Leitaðu innsæis hjá Jehóva
„Ég vil fræða þig [veita þér innsæi, NW] og vísa þér veginn, er þú átt að ganga.“ — SÁLMUR 32:8.
1. Hvað ræður því hvort ákvarðanir okkar eru viturlegar? (Samanber 5. Mósebók 32:7, 29.)
VIÐ stöndum dag hvern frammi fyrir ákvörðunum. Sumar virðast smávægilegar en aðrar augljóslega mikilvægar. Munum við taka viturlegar ákvarðanir? Það er að miklu leyti undir því komið hvort við erum fljótfær eða hvort við hugsum áður en við tölum eða framkvæmum. Í mörgum málum þurfum við að geta séð meira en það sem liggur í augum uppi, til að geta tekið viturlegar ákvarðanir. Við getum þurft að vita hvernig því sem er að gerast í heiminum muni lykta og jafnvel hvað á sér stað á andlegu tilverusviði. Getum við gert það? Getur nokkur maður gert meira en aðeins að geta sér til um hlutina á þessum sviðum?
2. Hvaða hjálpar þörfnumst við til að vera happasæl í lífinu og hvers vegna? (Orðskviðirnir 20:24)
2 Mannshugurinn er gæddur einstökum hæfileikum, en við erum þó ekki gædd hæfileika til að marka lífi okkar farsæla braut án þess að þiggja auðmjúk í bragði hjálp frá Guði. Það er eins og hinn innblásni spámaður Jeremía ritaði: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ — Jeremía 10:23.
3. Hvaða afleiðingu hefur það ef við leitum ekki leiðsagnar hjá Jehóva? (Samanber 1. Mósebók 3:4-6, 16-24.)
3 Hvaða afleiðingar hefur það ef við höfum að engu þessa staðreynd og reiðum okkur annaðhvort á sjálfa okkur eða aðra menn þegar við tökum ákvarðanir um hvað sé viturlegt eða óviturlegt, rétt eða rangt? Ef við látum holdlegan hugsunarhátt leiða okkur munum við stundum álíta það gott sem Guð segir illt og telja skynsamlegt að taka einhverja stefnu sem Guð segir heimskulega. (Jesaja 5:20) Jafnvel þótt við gerum það ómeðvitað gæti það orðið öðrum hneykslunarefni. (Samanber 1. Korintubréf 8:9.) Orð Guðs segir um endaleg áhrif þess að leita ekki leiðsagnar hjá Jehóva: „Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum.“ — Orðskviðirnir 14:12.
4. Hvaða hjálp lofar Jehóva þjónum sínum á svo örlátan hátt? (Samanber Jeremía 10:21.)
4 Hvers þörfnumst við þá? Við þörfnumst ósköp einfaldlega þeirrar hjálpar sem Jehóva veitir. Hann segir þessi uppörvandi orð: „Ég gef þér innsæi og fræði þig um veginn sem þú átt að ganga. Ég gef þér ráð með augun hvílandi á þér.“ — Sálmur 32:8, NW.
Hvað merkir innsæi?
5. Hvað er ‚innsæi‘?
5 En hvað er „innsæi“ í þeirri merkingu sem það er notað í Ritningunni? Það er hæfileikinn til að sjá innviði málsins, að sjá lengra en það sem augljóst er. Samkvæmt fræðibókinni Theological Word Book of the Old Testament vísar hebreska orðið, sem þýtt er „innsæi,“ til „greindarlegrar þekkingar eða vitneskju um orsakasamhengið.“ Það er sú tegund þekkingar sem gerir einstaklingnum fært að breyta viturlega og vera farsæll. Í samræmi við þessa grunnmerkingu hebresku sagnarinnar, og til að ná fram blæbrigðum hennar, notar Nýheimsþýðingin einnig orðalag eins og að ‚breyta hyggilega,‘ ‚sýna fyrirhyggju‘ og ‚ná árangri.‘ — Sálmur 14:2.
