17. kafli
Útlendingum safnað í bænahús Guðs
1, 2. Hvaða ógleymanleg yfirlýsing var gefin árið 1935 og hverju tengdist hún?
FÖSTUDAGINN 31. maí 1935 ávarpaði Joseph F. Rutherford mótsgesti í Washington, D.C. Hann fjallaði um það hver ‚múgurinn mikli‘ væri sem Jóhannes postuli sá í sýn, og ræðan náði hámarki er hann bað alla sem vonuðust eftir eilífu lífi á jörðinni að rísa úr sætum. „Meira en helmingur áheyrenda stóð á fætur,“ að sögn eins viðstaddra. Þá sagði bróðir Rutherford: „Sjáið! Hér er múgurinn mikli!“ Sjónarvottur segir: „Fyrst var þögn en síðan ráku menn upp gleðióp og fögnuðu ákaft og lengi.“ — Opinberunarbókin 7:9.
2 Þetta var ógleymanleg stund í samfelldri uppfyllingu 2700 ára gamals spádóms sem stendur í 56. kafla Jesajabókar. Eins og margir aðrir spádómar Jesaja inniheldur hann bæði hughreystandi fyrirheit og alvarlegar viðvaranir. Í fyrstu átti spádómurinn við sáttmálaþjóð Guðs á dögum Jesaja en uppfyllingin teygir sig allt til okkar daga.
Forsendur hjálpræðis
3. Hvað þurfa Gyðingar að gera ef þeir þrá hjálpræði Guðs?
3 Fimmtugasti og sjötti kafli Jesajabókar hefst á áminningu til Gyðinga en orð spámannsins eiga erindi til allra sem tilbiðja Guð í sannleika. Við lesum: „Svo segir [Jehóva]: Varðveitið réttinn og gjörið það, sem rétt er, því að hjálpræði mitt er í nánd og réttlæti mitt birtist bráðlega. Sæll er sá maður, sem gjörir þetta, og það mannsbarn, sem heldur fast við það, sá sem gætir þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og varðveitir hönd sína frá því að gjöra nokkuð illt.“ (Jesaja 56:1, 2) Júdamenn, sem þrá hjálpræði Guðs, verða að hlýða Móselögunum og varðveita rétt og réttlæti. Af hverju? Af því að Jehóva er réttlátur. Þeir sem ástunda réttlæti njóta þeirrar gleði sem er samfara velþóknun hans. — Sálmur 144:15b.
4. Af hverju er hvíldardagurinn mikilvægur í Ísrael?
4 Spádómurinn minnir á hvíldardaginn sem mikilvægt var að halda samkvæmt Móselögunum. Júdamenn þurfa meðal annars að fara í útlegð vegna þess að þeir hafa ekki virt hvíldarákvæðin. (3. Mósebók 26:34, 35; 2. Kroníkubók 36:20, 21) Hvíldardagurinn er tákn hins sérstaka sambands Jehóva við Gyðinga og þeir sem halda hann sýna þar með að þetta samband er þeim mikils virði. (2. Mósebók 31:13) Og að halda hvíldardaginn minnir samtíðarmenn Jesaja á að Jehóva er skaparinn. Það hlýtur einnig að minna þá á miskunn hans við þá. (2. Mósebók 20:8-11; 5. Mósebók 5:12-15) Og hvíldardagurinn tryggir reglufestu í tilbeiðslunni á Jehóva. Að hvílast einn dag í viku af venjulegri vinnu gefur Júdamönnum tækifæri til bænahalds, náms og hugleiðingar.
