Þegn eða útlendingur, Guð tekur þér vel!
„Hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar.“ — POSTULASAGAN 17:26.
1. Hvaða vandræðaástand ríkir í mörgum löndum nú á tímum varðandi það að taka við fólki af framandi þjóðmenningu?
FRÁSAGNIR blaða gefa til kynna að víða um lönd hafi menn vaxandi áhyggjur af útlendingum, innflytjendum og flóttamönnum. Milljónir manna vilja í örvæntingu sinni flytja frá sumum svæðum Asíu, Afríku, Evrópu og Ameríku, ef til vill til að flýja örbirgð, borgarastyrjöld eða ofsóknir. En er þetta fólk alls staðar velkomið? Tímaritið Time segir: „Þegar þjóðernisleg samsetning Evrópu tekur að breytast uppgötva sumar þjóðir að þær eru ekki eins umburðarlyndar gagnvart erlendri þjóðmenningu og þær einu sinni héldu.“ Varðandi hinar 18.000.000 „óvelkomnu“ flóttamanna segir Time: „Sú ögrun, sem þeir eru rótgrónum þjóðum, hverfur ekki.“
2, 3. (a) Hvaða hressandi fullvissu veitir Biblían varðandi viðtökur? (b) Hvers vegna getum við haft gagn af því að rannsaka hvað Ritningin segir um samskipti Guðs við þjóðir?
2 Hver svo sem þróunin verður á þessu sviði sýnir Biblían að Guð tekur fólki af hvaða þjóð sem er opnum örmum — hvort sem um er að ræða innfæddan þegn, innflytjanda eða flóttamann. (Postulasagan 10:34, 35) ,En,‘ gætu sumir spurt, ,hvernig getið þið sagt það? Valdi Guð ekki aðeins Ísrael til forna sem þjóð sína og útilokaði allar aðrar?‘
3 Nú, skoðum hvernig samskipti Guðs voru við fornþjóðirnar. Við getum líka athugað ákveðna spádóma sem varða þau sérréttindi sem eru opin sönnum tilbiðjendum nú á tímum. Vandleg athugun á þessu spádómlega efni getur leitt til gleggri skilnings sem þér gæti fundist mjög uppörvandi. Það gefur líka vísbendingu um hvernig samskipti Guð kann að hafa við einstaklinga „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“ í kjölfar þrengingarinnar miklu. — Opinberunarbókin 7:9, 14-17.
,Allar þjóðir munu blessun hljóta’
4. Hvert var upphaf þjóðernisvandamála en hvaða ráðstafanir gerði Guð?
4 Eftir flóðið samanstóð allt mannkynið af fjölskyldufólki Nóa og allir voru sannir tilbiðjendur. En fljótlega riðlaðist þessi eining. Áður en langt um leið byrjaði hópur manna, sem hafði vilja Guðs að engu, að byggja turn. Þetta leiddi til þess að mannkynið leystist upp í tungumálahópa sem síðan urðu að tvístruðum þjóðflokkum og þjóðum. (1. Mósebók 11:1-9) Samt sem áður hélt sönn tilbeiðsla áfram í þeirri ætt sem Abraham kom af. Guð blessaði hinn trúfasta Abraham og gaf honum fyrirheit um að afkomendur hans myndu verða að mikilli þjóð. (1. Mósebók 12:1-3) Þessi þjóð var Forn-Ísrael.
5. Hvers vegna eru samskipti Guðs við Abraham okkur öllum til uppörvunar?
5 Jehóva var samt ekki að útiloka aðrar þjóðir en Ísrael, því tilgangur hans náði til alls mannkyns. Við sjáum það greinilega af því fyrirheiti sem Guð gaf Abraham: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu.“ (1. Mósebók 22:18) En þó hafði Guð í margar aldir samskipti við Ísrael á sérstakan hátt með því að hann fékk þjóðinni lögmál, skipaði presta til að bera fram fórnir í musteri sínu og sá fyrir fyrirheitna landinu til búsetu.
