Höfuðþættir biblíubókanna Ljóðaljóðin 1:1-8:14
Sönn ást hrósar sigri
Til er sú ást sem aldrei bregst. Hún er stöðug, úthaldsgóð, hrósar sigri. Slík ósvikul ást er milli Jesú Krists og ‚brúðar‘ hans eða andagetins safnaðar. (Opinberunarbókin 21:2, 9; Efesusbréfið 5:21-33) Þessum kærleika er fagurlega lýst í þeirri biblíubók sem nefnd er Ljóðaljóðin.
Hinn vitri Salómon Ísraelskonungur samdi þessi ‚ljóðaljóð‘ (1:1) fyrir um það bil 3000 árum. Þau segja frá ást fjárhirðis og sveitastúlku frá þorpinu Súnem (Súlem). Í allri sinni auðlegð og mikilleik tókst konunginum ekki að vinna ást stúlkunnar frá Súlem því að hún var trygg fjárhirðinum sem hún unni heitt.
Þegar einhleypir og giftir þjónar Jehóva lesa þetta ljóð með viðeigandi gaumgæfni veitir það þeim ærið umhugsunarefni varðandi þann hreinleika, blíðu, hollustu og trausta kærleika sem ætti að vera aðalsmerki kristins hjónabands. Við getum öll haft gagn af því að lesa þetta ljóð sem greinir frá sigri sannrar ástar.
Súlamít í búðum Salómons
Lestu Ljóðaljóðin 1:1-14. Meðan Súlamít er í tjöldum konungs talar hún eins og hinn elskaði fjárhirðir sé nærstaddur. Salómon ber lof á fegurð hennar og lofar að skrýða hana skarti úr gulli og silfri. En stúlkan haggast ekki við umleitanir hans og lætur hann vita að hún elski fjárhirðinn og engan annan.
◆ 1:2, 3 — Hvers vegna er viðeigandi að líkja ástinni við vín og olíu?
Vín gleður hjartað og styrkir sál þess sem niðurdreginn er. (Sálmur 104:15; Orðskviðirnir 21:6) Olíu var hellt yfir mikils metna gesti sökum mýkjandi eiginleika hennar. (Sálmur 23:5; Lúkas 7:38) Því bæði styrkti það og hughreysti hinna hrjáðu Súlamít að rifja upp yfir sér „ást“ fjárhirðisins og „nafn.“ Á svipaðan hátt hughreystir það smurðar leifar fylgjenda Krists og uppörvar að íhuga kærleika hirðisins, sem þeir eiga yfir sér, Jesú Krist, þótt þeir séu enn í heiminum og aðskildir frá Jesú.
Lærdómur fyrir okkur: Salómon hafði skreytt Súlamít ‚gullfestum‘ og „silfurhnöppum“ en hún stóðst þessar efnislegu freistingar og staðfesti óbrigðula ást sína til hirðisins. (1:11-14) Það að íhuga fordæmi hennar getur styrkt ásetning brúðarhópsins að halda sér frá lokkandi efnishyggju heimsins og vera trúfastir himneskum brúðguma sínum. Ef vonir okkar eru bundnar við jörðina og við erum að leggja drög að eða íhuga hjónaband, megi þá fordæmi stúlkunnar koma okkur til að setja andleg verðmæti, ekki efnisleg, á oddinn.
Gagnkvæm þrá
Lestu 1:15-3:5. Fjárhirðirinn gengur inn í búðir konungs og tjáir hinni hæversku Súlamít ást sína, henni sem mat hann meira en alla aðra. Þegar þau voru aðskilin minntist stúlkan gleðistunda er hún hafði átt með ástvini sínum og bað þess að hann mætti koma sem skjótast til að vera henni við hlið. Á næturnar þráði hún návist hans.
◆ 2:1-3. — Hvað er átt við með þessu myndmáli?