5. Hvernig geta kristnir menn farið eftir kjarnanum í hvíldardagsboðinu?
5 En hvað um kristna menn? Ber þeim að halda hvíldardagsboðið? Ekki beinlínis því að þeir eru ekki undir lögmálinu og þeim er þess vegna ekki skylt að halda hvíldardaginn. (Kólossubréfið 2:16, 17) En Páll postuli benti á að trúum kristnum mönnum sé boðið upp á „sabbatshvíld“ sem er fólgin í því að trúa á hjálpræðisfórn Jesú og hætta að treysta eingöngu á verk. (Hebreabréfið 4:6-10) Spádómur Jesaja um hvíldardaginn minnir nútímaþjóna Jehóva þannig á að þeir verði að trúa á hjálpræðisráðstöfun hans. Hann minnir einnig á það að við þurfum að byggja upp náið samband við Jehóva og vera regluföst og stöðuglynd í tilbeiðslunni.
Hughreysting til útlendinga og geldinga
6. Að hvaða tveim hópum beinist athyglin núna?
6 Nú ávarpar Jehóva tvo hópa sem vilja þjóna honum en eru samkvæmt Móselögunum vanhæfir til að tilheyra söfnuði Gyðinga. Við lesum: „Eigi má útlendingurinn, er gengið hefir [Jehóva] á hönd, segja: ‚[Jehóva] mun skilja mig frá lýð sínum!‘ Og eigi má geldingurinn segja: ‚Ég er visið tré!‘“ (Jesaja 56:3) Útlendingurinn óttast að vera útilokaður frá Ísrael. Geldingurinn hefur áhyggjur af því að eignast aldrei börn til að viðhalda ætt sinni. Báðir hóparnir geta hert upp hugann. Áður en við kynnum okkur ástæðuna skulum við kanna hvaða stöðu þeir höfðu gagnvart Ísrael samkvæmt lögmálinu.
7. Hvaða hömlur hvíla á útlendingum í Ísrael samkvæmt lögmálinu?
7 Óumskornum útlendingum er meinað að tilbiðja með Ísrael. Til dæmis fá þeir ekki að taka þátt í páskahátíðinni. (2. Mósebók 12:43) Útlendingar njóta réttlætis og gestrisni, svo framarlega sem þeir brjóta ekki landslög gróflega, en þeir eiga engin föst tengsl við þjóðina. Sumir gangast reyndar undir lögmálið að fullu og karlmenn láta umskerast til tákns um það. Þá eru þeir trúskiptingar, fá að tilbiðja Jehóva í forgarði musterisins og teljast tilheyra söfnuði Ísraels. (3. Mósebók 17:10-14; 20:2; 24:22) En trúskiptingar fá ekki einu sinni fulla aðild að sáttmála Jehóva við Ísrael og eiga ekki erfðahlut í fyrirheitna landinu. Aðrir útlendingar geta snúið sér til musterisins er þeir biðjast fyrir, og virðast geta fært fórnir fyrir atbeina prestanna, svo framarlega sem þær samræmast lögmálinu. (3. Mósebók 22:25; 1. Konungabók 8:41-43) En Ísraelsmenn eiga ekki náin samskipti við þá.
Geldingar hljóta eilíft nafn
8. (a) Hvernig var litið á geldinga samkvæmt lögmálinu? (b) Hvernig voru geldingar notaðir meðal heiðinna þjóða og hvað getur orðið „geldingur“ stundum merkt?
8 Geldingar eiga ekki fullgilda aðild að Ísraelsþjóðinni, jafnvel þótt þeir séu af ísraelsku foreldri.a (5. Mósebók 23:1) Geldingar höfðu sérstöðu meðal sumra heiðinna þjóða á biblíutímanum og venja var að vana einhverja drengi sem hernumdir voru í stríði. Þeir voru skipaðir í embætti við konungshirðir og látnir ‚geyma kvennanna‘ og „hjákvennanna“ eða þjóna drottningu. (Esterarbók 2:3, 12-15; 4:4-6, 9) Ekkert bendir til þess að Ísraelsmenn hafi stundað þetta eða að geldingar hafi verið eftirsóttir í þjónustu Ísraelskonunga.b