6. Hvernig myndu ráðstafanir Guðs gagnvart Ísrael vera öllum til gagns?
6 Lögmál Guðs til Ísraelsmanna var gagnlegt fólki af öllum þjóðernum þar eð það afhjúpaði syndugt eðli mannsins og sýndi fram á þörfina fyrir fullkomna fórn til að breiða yfir syndir mannsins í eitt skipti fyrir öll. (Galatabréfið 3:19; Hebreabréfið 7:26-28; 9:9; 10:1-12) En hvaða trygging var fyrir því að sæði Abrahams — sem yrði öllum þjóðum til blessunar — myndi koma fram og uppfylla öll skilyrði? Þar hjálpaði lögmál Ísraels líka. Það bannaði hjónabönd við Kanaaníta, þjóð sem var alræmd fyrir siðlausar iðkanir og trúarathafnir eins og þann sið að brenna börn sín lifandi. (3. Mósebók 18:6-24; 20:2, 3; 5. Mósebók 12:29-31; 18:9-12) Guð fyrirskipaði að bæði þeim og iðkunum þeirra skyldi útrýmt. Það var öllum til gagns þegar til langs tíma var litið, líka hinum útlendu dvalargestum, þar eð það þjónaði því hlutverki að vernda ættlegg sæðisins gegn spillingu. — 3. Mósebók 18:24-28; 5. Mósebók 7:1-5; 9:5; 20:15-18.
7. Hvaða atburður fyrr á tímum gaf til kynna að Guð tók ókunnugum vel?
7 Jafnvel meðan lögmálið var í gildi og Guð leit á Ísrael sem sérstakt fólk sýndi hann fólki af öðrum þjóðernum miskunn. Vilji hans í þá átt hafði komið í ljós þegar Ísraelsmenn gengu út úr þrælkuninni í Egyptalandi á leið inn í sitt eigið land. „Að auki fór með þeim mikill fjöldi af alls konar lýð.“ (2. Mósebók 12:38) Prófessor C. F. Keil tekur fram að hér hafi verið um að ræða „mergð útlendinga . . . sundurleitan hóp eða múg fólks af mismunandi þjóðernum.“ (3. Mósebók 24:10; 4. Mósebók 11:4) Líklega voru margir þeirra Egyptar sem viðurkenndu hinn sanna Guð.
Útlendingum vel tekið
8. Hvernig eignuðust Gíbeonítar búseturétt meðal fólks Guðs?
8 Þegar Ísraelsmenn framfylgdu boði Guðs um að losa fyrirheitna landið við spilltar þjóðir verndaði hann einn hóp útlendinga, Gíbeoníta, sem bjuggu norður af Jerúsalem. Þeir gerðu út dulbúna sendimenn til Jósúa til að biðjast friðar, og fengu hann. Þegar uppvíst varð um klæki þeirra úrskurðaði Jósúa að þeir skyldu gerðir að „viðarhöggsmönnum og vatnsberum fyrir söfnuðinn og fyrir altari [Jehóva].“ (Jósúabók 9:3-27) Einnig nú á tímum sætta margir innflytjendur sig við lítilfjörleg þjónustustörf til að verða hluti af annarri þjóð.
9. Hvernig er fordæmi Rahab og fjölskyldu hennar uppörvandi hvað snertir útlendinga í Ísrael?
9 Það gæti uppörvað þig að vita að Guð bauð ekki bara útlendinga sem hópa velkomna á þeim tíma; einstaklingum einum sér var líka vel tekið. Nú á tímum taka sumar þjóðir einungis á móti þeim innflytjendum sem hafa vissa þjóðfélagsstöðu, auðæfi til fjárfestinga eða æðri menntun. Þannig er það ekki hjá Jehóva eins og sést af atviki sem gerðist rétt á undan atburðunum varðandi Gibeonítana. Þar kemur við sögu kanversk kona sem var varla af hárri þjóðfélagsstöðu. Í Biblíunni er hún kölluð „skækjan Rahab.“ Vegna trúar sinnar á hinn sanna Guð var henni og heimilisfólki hennar bjargað þegar Jeríkó féll. Þó að Rahab væri útlendingur tóku Ísraelsmenn við henni. Hún var fyrirmynd trúar sem er okkur verðug til eftirbreytni. (Hebreabréfið 11:30, 31, 39, 40; Jósúabók 2:1-21; 6:1-25) Hún varð jafnvel formóðir Messíasar. — Matteus 1:5, 16.
