Jehóva leiðir marga syni til dýrðar
„Því varð [Guð], er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis.“ — HEBREABRÉFIÐ 2:10.
1. Af hverju getum við verið viss um að fyrirætlun Jehóva með mannkynið verði að veruleika?
JEHÓVA skapaði jörðina sem eilífðarheimili fullkomins mannkyns. Mennirnir áttu að lifa að eilífu. (Prédikarinn 1:4; Jesaja 45:12, 18) Að vísu syndgaði Adam, forfaðir okkar, og arfleiddi afkomendur sína að synd og dauða. Fyrirætlun Guðs með mannkynið verður hins vegar að veruleika fyrir atbeina fyrirheitna sæðisins, Jesú Krists. (1. Mósebók 3:15; 22:18; Rómverjabréfið 5:12-21; Galatabréfið 3:16) Kærleikur til mannheimsins kom Jehóva til að gefa „son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Og kærleikur kom Jesú til að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) Þetta ‚lausnargjald‘ kaupir aftur þau réttindi og þær framtíðarhorfur, sem Adam fyrirgerði, og gerir eilíft líf mögulegt. — 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6; Jóhannes 17:3.
2. Hvernig var lausnarfórn Jesú táknuð á hinum árlega friðþægingardegi í Ísrael?
2 Á hinum árlega friðþægingardegi var táknað hvernig lausnarfórn Jesú yrði beitt. Á þeim degi fórnaði æðstiprestur Ísraels fyrst nauti í syndafórn og bar blóð þess fram fyrir sáttmálsörkina helgu í hinu allra helgasta í tjaldbúðinni og síðar í musterinu. Þetta gerði hann fyrir sjálfan sig, heimili sitt og ættkvísl Leví. Á sama hátt friðþægði Jesús Kristur fyrst fyrir syndir andlegra ‚bræðra‘ sinna þegar hann bar verðgildi blóðs síns fram fyrir Guð. (Hebreabréfið 2:12; 10:19-22; 3. Mósebók 16:6, 11-14) Á friðþægingardeginum fórnaði æðstipresturinn einnig geithafri í syndafórn og bar fram blóð hans í hinu allra helgasta. Þannig friðþægði hann fyrir syndir hinna ættkvíslanna 12 sem ekki tengdust prestastétt Ísraels. Eins mun æðstipresturinn Jesús Kristur nota lífsblóð sitt í þágu þeirra manna sem iðka trú og afmá syndir þeirra. — 3. Mósebók 16:15.
Leiddir til dýrðar
3. Hvað hefur Guð verið að gera í 1900 ár samkvæmt Hebreabréfinu 2:9, 10?
3 Í 1900 ár hefur Guð verið að gera óvenjulegan hlut í tengslum við ‚bræður‘ Jesú. Páll postuli skrifaði um það: „Vér sjáum, að Jesús, sem ‚skamma stund var gjörður englunum lægri,‘ er ‚krýndur vegsemd og heiðri‘ vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla. Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann [Jehóva Guð], er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis.“ (Hebreabréfið 2:9, 10) Það er Jesús Kristur sem leiðir menn til hjálpræðis en hann lærði fullkomna hlýðni af því sem hann leið er hann var maður á jörð. (Hebreabréfið 5:7-10) Hann var fyrstur getinn sem andlegur sonur Guðs.
4. Hvenær og hvernig var Jesús getinn sem andlegur sonur Guðs?
4 Jehóva notaði heilagan anda sinn eða starfskraft til að geta Jesú sem andlegan son sinn og leiða hann til himneskrar dýrðar. Jesús var einsamall með Jóhannesi skírara þegar hann skírðist niðurdýfingarskírn til tákns um að hann byði sig Guði. Frásögn Lúkasar segir: „Er allur lýðurinn lét skírast, var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gjörði bæn sína, að himinninn opnaðist, og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: ‚Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.‘“ (Lúkas 3:21, 22) Jóhannes sá heilagan anda koma yfir Jesú og heyrði Jehóva tjá velþóknun sína á ástkærum syni sínum. Það var þá sem Jehóva gat Jesú með heilögum anda, fyrstan hinna ‚mörgu sona er hann leiðir til dýrðar.‘