9. Hvernig hughreystir Jehóva bókstaflega geldinga?
9 Auk þess að eiga takmarkaðan aðgang að tilbeiðslunni á hinum sanna Guði sæta bókstaflegir geldingar þeirri niðurlægingu að geta ekki eignast börn til að viðhalda nafni ættarinnar. Spádómurinn er sérlega uppörvandi fyrir þá. Við lesum: „Því að svo segir [Jehóva]: Geldingunum, sem halda hvíldardaga mína og kjósa það, sem mér vel líkar, og halda fast við sáttmála minn, þeim vil ég gefa minningarmark og nafn í húsi mínu og á múrveggjum mínum, sem er betra en synir og dætur. Eilíft nafn vil ég gefa þeim, það er aldrei mun afmáð verða.“ — Jesaja 56:4, 5.
10. Hvenær breyttist staða geldinga og hvaða sérréttindi standa þeim opin síðan?
10 Sá tími kemur er bókstaflegir geldingar geta orðið fullgildir þjónar Jehóva. Séu þeir hlýðnir fá þeir „minningarmark“ eða stað í húsi Jehóva og nafn sem er betra en synir og dætur. Það gerist ekki fyrr en eftir dauða Jesú Krists. Þá vék gamli lagasáttmálinn fyrir nýjum sáttmála og Ísrael að holdinu vék fyrir „Ísrael Guðs.“ (Galatabréfið 6:16) Þaðan í frá hafa allir sem iðka trú getað þjónað Guði velþóknanlega. Þjóðfélagsstaða og líkamlegt ástand skiptir engu máli lengur. Þeir sem eru þolgóðir og trúfastir fá ‚eilíft nafn sem aldrei verður afmáð,‘ hvernig sem þeir eru líkamlega á sig komnir. Jehóva gleymir þeim ekki. Nöfn þeirra verða skráð í „minnisbók“ hans og í fyllingu tímans hljóta þeir eilíft líf. — Malakí 3:16; Orðskviðirnir 22:1; 1. Jóhannesarbréf 2:17.
Útlendingar tilbiðja með fólki Guðs
11. Hvað eru útlendingar hvattir til gera?
11 En hvað um útlendinga? Spádómurinn víkur nú aftur að þeim og Jehóva er sérlega hughreystandi. Jesaja skrifar: „Útlendinga, sem gengið hafa [Jehóva] á hönd til þess að þjóna honum og til þess að elska nafn [Jehóva], til þess að verða þjónar hans — alla þá, sem gæta þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og halda fast við minn sáttmála, þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu. Brennifórnir þeirra og sláturfórnir skulu vera mér þóknanlegar á altari mínu. Því að hús mitt skal nefnast bænahús fyrir allar þjóðir.“ — Jesaja 56:6, 7.
12. Hvernig skildu menn í eina tíð spádóm Jesú um ‚aðra sauði‘?
12 ‚Útlendingarnir‘ hafa komið fram smám saman í nútímanum. Fyrir fyrri heimsstyrjöldina var álitið að fleiri hlytu hjálpræði en þeir sem ættu að ríkja með Jesú á himnum, þeir sem við köllum núna Ísrael Guðs. Biblíunemendurnir þekktu orð Jesú í Jóhannesi 10:16: „Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“ Álitið var að þessir ‚aðrir sauðir‘ ættu að búa á jörð. Flestir biblíunemendur töldu hins vegar að þeir myndu koma fram eftir að þúsund ára stjórn Jesú Krists væri hafin.
13. Hvernig voru leidd rök að því að sauðirnir í Matteusi 25. kafla hljóti að koma fram á endalokatíma heimskerfisins?
13 Með tímanum skýrðist skilningurinn á tengdum ritningarstað sem talar um sauði. Í 25. kafla hjá Matteusi er sagt frá dæmisögu Jesú um sauðina og hafrana. Dæmisagan segir að sauðirnir hljóti eilíft líf vegna þess að þeir styðja bræður Jesú. Þetta eru því ekki smurðir bræður Krists heldur annar hópur. Á móti í Los Angeles í Kaliforníu árið 1923 var bent á að þessir sauðir eigi að koma fram á endalokatíma heimskerfisins en ekki í þúsundáraríkinu. Af hverju? Af því að dæmisaga Jesú var hluti af svari hans við spurningunni: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ — Matteus 24:3.
