guð kærleikans. (1. Jóhannesarbréf 4:8, 16) Þess vegna á hann frumkvæðið að sáttum. „Laun syndarinnar er dauði,“ segir Biblían og bætir við: „En náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ — Rómverjabréfið 6:23.
6. Hvað ætlast Jehóva fyrir í sambandi við skaðann sem synd Adams olli?
6 Náðargjöf Jehóva var að láta í té það sem þurfti til að bæta upp tjónið af völdum syndar Adams. Hebreska orðið kafarʹ merkti líklega í fyrstu „að hylja“ eða ef til vill „að þurrka út,“ og er einnig þýtt „að friðþægja.“a Með öðrum orðum sá Jehóva fyrir viðeigandi leið til að hylja erfðasynd Adams og þurrka út skaðann af völdum hennar svo að þeir sem gjöfina fengju gætu losnað undan fordæmingu syndar og dauða. — Rómverjabréfið 8:21.
7. (a) Hvaða von kveikti dómur Guðs yfir Satan? (b) Hvaða gjald þurfti að greiða fyrir frelsun mannkyns undan synd og dauða?
7 Strax eftir að fyrstu mannhjónin syndguðu var gefið í skyn að hægt yrði að losna úr ánauð syndar og dauða. Jehóva sagði er hann dæmdi Satan sem höggormurinn táknaði: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:15) Þessi spádómlegu orð voru eins og vonargeisli öllum er trúa myndu á fyrirheitið. En frelsunin yrði dýru verði keypt. Hið fyrirheitna sæði kæmi ekki bara og tortímdi Satan; það skyldi fá hælmar, það er að segja deyja, en þó ekki fyrir fullt og allt.
8. (a) Hvernig olli Kain vonbrigðum? (b) Hvers vegna var fórn Abels Guði þóknanleg?
8 Adam og Eva hafa eflaust velt vöngum yfir því hver yrði fyrirheitna sæðið. Þegar Eva fæddi frumburðinn Kain sagði hún: „Sveinbarn hefi ég eignast með hjálp [Jehóva].“ (1. Mósebók 4:1) Hélt hún kannski að hann yrði sæðið? Hvort sem sú var raunin eða ekki olli Kain vonbrigðum og fórn hans líka. Abel, bróðir hans, sýndi hins vegar trú á fyrirheit Guðs og færði honum fórn af frumburðum hjarðarinnar. Við lesum: „Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur.“ — Hebreabréfið 11:4.
9. (a) Á hvað trúði Abel og hvernig sýndi hann það? (b) Hverju áorkaði fórn Abels?
9 Abel trúði ekki bara á tilvist Guðs eins og Kain hlýtur að hafa gert. Hann trúði á fyrirheit Guðs um sæði sem myndi opna trúföstum mönnum hjálpræðisleið. Honum var ekki opinberað hvernig það skyldi eiga sér stað en fyrirheit Guðs vakti hann til vitundar um að einhver fengi hælmar. Hann virðist hafa gert sér grein fyrir því að úthella þyrfti blóði — að færa þyrfti fórn. Hann færði lífgjafanum fórnargjöf í mynd lífs og blóðs, hugsanlega til merkis um þá innilegu löngun sína að sjá fyrirheit Jehóva rætast. Þessi trúartjáning gerði að verkum að fórn Abels var Guði þóknanleg og hún sýndi í raun hvað fórnir eru — leið fyrir synduga menn til að nálgast Guð og öðlast velþóknun hans. — 1. Mósebók 4:4; Hebreabréfið 11:1, 6.
10. Hvernig kom merkingin að baki fórnum skýrt í ljós þegar Jehóva bað Abraham að fórna Ísak?
10 Hin djúpstæða merking að baki fórnum kom skýrt fram þegar Jehóva skipaði Abraham að færa soninn Ísak að brennifórn. Þótt fórnin hafi ekki verið færð þegar til kastanna kom var hún táknmynd um það sem Jehóva ætlaði sjálfur að gera síðar — að færa eingetinn son sinn að mestu fórn allra tíma til að ná fram vilja sínum með mannkynið. (Jóhannes 3:16) Fórnir og fórnargjafir Móselögmálsins voru spádómlegar fyrirmyndir sem Jehóva gaf útvaldri þjóð sinni til að kenna henni hvað hún þyrfti að gera til að fá syndafyrirgefningu og treysta hjálpræðisvon sína. Hvaða lærdóm getum við dregið af þeim?
Guði þóknanlegar fórnir
11. Í hvaða tvo flokka mátti skipta því sem æðstiprestur Ísraels bar fram og í hvaða tilgangi?
