Ráðstöfun Jehóva, „hinir gefnu“
„Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga.“ — JESAJA 61:5.
1. Hvers vegna gæti orðið „gjafari“ minnt okkur á Jehóva?
GUÐ er sannarlega örlátur gjafari! Páll postuli sagði: „[Jehóva] gefur öllum líf og anda og alla hluti.“ (Postulasagan 17:25) Við getum öll haft gagn af því að íhuga hinar mörgu ‚góðu gjafir og fullkomnu gáfur‘ sem við fáum frá Guði. — Jakobsbréfið 1:5, 17; Sálmur 29:11; Matteus 7:7; 10:19; 13:12; 21:43.
2, 3. (a) Hvernig ættum við að bregðast við gjöfum Guðs? (b) Í hvaða skilningi voru levítarnir „gefnir“?
2 Af gildri ástæðu velti sálmaritarinn fyrir sér hvernig hann gæti endurgoldið Jehóva. (Sálmur 116:12) Í raun þarfnast skapari okkar ekki neins sem menn geta átt eða gætu gefið. (Sálmur 50:10, 12) Jehóva bendir þó á að það gleðji hann þegar fólk gefur með þakklátum huga af sjálfu sér í sannri tilbeiðslu. (Samanber Hebreabréfið 10:5-7.) Allir menn ættu að gefa af sjálfum sér með því að vígja sig skaparanum sem í staðinn getur veitt aukin sérréttindi eins og raunin varð með levítana forðum. Þótt allir Ísraelsmenn væru vígðir Guði valdi hann niðja Arons af Levíættkvísl sem presta til að færa fórnir í tjaldbúðinni og í musterinu. En hvað um hina levítana?
3 Jehóva sagði við Móse: „Lát þú ættkvísl Leví koma . . . Og þeir skulu sjá um öll áhöld samfundatjaldsins . . . Og þú skalt gefa levítana Aroni og sonum hans. Þeir eru honum gefnir [á hebresku neþúnim, „hinir gefnu“] af Ísraelsmönnum.“ (4. Mósebók 3:6, 8, 9, 41) Levítarnir voru „gefnir“ Aroni til að gegna skyldustörfum í þjónustu tjalbúðarinnar þannig að Guð gat sagt: „Þeir eru gefnir mér . . . af Ísraelsmönnum.“ (4. Mósebók 8:16, 19; 18:6) Sumum levítanna voru falin einföld verkefni; aðrir fengu stórkostleg sérréttindi eins og þau að kenna lög Guðs. (4. Mósebók 1:50, 51; 1. Kroníkubók 6:48; 23:3, 4, 24-32; 2. Kroníkubók 35:3-5) En beinum nú athygli okkar að öðru „gefnu“ fólki og nútímahliðstæðu þess.
Ísraelsmenn snúa frá Babýlon
4, 5. (a) Hvaða Ísraelsmenn sneru heim úr útlegðinni í Babýlon? (b) Hvað samsvarar á okkar tímum heimför Ísraelsmanna úr útlegðinni?
4 Esra og Nehemía segja frá því hvernig leifar Ísraelsmanna, undir forystu Serúbabels, sneru frá Babýlon til heimalands síns til að endurreisa sanna tilbeiðslu. Báðar frásögurnar geta þess að hinir heimkomnu hafi verið samtals 42.360. Þúsundir af þeirri tölu voru ‚menn Ísraelslýðs.‘ Næstir í upptalningu beggja frásagnanna eru prestarnir. Síðan koma um 350 levítar að meðtöldum söngvurum og hliðvörðum. Esra og Nehemía nefna einnig þúsundir annarra sem virtust vera Ísraelsmenn, jafnvel prestar, en gátu ekki sannað ætt sína. — Esrabók 1:1, 2; 2:2-42, 59-64; Nehemía 7:7-45, 61-66.
