Þeir eru öruggir sem treysta Jehóva í einu og öllu
„Drottinn heyrir er ég hrópa til hans.“ — SÁLM. 4:4.
1, 2. (a) Í hvaða hættu lenti Davíð? (b) Um hvaða sálma ætlum við að ræða?
DAVÍÐ konungur hefur ríkt í Ísrael árum saman en er nú í bráðri lífshættu. Absalon, sonur hans, hefur gert samsæri gegn honum. Hann hefur lýst sjálfan sig konung og Davíð hefur neyðst til að yfirgefa Jerúsalem. Náinn trúnaðarvinur hefur sömuleiðis svikið hann, og nú gengur hann grátandi og berfættur upp á Olíufjallið ásamt fáeinum dyggum mönnum. Símeí, sem er af ætt Sáls konungs, kastar að honum mold og grjóti og formælir honum. — 2. Sam. 15:30, 31; 16:5-14.
2 Á Davíð nú að deyja með skömm við þessar dapurlegu aðstæður? Nei, því að hann treystir á Jehóva. Það má sjá af þriðja sálminum sem Davíð orti um flóttann undan Absalon. Hann orti einnig fjórða sálminn. Í báðum sálmunum kemur fram sú sannfæring Davíðs að Guð heyri bænir og svari þeim. (Sálm. 3:5; 4:4) Ljóst er að Jehóva er með trúum þjónum sínum dag og nótt, styður þá og veitir þeim frið og öryggiskennd. (Sálm. 3:6; 4:9) Við skulum því kynna okkur þessa sálma og kanna hvers vegna þeir vekja með okkur öryggiskennd og hvetja okkur til að treysta Guði.
Þegar ,margir rísa gegn okkur‘
3. Í hvernig stöðu var Davíð eins og sjá má af Sálmi 3:2, 3?
3 „Ísraelsmenn eru orðnir hliðhollir Absalon,“ segir sendiboði. (2. Sam. 15:13) Davíð er spurn hvernig Absalon hafi tekist að fá svona marga til fylgis við sig og segir: „Drottinn, hversu margir eru óvinir mínir, margir rísa gegn mér, margir segja um mig: ,Hann fær enga hjálp frá Guði.‘“ (Sálm. 3:2, 3) Margir Ísraelsmenn halda að Jehóva ætli ekki að forða Davíð undan Absalon og fylgismönnum hans.
4, 5. (a) Hverju treystir Davíð? (b) Hvað merkja orðin: „Þú . . . lætur mig bera höfuðið hátt“?
4 En Davíð telur sig vera óhultan vegna þess að hann treystir Guði í einu og öllu. Hann syngur: „En þú, Drottinn, ert skjöldur minn, sæmd mín og lætur mig bera höfuðið hátt.“ (Sálm. 3:4) Davíð er þess fullviss að hann njóti verndar Jehóva, rétt eins og skjöldur verndar hermanninn. Hinn aldni konungur er vissulega á flótta. Hann er beygður og hylur höfuðið. En hinn hæsti á eftir að breyta auðmýkingu Davíðs í sæmd. Hann gerir honum kleift að rétta úr sér og bera höfuðið hátt á nýjan leik. Davíð ákallar Guð í þeirri vissu að fá bænheyrslu. Berð þú sams konar traust til Jehóva?
5 Þegar Davíð segir: „Þú . . . lætur mig bera höfuðið hátt,“ er hann að tala um hjálpina sem hann væntir frá Jehóva. Í biblíuþýðingunni Today’s English Version er versið orðað þannig: „En þú, DROTTINN, ert alltaf skjöldur minn gegn hættum, þú veitir mér sigur og hugrekki á ný.“ Um orðalagið „lætur mig bera höfuðið hátt“ segir í heimildarriti: „Þegar Guð lætur mann bera ,höfuðið‘ hátt veitir hann manni von og öryggiskennd.“ Davíð hafði verið hrakinn frá völdum og var eðlilega örvilnaður. En Jehóva ,lætur hann bera höfuðið hátt‘ svo að hann endurheimtir hugrekkið og treystir Jehóva í einu og öllu.
,Drottinn svarar‘
6. Af hverju talar Davíð um að Jehóva svari bæn hans af heilögu fjalli sínu?
6 Orð Davíðs vitna um að hann beri enn fullt traust til Jehóva. Hann heldur áfram: „Ég hrópa hátt til Drottins og hann svarar af sínu heilaga fjalli.“ (Sálm. 3:5) Í samræmi við fyrirmæli Jehóva hefur sáttmálsörkin verið flutt á Síonfjall en hún er tákn um nærveru Jehóva. (Lestu 2. Samúelsbók 15:23-25.) Það er því vel við hæfi að Davíð skuli tala um að Jehóva svari bæn hans af heilögu fjalli sínu.