11 „Sérhver æðsti prestur er skipaður til þess að bera fram bæði gjafir og fórnir,“ segir Páll postuli. (Hebreabréfið 8:3) Taktu eftir að Páll skiptir því sem æðstiprestur Forn-Ísraels bar fram í tvo flokka, það er að segja í „gjafir“ og „fórnir“ eða „fórnir fyrir syndir.“ (Hebreabréfið 5:1) Fólk gefur gjarnan gjafir til að tjá væntumþykju sína og þakklæti, og líka til að rækta vináttubönd, ávinna sér hylli eða afla sér viðurkenningar. (1. Mósebók 32:20; Orðskviðirnir 18:16) Á sama hátt má líta á margar fórnir undir lögmálinu sem „gjafir“ til Guðs til að afla sér viðurkenningar hans og hylli.b Brot gegn lögmálinu kölluðu á bætur í mynd ‚fórna fyrir syndir.‘ Í Mósebókunum, einkanlega í 2., 3. og 4. Mósebók, er fjallað ítarlega um mismunandi fórnir og fórnargjafir. Það er ekki hlaupið að því að meðtaka allt saman og muna eftir öllum smáatriðunum, en fáein lykilatriði varðandi hinar ólíku gerðir fórna verðskulda athygli okkar.
12. Hvar í Biblíunni finnum við yfirlit yfir fórnir eða fórnargjafir lögmálsins?
12 Í 1. til 7. kafla 3. Mósebókar eru nefndar fimm gerðir fórnargjafa — brennifórnir, matfórnir, heillafórnir, syndafórnir og sektarfórnir — og þeim er lýst hverri fyrir sig enda þótt sumar hafi verið bornar fram samtímis. Fórnargjöfunum er tvívegis lýst í þessum köflum en í ólíkum tilgangi: annars vegar í 3. Mósebók 1:2 til 6:7 þar sem greint er frá því hverju átti að fórna á altarinu, og hins vegar í 3. Mósebók 6:8 til 7:36 til að sýna hvaða hluta fórnardýrsins átti að taka frá handa prestunum og fórnfærandanum. Í 28. og 29. kafla 4. Mósebókar er síðan að finna ítarlega tímaáætlun um hvaða fórnir skyldi færa daglega, vikulega, mánaðarlega og á hinum árlegu hátíðum.
13. Lýstu sjálfviljafórnum til Guðs.
13 Brennifórnir, matfórnir og heillafórnir voru meðal sjálfviljafórna sem færa mátti til að nálgast Guð og öðlast velþóknun hans. Sumir fræðimenn telja að hebreska orðið, sem þýtt er „brennifórn,“ merki „stígandi fórn“ eða „fórn sem stígur upp.“ Það á vel við því að þegar fórnardýr var brennt á altarinu steig sætur eða þægilegur ilmur upp til Guðs. Það var einkennandi fyrir brennifórnina að eftir að blóðinu hafði verið stökkt utan á altarið var skepnan færð Guði að fórn í heilu lagi. Prestarnir ‚brenndu hana alla á altarinu til brennifórnar, eldfórnar þægilegs ilms fyrir Jehóva.‘ — 3. Mósebók 1:3, 4, 9; 1. Mósebók 8:21.
14. Hvernig var matfórn borin fram?
14 Matfórninni er lýst í 2. kafla 3. Mósebókar. Hún var sjálfviljafórn úr fínu mjöli, yfirleitt vætt með olíu og reykelsiskvoðu bætt við. „Presturinn skal taka af því hnefafylli sína, af fína mjölinu og af olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, og brenna það á altarinu sem ilmhluta fórnarinnar, sem eldfórn þægilegs ilms fyrir [Jehóva].“ (3. Mósebók 2:2) Reykelsiskvoðan var meðal hráefna í hinu heilaga ilmreykelsi sem brann á reykelsisaltarinu í tjaldbúðinni og musterinu. (2. Mósebók 30:34-36) Davíð konungur hafði þetta greinilega í huga þegar hann sagði að ‚bæn sín væri fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit Guðs, upplyfting handa sinna sem kvöldfórn.‘ — Sálmur 141:2.
15. Hvaða tilgangi þjónaði heillafórnin?
15 Heillafórnin var önnur gerð sjálfviljafórnar og er lýst í 3. kafla 3. Mósebókar. Nafnið má einnig þýða „friðarfórn,“ en „friður“ á hebresku merkir annað og meira en að vera laus við stríð og ónæði. „Í Biblíunni hefur [orðið] þessa merkingu og jafnframt frið við Guð, velmegun, gleði og hamingju,“ að sögn bókarinnar Studies in the Mosaic Institutions. Heillafórnir voru því ekki færðar til að friðmælast við Guð eða til að blíðka hann, heldur til að þakka fyrir og fagna þeim blessunarríka friði við hann sem velþóknanlegir menn nutu. Prestarnir og fórnfærandinn neyttu fórnarinnar eftir að blóðið og fitan hafði verið færð Jehóva. (3. Mósebók 3:17; 7:16-21; 19:5-8) Í óeiginlegri merkingu mötuðust fórnfærandinn, prestarnir og Jehóva Guð saman til tákns um friðsamlegt samband á milli þeirra.
16. (a) Hver var tilgangur synda- og sektarfórnar? (b) Hver var munurinn á þeim og brennifórn?
