Höfuðþættir biblíubókanna Sálmur 107 til 150
Hamingjusamur Guð, hamingjusamt fólk!
Hamingja er markmið sem fæstir nokkurn tíma ná. Lítill hópur manna hefur þó höndlað hamingjuna. Lykill þeirra að henni er sönn guðsdýrkun! Sálmarnir sannfæra okkur um að Jehóva sé hamingjusamur Guð og við getum því verið hamingjusöm ef við tilbiðjum hann. Því til sönnunar skulum við beina athygli okkar að fimmtu bók Sálmanna, það er að segja Sálmi 107 til 150.
Frelsarinn Jehóva
Lestu Sálm 107 til 119. Bæn Gyðinganna um frelsun úr fjötrum í Babýlon er svarað og „hinir endurleystu [Jehóva]“ fagna heimkomu sinni með söng. (Sálmur 107) Davíð ‚lofsöng‘ Guð og miklaði gæsku hans og kærleika þegar hann fyrrum var frelsaður úr nauðum. (Sálmur 108, 109) Með tilstyrk Jehóva átti Drottinn Davíðs, sem er Jesús Kristur, að sigra óvini Guðs. (Sálmur 110) Auk þess að bjarga þjóð sinni blessar Jehóva ráðvandan mann sem óttast hann. (Sálmur 111, 112) Eftir frelsun sína úr Babýlon sungu Gyðingar hallel-sálmana eða lofsöngva á hinum miklu árlegu hátíðum sínum. (Sálmur 113-118) Sálmur 119 er lengstur Sálmanna og öll versin 176, að tveim undanskildum, vísa til orðs eða lögmáls Guðs.
◆ 107:27 — Í hvaða skilningi var ‚öll kunnátta þeirra þrotin‘?
Eins og sjómenn í mannskaðaveðri kom þekking og viska Gyðinganna þeim að litlu haldi í fjötrum sínum í Babýlon; allar mannlegar bjargir höfðu brugðist þeim. En með því að snúa sér til Jehóva á þessum miklu stormatímum höfðu þeir hlotið hjálpræði. Við það gekk hinn táknræni stormur niður og þeir komust óhultir „í höfn“ — heim til Júda. — Sálmur 107:30.
◆ 110:3 — Hvaða þýðingu hefur „dögg æskuliðs þíns“?
Dögg er sett í samband við blessun, frjósemi og gnóttir. (1. Mósebók 27:28) Daggardropar eru léttir og þægilegir, hressandi, lífgandi og margir að tölu. Á herdegi Messíasarkonungsins bjóða þegnar hans skjótlega og glaðlega fram þjónustu sína og eru svo fjölmennir að hægt er að líkja þeim við daggardropa. Eins og hressandi daggardropar veita hin fjölmörgu ungmenni í skipulagi Jehóva nú á dögum Guði og trúbræðrum sínum þjónustu.
◆ 116:3 — Hvað eru „snörur dauðans“?
Sálmaritaranum þótti dauðinn hafa fjötrað sig svo kirfilega að hann ætti engrar undankomu auðið. Bönd bundin þéttingsfast um ökkla og úlnliði valda sárum kvölum, og gríska Sjötíumannaþýðingin þýðir hebreska orðið, sem hér er þýtt „snörur,“ sem „kvalir.“ Þegar Jesús Kristur dó var hann í lamandi greip dauðans. Þegar Jehóva reisti hann upp frá dauðum ‚leysti hann hann úr nauðum dauðans.‘ — Postulasagan 2:24.
◆ 119:83 — Hvernig var sálmaritarinn „eins og belgur“?
Meðan sálmaritarinn beið hughreystingar Jehóva var hann eins og skinnbelgur hengdur upp til geymslu meðan hans er ekki not. Sökum reyks í tjaldi eða húsi, þar sem ekki er skorsteinn, dökknar slíkur belgur smám saman, þornar upp og skorpnar. Þannig höfðu ofsóknir á hendur sálmaritaranum leikið hann. (Vers 84) Bágindi hans endurspegluðust sennilega í dapurlegum svipbrigðum og andlitsdráttum, og vera kann að allur líkami hans hafi verið leikinn eins og hann hefði orðið fyrir vökvatapi. (Samanber Sálm 32:4.) Honum kann að hafa fundist hann jafnlítils virði og skorpinn skinnbelgur sem menn hentu til hliðar þar eð ekki var hægt að nota hann lengur til að geymna vökva í. Samt hafði hann ‚eigi gleymt lögum Guðs.‘
◆ 119:119 — Hvað merkir það að Guð meti hina óguðlegu „sem sora“?
