Höfuðþættir biblíubókanna Sálmur 73 til 106
‚Lofa Jehóva‘ – hvers vegna?
Hver okkar getur verið vanþakklátur þegar hann hugsar um allt sem Jehóva hefur gert, er að gera og á eftir að gera fyrir okkur? Sannarlega ættu hjörtun að koma okkur til að lofa Guð okkar. Lögð er rík áhersla á það í þriðju og fjórðu bók Sálmanna að við höfum ærna ástæðu til að lofa Jehóva. Þegar við rennum yfir meginatriði Sálms 73 til 106 skaltu spyrja sjálfan þig: ‚Hvaða ástæðu hef ég persónulega til að lofa Jehóva?‘
Ekki öfunda óguðlega
Lestu Sálm 73 til 77. Þessir sálmar eru eignaðir Asaf, greinilega að sonum hans meðtöldum. Asaf játar að hann hafi öfundað hina óguðlegu — þar til skynsemin náði yfirhöndinni. (Sálmur 73) Síðan er eyðing Jerúsalem hörmuð. (Sálmur 74) Þessu næst eru þakkir til hins ‚ógurlega‘ Guðs og að síðustu bæn til hins ‚mikla Guðs‘ þess efnis að hann muni eftir þjáðri þjóð sinni. — Sálmur 75-77.
◆ 73:24 — Hvaða „dýrð“ veitti Jehóva sálmaritaranum?
Þar til sálmaritaranum varð ljóst að það væru ‚gæði að vera nálægt Guði‘ fannst honum hinum óguðlegu vegna betur en hinum réttlátu. (Sálmur 73:2-12, 28) Með því að láta „ályktun“ og ráð Guðs leiða sig veittist honum „dýrð,“ það er að segja hylli Jehóva, blessunarríkt samband við hann.
◆ 76:7 — Hvernig „hnigu bæði vagnar og hestar í dá“?
Ísraelsmönnum var kennt að treysta á Jehóva í stað hesta og hervagna. (Sálmur 20:8; Orðskviðirnir 21:31) Þeir höfðu enga ástæðu til að óttast hesta og hervagna óvina sinna, því að Jehóva gat gert óvini þeirra magnlausa, látið þá falla „í dá.“ Hér er átt við ‚eilífan svefn‘ — sjálfan dauðann. (Jeremía 51:39) Það ætti að vera aðvörun leiðtogum veraldar nú á tímum sem treysta á heri sína. — Sálmur 76:13.
Lærdómur fyrir okkur: Sálmur 75 geymir aðvörun gegn drambsemi þegar hann segir: „Hefjið eigi hornin!“ (Vers 5) Horn voru tákn styrks og máttar. (5. Mósebók 33:17) Að hefja upp hornin var að hegða sé drembilega. Sálmaritarinn varar hinn óguðlega við að sýna hroka og stærilæti yfir þeirri öruggu valdastöðu, sem hann heldur sig hafa, því að Jehóva mun ‚höggva af öll horn óguðlegra.‘ (Sálmur 75:11) Þessi vitneskja hvetur þjóna Guðs til að vera honum trúfastir þrátt fyrir þá velsæld sem hinir óguðlegu virðast njóta. — Samanber Sálm 144:11-15a.
Hlýddu ‚Hinum hæsta‘
Lestu Sálm 78 til 83. Asafssálmar halda áfram. Tíundaður er sá lærdómur sem draga má af sögu Ísraels. (Sálmur 78) Þar næst er hörmuð eyðing musterisins og loks kemur bæn um endurreisn Ísraels. (Sálmur 79, 80) Að loknu ljóði þar sem athyglinni er beint að frelsun Guðs og þjóð hans er hvött til að hlýða honum, eru áköll til Jehóva um að fullnægja dómi yfir spilltum dómurum og óvinum Ísraels. — Sálmur 81-83.
◆ 82:1 — Hvernig dæmir Guð „mitt á meðal guðanna“?
‚Guðirnir‘ sem hér er átt við, eru dómarar Ísraels. Þeir voru kallaðir guðir vegna þess að þeir gegndu háu dómaraembætti. Jehóva, hinn mikli dómari, hafði guðlegan rétt til að ganga inn á þing slíkra dómara og ávíta þá fyrir að hafa ekki dæmt samkvæmt lögum hans. — Jesaja 33:22; Sálmur 82:2-4.
◆ 83:10-16 — Var sálmaritarinn í hefndarhug?