10. Hver voru inntökuskilyrði útlendinga í Ísrael?
10 Í fyrirheitna landinu var tekið við þeim sem ekki voru af Ísrael komnir í samræmi við viðleitni þeirra til að þóknast hinum sanna Guði. Ísraelsmönnum var sagt að hafa ekki samfélag, sérstaklega trúarlegt, við þá sem þjónuðu ekki Jehóva. (Jósúabók 23:6, 7, 12, 13; 1. Konungabók 11:1-8; Orðskviðirnir 6:23-28) Engu að síður hlýddu margir landnemar, sem ekki voru Ísraelsmenn, grundvallarreglum lögmálsins. Aðrir gerðust jafnvel umskornir trúskiptingar og Jehóva bauð þá algerlega velkomna sem meðlimi safnaðar hans. — 3. Mósebók 20:2; 24:22; 4. Mósebók 15:14-16; Postulasagan 8:27.a
11, 12. (a) Hvernig áttu Ísraelsmenn að umgangast útlenda tilbiðjendur? (b) Hvers vegna gætum við þurft að bæta okkur í því að fylgja fordæmi Jehóva?
11 Guð hvatti Ísraelsmenn til að líkja eftir viðhorfi sínu til útlendra tilbiðjenda: „Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi.“ (3. Mósebók 19:33, 34; 5. Mósebók 1:16; 10:12-19) Við getum dregið lærdóm af þessu þótt við séum ekki undir lögmálinu. Það er auðvelt að falla í gryfju fordóma og fjandskapar gagnvart fólki af öðrum kynþætti, þjóðerni og menningarháttum. Því væri viturlegt af okkur að spyrja: ‚Er ég að reyna að losa mig við slíka fordóma og fylgja fordæmi Jehóva?‘
12 Ísraelsmenn höfðu sýnilega sönnun fyrir því að Guð byði útlendinga velkomna. Salómon konungur bað: „Ef útlendingur, sem eigi er af lýð þínum Ísrael, en kemur úr fjarlægu landi vegna nafns þíns . . . ef hann kemur hingað og biður frammi fyrir þessu húsi, þá heyr þú það á himnum . . . til þess að öllum þjóðum jarðarinnar verði kunnugt nafn þitt og þær óttist þig.“ — 1. Konungabók 8:41-43; 2. Kroníkubók 6:32, 33.
13. Hvers vegna gerði Guð ráðstafanir til að breyta samskiptum sínum við Ísrael?
13 Á meðan Jehóva var enn að nota Ísraelsþjóðina sem eignarlýð sinn og vernda þannig ættlegg Messíasar, sagði hann fyrir þýðingarmiklar breytingar. Áður, þegar Ísraelsmenn samþykktu að bindast lagasáttmálanum, gaf Guð þeim kost á að verða „prestaríki og heilagur lýður.“ (2. Mósebók 19:5, 6) En Ísrael sýndi ótrúmennsku öldum saman. Jehóva sagði því fyrir að hann myndi gera nýjan sáttmála þar sem þeim er mynda „Ísraels hús“ yrðu fyrirgefnar syndir sínar og misgerðir. (Jeremía 31:33, 34) Þessi nýi sáttmáli beið Messíasar sem með fórn sinni myndi í raun hreinsa marga af syndum sínum. — Jesaja 53:5-7, 10-12.
Ísraelsmenn á himnum
14. Hvaða nýjum „Ísrael“ veitti Jehóva viðtöku og hvernig?
14 Kristnu Grísku ritningarnar hjálpa okkur að skilja hvernig öllu þessu var komið til leiðar. Jesús var hinn fyrirheitni Messías sem með dauða sínum uppfyllti lögmálið og lagði grunninn að fullri syndafyrirgefningu. Menn þurftu ekki að vera umskornir Gyðingar að holdinu til að njóta þessa hagnaðar. Páll postuli skrifaði: „Sá er Gyðingur [í nýja sáttmálanum], sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf.“ (Rómverjabréfið 2:28, 29; 7:6) Þeir sem festu trú á fórn Jesú öðluðust fyrirgefningu, og Guð viðurkenndi þá sem ‚Gyðinga í anda‘ sem saman mynda andlega þjóð er kallast „Ísrael Guðs.“ — Galatabréfið 6:16.
