Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Prédikarans
„MAÐURINN, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi,“ sagði ættfaðirinn Job. (Jobsbók 14:1) Við megum ekki sólunda stuttri ævi okkar í einskis verða hluti. Í hvað ættum við að nota tíma okkar, krafta og fjármuni? Hvað ættum við að forðast? Í Prédikaranum í Biblíunni er að finna góð ráð þar að lútandi sem geta dregið fram „hugsanir og hugrenningar hjartans“ og hjálpað okkur að gera lífið innihaldsríkt. — Hebreabréfið 4:12.
Prédikarinn er skrifaður af Salómon Ísraelskonungi sem var nafntogaður fyrir visku sína. Bókin hefur að geyma góð ráð um það hvað skipti raunverulega máli í lífinu og hvað ekki. Salómon minnist á sumar af byggingarframkvæmdum sínum í Prédikaranum þannig að hann hlýtur að hafa skrifað bókina eftir að þeim var lokið en áður en hann hvarf frá sannri tilbeiðslu. (Nehemíabók 13:26) Miðað við það hefur bókin verið skrifuð fyrir árið 1000 f.Kr., undir lok 40 ára stjórnartíðar Salómons.
HVAÐ ER EKKI HÉGÓMI?
„Allt er hégómi!“ segir prédikarinn og spyr svo: „Hvaða ávinning hefir maðurinn af öllu striti sínu, er hann streitist við undir sólinni?“ (Prédikarinn 1:2, 3) Orðin „hégómi“ og „undir sólinni“ koma alloft fyrir í bókinni. Hebreska orðið, sem þýtt er „hégómi“, merkir bókstaflega „andardráttur“ eða „gufa“. Það gefur til kynna innihaldsleysi, óstöðugleika eða skammvinnt gildi. Orðasambandið „undir sólinni“ merkir „hér á jörð“ eða „í þessum heimi“. Allt sem mennirnir gera án þess að skeyta um vilja Guðs er því hégómi.
„Haf gát á fæti þínum þegar þú gengur í Guðs hús, því að það er betra að koma þangað til þess að heyra,“ segir Salómon. (Prédikarinn 4:17) Það er ekki hégómi að tilbiðja Jehóva Guð heldur er það lykillinn að innihaldsríku lífi að gefa gaum að sambandi sínu við hann.
Biblíuspurningar og svör:
1:4-10 — Hvað er „þreytandi“ við hringrásir náttúrunnar? (Biblían 1859) Prédikarinn nefnir aðeins þrennt af því sem gerir að verkum að líf þrífst á jörðinni — sólina, hringrás vindsins og hringrás vatnsins. En hringrásirnar eru fleiri og afar margbrotnar. Hægt væri að eyða ævinni í að rannasaka þær án þess að skilja þær til fulls. Og það gæti verið „þreytandi“. Það er líka gremjulegt að bera stutt æviskeið mannsins saman við þessar hringrásir sem halda áfram endalaust. Sömuleiðis er þreytandi að reyna að uppgötva eitthvað nýtt. Sannleikurinn er sá að nýjar uppgötvanir eru ekki fólgnar í öðru en því að beita þeim lögmálum sem hinn sanni Guð setti í upphafi vega og notaði í sköpunarverkinu.
2:1, 2 — Af hverju er hláturinn sagður „vitlaus“? Hlátur getur hjálpað okkur að gleyma erfiðleikum um stund og gleðskapur getur auðveldað okkur að leiða hugann frá vandamálum. En erfiðleikarnir hverfa ekki þó að við hlæjum. Þess vegna eru hlátur og glaðværð sögð vera „vitlaus“.
3:11 — Hvað hefur Guð gert „hagfellt á sínum tíma“? Sköpun Adams og Evu var ‚hagfelld‘, viðeigandi og vel tímasett. Hið sama er að segja um regnbogasáttmálann, sáttmálann við Abraham, sáttmálann við Davíð, komu Messíasar og krýningu Jesú Krists sem konungur Guðsríkis. En Jehóva á einnig eftir að gera ýmislegt „hagfellt“ í náinni framtíð. Við getum treyst að nýr réttlátur heimur renni í garð á réttum tíma. — 2. Pétursbréf 3:13.
3:15b — Hvernig ‚leitar Guð aftur hins liðna‘? Sögnin ‚að leita‘ getur vísað til þess sem Guð ætlar sér að gera. Endurteknar hringrásir fæðingar og dauða, stríðs og friðar geta haft þau áhrif á manninn að honum finnist hann máttvana. Hann ímyndar sér ef til vill að sagan haldi áfram að endurtaka sig óendanlega. En Guð getur leitað alls sem hann ætlar sér og framkvæmt það. (Prédikarinn 3:1-10, 15a) Í Biblíunni frá 1859 segir að Guð leiti aftur þess „sem burt var hrakið“. Oft hrekja illir menn hina réttlátu burt. Ef það gerist leitar Jehóva hinna réttlátu og sýnir sig „máttkan“ þeim til hjálpar. — 2. Kroníkubók 16:9.