6. Hvers vegna er hægt að segja að sá sýni innsæi „sem hefir taum á tungu sinni“?
6 Þannig er sá „sem hefir taum á tungu sinni“ sagður ‚breyta hyggilega‘ eða af innsæi. (Orðskviðirnir 10:19) Hann hugsar áður en hann talar og tekur með í reikninginn hvernig aðrir muni skilja það sem hann segir, og sömuleiðis hvort það sem hann segir um aðra menn sé viturlegt, kærleiksríkt eða nauðsynlegt. (Orðskviðirnir 12:18; Jakobsbréfið 1:19) Það sem hann segir er uppbyggjandi fyrir aðra, því hann er knúinn af kærleika til Jehóva og vega hans og einlægri löngun til að hjálpa meðbræðrum sínum. — Orðskviðirnir 16:23.
7. Hvers vegna fékk Davíð orð fyrir að sýna innsæi í gerðum sínum?
7 Um Davíð Ísaíson er ritað: „Var hann giftudrjúgur, hvert sem Sál sendi hann,“ það er að segja hann hafði innsæi til að bera. Davíð gerði sér ljósa grein fyrir að ekki var aðeins um að ræða stríð manna í milli; hann gerði sér grein fyrir að hann og menn hans börðust fyrir Jehóva. Þess vegna leitaði Davíð leiðsagnar og blessunar hjá Jehóva. (1. Samúelsbók 17:45; 18:5; 2. Samúelsbók 5:19) Afleiðingin var sú að herferðir Davíðs urðu sigursælar.
8. Hvernig er sögnin, sem þýdd er ‚að hafa innsæi,‘ þýdd í kristnu Grísku ritningunum?
8 Í kristnu Grísku ritningunum er sögnin, sem þýdd er með ‚að hafa innsæi,‘ einnig þýdd ‚að vera vitur‘ og „að skilja.“ (Rómverjabréfið 3:11; Matteus 13:13-15; Efesusbréfið 5:17) Guð lofar þjónum sínum að þeir geti það. En hvernig gefur hann þeim innsæi?
Hvernig Jósúa öðlaðist innsæi
9. Hvernig gaf Jehóva Ísraelsmönnum til forna innsæi?
9 Í Ísrael til forna fengu levítarnir það verkefni frá Jehóva að fræða þjóðina í lögmáli hans. (3. Mósebók 10:11; 5. Mósebók 33:8, 10) Lögmálið var innblásið af Guði og andi Jehóva starfaði með því skipulagi sem sett var upp til að kenna það. (Malakí 2:7) Á þennan hátt gaf Jehóva þeim ‚sinn góða anda til að fræða þá‘ eða veitti þeim innsæi eins og fram kemur í Nehemía 9:20.
10, 11. (a) Hvernig gat Jósúa sýnt innsæi í breytni sinni, samanber Jósúabók 1:7, 8? (b) Hvaða fræðslufyrirkomulag var mikilvægt fyrir Jósúa að viðurkenna? (c) Hvaða átaks var krafist persónulega af Jósúa?
10 En myndu einstaklingar innan þjóðarinnar sýna innsæi í hegðun sinni? Til að geta það urðu þeir að ganga að vissum kröfum. Um þær mundir er Jósúa var falin sú ábyrgð að leiða Ísrael inn í fyrirheitna landið sagði Jehóva honum: „Ver þú aðeins hughraustur og harla öruggur að gæta þess að breyta eftir öllu lögmálinu, því er Móse þjónn minn fyrir þig lagði. Vík eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri, til þess að þér lánist vel allt, sem þú tekur þér fyrir hendur [til þess að þú megir breyta viturlega hvert sem þú ferð,“ NW]. Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega.“ Hebreska orðið, sem hér er þýtt „breyta viturlega,“ þýðir einnig að „breyta af innsæi.“ — Jósúa 1:7, 8.
11 Hvernig myndi Jehóva veita Jósúa slíkt innsæi? Hann ætlaði ekki að gefa honum það með kraftaverki heldur veita honum það í gegnum ritað orð sitt. Jósúa þurfti að fylla hug sinn og hjarta orði Guðs, lesa það og hugleiða reglulega. Jósúa vissi að samkvæmt orði Guðs áttu levítarnir að veita fræðslu í lögmálinu. Jósúa þurfti að skilja og virða þá staðreynd. Hann mátti ekki reiða sig á eigin skilning og hyggjuvit þótt hann hefði fengið ábyrgðarstöðu innan þjóðarinnar. (Orðskviðirnir 18:1) Það var mikilvægt fyrir Jósúa að nema ritað orð Guðs af dugnaði. Ef hann gerði það, og vanrækti engan hluta þess og hlýddi því, þá myndi hann breyta af innsæi. — Samanber 1. Konungabók 2:3.