15. Hvers vegna skiptir holdlegt þjóðerni engu máli í því að vera hluti hins andlega Ísraels?
15 Já, að vera samþykktur sem hluti hinnar andlegu Ísraelsþjóðar var ekki háð ákveðnum þjóðernislegum eða menningarlegum uppruna. Sumir, eins og postular Jesú, voru Gyðingar að holdinu. Aðrir, eins og rómverski hundraðshöfðinginn Kornelíus, voru óumskornir heiðingjar. (Postulasagan 10:34, 35, 44-48) Páll sagði réttilega um andlegu Ísraelsþjóðina: „Þar er ekki grískur maður eða Gyðingur, umskorinn eða óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll eða frjáls maður.“ (Kólossubréfið 3:11) Þeir sem smurðir voru af anda Guðs urðu „útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður.“ — 1. Pétursbréf 2:9; samanber 2. Mósebók 19:5, 6.
16, 17. (a) Hvaða hlutverki gegna andlegir Ísraelsmenn í tilgangi Guðs? (b) Hvers vegna er það viðeigandi að gefa gaum að þeim sem eru ekki af Ísrael Guðs?
16 Hvaða framtíð bíður andlegra Ísraelsmanna í tilgangi Guðs? Jesús svaraði: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.“ (Lúkas 12:32) Andasmurðir menn, sem eiga sitt „föðurland . . . á himni,“ verða samerfingjar með lambinu í ríkisstjórn hans. (Filippíbréfið 3:20; Jóhannes 14:2, 3; Opinberunarbókin 5:9, 10) Biblían bendir á að þeir séu af ‚Ísraelssonum sem merktir voru innsigli‘ og „leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu.“ Þeir eru alls 144.000. En eftir að Jóhannes hafði gefið upp fjölda hinna innsigluðu kynnti hann annan hóp manna — ‚mikinn múg, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.‘ — Opinberunarbókin 7:4, 9; 14:1-4.
17 Sumir hugsa kannski: ‚Hvað með þær milljónir sem eru ekki af hinum andlega Ísrael, svo sem þeir sem komast gegnum þrenginguna miklu sem hinn mikli múgur? Hvaða hlutverki gegna þeir núna með tilliti til hinna fáu sem eftir eru af hinum andlega Ísrael?‘b
Útlendingar í spádómunum
18. Hvað leiddi til endurkomu Ísraelsmanna úr útlegðinni í Babýlon?
18 Þegar við lítum aftur til þess tíma er Ísraelsmenn voru undir lagasáttmálanum en voru ótrúir honum, sjáum við að Guð ákvað að láta Babýloníumenn leggja Ísrael í eyði. Árið 607 f.o.t. var Ísraelsþjóðin sett í 70 ára varðhald. Þá endurkeypti Guð þjóðina. Undir forystu Serúbabels landsstjóra sneru leifar Ísraelsmanna að holdinu aftur til heimalands síns. Konungar Meda og Persa, sem kollvörpuðu Babýlon, birgðu jafnvel upp þá sem ákváðu að snúa heim úr útlegðinni. Spádómsbók Jesaja sagði þessa atburði fyrir. (Jesaja 1:1-9; 3:1-26; 14:1-5; 44:21-28; 47:1-4) Esra skrifaði nákvæma frásögu af þessari endurkomu. — Esrabók 1:1-11; 2:1, 2.
19. Hvaða spádómar bentu til þess að útlendingar myndu koma við sögu í tengslum við endurkomu Ísraelsmanna?
19 Er Jesaja sagði fyrir endurkaup og endurkomu þjóðar Guðs, bar hann einnig fram þennan undarlega spádóm: „Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.“ (Jesaja 59:20; 60:3) Þetta þýðir meira en það að einstakir útlendingar séu velkomnir, í samræmi við bæn Salómons. Jesaja var að vísa til óvenjulegra breytinga á aðstæðum. „Þjóðirnar“ myndu þjóna með Ísraelssonum: „Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér, því að í reiði minni sló ég þig, en af náð minni miskunna ég þér.“ — Jesaja 60:10.
20, 21. (a) Hvaða nútímahliðstæðu er að finna við endurkomu Ísraelsmanna úr útlegðinni? (b) Hvernig var ‚sonum og dætrum‘ bætt við hinn andlega Ísrael eftir það?