7. Af hverju kvíðir Davíð engu?
7 Davíð kvíðir engu því að hann er þess fullviss að Guð heyri bænir. Hann syngur: „Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna því að Drottinn hjálpar mér.“ (Sálm. 3:6) Davíð er óhræddur að ganga til svefns að kvöldi þó að hættan á árás sé mest að nóttu til. Hann er viss um að hann vakni ef þörf krefur því að hann veit af fenginni reynslu að hann getur treyst að stuðningur Guðs bregðist aldrei. Hið sama er að segja um okkur ef við höldum okkur á „vegi Drottins“ og víkjum aldrei af honum. — Lestu 2. Samúelsbók 22:21, 22.
8. Hvernig ber Sálmur 27:1-4 með sér að Davíð treysti á Jehóva?
8 Ljóst er af öðrum sálmi, sem Davíð orti, að hann treystir á Guð í einu og öllu. Þar standa þessi innblásnu orð: „Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast? . . . Þó að her setjist um mig óttast hjarta mitt ekki . . . Eins hef ég beðið Drottin, það eitt þrái ég, að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að horfa á yndisleik Drottins og leita svara í musteri hans.“ (Sálm. 27:1-4) Ef þú ert sama sinnis og ef aðstæður þínar leyfa sækirðu safnaðarsamkomur reglulega ásamt trúsystkinum þínum. — Hebr. 10:23-25.
9, 10. Hvernig vitum við að Davíð var ekki hefnigjarn, þrátt fyrir orð hans í Sálmi 3:7, 8?
9 Enda þótt Davíð hafi verið svikinn af Absalon og margir aðrir hafi brugðist honum syngur hann: „Ég óttast eigi þó að óvígur her fylki sér gegn mér á alla vegu. Rís upp, Drottinn, bjarga mér, Guð minn, því að þú löðrungar fjandmenn mína, brýtur tennur óguðlegra.“ — Sálm. 3:7, 8.
10 Davíð er ekki hefnigjarn. Ef á að ,löðrunga‘ óvini hans sér Guð um það. Davíð hefur gert sér afrit af lögmálinu og hann veit að þar segir Jehóva: „Mín er hefndin og mitt að endurgjalda.“ (5. Mós. 17:14, 15, 18; 32:35) Það er líka hlutverk Guðs að ,brjóta tennur óguðlegra‘. Það merkir að hann gerir þá ófæra um að vinna öðrum mein. Jehóva veit hverjir eru óguðlegir því að hann „horfir á hjartað“. (1. Sam. 16:7) Við getum verið innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli gefa okkur trú og kraft til að standa einbeitt á móti Satan sem er öllum öðrum óguðlegri. Þótt hann sé eins og öskrandi ljón verður honum bráðlega kastað í undirdjúpið. Þá verður hann eins og tannlaust ljón sem á ekkert annað í vændum en tortímingu. — 1. Pét. 5:8, 9; Opinb. 20:1, 2, 7-10.
„Hjálpin kemur frá Drottni“
11. Af hverju ættum við að biðja fyrir trúsystkinum okkar?
11 Davíð veit að enginn nema Jehóva getur bjargað honum úr nauðum hans. En hann hugsar ekki bara um sjálfan sig. Hvað um útvalda þjóð Jehóva í heild? Davíð lýkur innblásnum sálmi sínum með viðeigandi hætti: „Hjálpin kemur frá Drottni. Blessun þín komi yfir lýð þinn.“ (Sálm. 3:9) Davíð er vissulega í gríðarlegum vanda staddur en hann hugsar til þjóðar Jehóva í heild og treystir að hann blessi hana. Ættum við ekki líka að hugsa til trúsystkina okkar? Við skulum minnast þeirra í bænum okkar og biðja Jehóva að gefa þeim heilagan anda svo að þau geti verið hugrökk og boðað fagnaðarerindið óttalaust. — Ef. 6:17-20.
12, 13. Hvernig fór fyrir Absalon og hvernig brást Davíð við?
12 Absalon endar ævina við lítinn orðstír. Það er viðvörun öllum sem ætla sér að fara illa með aðra, ekki síst smurða þjóna Jehóva eins og Davíð. (Lestu Orðskviðina 3:31-35.) Það kemur til bardaga og sveitir Absalons bíða lægri hlut. Absalon, sem var hárprúður mjög, er á flótta á múldýri þegar hann flækir hárið í greinaþykkni á stóru tré. Hann hangir þar hjálparvana uns Jóab drepur hann með því að reka þrjú spjót í hjarta hans. — 2. Sam. 18:6-17.