Súlamít kallaði sig ‚narsissu á Saronvöllum‘ vegna þess að hún var hæversk og lítillát ung kona sem leit á sig eins og aðeins eitt af mörgum algengum blómum. Fjárhirðirinn gerði sér hins vegar ljóst að hún var „lilja meðal þyrna“ því að hún var fögur, væn og trúföst Jehóva. Í huga stúlkunnar var fjárhirðirinn „eins og apaldur [eplatré] meðal skógartrjánna“ vegna þess að hann var andlega sinnaður ungur maður, guðrækinn líkt og hún, og hafði mjög eftirsóknarverð einkenni og hæfileika. Ógiftur kristinn einstaklingur, sem er að leita sér að lífsförunaut, ætti að leita aðeins meðal trúfastra bræðra og systra í trúnni sem hafa líka eiginleika og Súlamít eða hinn ástfólgni fjárhirðir hennar.
◆ 3:5 — Hvers vegna er þessi eiður nefndur í sambandi við skepnur?
Skógargeiturnar og hindirnar eru tígulegar og fallegar skepnur auk þess að vera fráar á fæti og fótvissar. Stúlkan var því í reynd að særa „Jerúsalemdætur“ við allt það sem er tígulegt og fagurt. Hún særði Jerúsalemdætur við þessar skepnur um að láta vera að reyna að vekja með henni ást til einhvers annars en fjárhirðisins sem hún unni.
Lærdómur fyrir okkur: Stúlkan særði „Jerúsalemdætur,“ þá kvennahirð sem þjónaði konunginum, að ‚vekja ekki elskuna fyrr en hún sjálf vildi.‘ (2:7; 3:5) Þetta gefur til kynna að ekki er hægt að vera ástfanginn af hverjum sem er. Stúlkan fann ekki til neinna slíkra tilfinninga í garð Salómons. Það er því sannarlega viturlegt af ógiftum kristnum manni, sem hyggst ganga í hjónaband, að gefa í því skyni aðeins gaum ákjósanlegum og trúföstum tilbiðjanda Jehóva sem hægt er að elska í sannleika! — 1. Korintubréf 7:39.
Stúlkan í Jerúsalem
Lestu 3:6-6:3. Salómon sneri heim til Jerúsalem í konungsdýrð sinni. Fjárhirðirinn komst í samband við stúlkuna þar og styrkti hana með því að tjá henni væntumþykju sína. Í draumi bregst hún seint og síðar meir við því er ástvinur hennar knýr dyra og er misþyrmt af varðmönnum þegar hún leitar hans í örvæntingu sinni. Aðspurð hvað geri ástvin hennar svona einstakan gefur hún ‚Jerúsalemdætrum‘ fagra lýsingu á honum.
◆ 5:12 — Hvernig voru augu fjárhirðisins ‚eins og dúfur við vatnslæki, baðandi sig í mjólk‘?
Fyrr í bókinni er augum Súlamít líkt við dúfuaugu vegna þess að þau voru mild og blíð. (1:15; 4:1) Fjárhirðirinn kallaði stúlkuna meira að segja ‚dúfuna sína.‘ (5:12) Hin ástsjúka unga kona líkir hér augum fjárhirðisins við gráar dúfur er baða sig í mjólkurpollum. (5:8, 12) Með þeirri samlíkingu er líklega átt við dökka lithimnu augans umkringda hvítunni.
Lærdómur fyrir okkur: Súlamít var eins og „lokaður garður.“ (4:12) Garðar í Forn-Ísrael voru oft mjög fagrir, hálfgerð paradís með rennandi vatni og fjölskrúðugu úrvali grænmetis, blóma og trjáa. Oftast voru þeir umkringdir limgerði eða múr og ekki hægt að komast inn í þá nema í gegnum hlið sem haft var læst. (Jesaja 5:5) Í augum fjárhirðisins var siðferðilegur hreinleiki og yndisleiki Súlamít eins og garður fágætur fyrir fegurð, góða ávexti, angan og hressandi unaðsleika. Ástúð hennar stóð ekki hverjum sem var til boða því að hún var hreinlíf, eins og „lokaður garður“ óvelkomnum gestum, opinn aðeins lögmætum eiganda sínum. Með siðferðilegu ágæti sínu og hollustu setti Súlamít þannig ógiftum, kristnum nútímakonum gott fordæmi.