Hvernig Jehóva veitir innsæi nú á tímum
12. Hvað er það þrennt sem krafist er svo að við getum notið góðs af því innsæi sem Jehóva býður okkur?
12 Allt til okkar tíma hefur Jehóva haldið áfram að veita þjónum sínum þær leiðbeiningar sem þeir þarfnast til að breyta viturlega. Til að hafa gagn af þeim leiðbeiningum þurfum við að uppfylla nokkur skilyrði sem einstaklingar: (1) Við þurfum að meta skipulag Jehóva að verðleikum eins og Jósúa gerði. Hvað okkur varðar þýðir það að við þurfum að viðurkenna hinn kristna söfnuð þeirra sem smurðir eru, ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ og hið stjórnandi ráð hans. (Matteus 24:45-47; samanber Postulasöguna 16:4.) Það felur einnig í sér að sækja reglulega samkomur safnaðarins. (Hebreabréfið 10:24, 25) (2) Við verðum að vera iðjusöm við einkanám í orði Guðs og þeim ritum sem ‚þjónshópurinn‘ lætur í té, en þau hjálpa okkur að skilja það. (3) Það er einnig mikilvægt að við tökum okkur tíma til að íhuga hvernig við getum heimfært það sem við lærum á líf okkar og nota það til að hjálpa öðrum.
13. Hvað merkir loforðið sem gefið er í Jeremía 3:15?
13 Jehóva sagði í Jeremía 3:15 um það hvernig hann myndi á okkar dögum hafa umsjón með þjónum sínum og veita þeim andlega fæðu: „Ég vil gefa yður hirða eftir mínu hjarta, og þeir munu gæta yðar með greind og hyggindum [„næra ykkur með þekkingu og innsæi,“ NW].“ Þessi andlega fæða myndi veita okkur einstakan hæfileika til að bera skynbragð á hvaða stefnu við ættum að taka til að vera farsæl. Hver er uppspretta þessa innsæis? Jehóva Guð.
14. Hvers vegna býr hinn ‚trúi og hyggni þjónn‘ yfir innsæi?
14 Hvers vegna hefur hinn ‚trúi og hyggni þjónn‘ slíkt innsæi til að bera? Vegna þess að þeir sem mynda hann hafa mikinn áhuga á orði Guðs og fylgja leiðbeiningum þess. Enn fremur hafa þeir gengist undir leiðsögn Jehóva, og hann hefur þar af leiðandi gefið þeim anda sinn og notar þá í samræmi við tilgang sinn. (Lúkas 12:43, 44; Postulasagan 5:32) Það er eins og hinn innblásni sálmaritari skrifaði fyrir löngu: „Ég er hyggnari [„hef meira innsæi,“ NW] en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar.“ — Sálmur 119:99.
15. (a) Hver er kjarninn í þeim ráðum sem ‚hinn trúi og hyggni þjónn‘ veitir okkur stöðugt? (b) Hvernig gat ‚þjónninn‘ veitt nauðsynlega þekkingu og innsæi fyrir mörgum árum varðandi blóðgjafir?
15 Þegar ‚hinn trúi og hyggni þjónn‘ hefur verið spurður hvað rétt sé að gera hefur hann alltaf ráðlagt: ‚Gerðu það sem Biblían ráðleggur. Treystu á Jehóva.‘ (Sálmur 119:105; Orðskviðirnir 3:5, 6) Þegar farið var að líta á blóðgjafir sem viðurkennda læknismeðferð og vottar Jehóva urðu að taka afstöðu til þeirra greindi Varðturninn þann 1. júlí 1945 frá viðhorfi kristinna manna til heilagleika blóðsins. Þar var sýnt fram á að bann Guðs næði bæði til blóðs manna og dýra. (1. Mósebók 9:3, 4; Postulasagan 15:28, 29) Líkamlegar aukaverkanir voru ekki ræddar í greininni enda var þekking á þeim af skornum skammti á þeim tíma. Aðalatriðið var því hlýðni við lög Guðs og það er það enn. En nú á tímum gera margir sér grein fyrir hve skynsamlegt sé að hafna blóðgjöfum og menn gera það í auknum mæli. Vottar Jehóva hafa þó alltaf getað brugðist við með innsæi vegna þess að þeir treystu skaparanum sem veit miklu mun meira um blóð en nokkur maður gerir.