16 Fórnir voru færðar til að leita syndafyrirgefningar og til að friðþægja fyrir brot gegn lögmálinu. Í þeim hópi voru synda- og sektarfórnir. Þær voru ólíkar brennifórnum að því leyti að eingöngu fitan og vissir hlutar skepnunnar voru færðir Guði að fórn en ekki öll skepnan. Farið var með það sem afgangs var út fyrir búðirnar og því eytt en stundum máttu prestarnir neyta þess. Þessi munur er þýðingarmikill. Brennifórnin var færð Guði að gjöf til að geta nálgast hann og var þess vegna færð honum einum og í heilu lagi. Athyglisvert er að synda- eða sektarfórn var yfirleitt færð á undan brennifórn sem gefur til kynna að syndafyrirgefning var nauðsynleg til að gjöf syndarans væri Guði þóknanleg. — 3. Mósebók 8:14, 18; 9:2, 3; 16:3, 5.
17, 18. Fyrir hvað var færð syndafórn og hver var tilgangur sektarfórnar?
17 Syndafórnin var aðeins fyrir óviljasyndir gegn lögmálinu, synd vegna veikleika holdsins. Ef ‚einhver syndgaði af vangá í einhverju því sem Jehóva hafði bannað að gera‘ skyldi hann færa syndafórn í samræmi við samfélagsstöðu sína. (3. Mósebók 4:2, 3, 22, 27) Iðrunarlausir syndarar voru hins vegar líflátnir; fyrir þá var enga fórn að fá. — 2. Mósebók 21:12-15; 3. Mósebók 17:10; 20:2, 6, 10; 4. Mósebók 15:30; Hebreabréfið 2:2.
18 Merking og tilgangur sektarfórna kemur skýrt fram í 5. og 6. kafla 3. Mósebókar. Einhver gat hafa syndgað óviljandi en bakað sér sekt með því að brjóta gegn rétti náungans eða Jehóva Guðs og því varð að bæta fyrir hið ranga. Minnst er á nokkra syndaflokka. Sumar syndir voru persónulegs eðlis (5:2-6), sumar tengdust því sem ‚helgað var Jehóva‘ (5:14-16) og aðrar stöfuðu af röngum löngunum eða veikleikum holdsins og voru ekki með öllu óafvitandi (6:1-3). Hinn brotlegi átti að játa slíkar syndir og bæta fyrir þær þegar það átti við og færa síðan Jehóva sektarfórn. — 3. Mósebók 6:4-7.
Betra í vændum
19. Af hverju áunnu Ísraelsmenn sér ekki hylli Guðs þrátt fyrir að þeir hefðu lögmálið og fórnirnar?
19 Ísraelsmenn fengu Móselögmálið með öllum fórnum sínum og fórnargjöfum til að þeir gætu nálgast Guð og haft hylli hans og blessun uns fyrirheitna sæðið kæmi. Páll postuli, sem var sjálfur Gyðingur, kemst svo að orði: „Þannig hefur lögmálið orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom, til þess að vér réttlættumst af trú.“ (Galatabréfið 3:24) Því miður þáðu Ísraelsmenn ekki handleiðsluna heldur misnotuðu sérréttindi sín. Fyrir vikið urðu hinar mörgu fórnir þeirra viðbjóðslegar í augum Jehóva. „Hvað skulu mér yðar mörgu sláturfórnir?“ sagði hann. „Ég er orðinn saddur á hrútabrennifórnum og alikálfafeiti, og í uxa-, lamba- og hafrablóð langar mig ekki.“ — Jesaja 1:11.
20. Hvað gerðist árið 70 í sambandi við lögmálið og fórnirnar?
20 Árið 70 leið gyðingakerfið undir lok ásamt musterinu og prestastéttinni. Eftir það var ekki hægt að færa fórnir eins og lögmálið kvað á um. Þýðir þetta að fórnirnar hafi glatað allri merkingu fyrir guðsdýrkendur nú á tímum enda þótt þær hafi verið veigamikill þáttur í lögmálinu? Það er umfjöllunarefni næstu greinar.
[Neðanmáls]
a Biblíualfræðibókin Insight on the Scriptures, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., segir: „Meginhugsun orðsins ‚friðþæging‘ í Biblíunni er sú að ‚hylja‘ eða ‚skipta,‘ og það sem notað er í skiptum fyrir annað eða til að ‚hylja‘ það þarf að vera jafngildi þess. . . . Til að syndafórn væri fullnægjandi friðþæging fyrir það sem Adam fyrirgerði þyrfti hún að samsvara nákvæmlega fullkomnu mannslífi.“
b Hebreska orðið korbanʹ er oft þýtt „fórnargjöf.“ Þegar Markús greinir frá fordæmingu Jesú á skammarlegri venju fræðimanna og farísea útskýrir hann að „korban“ merki „gjöf helguð Guði.“ — Markús 7:11, NW.
Geturðu svarað?
• Hvað fékk trúfasta menn fortíðar til að færa Jehóva fórnir?
• Hvers vegna var þörf á fórnum?
• Hvaða fórnir voru aðallega bornar fram samkvæmt lögmálinu og hver var tilgangur þeirra?
• Hvaða megintilgangi þjónaði lögmálið og fórnirnar að sögn Páls?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Fórn Abels var Jehóva þóknanleg af því að hún endurspeglaði trú á fyrirheit hans.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Skilurðu þýðingu þess sem myndin sýnir?