Höfuðþættir biblíubókanna Sálmur 1 til 41
Sálmaritarinn syngur Jehóva lof
„Lofsöngvar.“ Sú er merking hins hebreska heitis Sálmanna og á það vel við. Bókin er öll í reynd einn langur lofsöngur til Jehóva Guðs. Sálmarnir segja frá eiginleikum Jehóva og máttarverkum. Þeir geyma spádóma og lýsa fyrir okkur tilfinningum hinna innblásnu ritara í gegnum ofsóknir, svik, kjarkleysi og jafnvel slæma samvisku. Margir kristnir menn, sem þolað hafa svipaðar raunir, hafa leitað styrks í Sálmunum.
Sálmarnir skiptast í fimm hluta. Við munum hér ræða um þann fyrsta, Sálm 1 til 41.
Að lúta tilgangi Jehóva
Lestu Sálm 1 til 14. Þessir sálmar kynna fyrir okkur nokkur af meginstefum bókarinnar í heild: mikilvægi lögmálsins, spádóma um hinn komandi Messíasarkonung og bænir um hjálp í erfiðum raunum. Auk þess lærum við að hinir réttlátu munu hljóta blessun þrátt fyrir að hinir óguðlegu dafni um stund.
◆ 2:1 — Hvaða „fánýt ráð“ hyggja þjóðirnar á?
Þjóðirnar ‚hyggja á‘ að halda við sínu eigin valdi í stað þess að taka á móti smurðum þjóni Jehóva. Þessi orð rættust á fyrstu öld okkar tímatals þegar rómversk yfirvöld og Gyðingar tóku höndum saman um að drepa smurðan konung Jehóva, Jesú Krist. (Postulasagan 4:26-28) Meginuppfyllingin hefur hins vegar átt sér stað frá 1914 þegar allar þjóðir hafa hafnað krýndum konungi Guðs og reynt að efla eigið fullveldi.
◆ 2:12 — Hvers vegna er boðið að ‚kyssa soninn‘?
Koss var á tímum Biblíunnar tákn vináttu og var gestum oft heilsað með kossi. Hér fyrirskipar Jehóva þjóðunum að kyssa soninn eða bjóða hann velkominn sem smurðan konung sinn. — Sálmur 2:2, 6-8.
◆ 9:13 — Hvernig og hvers vegna ‚hefnir Jehóva blóðs‘?
Eins og dómari við réttarhöld leitar Jehóva uppi þá sem hafa úthellt blóði saklausra þjóna hans. (1. Mósebók 9:5, 6; Lúkas 11:49, 50) Hann refsar líka hinum seku. Refsingar hans eru þó ekki án greinarmunar. Sálmaritarinn Davíð segir: „Hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu.“ — Samanber 2. Pétursbréf 2:9.
◆ 11:3 — Hverjar eru „stoðirnar“ sem eru rifnar niður?
Stoðirnar eru réttvísi, lög og regla — þær stoðir sem bera uppi þjófélag. Þegar lög og regla þjófélagsins brotnar niður, og enginn möguleiki er á að ná rétti sínum, hvað eiga guðhræddir menn þá að gera? Þeir eiga að treysta á Jehóva. Hann situr í himnesku hásæti sínu og sér allt sem gerist; hann mun ekki bregðast okkur.
Lærdómur fyrir okkur: Sálmur 4:6 hvetur guðhrædda menn til að ‚færa réttar fórnir.‘ Á dögum Davíðs urðu Ísraelsmenn að færa fórnir á altari Jehóva. Þeir urðu líka að hafa rétt viðhorf og einlægan iðrunarhug. (Jesaja 1:11-17) Þegar kristnir menn færa sínar andlegu fórnir þurfa þeir líka að hafa rétt viðhorf og lifa samkvæmt háum staðli Jehóva. — Hebreabréfið 13:4, 5, 15, 16; 1. Pétursbréf 2:1, 5.
Óviðjafnanlegur Guð
Lestu Sálm 15 til 24. Þessir sálmar geyma fjölmargar lofgerðir til Jehóva. Hann er verndari þjóna sinna (18), skapari og löggjafi (19), bjargvættur (20), verndari síns útvalda konungs (21), hirðirinn mikli (23) og dýrlegur konungur (24).
◆ 16:10 — Hver er hinn „trúaði“ sem hér er nefndur?