5. Hverjir hafa fyrstir notið góðs af fórn Jesú og hve margir eru þeir?
5 ‚Bræður‘ Jesú hafa fyrstir notið góðs af fórn hans. (Hebreabréfið 2:12-18) Jóhannes postuli sá þá í sýn þar sem þeir stóðu í dýrð á himnesku Síonfjalli ásamt lambinu, hinum upprisna Drottni Jesú Kristi. Jóhannes greindi líka frá fjölda þeirra og sagði: „Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér. . . . Þeir voru leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu. Og í munni þeirra var enga lygi að finna, þeir eru lýtalausir.“ (Opinberunarbókin 14:1-5) Hinir ‚mörgu synir, sem leiddir eru til dýrðar‘ á himnum, eru því alls 144.001 — það er að segja Jesús og andlegir bræður hans.
‚Fæddir af Guði‘
6, 7. Hverjir eru ‚fæddir af Guði‘ og hvað þýðir það fyrir þá?
6 Þeir sem getnir eru af Jehóva eru ‚fæddir af Guði.‘ Jóhannes postuli skrifar slíkum mönnum: „Hver sem af Guði er fæddur drýgir ekki synd, því að það, sem Guð hefur í hann sáð, varir í honum. Hann getur ekki syndgað, af því að hann er fæddur af Guði.“ (1. Jóhannesarbréf 3:9) Það sem „Guð hefur í hann sáð“ er heilagur andi. Ásamt orði Guðs hefur heilagur andi „endurfætt“ hvern og einn hinna 144.000 til himneskrar vonar. — 1. Pétursbréf 1:3-5, 23.
7 Jesús var jarðneskur sonur Guðs frá því að hann fæddist sem maður, alveg eins og hinn fullkomni Adam var ‚sonur Guðs.‘ (Lúkas 1:35; 3:38) En það var þýðingarmikið að Jehóva skyldi lýsa yfir eftir skírn Jesú: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“ (Markús 1:11) Þessi yfirlýsing ásamt úthellingu heilags anda upplýsti að Guð hefði þá leitt Jesú fram sem andlegan son sinn. Í óeiginlegri merkingu ‚endurfæddist‘ Jesús þá og öðlaðist rétt til að hljóta aftur líf sem andasonur Guðs á himnum. Líkt og hann eru 144.000 andlegir bræður hans ‚endurfæddir.‘ (Jóhannes 3:1-8; sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. nóvember 1992, bls. 3-6.) Og líkt og Jesús eru þeir smurðir af Guði og falið það verkefni að boða fagnaðarerindið. — Jesaja 61:1, 2; Lúkas 4:16-21; 1. Jóhannesarbréf 2:20.
Sönnun fyrir getnaði
8. (a) Hvaða sönnun fékk Jesús fyrir því að hann væri andagetinn? (b) Hvaða sönnun fengu fyrstu lærisveinar hans fyrir því að þeir væru andagetnir?
8 Það voru sannanir fyrir því að Jesús væri andagetinn. Jóhannes skírari sá andann koma yfir hann og heyrði Guð lýsa yfir því að hinn nýsmurði Messías væri andlegur sonur sinn. En hvernig áttu lærisveinar Jesú að vita að þeir væru andagetnir? Daginn sem Jesús steig upp til himna sagði hann: „Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga.“ (Postulasagan 1:5) Lærisveinar Jesú voru ‚skírðir með heilögum anda‘ á hvítasunnudeginum árið 33. Þessi úthelling heilags anda var samfara ‚gný af himni eins og aðdynjanda sterkviðris‘ og „tungur, eins og af eldi væru,“ settust á hvern einstakan lærisvein. Eftirtektarvert var að lærisveinarnir gátu ‚talað öðrum tungum eins og andinn gaf þeim að mæla.‘ Þannig mátti bæði sjá og heyra sönnun fyrir því að fylgjendum Krists hefði verði opnuð leið til himneskrar dýrðar sem synir Guðs. — Postulasagan 2:1-4, 14-21; Jóel 3:1, 2.
