Hverjir verða reistir upp?
„Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ — JÓHANNES 5:28, 29.
1. Hvaða merkilegu yfirlýsingu heyrði Móse úr logandi þyrnirunnanum og hver endurtók þessi orð seinna meir?
ÓVENJULEGUR atburður átti sér stað fyrir meira en 3500 árum. Móse var að gæta sauða ættföðurins Jetrós. Í grennd við Hórebfjall birtist engill Jehóva honum í logandi þyrnirunna. „Er hann gætti að, sá hann, að þyrnirunninn stóð í ljósum loga, en brann ekki,“ segir í 2. Mósebók. Síðan var kallað á hann innan úr þyrnirunnanum: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“ (2. Mósebók 3:1-6) Enginn annar en sonur Guðs, Jesús, endurtók þessi orð á fyrstu öldinni.
2, 3. (a) Hvaða von hafa Abraham, Ísak og Jakob? (b) Hvaða spurningar vakna?
2 Jesús átti í samræðum við nokkra Saddúkea en þeir trúðu ekki á upprisuna. Hann sagði: „Að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn, er hann kallar ‚Drottin Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.‘ Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir.“ (Lúkas 20:27, 37, 38) Með þessum orðum var Jesús að staðfesta að Abraham, Ísak og Jakob væru enn lifandi í minni Guðs þótt þeir væru löngu látnir. Líkt og Job bíða þeir þess að „herþjónustu“ sinni, það er að segja dauðasvefni, ljúki. (Jobsbók 14:14) Þeir verða reistir upp í nýjum heimi Guðs.
3 En hvað um alla þá milljarða manna sem hafa dáið í aldanna rás? Fá þeir líka upprisu? Áður en við getum fengið viðunandi svar við þessari spurningu skulum við athuga hvað gerist við dauðann samkvæmt orði Guðs.
Hvað gerist við dauðann?
4. (a) Hvað verður um fólk þegar það deyr? (b) Hvað er séol?
4 Í Biblíunni er tekið fram að hinir dánu „vita ekki neitt“. Þegar menn deyja kveljast þeir hvorki í logandi helvíti né bíða í örvæntingu í forgarði þess heldur verða þeir einfaldlega aftur að mold. Orð Guðs ráðleggur því mönnum: „Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ (Prédikarinn 9:5, 10; 1. Mósebók 3:19) Orðið ,dánarheimar‘ er þýðing hebreska orðsins séol en uppruni þess er óviss. Það er einnig þýtt ,Hel‘ og ,undirheimar‘ í íslensku biblíunni. Mörg trúarbrögð kenna að hinir dánu séu lifandi en eins og innblásið orð Guðs sýnir fram á eru þeir sem eru í séol dánir og án meðvitundar. Séol er sameiginleg gröf mannkyns.
5, 6. Hvað varð um Jakob þegar hann dó og hjá hverjum var hann grafinn?
5 Orðið séol kemur í fyrsta sinn fyrir í Biblíunni í 1. Mósebók 37:35. Þegar svo leit út fyrir að ættfaðirinn Jakob væri búinn að missa son sinn Jósef, sem hann elskaði svo heitt, vildi hann ekki láta huggast og sagði: „Með harmi mun ég niður stíga til sonar míns til heljar [séol].“ Jakob hélt að sonur sinn væri dáinn og óskaði þess að deyja og vera í Helju. Seinna vildu níu af eldri sonum Jakobs taka Benjamín, yngsta soninn, með sér til Egyptalands svo að þeir gætu fengið mat í hallærinu. En Jakob neitaði og sagði: „Ekki skal sonur minn fara með yður, því að bróðir hans er dáinn og hann er einn eftir, og verði hann fyrir slysi á þeirri leið, sem þér farið, þá leiðið þér hærur mínar með harmi niður til heljar.“ (1. Mósebók 42:36, 38) Þessi tvö dæmi tengja Hel við dauða en ekki einhvers konar framhaldslíf.