Sumir biblíufræðingar heimfæra þetta vers á trúaða menn almennt og nefna því til stuðnings að í sumum hebreskum handritum standi orðið fyrir ‚trúaður‘ í fleirtölu. En þegar vitnað er í þetta vers í kristnu Grísku ritningunum stendur orðið í eintölu og gefur í skyn að um sé að ræða aðeins einn ‚trúaðan.‘ Hver er hann? Í fyrstu sennilega Davíð sjálfur. Spádómlega heimfæra bæði Pétur og Páll þetta vers á Jesú. — Postulasagan 2:25-32; 13:35-37.
◆ 21:4 — Hver var hin ‚gullna kóróna‘?
Ef til vill var þetta bókstafleg kóróna svo sem sú er tekin var af skurðgoðinu Milkóm. (Samanber 2. Samúelsbók 12:29, 30.) Einnig má vera að kórónan sé hreinlega tánræn, tákn þess að sigur Davíðs hefði orðið konungdómi hans til enn meiri prýði. Sem spádómur bendir þessi sálmur á hvernig Jehóva gaf Jesú konungskórónu árið 1914. Hin ‚gullna kóróna‘ vísar til þess að stjórn hans er í hæsta gæðaflokki.
◆ 22:2 — Hafði Guð yfirgefið Davíð?
Nei, en þegar Davíð var undir miklu álagi frá óvinum sínum leit út fyrir það. Mannleg viðbrögð Davíðs í nauðum hans bera ekki vott um vöntun á trú, því að hann biður með trúartrausti um björgun. (Vers 17-20.) Athyglisvert er að Jesús vitnaði í þennan sálm áður en hann dó á kvalastaurnum. Með því að spyrja „hví?“ lét Jesús í ljós það mikla álag sem á honum hvíldi, en um leið að hann væri saklaus af þeim falskærum sem leiddu til aftöku hans.
Lærdómur fyrir okkur: Páll postuli vitnar í Sálm 22:23 og heimfærir hann á það hvernig Jesús Kristur tekur forystuna meðal smurðra bræðra sinna í að boða nafn Jehóva. (Hebreabréfið 2:11, 12) Sálmur 22:28 vísar til þess tíma þegar „allar ættir þjóðanna“ myndu ganga í lið með þjónum Jehóva og lofa hann. Núna dýrkar víðáttumikill, alþjóðlegur hópur Guð með bræðrum Jesú. (Opinberunarbókin 7:9) Við ættum að halda okkur nærri þessari ráðstöfun Guðs.
Hinn mikli máttur Jehóva
Lestu Sálm 25 til 34. Í Sálmi 25 og 26 lýsir Davíð löngun sinni til að ganga fram í rávendni. Síðan lætur hann í ljós óbilandi traust sitt til Jehóva, og í Sálmi 33 er stórfengleg lýsing á mætti Jehóva.
◆ 28:8 — Hver er hinn ‚smurði‘ þjónn Jehóva?
Í þessu versi er ‚hinn smurði‘ útvalin þjóð Jehóva eins og sjá má af ljóðlínunni á undan, „[Jehóva] er vígi lýð sínum.“ Þessi orð hafa spádómlega þýðingu líka Habakkuk 3:13. Þau benda á að Jehóva bjargi sínum smurðu leifum í stríðinu við Harmagedón.
◆ 29:5, 6 — Hvernig brýtur raust Jehóva sundur sedrustré?
Í þessum sálmi er mætti Jehóva lýst á myndríku máli með því að líkja rödd hans við þrumustorm. Stormurinn geysist frá Líbanon í norðri til eyðimerkursvæðanna í suðri og vekur á leið sinni óttablandna lotningu. (Vers 9b) Vindurinn skekur sedrustrén í Líbanon svo að þau ‚hoppa eins og kálfar‘ og eldingum slær niður í sum trén svo að þau ‚brotna sundur.‘ Á sama hátt lætur stormurinn „eyðimörkina skjálfa“ (vers 8) og þyrlar upp eyðimerkursandinum svo að hún virðist skjálfa af kvöl.
◆ 33:6 — Hvert er það ‚orð Jehóva‘ sem hér er nefnt?
Með ‚orði Jehóva‘ er hér átt við heilagan anda hans eða starfskraft. Eins og orð okkar og andardráttur gengur samtímis út af munninum, eins er orð Jehóva eða boð hér tengt andardrætti hans eða anda. Guð beitti heilögum anda sínum þegar hann skapaði sólina, tunglið og stjörnurnar, það er að segja allan hinn táknræna her himinsins. — Samanber 1. Mósebók 1:1, 2.