Lærdómur:
1:15. Það er til lítils að eyða tíma og kröftum í að reyna að bæta úr þeirri kúgun og því ranglæti sem við sjáum umhverfis okkur. Aðeins ríki Guðs megnar að uppræta illskuna. — Daníel 2:44.
2:4-11. Menningarleg starfsemi, svo sem byggingarlist, garðrækt og tónlistariðkun, og sömuleiðis hvers kyns munaður, er „eftirsókn eftir vindi“ af því að það getur hvorki gert lífið innihaldsríkt né veitt fólki varanlega hamingju.
2:12-16. Spekin hefur þá yfirburði yfir heimskuna að hún getur hjálpað okkur að greiða úr ýmsum vandamálum. Speki mannanna hefur hins vegar ekkert að segja gagnvart dauðanum. Og þó að menn geti sér frægð fyrir speki sína og visku falla þeir fljótt í gleymsku.
2:24; 3:12, 13, 22. Það er ekki rangt að njóta ávaxtar erfiðis síns.
2:26. Guð gefur visku ‚þeim í hendur sem honum geðjast‘ og viskan veitir manninum gleði. Við getum ekki öðlast visku nema við eigum gott samband við Jehóva.
3:16, 17. Það er ekki raunhæft að búast við réttlæti í öllum tilfellum. Við ættum þó ekki að hafa áhyggjur af því sem er að gerast í heiminum núna heldur bíða þess að Jehóva bæti ástandið.
4:4. Það getur veitt manninum ánægju að vera duglegur og skila af sér góðu verki. Hins vegar stuðlar það að samkeppni ef við hugsum fyrst og fremst um að skara fram úr öðrum, og það getur vakið öfund og illvilja. Við þurfum að leggja okkur fram í boðunarstarfinu af réttu tilefni.
4:7-12. Fjölskyldu- og vináttubönd eru mikilvægari en efnislegar eigur og við ættum ekki að fórna þeim í skiptum fyrir peninga.
4:13. Aldur og staða dugir ekki alltaf til að afla manni virðingar. Þeir sem gegna ábyrgðarstörfum ættu alltaf að breyta viturlega.
4:15, 16. ‚Unglingurinn, hinn annar,‘ er arftaki konungs. Í upphafi er ef til vill ‚enginn endir á öllu því fólki er hann var fyrir‘. Það studdi hann en „þó glöddust eftirkomendurnir ekki yfir honum“. Vinsældir eru yfirleitt skammlífar.
5:2. Bænir okkar ættu að vitna um yfirvegun. Þær ættu að vera lotningarfullar en ekki margorðar.
5:3-7. Ef við erum upptekin af því að hugsa um efnislega hluti gæti okkur farið að dreyma eigingjarna dagdrauma. Það gæti einnig gert okkur andvaka og eirðarlaus um nætur og rænt okkur ljúfum svefni. Ef við tölum of mikið gæti okkur hætt til að vinna fljótfærnisleg heit frammi fyrir Guði og við gætum virkað heimskuleg í augum annarra. Við afstýrum hvoru tveggja með því að ‚óttast Guð‘.
6:1-9. Það er lítið gagn í auðæfum, heiðri, langri ævi og stórri fjölskyldu ef við getum ekki notið þess aðstæðna vegna. Og „betri er sjón augnanna en reik girndarinnar“. Það er betra að horfast í augu við veruleikann en reyna að fullnægja löngunum sem er ekki hægt að fullnægja. Best er að gera sig ánægðan með „fæði og klæði“, njóta gæða lífsins á heilnæman hátt og einbeita sér að því að eiga náið samband við Jehóva. — 1. Tímóteusarbréf 6:8.
RÁÐ TIL VITURRA MANNA
Hvernig getum við varðveitt gott mannorð? Hvernig ættum við að líta á mennska valdhafa og ranglæti sem við verðum vitni að? Hvernig eigum við að nota líf okkar fyrst við höfum enga meðvitund eftir dauðann? Hvernig getur ungt fólk notað tíma sinn og krafta sem best? Við finnum viturleg ráð um þessi mál og fleiri í 7. til 12. kafla Prédikarans.
Biblíuspurningar og svör:
7:19 — Af hverju gefur spekin „meiri kraft en tíu valdhafar“? Talan tíu er oft notuð í Biblíunni til að tákna heild. Orð Salómons merkja að spekin veiti manninum meiri vernd en heilt lið hermanna sem verja borg.