6 Sagt er frá því í 1. Mósebók að Jósef hafi verið orðinn matvælaráðherra Egyptalands. Þar af leiðandi gat Jakob ferðast þangað og átt gleðilega endurfundi með Jósef. Eftir það bjó Jakob í því landi þangað til hann dó 147 ára að aldri. Synir hans grófu hann í Makpelahelli í Kanaanlandi eins og hann hafði beðið um á dánarbeðinu. (1. Mósebók 47:28; 49:29-31; 50:12, 13) Jakob var því grafinn hjá Ísak, föður sínum, og Abraham, afa sínum.
,Þeir söfnuðust til feðra sinna‘
7, 8. (a) Hvað varð um Abraham þegar hann dó? Skýrðu svarið. (b) Hvað sýnir að aðrir fóru líka til Heljar þegar þeir dóu?
7 Þegar Jehóva staðfesti nokkru áður sáttmála sinn við Abraham og lofaði að afkomendur hans yrðu margir gaf hann til kynna hvað yrði um Abraham. Jehóva sagði: „En þú skalt fara í friði til feðra þinna, þú skalt verða jarðaður í góðri elli.“ (1. Mósebók 15:15) Þetta er einmitt það sem gerðist. Sagt er í 1. Mósebók 25:8: „Abraham andaðist og dó í góðri elli, gamall og saddur lífdaga, og safnaðist til síns fólks.“ Hvaða fólk var þetta? Í 1. Mósebók 11:10-26 er ættartala hans rakin allt aftur til Sems, sonar Nóa. Þegar Abraham dó safnaðist hann því til þessa fólks sem svaf dauðasvefni í Helju.
8 Orðlagið „safnaðist til síns fólks“ kemur oft fyrir í Hebresku ritningunum. Það er því rökrétt að álykta að Ísmael, sonur Abrahams, og Aron, bróðir Móse, hafi báðir farið til Heljar þegar þeir dóu og bíði þess að verða reistir upp. (1. Mósebók 25:17; 4. Mósebók 20:23-29) Móse fór líka til Heljar þó að enginn vissi hvar gröf hans væri. (4. Mósebók 27:13; 5. Mósebók 34:5, 6) Jósúa, sem varð leiðtogi Ísraelsmanna á eftir Móse, fór til Heljar þegar hann dó, ásamt heilli kynslóð. — Dómarabókin 2:8-10.
9. (a) Hvernig sýnir Biblían fram á að hebreska orðið séol og gríska orðið hades merkja hið sama? (b) Hvaða von hafa þeir sem eru í séol eða hades?
9 Nokkrum öldum síðar varð Davíð konungur yfir tólf ættkvíslum Ísraels. Þegar hann dó ,lagðist hann til hvíldar hjá feðrum sínum‘. (1. Konungabók 2:10) Fór hann líka til Heljar? Á hvítasunnudag árið 33 vísaði Pétur postuli til dauða Davíðs og vitnaði í Sálm 16:10: „Þú ofurselur Helju eigi líf mitt.“ Eftir að Pétur hafði bent á að Davíð væri enn í gröfinni heimfærði hann þessi orð upp á Jesú og sagði: „[Davíð sá fyrir] upprisu Krists og sagði: Ekki varð hann eftir skilinn í helju [hades], og ekki varð líkami hans rotnun að bráð. Þennan Jesú reisti Guð upp, og erum vér allir vottar þess.“ (Postulasagan 2:29-32) Pétur notaði hér gríska orðið hades sem samsvarar hebreska orðinu séol. Þeir sem sagðir eru vera í hades eru því í sama ástandi og þeir sem sagðir eru vera í séol. Þeir eru sofandi og bíða þess að verða reistir upp.
Eru óréttlátir í Helju?
10, 11. Hvers vegna er hægt að segja að sumir óréttlátir menn fari til Heljar þegar þeir deyja?