16. Hvers vegna hafa leiðbeiningar Varðturnsins varðandi siðferði, sundruð heimili og þunglyndi, svo dæmi séu nefnd, reynst tímabær?
16 Eftir því sem frjálsræði í kynferðismálum hefur farið vaxandi hefur Varðturninn gefið heilbrigða leiðsögn frá Biblíunni í stað þess að gerast talsmaður ríkjandi viðhorfa. Það hefur hjálpað mörgum að standa vörð um dýrmætt samband sitt við Jehóva og einbeita sér að varanlegri hamingju í stað stundlegs unaðar. Sömuleiðis hafa greinar Varðturnsins, sem fjalla um einstæða foreldra og þá sem eiga við þunglyndi að glíma, endurspeglað innsæi sem aðeins er á færi þeirra sem meta hugsanir Jehóva mikils og biðja í einlægni: „Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð.“ — Sálmur 143:10; 139:17.a
17. (a) Hvað vissu þjónar Jehóva um árið 1914 með áratuga fyrirvara? (b) Hvað vissu þjónar Guðs sem gaf lífi þeirra rétta stefnu, þrátt fyrir að ýmsum spurningum væri ósvarað eftir 1914?
17 Með aðstoð hins ‚trúa og hyggna þjóns‘ gerði Jehóva þjónum sínum líka kleift að átta sig á því með margra áratuga fyrirvara, að árið 1914 myndu heiðingjatímarnir enda. (Lúkas 21:24) Auðvitað var þeim margt óskiljanlegt á tímabilinu sem fylgdi í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar, en það sem þeir vissu nægði þeim til að breyta viturlega. Þeir vissu út frá Ritningunni að tími Guðs var að renna upp er hann myndi eyða þessu gamla heimskerfi, þannig að heimskulegt væri að setja von sína á það eða að láta lífsgildi efnishyggjunnar stjórna lífi sínu. Þeir vissu líka að ríki Jehóva er hin raunverulega lausn á öllum þeim vandamálum sem hrjá mannkynið. (Daníel 2:44; Matteus 6:33) Þeir sáu greinilega að það er ábyrgð allra sannkristinna manna að segja frá smurðum konungi ríkis Jehóva, Jesú Kristi, og ríki hans. (Jesaja 61:1, 2; Matteus 24:14) Greinin „Fæðing þjóðarinnar“ í Varðturninum árið 1925 styrkti þá með gleggri skilningi á 12. kafla Opinberunarbókarinnar, þannig að nú skildu þeir hvað var að gerast á himnum ósýnilegt mannlegu auga. Slíkt innsæi veitti lífi þeirra heilbrigða stefnu.
18. Hvaða sérréttinda njótum við, hvaða ábyrgð berum við og hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?
18 Hinar fáu þúsundir, sem þá þjónuðu Jehóva sem vottar hans, tóku vegna trúar sinnar forystuna í því að prédika fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs um allan heim. Árangurinn er sá að milljónir manna hafa kynnst Jehóva, lært að elska hann og hafa von um eilíft líf. Við öll sem höfum tekið við sannleikanum vegna kærleiksríks erfiðis þeirra skiljum að við höfum líka þau sérréttindi og þá ábyrgð að taka þátt í þessu starfi, með því að gefa hverjum þeim sem við náum til rækilegan vitnisburð, og ber að halda því áfram þar til Jehóva segir að verkinu sé lokið. (Opinberunarbókin 22:17; samanber Postulasöguna 20:26, 27.) Sýnir þú með líferni þínu að þú kunnir að meta það innsæi sem Jehóva gefur gegnum skipulag sitt?
19. (a) Nefndu dæmi um mann sem sýndi með lífi sínu að hann kynni að meta það innsæi sem Jehóva gefur gegnum skipulag sitt. (b) Hvað getum við lært af þessu dæmi?