5 Þessar leifar Ísraelsmanna, sem sendar voru í útlegð og sneru síðar heim aftur til Jerúsalem og Júda, sýndu einstaka hollustu við Guð og fastheldni við sanna tilbeiðslu. Eins og komið hefur fram sjáum við viðeigandi nútímahliðstæðu í leifum hinna andlegu Ísraelsmanna sem komu úr ánauð Babýlonar hinnar miklu árið 1919.
6. Hvernig hefur Guð notað andlega Ísraelsmenn á okkar tímum?
6 Leifar smurðra bræðra Krists hafa, eftir frelsun sína árið 1919, sótt fram af kostgæfni í sannri tilbeiðslu. Jehóva hefur blessað viðleitni þeirra við að safna síðustu meðlimum hinna 144.000 sem mynda „Ísrael Guðs.“ (Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 7:3, 4) Sem hópur eru hinar smurðu leifar sá „trúi og hyggni þjónn“ sem notaður er til að sjá fyrir ríkulegri lífgefandi andlegri fæðu og þeir hafa unnið hörðum höndum til að dreifa henni um alla jörðina. — Matteus 24:45-47.
7. Hverjir eru sameinaðir hinum smurðu í sannri tilbeiðslu?
7 Eins og kom fram í fyrri greininni innifelur þjóð Guðs núna milljónir ‚annarra sauða‘ sem Guð hefur gefið þá von að komast gegnum þrenginguna miklu sem er skammt undan. Þeir þrá að þjóna Jehóva að eilífu á jörðinni þar sem þá mun ekki framar hungra né þyrsta og þar sem sorgartár munu ekki framar flóa. (Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9-17; 21:3-5) Finnum við í frásögunni af hinum heimkomnu frá Babýlon eitthvað sem samsvarar slíkum einstaklingum? Já!
Aðrir en Ísraelsmenn komu líka
8. Hverjir urðu samferða Ísraelsmönnunum sem sneru heim frá Babýlon?
8 Þegar boðið um að snúa heim til fyrirheitna landsins barst þeim sem elskuðu Jehóva í Babýlon brugðust þúsundir manna auk Ísraelsmanna jákvætt við. Í upptalningu Esra og Nehemía lesum við um ‚musterisþjónana‘ („neþinim“ sem þýðir „hinir gefnu“) og ‚niðja þræla Salómons‘ sem voru samtals 392. Frásagan nefnir auk þess rúmlega 7500 aðra: ‚Þræla og ambáttir‘ og einnig „söngvara og söngkonur“ sem voru ekki af Levíættkvísl. (Esrabók 2:43-58, 65; Nehemíabók 7:46-60, 67) Hvað knúði svona marga, fyrir utan Ísraelsmenn, til að snúa aftur?
9. Hvernig átti andi Guðs þátt í heimkomunni úr útlegð?
9 Esrabók 1:5 talar um alla þá „er Guð hafði blásið því í brjóst að fara og reisa musteri [Jehóva].“ Já, Jehóva knúði alla þá er sneru heim. Hann örvaði huga þeirra, það er að segja drifkraft hugans. Guð gat jafnvel gert það frá himnum með því að beita heilögum anda sínum, starfskrafti sínum. Þannig fengu allir sem tóku sig upp til „að fara og reisa musteri [Jehóva]“ hjálp frá ‚anda Guðs.‘ — Sakaría 4:1, 6; Haggaí 1:14.
Nútímahliðstæða
10, 11. Hverjir eru hliðstæða þeirra manna af erlendum uppruna sem sneru heim með Ísraelsmönnum?
10 Hverja fyrirmynduðu þessir heimkomnu sem voru ekki af Ísrael? Margir kristnir menn myndu kannski svara: ‚Musterisþjónarnir samsvara „öðrum sauðum“ nú á tímum.‘ Rétt er það, en ekki bara musterisþjónarnir; því allir sem sneru heim og ekki voru Ísraelsmenn tákna kristna nútímamenn sem eru ekki af hinum andlega Ísrael.