13 Fagnar Davíð þegar hann fréttir örlög sonar síns? Nei, hann gengur um gólf, grætur og stynur: „Sonur minn, sonur minn, Absalon. Ég hefði betur dáið í þinn stað. Sonur minn, Absalon, sonur minn!“ (2. Sam. 18:24–19:1) Davíð er nánast bugaður af sorg uns Jóab talar við hann. Absalon hlaut hörmulegan dauðdaga. Metnaðargirndin hafði blindað hann og hann kallaði ógæfuna yfir sig með því að berjast gegn föður sínum sem var útvalinn af Jehóva. — 2. Sam. 19:2-9; Orðskv. 12:21; 24:21, 22.
Davíð ítrekar að hann treysti Guði
14. Hvað má segja um fjórða sálminn?
14 Fjórði sálmurinn er, líkt og sá þriðji, einlæg bæn sem vitnar um að Davíð treysti Jehóva í einu og öllu. (Sálm. 3:5; 4:4) Vera má að Davíð hafi ort þetta ljóð til að tjá hve þakklátur hann var og hve honum var létt eftir að valdaránstilraun Absalons fór út um þúfur. Eins má vera að hann hafi haft söngvara af hópi Levíta í huga þegar hann orti sálminn. Hvort heldur er getur þessi sálmur styrkt traust okkar til Jehóva.
15. Af hverju getum við treyst að Jehóva bænheyri okkur þegar við biðjum í nafni Jesú?
15 Enn á ný lætur Davíð í ljós að hann treysti Jehóva í hvívetna og sé fullviss um að hann fái bænheyrslu. Hann syngur: „Svara mér þegar ég hrópa, þú, Guð réttlætis míns. Þá er að mér þrengdi rýmkaðir þú um mig. Miskunna mér og heyr bæn mína.“ (Sálm. 4:2) Við getum líka treyst á bænheyrslu Guðs ef við gerum það sem er rétt. Við vitum að ,Guð réttlætisins‘ blessar ráðvanda þjóna sína. Þar sem við trúum á lausnarfórn Jesú getum við beðið í nafni hans í þeirri vissu að Jehóva bænheyri okkur. (Jóh. 3:16, 36) Það veitir okkur ólýsanlegan frið.
16. Af hverju kann Davíð að hafa orðið niðurdreginn?
16 Stundum verðum við niðurdregin aðstæðna vegna og finnum til öryggisleysis. Kannski leið Davíð þannig um tíma því að hann syngur: „Þér menn: Hve lengi hyggist þér veitast að sæmd minni, elska hégómann og leita til lyginnar?“ (Sálm. 4:3) Með orðunum „þér menn“ mun vera átt við menn í niðrandi merkingu. Óvinir Davíðs ,elskuðu hégómann‘. Í biblíuþýðingunni New International Version er versið orðað svona: „Hve lengi ætlið þið að elska blekkingar og elta falsguði?“ Jafnvel þótt við verðum niðurdregin vegna þess sem aðrir gera skulum við halda áfram að biðja í einlægni og treysta hinum eina sanna Guði í hvívetna.
17. Hvernig getum við breytt í samræmi við Sálm 4:4?
17 Augljóst er af orðum Davíðs að hann treystir Guði. Hann segir: „Vitið að Drottinn er náðugur þeim sem honum er trúr, Drottinn heyrir er ég hrópa til hans.“ (Sálm. 4:4) Til að vera Guði trú þurfum við að vera hugrökk og treysta honum í einu og öllu. Þetta er til dæmis nauðsynlegt í kristinni fjölskyldu þegar ættingja er vikið úr söfnuðinum af því að hann syndgar og iðrast ekki. Guð blessar þá sem eru honum trúir og ganga á vegi hans. Og Jehóva veitir gleði þeim sem eru honum trúir og treysta honum. — Sálm. 84:12, 13.