Alls ekki. Hann var að biðja Guð að fullnægja dómi á ‚hatursmönnum‘ Jehóva. (Vers 3) Aðrar þjóðir gátu þá lært að sá Guð, sem ber nafnið Jehóva, er sannarlega „Hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ (Vers 19) Þegar máttur Guðs birtist þannig yrði nafn hans, Jehóva, miklað um alla jörðina.
Lærdómur fyrir okkur: Það að minnst skuli á „kjarnbesta hveiti“ gefur til kynna að Jehóva umbunar ríkulega þeim sem hlýða honum. (Sálmur 81:17) Ef Ísraelsmenn hefðu ‚heyrt raustu Jehóva‘ hefði hann blessað þá með ‚kjarnbesta hveiti‘ — hinu besta af öllu. (Sálmur 81:12; 5. Mósebók 32:13, 14) Ef við ‚hlýðum á raust Jehóva‘ mun hann einnig ríkulega blessa okkur. — Orðskviðirnir 10:22.
Að nálgast Guð
Lestu Sálm 84 til 89. Sálmaritarinn lætur í ljós að hann þrái hús Guðs. (Sálmur 84) Hinir heimkomnu útlagar biðja Guð að taka frá þeim reiði sína. (Sálmur 85) Davíð biður um leiðsögn og vernd í trausti þess að Jehóva svari honum. (Sálmur 86) Næst kemur ljóð um þá sem eru ‚fæddir í Síon‘, og síðan ákall þjáðs manns. (Sálmur 87, 88) Loks er lýst ást og góðvild Jehóva eins og hún birtist í Davíðssáttmálanum. — Sálmur 89.
◆ 84:4 — Hvers vegna er minnst á fugla?
Sálmaritarinn, sem var Levíti kominn af Kóra, þráði að vera í ‚forgörðum‘ Jehóva, tjaldbúð hans. (Vers 2, 3) En Levítarnir skiptu tugum þúsunda. Aðeins einu sinni á hálfs árs fresti fékk hver Levítahópur að þjóna í eina viku í tjaldbúðinni. Jafnvel smáfuglar áttu sér varanlegra heimili í helgidóminum með því að gera sé hreiður þar. Það hefði verið sálmaritaranum mikil hamingja að lofa Jehóva með því að eiga líka varanlegan bústað í húsi hans!
◆ 89:50 — Hver voru þessi „náðarverk“?
Orðið „náðarverk“ á við sáttmálann um ríkið ásamt öllu sem honum tengist. Á erfiðleikatímum var viðeigandi af Ísraelsmönnum að vekja athygli á þessum loforðum Jehóva, ekki af því að þeir drægju í efa að hann héldi sáttmálann, heldur í því skyni að ákalla Guð á grundvelli hans.
Lærdómur fyrir okkur: Sálmur 85 undirstrikar hvað ætti að koma okkur til að þrá nýja skipan Guðs. Aðeins stuttlega er minnst á efnislegar blessanir. (Vers 13) Aðaláherslan er lögð á andlegar blessanir — elsku, trúfesti, réttlæti, frið. (Vers 11-14) Jehóva höfðar ekki til efnislegra langana heldur sýnir að hin andlega blessun nýju heimsskipanarinnar ætti að vera sterkasta aflið sem knýr okkur til verka.
‚Jehóva er orðinn konungur!‘
Lestu Sálm 90 til 100. Móse ber saman eilífleika Guðs og skamma ævi mannsins og minnir síðan á að öryggi okkar sé frá Jehóva komið. (Sálmur 90, 91) Lof er borið á hina háu eiginleika Jehóva og sálmarnir, sem á eftir fara, lýsa mætti Guðs, ást, góðvild og réttlæti, auk þess að halda á lofti stefinu um Guðsríki. — Sálmur 92-100.
◆ 90:10 — Lifði Móse ekki miklu lengur en 80 ár?
Móse, sem náði 120 ára aldri, var ekki dæmigerður fyrir fólk almennt. Af hinni trúlausu kynslóð, sem kom út úr Egyptalandi, áttu allir sem skráðir voru „frá tvítugs aldri og þaðan af eldri“ að deyja innan 40 ára, vel innan þeirra marka sem Móse sagði. (4. Mósebók 14:29-34) Móse er svo lýst við dauða sinn að ‚eigi hafi honum glapnað sýn og eigi þorrið þróttur hans,‘ og það gefur til kynna að kraftur Guðs hafi haldið honum uppi. — 5. Mósebók 34:7.
◆ 95:3 — Í hvaða skilningi er Jehóva „konungur yfir öllum guðum“?