10 Eftir að Móse hafði leitt Ísraelsþjóðina út úr Egyptalandi var gerð uppreisn í eyðimörkinni. Móse sagði fólkinu að aðgreina sig frá forsprökkunum, þeim Kóra, Datan og Abíram. Þeir myndu hljóta voveiflegan dauðdaga. Móse sagði: „Ef þessir menn deyja á sama hátt og allir menn eru vanir að deyja, og verði þeir fyrir hinu sama, sem allir menn verða fyrir, þá hefir Drottinn ekki sent mig. En ef Drottinn gjörir nýjan hlut og jörðin lýkur upp munni sínum og svelgir þá og allt, sem þeir eiga, svo að þeir fara lifandi niður til Heljar, þá megið þér af því marka, að þessir menn hafa smáð Drottin.“ (4. Mósebók 16:29, 30) Sumir þessara uppreisnarmanna dóu þegar jörðin opnaðist og svelgdi þá en aðrir þegar eldur gekk út og eyddi þeim eins og var með Kóra og 250 levíta sem stóðu með honum. Allir þessir uppreisnarmenn fóru til Heljar. — 4. Mósebók 26:10.
11 Símeí, sem hafði formælt Davíð konungi, var refsað af Salómon, eftirmanni Davíðs. „Þú skalt eigi láta honum óhegnt,“ sagði Davíð, „því að þú ert maður vitur og munt vita, hvað þú átt að gjöra við hann, til þess að þú getir sent hærur hans blóðugar til Heljar.“ Salómon lét Benaja framfylgja dóminum. (1. Konungabók 2:8, 9, 44-46) Benaja tók líka Jóab af lífi en hann var fyrrverandi herforingi í Ísrael. Hærur hans fóru ekki „til Heljar í friði“. (1. Konungabók 2:5, 6, 28-34) Bæði þessi dæmi eru til vitnis um sannleiksgildi þess sem Davíð var innblásið að syngja: „Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.“ — Sálmur 9:18.
12. Hver var Akítófel og hvað varð um hann þegar hann dó?
12 Akítófel var einkaráðgjafi Davíðs. Ráð hans voru svo mikils metin að litið var á þau eins og ráð frá Jehóva. (2. Samúelsbók 16:23) Því miður gerðist þessi virti þjónn svikari og tók þátt í uppreisn sem Absalon, sonur Davíðs, stýrði. Davíð vísaði greinilega til þessara svika þegar hann skrifaði: „Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig — það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig — fyrir honum gæti ég farið í felur.“ Davíð hélt áfram: „Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.“ (Sálmur 55:13-16) Akítófel og félagar hans fóru til Heljar þegar þeir dóu.
Hverjir eru í Gehenna?
13. Hvers vegna er Júdas kallaður „sonur glötunarinnar“?
13 Berðu saman það sem henti Davíð og það sem Jesús, hinn meiri Davíð, upplifði. Einn af tólf postulum Krists, Júdas Ískaríot, gerðist svikari líkt og Akítófel. Svik Júdasar voru mun alvarlegri en svik Akítófels. Júdas sveik eingetinn son Guðs. Þegar jarðneskri þjónustu Jesú var í þann mund að ljúka sagði hann um fylgjendur sína í bæn: „Meðan ég var hjá þeim, varðveitti ég þá í nafni þínu, sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra, og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar, svo að ritningin rættist.“ (Jóhannes 17:12) Jesús talaði hér um Júdas sem ,son glötunarinnar‘ og gaf þá til kynna að þegar Júdas dæi hefði hann enga von um upprisu. Hann lifði ekki áfram í minni Guðs. Hann fór ekki til Heljar heldur Gehenna. Hvað er Gehenna?
14. Fyrir hvað stendur Gehenna?
14 Jesús fordæmdi trúarleiðtoga samtíðarinnar vegna þess að allir sem gerðust lærisveinar þeirra væru á leið í Gehenna. (Matteus 23:15, NW) Gehenna merkir Hinnomsdalur og fólk á þeim tíma þekkti vel til þessa staðar en hann var notaður sem ruslahaugur. Þangað var hent líkum glæpamanna sem teknir höfðu verið af lífi og voru taldir óverðugir þess að hljóta sómasamlega greftrun. Jesús hafði áður minnst á Gehenna í fjallræðunni. (Matteus 5:22, 29, Biblían 1912, neðanmáls) Táknræn merking þess var augljós áheyrendum hans. Gehenna stendur fyrir algera tortímingu, án vonar um upprisu. Hafa einhverjir aðrir en Júdas Ískaríot farið í Gehenna í stað séol eða hades þegar þeir dóu?
15, 16. Hverjir fóru í Gehenna þegar þeir dóu og hvers vegna fóru þeir þangað?
