Jehóva dregur sverð sitt úr slíðrum
„Allir menn skulu viðurkenna, að ég, [Jehóva], hefi dregið sverð mitt úr slíðrum.“ — ESEKÍEL 21:5.
1. Gegn hverjum brá Jehóva sverði sínu í Júda og Ísrael?
SVERÐ Jehóva vekur réttilega óhug með óvinum hans. En vissu syndarar í Júda og Jerúsalem í raun hvað var að gerast þegar hann brá því gegn þeim? Já, þeir voru látnir vita að Jehóva hefði dregið táknrænt sverð sitt úr slíðrum. — Esra 9:6-9; Nehemía 1:8; 9:26-30.
2. Hvað sagði Jehóva um „sverð“ sitt og hvaða spurningar vekur það?
2 Fyrir munn spámanns síns og varðmanns, Esekíels, sagði Guð: „Allir menn skulu viðurkenna, að ég, [Jehóva], hefi dregið sverð mitt úr slíðrum.“ (Esekíel 21:5) Áttu þessi orð aðeins við til forna eða hafa þau merkingu fyrir okkur?
Forspá um dóm Jerúsalem
3. Hvað sagði Esekíel útlögunum í Babýloníu og hvaða nútímahliðstæðu á það sér?
3 Stríðsvagn Jehóva færði sig nú til aftur og Esekíel var einnig færður um set. Það var eins og hið himneska skipulag Guðs hefði fært sig á athugunarstað yfir Olíufjallinu. Það var þar sem Jesús sagði fyrir eyðinguna sem kom yfir Jerúsalem árið 70, eyðingu sem var spádómleg fyrirmynd um endalok kristna heimsins. (Markús 13:1-20) Í sýn hafði Esekíel verið fluttur frá Kebarfljótinu en vegna anda Guðs var hann nú fluttur aftur í hús sitt þar sem hann bjó í útlegðinni í Babýloníu. Þar flutti hann hinum útlögunum ‚öll orð Jehóva er hann hafði birt honum.‘ Á sama hátt boðar smurður ‚varðmaður‘ Guðs og vottarnir, sem starfa í félagi við hann, allt sem stjórnandi stríðsvagnsins á himnum hefur opinberað þeim. — Esekíel 11:22-25.
4. Hvernig brugðust hinir útlægu Gyðingar við táknrænum athöfnum Esekíels?
4 Með táknrænum athöfnum sýndi Esekíel Gyðingunum í útlegðinni að þjóðarógæfa væri yfirvofandi. (Lestu Esekíel 12:1-7.) Spámaðurinn bar með sér „ferðatæki,“ útlegðarföggur, til tákns um þá fáu hluti sem herteknir menn gætu borið á baki sér. Skelfing myndi bráðlega ráða ríkjum í hinni umsetnu Jerúsalemborg. Þótt margir tækju slíkar aðvaranir ekki alvarlega átti Esekíel að segja lýðnum: „Á engu mínu orði mun framar frestur verða.“ Nú á dögum eru aðvaranir Guðs og spádómar líka fyrirlitnir en við getum mikið gert til að hjálpa sannleiksleitandi mönnum að treysta á uppfyllingu þeirra. — Esekíel 12:8-28.
5. Hvaða fordæmingar voru viðeigandi þar eð ‚dagur Jehóva‘ var yfirvofandi?
5 Þeir sem hlýddu ekki á varðmann Jehóva þurftu að fá að vita að þeir myndu finna fyrir ‚sverði‘ Guðs. Þeir sem báru ábyrgð á því að menn gerðu sér falskar vonir um öryggið í Júda og Jerúsalem voru því fordæmdir. Falsspámönnum var líkt við refi sem valda tjóni og sýnt var fram á að lygararnir væru að hvítkalka veggi sem riðuðu til falls, það er að segja fánýt áform þjóðarinnar. Falskar spákonur voru líka fordæmdar. ‚Dagur Jehóva‘ var yfirvofandi og auglit hans sneri gegn þeim sem ‚gerðust fráhverfir‘ honum, það er að segja ‚fráhverfir því að þjóna Guði.‘ Ef við erum vígð Jehóva ættum við svo sannarlega aldrei að vilja gerast fráhverf heilagri þjónustu hans. — Esekíel 13:1-14:11.
6. Gat einhver maður bjargað hinum vegvilltu Júdamönnum og hvað kennir það okkur?
6 Hver gæti bjargað hinum villuráfandi Júdamönnum? Ekki einu sinni hinn réttláti Nói, Daníel og Job gætu bjargað þeim þegar Guð léti dóma sína koma fram á landinu. Ef við eigum að hljóta hjálpræði verðum við hvert um sig að axla okkar ábyrgð frammi fyrri Guði og gera vilja hans. — Esekíel 14:12-23; Rómverjabréfið 14:12.