11 Bókin You May Survive Armageddon Into God‘s New Worlda segir: „Leifar Ísraelsmanna, 42.360 talsins, voru ekki þeir einu sem yfirgáfu Babýlon með Serúbabel landstjóra . . . Með þeim voru þúsundir sem voru ekki Ísraelsmenn . . . Auk musterisþjónanna voru aðrir sem voru ekki af Ísrael eins og þrælarnir, söngvararnir og söngkonurnar og afkomendur þjóna Salómons konungs.“ Bókin útskýrði: „Musterisþjónarnir, þrælarnir, söngvararnir og synir þjóna Salómons, allir af öðru þjóðerni en Ísrael, yfirgáfu fjötralandið og sneru heim með leifum Ísraelsmannanna . . . Er þá rétt að hugsa sem svo að fólk af ýmsum þjóðernum nú á dögum, sem eru ekki andlegir Ísraelsmenn, myndu sameinast leifum andlegra Ísraelsmanna og efla með þeim tilbeiðsluna á Jehóva? Já.“ Slíkir menn ‚hafa orðið nútímahliðstæða musterisþjónanna (neþinim), söngvaranna og niðja þræla Salómons.‘
12. Hvernig notar Guð anda sinn á sérstakan hátt í þágu andlegra Ísraelsmanna en hvernig getum við verið viss um að hann standi öllum tilbiðjendum hans til boða?
12 Eins og í fyrirmyndinni til forna lætur Guð einnig þessa sem hafa von um að lifa eilíflega á jörðinni fá af anda sínum. Þeir eru að vísu ekki endurfæddir. Sérhver hinna 144.000 hefur þá einstæðu lífsreynslu að vera endurfæddur sem andlegur sonur Guðs og smurður með heilögum anda. (Jóhannes 3:3, 5; Rómverjabréfið 8:16; Efesusbréfið 1:13, 14) Þessi smurning er vitaskuld einstæð opinberun anda Guðs í þágu litlu hjarðarinnar. En anda Guðs er einnig þörf til að gera vilja hans. Þess vegna sagði Jesús: ‚Faðirinn himneski gefur þeim heilagan anda sem biðja hann.‘ (Lúkas 11:13) Einu gildir hvort sá sem biður hefur himneska von eða er af hinum öðrum sauðum, andi Jehóva er til reiðu í ríkum mæli til að gera vilja hans.
13. Hvernig getur heilagur andi haft áhrif á alla þjóna Guðs?
13 Andi Guðs knúði bæði Ísraelsmenn og menn af öðrum þjóðum til að snúa aftur til Jerúsalem og hann styrkir og hjálpar öllu drottinhollu fólki hans nú á dögum. Hvort sem Guð hefur gefið kristnum manni himneska eða jarðneska von verður hann að prédika fagnaðarerindið og heilagur andi gerir honum kleift að vera trúfastur í því. Við ættum hvert og eitt okkar — hver sem von okkar er — að rækta með okkur ávexti andans sem við þurfum öll á að halda í ríkum mæli. — Galatabréfið 5:22-26.
Gefnir til sérstakrar þjónustu
14, 15. (a) Hvaða tveir hópar af erlendum uppruna,sem sneru úr útlegðinni, voru nafngreindir sérstaklega? (b) Hverjir voru musterisþjónarnir (neþinim) og hvað gerðu þeir?
14 Meðal þeirra þúsunda manna af öðru þjóðerni, sem andi Guðs knúði til að snúa aftur, voru tveir smáir hópar sem orð Guðs tilgreinir sérstaklega — musterisþjónarnir (neþinim) og niðjar þræla Salómons. Hverjir voru þeir? Hvað gerðu þeir? Og hvaða þýðingu gæti það haft nú á tímum?
15 Musterisþjónarnir voru ekki af ísraelskum ættum en höfðu fengið þau sérréttindi að þjóna við hlið levítanna. Munið eftir Kanaanítunum frá Gíbeon sem gerðir voru að „viðarhöggsmönnum og vatnsberum fyrir söfnuðinn og fyrir altari [Jehóva].“ (Jósúabók 9:27) Sennilega voru sumir afkomenda þeirra meðal musterisþjónanna sem sneru frá Babýlon. Auk þess höfðu aðrir verið gerðir að musterisþjónum á stjórnarárum Davíðs og á öðrum tímum. (Esrabók 8:20) Hvað gerðu musterisþjónarnir? Levítarnir voru gefnir til að aðstoða prestana og síðan voru musterisþjónarnir gefnir til að aðstoða levítanna. Jafnvel fyrir umskorna útlendinga voru þetta sérréttindi.