Lærdómur fyrir okkur: Í Sálmi 26:5 segist Davíð hata söfnuð illvirkjanna. Vottar Jehóva nú á tímum forðast með sama hætti félagsskap við illvirkja. (1. Korintubréf 15:33) Alveg eins og Davíð sýndi húsi Guðs mikinn áhuga er þessum sannkristnu mönnum það yndi að eiga félagsskap hver við annan í skipulagi Jehóva. — Sálmur 26:6-8; 122:1.
‚Lofaður sé Jehóva‘
Lestu Sálm 35 til 41. Af þessum sálmum skera sig úr Sálmur 36, þar sem Jehóva er lýst sem uppsprettu lífsins, og Sálmur 37 sem fullvissar okkur að þeir sem vilja þiggja kennslu muni að lokum hljóta umbun. Sálmur 40 er einnig sérstaklega eftirtektarverður því að þar eru spádómleg orð sem varða Jesú Krist.
◆ 35:19 — Hvers vegna skyldu óvinir Davíðs hafa ‚skotrað augunum‘?
Hebreski textinn kallar þá bókstaflega ‚óvini mína í falsi.‘ Hatur þeirra stafaði með öðrum orðum af óhreinu tilefni. Davíð hafði ekkert gert til að verðskulda fjandskap þeirra og bað þess að þeir fengju ekkert tækifæri til að hlakka yfir honum. (Vers 19a) Síðan bað hann þess að illskeyttir fjendur hans hefðu enga ástæðu til að „skotra augunum“ sem merki þess að þeir hlökkuðu yfir því að ill áform þeirra hefðu borið árangur. (Orðskviðirnir 10:10; 16:29, 30) Jesús vitnaði í þetta vers og heimfærði það á þá sem hötuðu hann. — Jóhannes 15:24, 25.
◆ 36:4 — Höfðu hinir óguðlegu einu sinni verið hyggnir?
Hér er gefið í skyn að breyting hafi orðið á hegðun slíks manns og að hann sé ekki lengur það sem hann einu sinni játaði sig vera. Kannski lét hann áður í ljós visku og gerði gott. Nú hafði hann snúið baki við því og var orðinn fráhvarfsmaður. Sál konungur var einn slíkur sem sneri út af braut viskunnar og sýndi Davíð hatur. (1. Samúelsbók 18. kafli) Sumir fræðimenn halda jafnvel fram að Davíð hafi haft Sál í huga í þessum orðum.
◆ 40:7 — Hvað er átt við með orðunum „þú hefir gefið mér opin eyru“?
Þetta getur merkt að Jehóva hafi samstillt eyru Davíðs fyrirmælum sínum, eða jafnvel að Jehóva hafi skapað eyru sem Davíð gat heyrt boð hans með. Athyglisvert er að í Sjötíumannaþýðingunni skuli þessi orð vera þýdd svo: „Þú bjóst mér líkama.“ Hver sem er uppruni þeirrar þýðingar felur hún í sér sömu grunnhugmynd og hebreskan, það er að segja undirstrikar þörfina á hlýðni. (Samanber 1. Samúelsbók 15:22; Hósea 6:6.) Páll heimfærði þetta vers á Jesú Krist. (Hebreabréfið 10:5-10) Þar eð Páll notaði Sjötíumannaþýðinguna eru orðin „líkama hefur þú búið mér“ nú hluti ‚allrar ritningar‘ sem er „innblásin af Guði.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
Lærdómur fyrir okkur: Sálmur 37 geymir margvíslegan lærdóm fyrir okkur sem búum meðal rangsnúinnar kynslóðar. Jafnvel þótt illgjörðamennirnir dafni ættum við ekki að vera öfundsjúk og reyna að líkja eftir þeim. Þess í stað ættum við að ‚vera hljóð fyrir Jehóva‘ og ekki finna að, heldur að treysta honum með stillingu til að grípa til aðgerða í okkar þágu á sínum tíma. — Sálmur 37:5, 7.
Já, Sálmarnir geyma mörg hvetjandi og hughreystandi orð. Í fyrsta 41 sálminum er sýnt aftur og aftur fram á að óháð því hve erfiðar aðstæður okkar eru yfirgefur Jehóva okkur ekki. Við ættum sannarlega, eftir að hafa lesið þá, að finna hjá okkur hvöt til að enduróma lokaorðin í Sálmi 41: „Lofaður sé [Jehóva], Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.“