9. Hvað sannaði að Samverjar, Kornelíus og fleiri á fyrstu öld hefðu verið andagetnir?
9 Einhvern tíma síðar prédikaði Filippus trúboði í Samaríu. Samverjar tóku við boðskap hans og létu skírast en sáu engin merki þess að Guð hefði getið þá sem syni sína. Þegar postularnir Pétur og Jóhannes báðust fyrir og lögðu hendur yfir þá „fengu þeir heilagan anda“ á einhvern hátt sem aðrir sáu. (Postulasagan 8:4-25) Það sannaði að trúaðir Samverjar væru andagetnir sem synir Guðs. Árið 36 tóku Kornelíus og fleiri af þjóðunum við sannleika Guðs. Pétur og trúaðir Gyðingar, sem voru með honum, „urðu furðu lostnir, að heilögum anda, gjöf Guðs, skyldi einnig úthellt yfir heiðingjana, því þeir heyrðu þá tala tungum og mikla Guð.“ (Postulasagan 10:44-48) Margir kristnir menn á fyrstu öld fengu ‚gáfur andans,‘ svo sem þá að tala tungum. (1. Korintubréf 14:12, 32) Þetta fólk fékk þannig skýran vitnisburð þess að það væri andagetið. En hvernig gátu kristnir menn síðar á tímum vitað hvort þeir væru andagetnir eða ekki?
Vitnisburður andans
10, 11. Hvernig ber andinn vitni með samerfingjum Krists samanber Rómverjabréfið 8:15-17?
10 Allir 144.000 andasmurðir kristnir menn hafa fengið afdráttarlausa sönnun fyrir því að þeir hafi anda Guðs. Páll postuli skrifaði um það: „Þér [hafið] fengið anda, sem gefur yður barnarétt. Í þeim anda köllum vér: ‚Abba, faðir!‘ Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn. En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.“ (Rómverjabréfið 8:15-17) Smurðir kristnir menn finna að þeir eiga sonarsamband við himneskan föður sinn og það er afar sterk tilfinning. (Galatabréfið 4:6, 7) Þeir eru algerlega vissir um að þeir séu getnir af Guði sem andlegir synir og samerfingjar Krists í ríkinu á himnum. Þar gegnir heilagur andi Jehóva mikilvægu hlutverki.
11 Andi smurðra kristinna manna, það er að segja ríkjandi viðhorf þeirra, knýr þá undir áhrifum heilags anda Guðs til að taka persónulega til sín það sem orð hans segir um himnesku vonina. Þegar þeir lesa til dæmis orð Ritningarinnar um andleg börn Jehóva finna þeir ósjálfrátt að slík orð eiga við þá sjálfa. (1. Jóhannesarbréf 3:2) Þeir vita að þeir eru ‚skírðir til Krists Jesú‘ og til dauða hans. (Rómverjabréfið 6:3) Þeir hafa bjargfasta sannfæringu um að þeir séu andlegir synir Guðs sem deyi og fái svo upprisu til himneskrar dýrðar eins og Jesús.
12. Hvað hefur andi Guðs vakið með smurðum kristnum mönnum?
12 Menn eru ekki getnir til að vera andlegir synir af því að þeir hafi þroskað með sér löngun til þess. Hina andagetnu langar ekki að fara til himna til að losna við þjáningarnar og erfiðleikana á jörðinni. (Jobsbók 14:1) Andi Jehóva hefur vakið með þeim, sem eru í alvöru smurðir, von og löngun sem er sjaldgæf meðal manna almennt. Hinir andagetnu vita að það væri unaðslegt að lifa að eilífu sem fullkomnir menn í paradís á jörð meðal hamingjusamra ættingja og vina. En það er ekki þess konar líf sem þeir þrá heitast í hjörtum sér. Hinir smurðu hafa svo sterka himneska von að þeir fórna fúslega öllum jarðneskum framtíðarhorfum og tengslum. — 2. Pétursbréf 1:13, 14.