16. Hvernig breyttist hlutverk musterisþjónanna með tímanum?
16 Þegar hópurinn sneri heim frá Babýlon voru þar fáir levítar samanborið við prestana eða musterisþjónana og ‚niðja þræla Salómons.‘ (Esrabók 8:15-20) Í bókinni Dictionary of the Bible eftir Dr. James Hastings segir: „Að nokkrum tíma liðnum voru [musterisþjónarnir] svo fullkomlega hefðfestir sem heilagur embættismannahópur að þeim voru falin viss sérréttindi.“ Fræðitímaritið Vetus Testamentum bendir á: „Breyting átti sér stað. Eftir heimkomuna úr útlegðinni var ekki lengur litið á þessa [útlendinga] sem þræla musterisins heldur sem þjóna í musterinu og þeir nutu svipaðrar stöðu og aðrir embættismannahópar í musterinu.“ — Sjá rammagreinina „Breytt staða.“
17. Hvers vegna fengu musterisþjónarnir meira að gera og hvaða biblíuleg rök eru fyrir því að það hafi gerst?
17 Að sjálfsögðu urðu musterisþjónarnir ekki jafningjar prestanna og levítanna. Þessir tveir síðastnefndu hópar voru Ísraelsmenn er valdir voru af Jehóva sjálfum og var öðrum en Ísraelsmönnum meinað að gegna stöðu þeirra. Þó gefur Biblían til kynna að musterisþjónarnir hafi fengið meira að gera í þjónustu Guðs vegna fæðar levítanna. Þeim var úthlutað húsnæði nálægt musterinu. Á dögum Nehemía unnu þeir með prestum við múrhleðsluna skammt frá musterinu. (Nehemía 3:22-26) Og konungur Persíu fyrirskipaði að musterisþjónarnir skyldu vera undanþegnir skatti alveg eins og levítarnir voru undanþegnir vegna þjónustu sinnar í musterinu. (Esrabók 7:24) Þetta gefur til kynna hve náið þessir „gefnu“ (levítar og musterisþjónar) voru tengdir í andlegum málum á þessum tíma og hvernig musterisþjónunum voru falin aukin verkefni eftir því sem þörf var á, þótt aldrei væri litið á þá sem levíta. Síðar, þegar Esra safnaði saman útlögum til að snúa heim, var enginn levíti meðal þeirra til að byrja með. Hann lagði þá enn meira kapp á að smala nokkrum saman. Afraksturinn varð 38 levítar og 220 musterisþjónar er sneru aftur til að vera „þjónustumenn í musteri Guðs vors.“ — Esrabók 8:15-20.
18. Hvaða hlutverki er líklegt að niðjar þræla Salómons hafi gegnt?
18 Annar hópur af erlendum uppruna, sem nefndur er sérstaklega, voru niðjar þræla Salómons. Biblían segir lítil deili á þeim. Sumir voru „niðjar Sóferets.“ Esra bætir ákveðnum greini við nafnið þannig að það verður Hassófereð, sem þýðir líklega „fræðimaðurinn.“ (Esrabók 2:55; Nehemía 7:57) Þeir gætu því hafa verið starfslið fræðimanna eða afritara, ef til vill fræðimenn sem höfðu umsjón í musterinu eða stjórnsýslu. Þó að niðjar þræla Salómons væru af erlendum uppruna sönnuðu þeir hollustu sína við Jehóva með því að yfirgefa Babýlon og snúa heim til að eiga hlutdeild í að endurreisa tilbeiðsluna á honum.