10:15 — Hvernig víkur því við að „amstur heimskingjans þreytir hann“? Ef maður hefur ekki góða dómgreind er hætta á að amstur hans skilji ekkert eftir sig sem máli skiptir. Hann hefur enga ánægju af því. Endalaust amstur af þessu tagi er lýjandi.
11:7, 8 — Hvaða hugsun er í orðunum: „Indælt er ljósið, og ljúft er fyrir augun að horfa á sólina“? Ljósið og sólin eru lifandi mönnum til yndis og ánægju. Salómon segir að það sé gott að vera til og „vera glaður“ áður en „dagar myrkursins koma“ og ræna okkur lífsþróttinum. Þar á Salómon við ellina.
11:10 — Hvernig stendur á því að „æska og morgunroði lífsins eru hverful“? Æskuárin eru hverfull hégómi ef þau eru ekki notuð rétt vegna þess að þau líða fljótt og hverfa rétt eins og vatnsgufa.
Lærdómur:
7:6. Óviðeigandi hlátur er jafn ergjandi og tilgangslaus og snarkandi þyrnar undir potti. Við ættum að varast þess háttar.
7:21, 22. Gerum okkur ekki óþarfa áhyggjur af því hvað aðrir segja.
8:2, 3; 10:4. Við ættum að halda ró okkar þegar yfirmaður eða vinnuveitandi finnur að okkur eða leiðréttir. Það er betra en að vera „fljótur til að ganga burt frá honum“, með öðrum orðum að segja upp starfi í fljótfærni.
8:8; 9:5-10, 12. Líf okkar getur endað jafn óvænt og fiskur festist í neti eða fugl í gildru. Enginn getur komið í veg fyrir að lífskrafturinn hverfi við dauðann og enginn getur fengið sig lausan úr því stríði sem dauðinn heyr við mannkynið. Sóum því ekki tímanum. Jehóva vill að við metum lífið að verðleikum og njótum þess á heilnæman hátt. Til að gera það verðum við að láta Jehóva ganga fyrir í lífinu.
8:16, 17. Við getum ekki skilið til hlítar hve umfangsmikið það er sem Guð hefur gert og hefur leyft að gangi yfir mannkynið, jafnvel þótt við lægjum andvaka og veltum því fyrir okkur. Við hættum einfaldlega að njóta lífsins ef við gerum okkur of miklar áhyggjur af öllum þeim rangindum sem framin hafa verið.
9:16-18. Viskan er mikils virði jafnvel þó að menn kunni almennt ekki að meta hana. Rósöm orð viturra manna eru betri en hávær köll hinna heimsku.
10:1. Við þurfum að vera gætin í orðum og verkum. Ein alvarleg mistök, til dæmis reiðikast, ofnotkun áfengis í eitt skipti eða kynferðislegur óhreinleiki einu sinni, er nóg til að spilla góðu mannorði virtrar manneskju.
10:5-11. Óhæfur maður í háu embætti er ekki öfundsverður. Ef maður er ekki fær um að vinna einfalt verk getur það haft slæmar afleiðingar. Hins vegar er gott að „undirbúa sérhvað með hagsýni“. Við ættum að leggja okkur fram um að vera fær í að boða ríki Guðs og gera menn að lærisveinum.
11:1, 2. Verum örlát af einlægu hjarta. Þannig stuðlum við að örlæti meðal þeirra sem við umgöngumst. — Lúkas 6:38.
11:3-6. Óvissan í lífinu ætti ekki að gera okkur óákveðin.
11:9; 12:1-7. Ungt fólk þarf að standa Jehóva reikningsskap gerða sinna. Það ætti að nota tíma sinn og krafta í þjónustu Guðs áður en ellin rænir það lífsþróttinum.
„ORÐ SPEKINGANNA“ ERU TIL LEIÐSAGNAR
Hvernig ættum við að líta á þau ‚fögru orð‘ sem Salómon leitaðist við að finna og færa í letur? Ólíkt speki mannanna, sem fyllir „margar bækur“, eru „orð spekinganna . . . eins og broddar og kjarnyrðin eins og fastreknir naglar — þau eru gefin af einum hirði“. (Prédikarinn 12:10-12) Jehóva er hinn ‚eini hirðir‘ og viturleg orð hans eru okkur kjölfesta í lífinu.
Förum eftir viturlegum ráðleggingum Prédikarans. Það er okkur hjálp til að lifa innihaldsríku lífi og vera hamingjusöm. Og okkur er heitið því að „guðhræddum mönnum, er óttast Guð, muni vel vegna“. Verum því staðráðin í að ‚óttast Guð og halda hans boðorð‘. — Prédikarinn 8:12; 12:13.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Eitt fegursta handaverk Guðs verður að veruleika á tilsettum tíma.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Guð gefur okkur meðal annars mat og drykk og leyfir okkur að njóta ávaxtar erfiðis okkar.