15 Fyrstu hjónin, Adam og Eva, voru sköpuð fullkomin. Þau syndguðu af ásettu ráði. Þeirra beið annaðhvort eilíft líf eða eilífur dauði. Þau óhlýðnuðust Guði og snerust á sveif með Satan. Þegar þau dóu höfðu þau enga möguleika á að njóta góðs af lausnarfórn Krists. Þau fóru í Gehenna.
16 Kain, frumburður Adams, myrti Abel, bróður sinn, og lifði sem flóttamaður eftir það. Jóhannes postuli talaði um að Kain hefði ,heyrt hinum vonda til‘. (1. Jóhannesarbréf 3:12) Það er rökrétt að álykta sem svo að hann hafi farið í Gehenna, líkt og foreldrar hans, þegar hann dó. (Matteus 23:33, 35) Staða hins réttláta Abels var hins vegar allt önnur. Páll sagði um hann: „Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur, er Guð bar vitni um fórn hans. Með trú sinni talar hann enn, þótt dauður sé.“ (Hebreabréfið 11:4) Já, Abel er í Helju og bíður þess að verða reistur upp.
„Fyrri“ og „betri“ upprisa
17. (a) Hverjir fara til Heljar núna á „tíð endalokanna“? (b) Hvað verður um þá sem eru í Helju og þá sem eru í Gehenna?
17 Mörgum sem lesa þetta verður hugsað til þeirra sem deyja á „tíð endalokanna“. (Daníel 8:19) Í 6. kafla Opinberunarbókarinnar er lýsing á fjórum reiðmönnum á endalokatímanum. Athyglisvert er að síðasti reiðmaðurinn heitir Dauði og Hel var í för með honum. Margir sem deyja ótímabærum dauða sökum reiðmannanna á undan fara því til Heljar þar sem þeir bíða upprisu í nýjum heimi Guðs. (Opinberunarbókin 6:8) Hvað verður um þá sem eru í Helju og þá sem eru í Gehenna? Í stuttu máli sagt fá þeir fyrrnefndu upprisu, þeir síðarnefndu eilífan dauða, tilveruleysi.
18. Hvaða von hafa þeir sem eiga hlut í „fyrri upprisunni“?
18 Jóhannes postuli skrifaði: „Sæll og heilagur er sá, sem á hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald, heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.“ Þeir sem verða meðstjórnendur Krists eiga hlut í „fyrri upprisunni“. En hvaða von hafa aðrir menn? — Opinberunarbókin 20:6.
19. Hvernig hljóta sumir „betri upprisu“?
19 Allt frá dögum Elía og Elísa, sem voru þjónar Guðs, hafa menn verið reistir upp frá dauðum. „Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna,“ sagði Páll. „Aðrir voru pyndaðir og þágu ekki lausn til þess að þeir öðluðust betri upprisu.“ Já, þessir trúföstu og ráðvöndu menn horfðu fram til upprisu sem myndi ekki aðeins veita þeim nokkur ár til viðbótar heldur von um eilíft líf. Það verður sannarlega ,betri upprisa‘. — Hebreabréfið 11:35.
20. Um hvað verður fjallað í næstu grein?
20 Ef við deyjum trúföst áður en Jehóva eyðir hinum illa heimi höfum við örugga von um „betri upprisu“, sem er betri í þeim skilningi að við höfum von um eilíft líf. Jesús lofaði: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Næsta grein fjallar nánar um markmiðið með upprisunni. Hún bendir okkur á hvernig upprisuvonin styrkir okkur í þeim ásetningi að vera ráðvönd og hjálpar okkur að vera fórnfús.
Manstu?
• Hvers vegna er Jehóva lýst sem Guði „lifenda“?
• Hvernig er ástatt fyrir þeim sem eru í Helju?
• Hverjar eru horfur þeirra sem eru í Gehenna?
• Hvernig hljóta sumir „betri upprisu“?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Þeir sem fara til Heljar hafa von um upprisu líkt og Abraham.
[Myndir á blaðsíðu 16]
Hvers vegna fóru Adam, Eva, Kain og Júdas Ískaríot í Gehenna?