Að gefa af sjálfum okkur nú á tímum
19. Hvaða tengsl eru á milli hinna smurðu nú á dögum og annarra sauða?
19 Á okkar tímum hefur Guð notað hinar smurðu leifar kröftuglega til að taka forystu í hreinni tilbeiðslu og að kunngera fagnaðarerindið. (Markús 13:10) Mikið hafa þær fagnað að sjá tugþúsundir, hundruð þúsunda og síðan milljónir annarra sauða sameinast þeim í tilbeiðslu! Og hve unaðslegt samstarf hefur ekki verið milli leifanna og hinna annarra sauða! — Jóhannes 10:16.
20. Hvaða nýi skilningur er rökréttur varðandi hliðstæðu við musterisþjónana og niðja þræla Salómons? (Orðskviðirnir 4:18)
20 Allir menn af erlendum uppruna, sem sneru heim úr útlegðinni í Babýlon, samsvöruðu hinum öðrum sauðum sem þjóna nú með leifum hins andlega Ísraels. En hvað um þá staðreynd að Biblían skuli tilgreina sérstaklega musterisþjónana og niðja þræla Salómons? Af fyrirmyndinni sést að musterisþjónunum og niðjum þræla Salómons voru fengin sérréttindi umfram aðra heimkomna sem voru ekki ísraelskir. Þetta getur vel fyrirmyndað það að Guð hefur nú á dögum aukið sérréttindi og bætt við skyldustörf sumra þroskaðra og fúsra annarra sauða.
21. Hvernig haf sumir bræður með jarðneska von fengið auknar skyldur og sérréttindi?
21 Hin auknu sérréttindi musterisþjónanna tengdust beint andlegum athöfnum. Svo virðist sem niðjar þræla Salómons hafi fengið ábyrgðarstörf við stjórnsýslu. Nú á dögum hefur Jehóva á svipaðan hátt blessað þjóna sína með ‚gjöfum í mönnum‘ til að annast þarfir þeirra. (Efesusbréfið 4:8, 11, 12) Þeirra á meðal eru mörg hundruð þroskaðir og reyndir bræður sem taka þátt í að ‚halda hjörðinni til haga‘ með því að þjóna sem farand- og umdæmishirðar og í deildarnefndum hinna 98 deilda Varðturnsfélagsins. (Jesaja 61:5) Á höfuðstöðvum Félagsins, undir umsjón ‚hins trúa og hyggna ráðsmanns‘ og stjórnandi ráðs hans, eru hæfir menn þjálfaðir í að hjálpa til við að útbúa andlegar matarbirgðir. (Lúkas 12:42) Aðrir dyggir sjálfboðaliðar, með langa þjónustu að baki, hafa verið þjálfaðir til að starfrækja Betelheimili og prentsmiðjur og til að hafa umsjón með byggingaframkvæmdum út um allan heim við nýjar deildaskrifstofur, mótshallir og Ríkissali til kristinnar tilbeiðslu. Þeir hafa þjónað frábærlega sem nánir aðstoðarmenn hinna smurðu leifa sem eru hluti af hinu konunglega prestafélagi. — Samanber 1. Korintubréf 4:17; 14:40; 1. Pétursbréf 2:9.
22. Hvers vegna er það viðeigandi að sumir hinna annarra sauða fái í hendur mikilvæg ábyrgðarstörf nú á dögum og hvernig ættum við að bregðast við því?
22 Fyrr á tímum héldu prestar og levítar áfram að þjóna meðal Gyðinga. (Jóhannes 1:19) Nú á dögum er samt óhjákvæmilegt að leifum hins andlega Ísraels fari fækkandi. (Samanber Jóhannes 3:30.) Að lokum, eftir að Babýlon hin mikla hefur liðið undir lok, munu allir hinna 144.000 ‚innsigluðu‘ vera á himnum í brúðkaupi lambsins. (Opinberunarbókin 7:1-3; 19:1-8) Hinum öðrum sauðum hlýtur hins vegar að fjölga áfram. Sú staðreynd að sumum þeirra hafa, líkt og musterisþjónunum og niðjum þræla Salómons, verið falin mikilvæg ábyrgðarstörf undir umsjón smurðu leifanna kemur þeim ekki til að vera dramsamir eða líta stórt á sjálfa sig. (Rómverjabréfið 12:3) Það fullvissar okkur um að þegar þjónar Guðs ‚koma úr þrengingunni miklu‘ munu reyndir menn — ‚höfðingjar‘ — vera tilbúnir að taka forystuna meðal hinna annarra sauða. — Opinberunarbókin 7:14; Jesaja 32:1; samanber Postulasöguna 6:2-7.