Sem drottinvaldur alheims er Jehóva æðstur og konungur yfir öllum fölskum guðdómum í þeim skilningi að hann er langt yfir þá settur. Það er hreinlega ekki hægt að líkja Jehóva Guði við nokkurn engil eða nokkuð annað sem sumir kynnu að tilbiðja, þar með taldir falsguðir sem eru í raun ekki til.
Lærdómur fyrir okkur: Sálmur 91 leggur áherslu á aðra ástæðu sem við höfum til að lofa Jehóva — ‚skjól hins hæsta.‘ (Vers 1) Þetta skjól er staður andlegs öryggis, vernd gegn andlegu tjóni handa þeim sem uppfylla þær kröfur er sálmurinn setur. Fólk heimsins, sem skortir andlega sjón, fær ekki séð þetta skjól. Sú staðreynd að þetta er skjól „Hins hæsta“ gefur til kynna að við finnum þar öryggi aðeins ef við styðjum málstað Jehóva í deilumálinu um drottinvald yfir alheiminum.
‚Lofið Jehóva‘
Lestu Sálm 101 til 106. Davíð lýsir hér hvernig hann stjórnaði málefnum ríkis síns. (Sálmur 101) Hrjáður maður biður Jehóva að ‚byggja upp Síon.‘ (Sálmur 102) Í sálmunum á eftir er hvatning til að ‚lofa Jehóva,‘ en þar er vakin athygli á miskunn Guðs, hátign og sköpunarverkum. Hér kemur einnig fyrst fyrir af alls 20 skiptum í Sálmunum orðið „Halelúja“ sem merkir „Lofið Jah, þið lýðir!“ (Sálmur 103, 104) Að lokum eru tveir sálmar með sögulegu efni sem lofa Jehóva fyrir verk hans í þágu þjóðar sinnar. — Sálmur 105, 106.
◆ 102:26 — Hver ‚grundvallaði jörðina‘?
Sálmaritarinn var að tala um Guð en Páll postuli heimfærir þessi orð á Jesú Krist. (Hebreabréfið 1:10, 11) Reyndin er sú að þessi orð eiga líka við Jesú, því að hann var aðalfulltrúi Jehóva við sköpun alheimsins. (Kólossubréfið 1:15, 16) Því mátti einnig segja að Jesús hefði ‚grundvallað jörðina.‘
◆ 103:14 — Hvað er átt við hér með „eðli“?
Orðið, sem hér er þýtt „eðli,“ er skylt sögninni „að mynda,“ notuð í 1. Mósebók 2:7, og nafnorðinu „leirkerasmiður,“ notað um þann sem mótar hluti úr leir. (Jesaja 29:16; Jeremía 18:2-6) Sálmaritarinn minnir okkur því á að Jehóva, leirkerasmiðurinn mikli, fari varlega með okkur þar eð hann veit að við erum jafnbrothættir og leirker. — Samanber 2. Korintubréf 4:7.
◆ 104:4 — Hvað merkir það að Jehóva ‚gerir vindana að sendiboðum sínum‘?
Orðið, sem hér er þýtt vindur, merkir líka „andi“ eða „starfskraftur.“ Englarnir eru andaverur og hér getur því ekki verið átt við andalíkami þeirra. En Guð getur notað engla sína sem sterkt afl til að framkvæma vilja sinn. Hann getur líka notað þá til að fullnægja dómi — sem „bálandi eld.“ Það er hvatning kristnum mönnum að vita að slíkar voldugar andaverur skuli styðja við bakið á þeim í prédikun þeirra. — Samanber Opinberunarbókina 14:6, 7.
Lærdómur fyrir okkur: Sálmur 106 hjálpar okkur að hafa í huga að hinir uppreisnargjörnu Kóra, Datan og Abíram öfunduðu Móse af stöðu hans sem leiðtogi þjóðar Guðs. (Sálmur 106:16; 4. Mósebók 16:2-11) Að lokum var uppreisnin brotin á bak aftur þegar „eldur kviknaði“ meðal uppreisnarseggjanna. (Sálmur 106:18) Rík áhersla er hér lögð á hversu hættulegt dramb og öfund séu. Það að andmæla útnefndum þjónum Jehóva nú á dögum getur líka haft í för með sér vanþóknun Guðs. — Hebreabréfið 13:17; Júdasarbréfið 4, 8, 11.
Jehóva hefur sannarlega gefið okkur margt sem við megum vera þakklát fyrir. Þegar við hugleiðum alla þá blessun, sem hann hefur úthellt yfir okkur, ættum við þá ekki að gera eins og sálmaritarinn hvatti til: „Lofa þú [Jehóva], sála mín“? — Sálmur 103:1.