20 Útlegð og heimkoma Ísraelsmanna á sér að mörgu leyti nútímahliðstæðu hjá hinni andlegu Ísraelsþjóð. Áður en fyrri heimsstyrjöldin hófst voru leifar smurðra kristinna manna ekki fyllilega samstilltar vilja Guðs; þær viðhéldu sumum skoðunum og iðkunum sem sátu eftir frá kirkjum kristna heimsins. Þá, í stríðsæsingnum og að hluta til vegna áeggjan klerkanna, voru forustumenn meðal leifa hins andlega Ísraels hnepptir í fangelsi fyrir rangar sakir. Eftir stríðið, árið 1919, fengu þessir smurðu menn í bókstaflegu fangelsi frelsi og uppreisn æru. Þetta bar þess vitni að fólk Guðs var leyst úr ánauð Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða. Fólk Guðs hófst handa við að byggja upp og setjast að í andlegri paradís. — Jesaja 35:1-7; 65:13, 14.
21 Þetta var gefið til kynna í lýsingu Jesaja: „Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á mjöðminni. Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun titra og svella, því að auðlegð hafsins hverfur til þín og fjárafli þjóðanna kemur undir þig.“ (Jesaja 60:4, 5) Næstu áratugi á eftir héldu ‚synir og dætur‘ áfram að koma inn og voru smurð með heilögum anda til að fylla síðustu svæðin í andlegum Ísrael.
22. Hvernig hafa „útlendir menn“ komið til starfa með hinum andlega Ísrael?
22 Hvað um þá ‚útlendu menn sem munu hlaða upp múra þína‘? Það hefur einnig átt sér stað á okkar tímum. Þegar köllun hinna 144.000 var komin á lokastig byrjaði mikill múgur af öllum þjóðum að streyma að og tilbiðja með hinum andlega Ísrael. Þessir nýframkomnu einstaklingar hafa þá von, byggða á Biblíunni, að geta lifað að eilífu í jarðneskri paradís. Þótt þeir ættu endanlega að veita trúfasta þjónustu á öðrum stað, var það þeim mikil ánægja að hjálpa leifum hinna smurðu við að prédika fagnaðarerindið um ríkið. — Matteus 24:14.
23. Að hvaða marki hafa „útlendingar“ aðstoðað hina smurðu?
23 Nú á tímum eru yfir 4.000.000, sem eru „útlendir menn,“ að sanna, ásamt leifum þeirra sem eiga ‚föðurland sitt á himni,‘ hollustu sína við Jehóva. Margir þeirra, karlar og konur, ungir sem aldnir, þjóna í fullu starfi sem brautryðjendur. Í flestum hinna rúmlega 66.000 safnaða bera slíkir útlendir menn ábyrgð sem öldungar og þjónar. Leifarnar fagna yfir því að sjá þannig orð Jesaja uppfyllast: „Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga, og aðkomnir menn vera akurmenn og víngarðsmenn hjá yður.“ — Jesaja 61:5.
24. Hvers vegna geta samskipti Guðs við Ísraelsmenn og aðra verið okkur til uppörvunar?
24 Án tillits til þess í hvaða landi á jörðinni þú ert ríkisborgari, innflytjandi eða flóttamaður hefur þú þess vegna stórkostlegt tækifæri til að gerast andlegur útlendingur sem hinn alvaldi Guð býður hjartanlega velkominn. Góðar móttökur hjá honum gefa þér kost á að njóta sérréttinda í þjónustu hans bæði núna og að eilífu.
[Neðanmáls]
a Til að sjá muninn á hugtökunum „útlendur dvalargestur“ (alien resident), „landnemi“ (settler), „aðkomumaður“ (stranger) og „útlendingur“ (foreigner), sjá ritið Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 72-5, 849-51, gefið út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Yfir 10.600.000 voru viðstaddir hina árlegu minningarhátíð um kvöldmáltíð Drottins sem vottar Jehóva héldu árið 1991 en aðeins 8850 játuðu sig vera leifar hins andlega Ísraels.
Tókstu eftir þessu?
◻ Hvernig gaf Guð von um að hann myndi taka við fólki af öllum þjóðum?
◻ Hvað sýnir að aðrar þjóðir en einkaþjóð Guðs, Ísrael, gætu nálgast hann?
◻ Hvernig gaf Guð til kynna í spádómi að útlendingar myndu sameinast Ísraelsþjóðinni?
◻ Hvað hefur samsvarað endurkomu Ísraelsmanna úr útlegð í Babýlon og hvernig hafa „útlendingar“ komið þar inn í myndina?
[Mynd á blaðsíða 25]
Salómon konungur bað fyrir útlendingunum sem myndu koma til að tilbiðja Jehóva.