Sorinn, sem myndast ofan á bráðnum málmi í bræðsluofninum, er einskis nýt óhreinindi sem menn henda. Málmbræðslumaður hreinsar ‚sorann‘ burt frá gulli eða silfri. Í augum Jehóva er hinn óguðlegi eins og úrgangur, hann lætur hann líða undir lok, aðgreinir hann frá þeim sem eru verðmætir og njóta hylli hans. — Samanber Esekíel 22:17-22.
Lærdómur fyrir okkur: Eins og Gyðingar til forna bíða vottar Jehóva hjálpræðis og björgunar — núna í gegnum óveður Harmagedónstríðsins. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Á tilsettum tíma Guðs verður þessari heimsskipan sópað burt í því mikla stríði. Þeir sem leita ekki hjálpræðis frá Jehóva verða algerlega hjálparvana þegar þeir hoppa og skoppa í ölduróti þessarar miklu tortímingar. Þeir sem lifa af munu hins vegar „þakka [Jehóva] miskunn hans.“ Núna á síðustu dögum geta bæði smurðir fylgjendur Jesú og ‚múgurinn mikli‘ sett allt sitt traust á Jehóva. — Sálmur 107:31; Opinberunarbókin 7:9.
„Helgigönguljóð“
Lestu Sálm 120 til 134. Þessir fimmtán Sálmar eru nefndir „helgigönguljóð.“ Fræðimenn greinir á um hvað nákvæmlega sé átt við með ‚helgigöngu,‘ en vera kann að Ísraelsmenn hafi sungið þessa sálma þegar þeir gengu „upp til“ Jerúsalem til hinna þriggja árlegu hátíða. — Sálmur 122:1.
◆ 120:4 — Hverjar voru þessar ‚hvesstu örvar‘ og ‚glóandi viðarkol‘?
Rógsöm tunga getur valdið jafnmiklu tjóni og vopn eða eldur. (Orðskviðirnir 12:18; Jakobsbréfið 3:6) Þegar Jehóva endurgeldur mönnum sér hann til þess að rógstungan þagni eins og væri fyrir ör hermanns. Athyglisvert er að viðarkol gerð úr gífilrunnanum brenna við afarhátt hitastig, en það bendir til þess hve alvarlegur dómur Guðs yfir „tælandi tungu“ sé. — Sálmur 120:2, 3.
◆ 131:2 — Hvernig verður sálin eins og „afvanið barn“?
Þar til brjóstmylkingurinn er vaninn af brjósti þráir hann móður sína til að fá hjá henni næringu. Og „afvanið barn“ í faðmi móður sinnar finnur til öryggis, hughreystingar og hlýju. Sálmaritarinn gerði sig ánægðan með að sýna auðmýkt í einu og öllu (vers 1) og hann ‚sefaðist og varð hljóður‘ eins og afvanið barn í örmum móður sinnar. Ef við bíðum auðmjúk Jehóva og gerum vilja hans veitir það okkur öryggi og ríkulega blessun.
Lærdómur fyrir okkur: Þótt Jehóva geti bjargað fólki sínu úr ógæfu skýlir hann því ekki fyrir öllu mótlæti. Meira að segja var það ýmiss konar mótlæti sem kom mönnum til að yrkja þessa sálma. En Guð ‚lætur ekki freista okkar um megn fram heldur sér einnig um að við fáum staðist.‘ (1. Korintubréf 10:13) Jehóva verndar okkur fyrir andlegu tjóni. Hann getur annaðhvort ráðið gangi mála svo að erfiðleikarnir sjálfir hverfi eða styrkt okkur til að við getum staðist álagið. Sú eining, sem við njótum á kristnum samkomum okkar, er til mikils gagns og hughreystingar í þá veru. — Sálmur 133:1-3.
Lofsverður Guð
Lestu Sálm 135 til 145. Jehóva er lofsverður Guð og frelsari, ólíkur skurðgoðum sem eiga sér dýrkendur er eiga eftir að verða eins og þau. (Sálmur 135, 136) Jafnvel þegar þjóð hans var í Babýlon gleymdi hún ekki „Síonarkvæði.“ (Sálmur 137) Davíð segir að ‚konungar munu lofa Jehóva‘ og gleðst yfir því hve undursamlega hann er úr garði gerður. (Sálmur 138, 139) Hann biður um vernd Guðs og ber lof á gæsku hans, vitandi að einungis gott samband við Jehóva veitir manninum ósvikna hamingju. — Sálmur 140-145.
◆ 138:2 — Hvernig miklar Guð orð sitt meira en nafn sitt (NW)?