13. Hvað ‚þráði‘ Páll samkvæmt 2. Korintubréfi 5:1-5 og til hvers bendir það í sambandi við hina andagetnu?
13 Vonin, sem Guð gefur þeim um líf á himnum, er svo sterk í brjósti þeirra að þeir taka undir með Páli þegar hann skrifaði: „Vér vitum, að þótt vor jarðneska tjaldbúð verði rifin niður, þá höfum vér hús frá Guði, eilíft hús á himnum, sem eigi er með höndum gjört. Á meðan andvörpum vér og þráum að íklæðast húsi voru frá himnum. Þegar vér íklæðumst því, munum vér ekki standa uppi naktir. En á meðan vér erum í tjaldbúðinni, stynjum vér mæddir, af því að vér viljum ekki afklæðast, heldur íklæðast, til þess að hið dauðlega uppsvelgist af lífinu. En sá, sem hefur gjört oss færa einmitt til þessa, er Guð, sem hefur gefið oss anda sinn sem pant.“ (2. Korintubréf 5:1-5) Páll ‚þráði‘ að hljóta upprisu til himna sem ódauðleg andavera. Hann líkti mannslíkamanum við fellanlega tjaldbúð, ótraustan bráðabirgðabústað í samanburði við hús. Andasmurðir kristnir menn hafa andann sem pant eða tákn um komandi líf á himni, og þótt þeir lifi á jörðinni í dauðlegum holdslíkama vænta þeir ‚húss frá Guði,‘ ódauðlegs og óforgengilegs andalíkama. (1. Korintubréf 15:50-53) Þeir geta sagt í einlægni líkt og Páll: „Vér erum hughraustir og langar öllu fremur til að hverfa burt úr líkamanum og vera heima [á himni] hjá Drottni.“ — 2. Korintubréf 5:8.
Aðild að sérstökum sáttmálum
14. Hvaða sáttmála nefndi Jesús fyrst við stofnsetningu minningarhátíðarinnar og hvaða hlutverk hefur hann í sambandi við andlega Ísraelsmenn?
14 Andagetnir kristnir menn eru vissir um að þeir hafi fengið aðild að tveim sérstökum sáttmálum. Jesús nefndi annan þeirra þegar hann notaði ósýrt brauð og vín til að stofnsetja minningarhátíðina um væntanlegan dauða sinn og sagði um vínbikarinn: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.“ (Lúkas 22:20; 1. Korintubréf 11:25) Hverjir eiga aðild að þessum nýja sáttmála? Jehóva Guð og andlegir Ísraelsmenn — þeir sem Jehóva ætlar að leiða til himneskrar dýrðar. (Jeremía 31:31-34; Galatabréfið 6:15, 16; Hebreabréfið 12:22-24) Nýi sáttmálinn er fullgiltur með úthelltu blóði Jesú og útvelur úr þjóðunum fólk sem ber nafn Jehóva. Hann gerir þessa andagetnu kristnu menn hluta af ‚niðjum‘ eða sæði Abrahams. (Galatabréfið 3:26-29; Postulasagan 15:14) Nýi sáttmálinn sér til þess að allir andagetnir Ísraelsmenn séu leiddir til dýrðar með því að fá upprisu og ódauðleika á himnum. Þar eð hann er ‚eilífur sáttmáli‘ er hann til eilífra hagsbóta. Það á eftir að koma í ljós hvort þessi sáttmáli gegnir einnig hlutverki á fleiri vegu í þúsundáraríkinu og eftir það. — Hebreabréfið 13:20.