7. Við hvað var Júda líkt en hvað myndi Guð gera við trúfasta menn?
7 Sökum sinna ótrúu íbúa var Júda líkt við villivínvið sem bar ekki góðan ávöxt og var hæfur aðeins til eldiviðar. (Esekíel 15:1-8) Júda var einnig líkt við óskilabarn sem Guð bjargaði úr Egyptalandi og kom á legg. Þegar stúlkan varð fullvaxta tók Jehóva sér hana fyrir konu en hún sneri sér til falsguða og skyldi því farast fyrir andlegan hórdóm sinn. Þó myndi Guð ‚binda eilífan sáttmála‘ — nýja sáttmálann við hinn andlega Ísrael — við þá er sýndu trúfesti. — Esekíel 16:1-63; Jeremía 31:31-34; Galatabréfið 6:16.
8. (a) Við hvað var Babýlon og Egyptalandi líkt? (b) Hvaða áhrif ætti eiðrof Sedekía að hafa á okkur?
8 Því næst var valdhöfum Babýlonar og Egyptalands líkt við stóra erni. Annar braut toppinn af sedrustré með því að víkja Jójakín konungi úr embætti og setja Sedekía í hans stað. Enda þótt Sedekía ynni Nebúkadnesar hollustueið rauf hann hann og leitaði hernaðaraðstoðar hjá valdhafanum í Egyptalandi, hinum stóra erninum. Ef Sedekía lagði nafn Jehóva við eiðinn, sem hann gaf, þá smánaði hann Jehóva með því að rjúfa hann. Aðeins tilhugsunin um að smána Guð ætti að aftra okkur frá að ganga nokkurn tíma á bak orða okkar. Það eru mikil sérréttindi að bera nafn Guðs sem vottar Jehóva! — Esekíel 17:1-21.
9, 10. (a) Hvaða spádómur er skráður í Esekíel 17:22-24 en hvað þarf að gera ef við eigum að njóta góðs af uppfyllingu hans? (b) Hver ber ábyrgðina á afleiðingum gerða okkar?
9 Hughreystandi messíasarspádómur fylgir í kjölfarið. (Lestu Esekíel 17:22-24.) Messíasarkonunginum Jesú Kristi er hér líkt við „einn grannan.“ Er Jehóva gróðursetti hann á himnesku Síonfjalli myndi hann verða að ‚dýrlegum sedrusviði‘ til verndar og blessunar þeim sem hann ríkti yfir á jörðinni. (Opinberunarbókin 14:1) Við getum látið þetta vera okkur til hvatningar.
10 Ef við eigum að njóta góðs af uppfyllingu messíasarspádómanna verðum við hins vegar að varðveita gott samband við Jehóva. Samútlagar Esekíels héldu bersýnilega að þeir væru í góðu áliti hjá Guði og sökuðu forfeðurna um þjáningar sínar. En spámaðurinn benti á að hver einstakur maður beri ábyrgð á breytni sinnar. (Esekíel 18:1-29; samanber Jeremía 31:28-30.) Að því loknu kemur ákall. (Lestu Esekíel 18:30-32.) Já, Jehóva er miskunnsamur við þá sem iðrast og hefur ekki velþóknun á dauða nokkurs manns. Þess vegna segir Guð: „Látið því af, svo að þér megið lifa.“ — Samanber 2. Pétursbréf 3:9.
11. Við hvað var valdhöfunum í Júda líkt og hvað myndi verða um hann þegar hann yrði sleginn ‚sverði‘ Jehóva?
11 Í harmljóði um fall Júda var höfðingjum þjóðarinnar líkt við ungljón. Jóahas konungur dó í útlegð í Egyptalandi, Nebúkadnesar tók Jójakím til fanga og Jójakín var sendur í útlegð til Babýlonar. Því næst setti Nebúkadnesar Sedekía í hásætið í Júda en hann gerði uppreisn. Að lokum var Sedekía fluttur sem fangi til Babýlonar líkt og ljón í búri. Í samræmi við hið spádómlega harmljóð varð Júda árið 607 f.o.t. að skrælnuðum og brunnum vínvið „og engin sterk grein var framar í honum, engin veldissproti.“ „Sverð“ Jehóva hafði slegið hann! — Esekíel 19:1-14; Jeremía 39:1-7.
12. (a) Hvaða syndir voru samtíðarmenn Esekíels sekir um líkt og forfeður þeirra? (b) Hvers vegna spurðu menn hvort Esekíel væri ekki að tala í ráðgátum og hvaða aðvörun er það fyrir okkur?
12 „Nokkrir af öldungum Ísraels“ komu til fundar við Esekíel og hann flutti þeim boðskap Guðs. Hann benti á að enda þótt Jehóva hefði frelsað Ísraelsmenn úr Egyptalandi og gefið þeim lögmál sitt hefðu þeir hafnað því og iðkað skurðgoðadýrkun. Úr því að samtíðarmenn Esekíels voru sekir um sams konar syndir ætlaði Guð að ganga í dóm gegn þeim. Það var greinilega sökum efagirni en ekki vegna þess að menn skildu ekki hvað Esekíel átti við sem þeir spurðu: „Talar hann ekki ávallt í ráðgátum?“ Þeir myndu fljótlega fá að kynnast því að það voru engar ráðgátur fólgnar í boðskap spámannsins. Það ætti að vera okkur viðvörun um að verða aldrei efagjörn á að aðvaranir Ritningarinnar rætist. — Esekíel 20:1-49.