14, 15. Hvernig skýrðist staða hinna annarra sauða á endalokatímanum?
14 Á þriðja áratug tuttugustu aldar fengu sumir Biblíunemendur það á tilfinninguna að andi Jehóva vitnaði ekki með þeim um að þeir hefðu himneska köllun. Samt sem áður voru þeir kappsamir þjónar hins hæsta Guðs. Staða þeirra skýrðist árið 1931 er bókin Vindication kom út. Í bókinni var farið vers fyrir vers yfir Esekíelsbók og meðal annars fjallað um sýnina um „manninn“ með skriffærin. (Esekíel 9:1-11) „Maðurinn“ fer gegnum Jerúsalem og setur merki á enni þeirra sem andvarpa og kveina yfir þeim svívirðingum sem framdar eru þar. Hann táknar bræður Jesú, þá sem eftir eru af smurðum kristnum mönnum á jörð á þeim tíma er kristni heimurinn, sem Jerúsalem táknar, hlýtur dóm. Hinir merktu eru aðrir sauðir sem uppi eru á þeim tíma. Þeim er þyrmt í sýninni er aftökusveitir Jehóva fullnægja dómi á fráhvarfsborginni.
15 Árið 1932 kom fram gleggri skilningur á spádómlegum sjónleik þar sem Jehú Ísraelskonungur og Jónadab leika aðalhlutverk, en Jónadab studdi Jehú þótt hann væri annarrar þjóðar. Sjónleikurinn lýsir því hvernig aðrir sauðir styðja smurða bræður Krists, líkt og Jónadab fór með Jehú og studdi hann er hann útrýmdi Baalsdýrkun. Árið 1935 kom loks fram að hinir aðrir sauðir á endalokatíma þessa heimskerfis séu múgurinn mikli er Jóhannes postuli sá í sýn. Þetta kom fyrst fram á áðurnefndu móti í Washington, D.C., er Joseph F. Rutherford benti á að mótsgestir með jarðneska von væru ‚múgurinn mikli.‘
16. Hvaða sérréttinda njóta ‚útlendingarnir‘?
16 Þannig kom smám saman fram að ‚útlendingarnir‘ gegna veigamiklu hlutverki í tilgangi Jehóva á hinum síðustu dögum. Þeir koma til Ísraels Guðs til að tilbiðja Jehóva. (Sakaría 8:23) Þeir bera fram Guði þóknanlegar fórnir ásamt hinni andlegu þjóð og ganga inn til sabbatshvíldar. (Hebreabréfið 13:15, 16) Og þeir tilbiðja Guð í andlegu musteri hans sem er „bænahús fyrir allar þjóðir“ líkt og musterið í Jerúsalem. (Markús 11:17) Þeir iðka trú á lausnarfórn Jesú Krists og ‚hvítþvo skikkjur sínar í blóði lambsins.‘ Og þeir þjóna Jehóva stöðugt „dag og nótt.“ — Opinberunarbókin 7:14, 15.
17. Hvernig halda útlendingar nútímans fast við nýja sáttmálann?
17 Þessir útlendingar nútímans halda fast við nýja sáttmálann í þeim skilningi að þeir njóta blessunarinnar af honum með því tengjast Ísrael Guðs. Þeir styðja lög sáttmálans af heilum hug þótt þeir eigi ekki beina aðild að honum. Þess vegna er lögmál Jehóva í hjörtum þeirra og þeir kynnast honum sem himneskum föður og alheimsdrottni. — Jeremía 31:33, 34; Matteus 6:9; Jóhannes 17:3.