15. Hvaða öðrum sáttmála var farið að veita smurðum fylgjendum Jesú aðild að í samræmi við Lúkas 22:28-30 og hvenær?
15 Hinir ‚mörgu synir,‘ sem Jehóva áformaði að ‚leiða til dýrðar,‘ hafa einnig fengið einstaklingsbundna aðild að sáttmálanum um himneskt ríki. Jesús sagði um þennan sáttmála milli sín og fylgjenda sinna: „Þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér [„ég geri við ykkur sáttmála um ríki eins og faðir minn hefur gert sáttmála við mig,“ NW], að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ (Lúkas 22:28-30) Sáttmálinn um ríkið tók gildi þegar lærisveinar Jesú voru smurðir með heilögum anda á hvítasunnunni árið 33. Þessi sáttmáli er í gildi milli Krists og meðkonunga hans að eilífu. (Opinberunarbókin 22:5) Andagetnir kristnir menn eru því fullvissir um að þeir eigi aðild að nýja sáttmálanum og sáttmálanum um ríkið. Það eru tiltölulega fáir af hinum smurðu eftir á jörðinni og þeir einir taka af brauðinu og víninu við kvöldmáltíð Drottins, en brauðið táknar syndlausan mannslíkama Jesú og vínið fullkomið blóð hans sem var úthellt við dauða hans og fullgilti nýja sáttmálann. — 1. Korintubréf 11:23-26; sjá Varðturninn 1. september 1989, bls. 14-17.
Kallaðir, útvaldir og trúir
16, 17. (a) Hvað þarf að gerast í sambandi við allar hinar 144.000 til að leiða þá til dýrðar? (b) Hverjir eru ‚konungarnir tíu‘ og hvernig fara þeir með leifar ‚bræðra‘ Krists á jörðinni?
16 Lausnarfórn Jesú er fyrst beitt til að hægt sé að kalla 144.000 til lífs á himnum og útvelja með því að geta þá með anda Guðs. Til að verða leiddir til dýrðar þurfa þeir auðvitað að ‚kosta kapps um að gera köllun sína og útvalningu vissa,‘ og þeir verða að reynast trúir til dauða. (2. Pétursbréf 1:10; Efesusbréfið 1:3-7; Opinberunarbókin 2:10) Litlar leifar hinna smurðu á jörðinni varðveita ráðvendni sína enda þótt þær hafi á móti sér ‚tíu konunga‘ er tákna stjórnmálaöflin í heild. „Þessir munu heyja stríð við lambið,“ sagði engill, en „lambið og þeir, sem með því eru, hinir kölluðu og útvöldu og trúu, munu sigra þá, — því að lambið er Drottinn drottna og konungur konunga.“ — Opinberunarbókin 17:12-14.
17 Mennskir valdhafar geta ekkert gert Jesú, ‚konungi konunga,‘ því að hann er á himnum. Þeir sýna hins vegar fjandskap sinn gegn leifum ‚bræðra‘ hans sem enn eru á jörðinni. Það tekur enda í Harmagedónstríði Guðs þegar ‚konungi konunga‘ og „bræðrum“ hans, ‚hinum kölluðu og útvöldu og trúu,‘ er tryggður sigur. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Uns það gerist eru andasmurðir kristnir menn önnum kafnir. Hvað eru þeir að gera núna, áður en Jehóva leiðir þá til dýrðar?
Hvert er svar þitt?
◻ Hverja ‚leiðir Guð til himneskrar dýrðar‘?
◻ Hvað merkir það að vera „fæddur af Guði“?
◻ Hvernig ‚ber andinn vitni‘ með sumum kristnum mönnum?
◻ Hvaða sáttmálum hafa hinir andagetnu fengið aðild að?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Á hvítasunnunni árið 33 var sannað að leiðin til himneskrar dýrðar hefði opnast.