Þegar Jehóva lýsir yfir einhverju og leggur nafn sitt við megum við treysta að hann standi við það. En hann gerir alltaf meira en við búumst við, þannig að uppfyllingin verður langtum stórfenglegri en við höfðum geta gert okkur í hugarlund. Jehóva miklar „orð“ sitt með því að láta það uppfyllast með stórfenglegri hætti en við væntum.
◆ 139:9 — Hvað er átt við með ‚vængjum morgunroðans‘?
Með þessum orðum er lýst hvernig dagsljósið dreifist yfir himininn frá austri til vesturs eins og hefði það vængi. Þótt Davíð ‚lyfti sér á vængi morgunroðans‘ og flygi lengst til vesturs yrði hann enn undir vernd og handleiðslu Jehóva. — Sálmur 139:10; samanber Amos 9:2, 3.
◆ 141:3 — Hvers vegna vildi Davíð fá ‚vörð fyrir munn sinn‘?
Davíð vissi hvílíkt tjón tungan gat unnið og hversu oft ófullkomnir menn freistast til að vera hvatvísir í orðum, einkum ef þeir eru reittir til reiði. Móse var manna auðmjúkastur á jörðinni en syndgaði þó með tungu sinni í tengslum við vötnin í Meríba. (4. Mósebók 12:3; 20:9-13) Því er nauðsynlegt að gæta varanna til að forðast skaðlegt tal og varðveita gott hjarta. — Jakobsbréfið 3:5-12.
◆ 142:8 — Hvers vegna hélt Davíð að sál hans væri í ‚dýflissu‘?
Honum fannst hann einn og yfirgefinn með vandamál sín, eins og væri hann í dimmri og hættulegri dýflissu, misskilinn og slitinn úr tengslum við alla aðra menn. Þegar okkur er þannig innanbrjósts og finnst við berskjölduð fyrir árás frá „hægri“ getum við hrópað til Jehóva um hjálp í trausti þess að hann heyri okkur. — Sálmur 142:4-8.
Lærdómur fyrir okkur: Í Sálmi 139 fagnaði Davíð því að Guð skyldi geta ‚prófað‘ hann og ‚þekkt‘ hann og vegu hans. Í stað þess að reyna að komast undan vildi Davíð lúta í enn ríkari mæli handleiðslu og stjórn Jehóva. Hann vissi að Guð fylgdist alltaf með honum. Slík þekking bæði aftrar okkur frá rangri breytni og er okkur mikil hvatning og hughreysting. Sú staðreynd að Jehóva sér verk okkar, skilur vandamál okkar og er alltaf fús til að hjálpa okkur veitir okkur djúpa öryggis- og friðartilfinningu sem er forsenda þess að við fáum notið hamingju.
Lofið Jah!
Lestu Sálm 146 til 150. Þessir Sálmar hefjast á einkunnarorðum Sálmanna í heild — „Hallelúja,“ ‚Lofið Jah, þið lýðir!‘ Þessir fimm Sálmar bæði byrja og enda á þessu orði. Lofsöngurinn nær síðan fögru hástigi í 150. Sálminum sem hvetur alla sköpunina til að ‚lofa Jehóva!‘
◆ Sálmur 146:3 — Hvers vegna eigum við ekki að treysta mennskum leiðtogum?
Mennskir leiðtogar eru dauðlegir. Þeir geta hvorki bjargað sjálfum sér né þeim er treysta á þá. Sú staðreynd að menn skuli deyja grefur undan trausti til mannlegrar forystu. En „sæll er sá . . . er setur von sína á [Jehóva], Guð sinn.“ (Sálmur 146:5, 6) Sálmaritarinn sá þörfina fyrir æðri leiðsögn en menn einir geta veitt.
◆ 148:4 — Hvað eru „vötnin, sem eru yfir himninum“?
Sálmaritarinn átti greinilega við skýin yfir jörðinni sem af og til láta vatnið í sér rigna niður á jörðina sem síðan rennur aftur út í höfin. Þessi hringrás er ein af forsendum lífs og það að hún skuli vera til er skaparanum til lofs. Með því að hægt er að tala um andrúmsloftið milli jarðar og skýjanna sem himin, komst sálmaritarinn svo að orði að skýin væru „vötnin, sem eru yfir himninum.“
Sálmarnir gera þau sannindi augljós að gott samband við Jehóva er forsenda ósvikinnar hamingju. Því má draga saman í lokaorð sálmaritarans meginmarkmið þjóna Guðs og tilganginn með tilveru okkar: „Allt sem andardrátt hefir lofi [Jehóva]! Hallelúja!“ — Sálmur 150:6.