18. Hvaða samansöfnun á sér stað á endalokatímanum?
18 Spádómur Jesaja heldur áfram: „Hinn alvaldi [Jehóva] segir: Þegar ég safna saman hinum burtreknu af Ísrael, mun ég og safna mörgum auk þeirra!“ (Jesaja 56:8) Jehóva hefur safnað saman „hinum burtreknu af Ísrael,“ það er að segja hinum smurðu leifum. Auk þess er hann að safna hinum mikla múgi saman. Báðir hóparnir tilbiðja Jehóva í friði og einingu undir umsjón hans og konungsins, Jesú Krists. Góði hirðirinn Jesús sameinar þá í eina glaða hjörð vegna hollustu þeirra við stjórn Jehóva sem er í höndum hans.
Blindir varðmenn, hljóðlausir hundar
19. Hvað er dýrum merkurinnar boðið?
19 Á eftir þessum hlýlegu og uppbyggjandi orðum er brugðið upp sláandi, næstum yfirgengilegri andstæðu. Jehóva er reiðubúinn að sýna útlendingum og geldingum miskunn, en margir sem segjast tilheyra söfnuði hans eru fordæmdir og eiga dóm hans yfir höfði sér. Þeir verðskulda ekki einu sinni sómasamlega greftrun heldur það eitt að gráðug villidýr rífi þá í sig. Við lesum: „Safnist saman, öll dýr merkurinnar, komið til að eta, öll dýr skógarins!“ (Jesaja 56:9) Á hverju eiga þessi villidýr að gæða sér? Spádómurinn skýrir það og það minnir kannski á örlög þeirra sem standa gegn Guði í Harmagedónstríðinu, en sagt er að fuglar himinsins éti lík þeirra. — Opinberunarbókin 19:17, 18.
20, 21. Af hverju eru trúarleiðtogarnir óhæfir forystumenn?
20 Spádómurinn heldur áfram: „Varðmenn Ísraels eru allir blindir, vita ekki neitt, þeir eru allir hljóðlausir hundar, sem ekki geta gelt. Þeir liggja í draummóki, þeim þykir gott að lúra. Og hundarnir eru gráðsoltnir, fá aldrei fylli sína. Og hirðarnir sjálfir hafa ekki vit á að taka eftir, þeir fara hver sinna ferða, líta allir á eigin hag: ‚Komið, ég ætla að sækja vín, vér skulum drekka ósleitulega! Og morgundagurinn skal verða sem þessi, dýrlegur næsta mjög!‘“ — Jesaja 56:10-12.
21 Trúarleiðtogar Júda segjast tilbiðja Jehóva og vera „varðmenn“ hans. En þeir eru andlega blindir, hljóðlausir og syfjaðir. Það er ekki mikið gagn í þeim ef þeir geta ekki haldið vöku sinni og varað við aðsteðjandi hættu. Þessir trúarlegu varðmenn eru skilningslausir og allsendis ófærir um að vísa ‚sauðunum‘ veginn. Þeir eru spilltir og eigingirnin er óseðjandi. Þeir fara eigin leiðir í stað þess að fylgja forystu Jehóva, hugsa einungis um eigin hag, drekka óhóflega og hvetja aðra til að líkja eftir sér. Þeir eru svo sofandi gagnvart yfirvofandi dómi Guðs að þeir segja fólki að allt sé í himnalagi.