‚Logi Jehóva‘
Lestu 6:4-8:14. Salómon ber lof á fegurð stúlkunnar en hún hafnar honum og lýsir yfir hollustu sinni við fjárhirðinn. Þegar Salómon tekst ekki að vinna ást hennar leyfir hann henni að snúa heim. Með ástvin sinn sér við hlið snýr hún heim til Súnem sem þroskuð kona er hefur sannað sig trausta og trygga. Ást hennar og fjárhirðisins var sterk eins og dauðinn og bál hennar eins og ‚logi Jehóva.‘
◆ 6:4 — Hver var borgin Tirsa?
Orðið „Tirsa“ merkir „unaðsleiki, yndisleiki.“ Tirsa var nafntoguð fyrir fegurð sína og var fyrsta höfuðborg norðurríkisins Ísrael. — 1. Konungabók 14:17; 16:5, 6, 8, 15.
◆ 7:4 — Hvers vegna er hálsi stúlkunnar líkt við „fílabeinsturn“?
Hann virðist hafa verið mjúkur eins og fílabein og grannur eins og turn. Áður hafði hálsi hennar verið líkt við „Davíðsturn,“ sem ef til vill var turninn á konungshöllinni við austurvegg Jerúsalem. Á hann voru hengdir þúsund hringlaga skildir kappanna, sem bendir til að háls Súlamít hafi verið prýddur hálsmeni með hringlaga skrauti eða steinum. — 4:4; Nehemía 3:25-27.
◆ 8:6, 7 — Á hvaða hátt er elskan „sterk eins og dauðinn“?
Dauðinn hefur alltaf krafist lífs syndugra manna og sönn ást er jafnsterk. Slík ást krefst algerrar hollustu af jafnmikilli hörku og Hel (gröfin) krefst líkama hinna látnu. Með því að Jehóva Guð gaf manninum hæfileikann til að elska er þessi eiginleiki frá honum kominn og er réttilega nefndur ‚logi Jehóva.‘ Ekki einu sinni hinn auðugi Salómon konungur gat keypt slíka ást.
Lærdómur fyrir okkur: Viðskipti Súlamít við Salómon konung voru prófraun sem hún stóðst með ágætum. Hún var ekki hverflynd í kærleika sínum og dyggð, eins og hurð sem sveiflast á lömum sínum og þyrfti að loka með slagbrandi til að koma í veg fyrir að hún opnaðist fyrir einhverjum óvelkomnum eða óheilbrigðum. Nei, stúlkan hrósaði sigri yfir lokkandi gylliboðum konungsins; hún stóð eins og múrveggur gegn öllu efnislegu táli þessa heims. Með því að treysta á Guð og minnast hins ágæta fordæmis Súlamít geta kristnar nútímakonur sýnt sig jafnfastheldnar við meginreglur dyggðarinnar Jehóva til lofs. — 8:8-10.
Þessi ‚ljóðaljóð,‘ sem hafa ástina fyrir stef, hjálpa okkur að meta að verðleikum böndin milli Jesú og þeirra sem útvaldir eru til að vera himnesk „brúður“ hans. En allir ungir menn og konur, svo og eiginmenn og eiginkonur sem eru holl Jehóva, geta haft gagn af því að reyna að líkja eftir ráðvendni Súlamít og fjárhirðisins andspænis prófraunum og freistingum. Og þessi fagri hluti af orði Guðs ætti að koma okkur öllum til að vera ávallt drottinholl Jehóva, honum sem er uppspretta þess kærleika er sigrar.