18. Hvað ættum við að gera samkvæmt Sálmi 4:5 ef einhver hefur sagt eða gert eitthvað á hlut okkar?
18 Setjum sem svo að einhver segi eða geri eitthvað sem kemur okkur í uppnám. Við getum haldið gleði okkar ef við gerum eins og Davíð segir: „Skelfist en syndgið ekki, hugleiðið þetta í hvílum yðar og verið hljóðir.“ (Sálm. 4:5) Ef einhver hefur sagt eða gert eitthvað á hlut okkar skulum við ekki syndga með því að svara í sömu mynt. (Rómv. 12:17-19) Við getum hugleitt málin eftir að við erum komin í háttinn. Ef við tjáum Jehóva í bæn hvernig okkur er innanbrjósts sjáum við hlutina ef til vill í öðru ljósi. Kærleikurinn getur þá verið okkur hvöt til að fyrirgefa. (1. Pét. 4:8) Við skulum hafa í huga leiðbeiningar Páls postula sem virðast vera byggðar á Sálmi 4:5: „Ef þið reiðist þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ — Ef. 4:26, 27.
19. Hvernig getur Sálmur 4:6 hjálpað okkur að tilbiðja Jehóva á réttan hátt?
19 Davíð leggur áherslu á nauðsyn þess að treysta Guði og syngur: „Færið réttar fórnir og treystið Drottni.“ (Sálm. 4:6) Fórnir Ísraelsmanna voru til einskis nema þær væru bornar fram af réttu tilefni. (Jes. 1:11-17) Til að tilbeiðsla okkar sé Jehóva þóknanleg þurfum við líka að þjóna honum af réttum hvötum og treysta honum í einu og öllu. — Lestu Orðskviðina 3:5, 6; Hebreabréfið 13:15, 16.
20. Hvað er átt við þegar talað er um ,ljós auglitis Jehóva‘?
20 Davíð heldur áfram: „Margir segja: ,Hver lætur oss hamingju líta?‘ Drottinn, lát ljós auglitis þíns lýsa yfir oss.“ (Sálm. 4:7) Með ,ljósi auglitis Jehóva‘ er átt við velþóknun hans. (Sálm. 89:16) Þegar Davíð biður: „Lát ljós auglitis þíns lýsa yfir oss“ er hann í rauninni að biðja um velþóknun hans. Þar sem við treystum á Jehóva þóknumst við honum og höfum mikla ánægju af því að gera vilja hans.
21. Hvað er öruggt ef við tökum sem mestan þátt í andlega uppskerustarfinu?
21 „Þú hefur glatt hjarta mitt meira en aðrir gleðjast yfir gnægð korns og víns,“ syngur Davíð og hugsar þar til gleðinnar sem fylgir því að þjóna Jehóva. (Sálm. 4:8) Ef við vinnum af kappi að andlegu uppskerunni er öruggt að við finnum til mikillar gleði. (Lúk. 10:2) Við gleðjumst og fögnum að sjá fleiri verkamenn koma til að vinna að uppskerunni undir forystu hinna andasmurðu. (Jes. 9:2) Tekurðu dyggilega þátt í þessu ánægjulega uppskerustarfi?
Höldum ótrauð áfram og treystum Guði
22. Hvernig vegnaði Ísraelsmönnum meðan þeir héldu lögmál Guðs, samanber Sálm 4:9?
22 Davíð lýkur sálminum með þessum orðum: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna því að þú einn, Drottinn, lætur mig hvíla óhultan í náðum.“ (Sálm. 4:9) Ísraelsmenn áttu frið við Jehóva og voru óhultir meðan þeir héldu lögmál hans. Til dæmis segir í 1. Konungabók 4:25 að,íbúar Júda og Ísraels hafi búið við öryggi‘ í stjórnartíð Salómons. Þeir sem treystu á Guð bjuggu við frið jafnvel þótt grannþjóðirnar væru þeim fjandsamlegar. Við sofum vært líkt og Davíð vegna þess að við finnum að við erum óhult undir verndarhendi Jehóva.
23. Hvernig verður hlutskipti okkar ef við treystum Guði í einu og öllu?
23 Við skulum halda ótrauð áfram í þjónustu Jehóva. Biðjum til hans í trú. Þá njótum við ,friðar Guðs sem er æðri öllum skilningi‘. (Fil. 4:6, 7) Það veitir okkur ómælda gleði. Og við getum horft óhrædd til framtíðar ef við treystum Jehóva í einu og öllu.
Hvert er svarið?
• Í hvaða erfiðleikum lenti Davíð af völdum Absalons?
• Hvernig vekur þriðji sálmurinn með okkur öryggiskennd?
• Hvernig getur fjórði sálmurinn styrkt traust okkar á Jehóva?
• Hvernig er það okkur til góðs að treysta á Guð í einu og öllu?
[Mynd á bls. 29]
Davíð treysti á Jehóva jafnvel meðan hann var á flótta undan Absalon.
[Myndir á bls. 32]
Treystir þú á Jehóva í einu og öllu?