22. Hvernig líkjast trúarleiðtogarnir á dögum Jesú forverum sínum í Forn-Júda?
22 Jesaja notar svipað myndmál fyrr í spádóminum til að lýsa hinum ótrúu trúarleiðtogum Júda — hann talar um að þeir séu andlega drukknir, syfjaðir og skilningslausir. Þeir íþyngja fólki með erfikenningum manna, fara með trúarlegar lygar og treysta á liðsinni Assýringa í stað Guðs. (2. Konungabók 16:5-9; Jesaja 29:1, 9-14) Þeir hafa greinilega ekkert lært. Því miður voru trúarleiðtogar fyrstu aldar sama markinu brenndir. Þeir höfnuðu Jesú, syni Guðs, og sórust saman um að fá hann tekinn af lífi í stað þess að taka við fagnaðarerindinu sem hann færði þeim. Jesús kallaði þá blátt áfram ‚blinda leiðtoga‘ og bætti við að ‚ef blindur leiddi blindan féllu báðir í gryfju.‘ — Matteus 15:14.
Varðmenn nútímans
23. Hverju spáði Pétur um trúarleiðtoga og hvernig hefur það ræst?
23 Pétur postuli varaði við því að falskennarar myndu líka koma fram og reyna að afvegaleiða kristna menn. Hann skrifaði: „Falsspámenn komu einnig upp meðal lýðsins [Ísraels]. Eins munu falskennendur líka verða á meðal yðar, er smeygja munu inn háskalegum villukenningum og jafnvel afneita herra sínum, sem keypti þá, og leiða yfir sig sjálfa bráða glötun.“ (2. Pétursbréf 2:1) Fráhvarfskristni nútímans er uppskeran af falskenningum og sértrúarstefnu þessara manna, en trúarleiðtogar hennar biðja Guð að blessa pólitíska vini sína og lofa þeim síðan bjartri framtíð. Trúarlegir forkólfar kristna heimsins hafa reynst blindir, hljóðlausir og sofandi gagnvart því sem andlegt er.
24. Lýstu einingu hins andlega Ísraels og útlendinganna.
24 En Jehóva er að safna milljónum útlendinga til hins mikla andlega bænahúss þar sem þeir tilbiðja hann ásamt þeim sem eftir eru af Ísrael Guðs. Þessir útlendingar eru sameinaðir innbyrðis og standa einhuga með Ísrael Guðs, þótt þeir séu af mörgum þjóðernum, kynþáttum og tungum. Þeir eru sannfærðir um að hjálpræði komi aðeins frá Jehóva Guði fyrir atbeina Jesú Krists. Þeir elska Jehóva og koma trú sinni hátt og skýrt á framfæri ásamt smurðum bræðrum Krists. Og þeim er mikil hughreysting í innblásnum orðum postulans: „Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn — og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða.“ — Rómverjabréfið 10:9.
[Neðanmáls]
a Orðið „geldingur“ fékk einnig merkinguna hirðmaður og var þá ekki átt við að hann væri vanaður. Filippus skírði Eþíópíumann, sem virðist hafa verið trúskiptingur, áður en óumskornum mönnum af öðrum þjóðum en Gyðingum bauðst það. Samkvæmt frummálinu er hann kallaður „geldingur“ sem hlýtur þar af leiðandi að vera í afleiddri merkingu. Íslenska biblían frá 1981 kallar hann ‚hirðmann‘ í samræmi við þessa málvenju. — Postulasagan 8:27-39.
b Ebed-Melek er kallaður geldingur en hann kom Jeremía til hjálpar og hafði beinan aðgang að Sedekía konungi. Ætla má að orðið sé notað í merkingunni hirðmaður en ekki sé átt við bókstaflega vönun. — Jeremía 38:7-13.
[Mynd á blaðsíðu 250]
Hvíldardagurinn bauð upp á tækifæri til bænahalds, náms og hugleiðingar.
[Myndir á blaðsíðu 256]
Staða hinna annarra sauða var vel skýrð á móti í Washington, D.C., árið 1935 (myndin að neðan er frá skírn en mótsdagskráin er sýnd til hægri).
[Mynd á blaðsíðu 259]
Villidýrunum er boðið til veislu.
[Mynd á blaðsíðu 261]
Útlendingarnir og Ísrael Guðs eru sameinaðir.