23. Hvers vegna verðum við öll að rækta með okkur anda örlætis varðandi þjónustu Guðs?
23 Allir sem sneru heim frá Babýlon voru fúsir að leggja hart að sér og sanna að þeir hefðu tilbeiðsluna á Jehóva efst í huga og hjarta. Það er eins nú á dögum. Ásamt hinum smurðu leifum ‚standa útlendingar yfir hjörðunum og halda þeim til haga.‘ (Jesaja 61:5) Án tillits til hver sú von er sem við höfum frá Guði og án tillits til hvaða sérréttindi kunni að veitast öldungum útnefndum af heilögum anda áður en Jehóva upphefur nafn sitt í Harmagedón, skulum við öll rækta með okkur óeigingjarnt og heilnæmt hugarfar örlætis. Þó að við getum aldrei endurgoldið Jehóva allar hans stórkostlegu velgerðir, megum við samt vinna af heilum huga við hvað sem við gerum innan skipulags hans. (Sálmur 116:12-14; Kólossubréfið 3:23) Þannig getum við öll gefið af sjálfum okkur í sannri tilbeiðslu þá er aðrir sauðir þjóna þétt við hlið hinna smurðu sem eiga fyrir höndum að „ríkja sem konungar yfir jörðinni.“ — Opinberunarbókin 5:9, 10, NW.
[Neðanmáls]
a Bls. 142-8; gefin út af Watchtower Bible and Tract society of New York, Inc.
Minnisatriði
◻ Á hvaða hátt voru levítarnir „hinir gefnu“ í Forn-Ísrael?
◻ Hvaða menn af erlendum uppruna sneru úr útlegðinni og hverja fyrirmynduðu þeir?
◻ Hvaða breyting virðist hafa átt sér stað hjá musterisþjónunum?
◻ Hvaða hliðstæða er núna auðsæ við musterisþjónana og niðja þræla Salómons?
◻ Hvaða traust kemur til af samvinnu hinna smurðu og annarra sauða?
[Rammi á blaðsíðu 30]
BREYTT STAÐA
Margar orða- og alfræðibækur um Biblíuna minnast á þau umskipti sem urðu á högum sumra hinna heimkomnu úr útlegðinni sem ekki voru Gyðingar. Til dæmis segir Encyclopædia Biblica undir fyrirsögninni „Breyting á stöðu þeirra“: „Eins og þegar hefur verið bent á var þjóðfélagsstaða þeirra af nauðsyn hækkuð á sama tíma. [Musterisþjónarnir (neþinim)] koma ekki lengur fram sem þrælar í strangasta skilningi þess orðs.“ (Gefin út af Cheyne og Black, 3. bindi, bls. 3399) Í bókinni The Cyclopædia of Biblical Literature skrifar John Kitto: „Það var ekki við því að búast að margir þeirra [musterisþjónanna] myndu snúa aftur til þessarar lágu þjóðfélagsstöðu í Palestínu . . . Hin fúsa hollusta, sem þessir einstaklingar létu þannig í ljós, hækkaði stöðu musterisþjónanna töluvert.“ (2. bindi, bls. 417) The International Standard Bible Encyclopedia bendir á: „Í ljósi þessara tengsla og uppruna þeirra í stjórnartíð Salómons, má telja víst að þjónar Salómons hafi haft þýðingarmikil ábyrgðarstörf í hinu síðara musteri.“ — Gefin út af G. W. Bromiley, 4. bindi, bls. 570.