19 Mikill fjöldi einstaklinga í öllum heimshornum svarar þeirri spurningu játandi með líferni sínu. Tökum John Cutforth sem dæmi. Fyrir um það bil 48 árum tók hann til sín það ráð sem ‚þjónninn trúi‘ gaf mönnum út frá Biblíunni og gerir enn: „En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum.“ (Matteus 6:33, 34) Eftir margra ára þjónustu við Jehóva sagði bróðir Cutforth: ‚Eitt af því sem hefur greypst í huga mér er að Jehóva hefur skipulag á jörðu sem hann stjórnar, að ég sem einstaklingur gæti unnið með skipulaginu, og að ef ég færi í einu og öllu eftir ábendingum þess og leiðsögn myndi það veita mér frið, ánægju, lífsfyllingu og fjölmarga vini, auk margra annarra blessana.‘ Þessi sannfæring hans hefur þráfaldlega styrkst er hann hefur notið andlegra blessana í þjónustu sinni í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Papúa Nýju-Gíneu.b Það er greinilega rétta stefnan fyrir okkur öll að sýna að við kunnum að meta þá leið sem Jehóva sér okkur fyrir til að veita þjónum sínum innsæi. — Matteus 6:19-21.
Gættu þess að glata ekki innsæinu
20, 21. (a) Hvernig hafa sumir glatað því innsæi frá Guði sem þeir eitt sinn bjuggu yfir? (b) Hvað hjálpar okkur að varast ranga stefnu?
20 Innsæið, sem Jehóva veitir þjónum sínum, er fjársjóður sem við ættum að gæta vandlega. Við ættum hins vegar að gera okkur ljóst að við getum tapað innsæi okkar ef við höldum ekki áfram að fylgja þeirri stefnu sem veitti okkur það. Því miður hefur þó farið þannig fyrir sumum. (Orðskviðirnir 21:16; Daníel 11:35) Þeir höfnuðu aga, sem snerti þá persónulega, og reyndu hrokafullir að réttlæta það sem þeir voru að gera. Stoltið varð þeim að snöru. Þeir tóku að álíta það gott sem orð Guðs segir vera illt og drógu sig út úr skipulagi Jehóva. Það er hryggilegt.
21 Sálmur 36:2-4 lýsir kringumstæðum slíks manns. Þar lesum við: „Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans.“ Eigingjarnar fýsnir hans sjálfs leiða hann út í synd. „Enginn guðsótti býr í huga hans,“ heldur sálmaritarinn áfram. Og áfram segir í Biblíunni frá 1859: „Því hann smjaðrar fyrir sjálfum sér í sinni eigin augsýn, svo hann finni ekki sinn misgjörning, er hann ætti að hata. Orð hans munns eru hans ránglæti og svik.“ Og hvaða afleiðingar hefur það fyrir hann? „Hann er hættur að vera hygginn og breyta vel,“ hættur að hafa innsæi, og sannfærir sjálfan sig um að hann sé að gera rétt og tælir aðra til að fylgja sér. Okkur er því bráðnauðsynlegt að hafa þetta innsæi og ekki síður að standa tryggan vörð um það með því að meta að verðleikum þær ráðstafanir sem Jehóva hefur gert svo að við mættum öðlast það!
[Neðanmáls]
a Sjá Watch Tower Publications Index 1930-1985, undir „Marriage“ (hjónaband), „Families“ (fjölskyldulíf), „Moral Breakdown“ (siðferðishrun) og „Depression (Mental)“ (þunglyndi).
b Sjá Varðturninn (enska útgáfu) þann 1. júní 1958, bls. 333-6.
Hvað manstu?
◻ Hvað hjálpar okkur að taka viturlegar ákvarðanir?
◻ Hvað er fólgið í „innsæi“?
◻ Hvernig gefur Jehóva þjónum sínum nú á tímum innsæi?
◻ Hvers er krafist af okkur ef við eigum að hagnast fyllilega á því innsæi sem Jehóva veitir?
[Mynd á blaðsíðu 11]
Við verðum að meta að verðleikum skipulag Jehóva, ef við ætlum okkur að hagnast á því innsæi sem hann veitir, vera kostgæfir við einkanám og hugleiða hvernig við notum það sem við lærum.