Stríðshetjan Jehóva
13. Hvað táknar „sverð“ Guðs og hvað myndu „allir menn“ fá að vita þegar því yrði brugðið?
13 Á sjöunda útlegðarárinu (hófst þann 10. ab árið 611 f.o.t.) var innan við tvö og hálft ár þangað til ‚stríðið á degi Jehóva‘ gegn Júda og Jerúsalem átti að hefjast. (Esekíel 13:5; 20:1) Taktu eftir hvað stríðshetjan Jehóva sagði þá fyrir munn Esekíels. (Lestu Esekíel 21:1-5.) „Sverð“ Guðs táknar þau jarðnesku öfl sem hann ætlaði að nota, en það getur einnig innifalið hið himneska skipulag hans líkt stríðsvagni. ‚Ráðvandir‘ og ‚óguðlegir‘ íbúar Júda og Ísraels, svo og þjóðir sem höfðu ill áform gagnvart þjónum Guðs, myndu falla fyrir ‚sverði‘ Guðs. „Allir menn“ skyldu fá að vita að Jehóva háði stríð gegn þeim.
14. (a) Á hverju vekja smurðir vottar Jehóva athygli líkt og Esekíel? (b) Hvað gefur til kynna að valdhafar kristna heimsins muni ekki geta umflúið „sverð“ Guðs?
14 Líkt og Esekíel vekja smurðir vottar Jehóva nú á dögum athygli á því að ‚sverði‘ Guðs verði brugðið gegn áhangendum kristna heimsins en valdasvæði hans er hið fyrirmyndaða „Ísraelsland.“ Bráðlega munu ‚allir menn frá suðri til norðurs,‘ allir iðkendur falskra trúarbragða, finna fyrir þessu ‚sverði.‘ Sjálfumglaðir menn á dögum Esekíels höfðu enga ástæðu til að gleðjast og fagna í þeirri trú að „sverð“ Jehóva myndi ekki ‚drepa þá unnvörpum.‘ Þetta „sverð“ hafnaði konunglegum veldissprota Júdaríkis alveg eins og það hafnaði sérhverju öðru ‚tré‘ eða veldissprota. Víst er því að aftökusveit Guðs mun ekki þyrma valdhöfum kristna heimsins. — Esekíel 21:6-17.
15. Hvaða atvik tengt Nebúkadnesar sýnir að enginn getur bægt ‚sverði‘ Jehóva frá?
15 Spádómur Esekíels sýnir í framhaldinu að enginn, ekki heldur illu andarnir, getur bægt frá sér ‚sverði‘ Jehóva. (Lestu Esekíel 21:18-22.) Þótt Nebúkadnesar konungur gengi til frétta við illa anda myndi Jehóva sjá til þess að valdhafinn í Babýlon myndi fara fylktu liði gegn Jerúsalem, ekki gegn höfuðborg Ammoníta, Rabba, sem var með veikari varnir. Nebúkadnesar myndi velja úr örvamæli ör sem merkt væri Jerúsalem. Hann myndi spyrja húsgoð (líklega lítið skurðgoð í mannsmynd) og leita spádómlegra merkja í lifur slátraðrar skepnu. Þrátt fyrir þetta spákukl myndi hann velja veginn til höfuðborgar Júda og setjast um hana. Að vísu hafði Nebúkadnesar gert sáttmála við Sedekía konung, en vegna þess að Sedekía hafði rofið eið sinn yrðu hann og aðrir Gyðingar „teknir höndum“ og leiddir í fjötrum til Babýlonar. — Esekíel 21:23, 24.
16. (a) Hvað gerðist til uppfyllingar Esekíel 21:25-27? (b) Hvenær hófust heiðingjatímarnir og með hvaða atburði enduðu þeir?
16 Með uppreisn sinni særði Sedekía sjálfan sig banasári. (Lestu Esekíel 21:25-27.) Þegar Júdakonungi var steypt af stóli var hið konunglega höfuðdjásn og kóróna tekin niður. (2. Konungabók 25:1-7) Hið „háa“ Júdaríki var niðurlægt með eyðingu árið 607 f.o.t. Þannig var hinum ‚lágu‘ heiðingjaríkjum stillt ‚hátt‘ og leyft að fara með stjórn jarðarinnar án íhlutunar af hálfu nokkurs ríkis er væri táknrænt ríki Guðs. (5. Mósebók 28:13, 15, 36, 43, 44) Þar með hófust ‚tímar heiðingjanna‘ — tilteknir tímar þjóðanna — sem enduðu árið 1914 þegar Guð veitti Jesú Kristi, ‚honum sem átti réttinn til ríkis,‘ konungdóm. (Lúkas 21:20-24; Sálmur 110:1, 2; Daníel 4:15-28; 7:13, 14) Með Jesú í himnesku hásæti geta heiðingjaþjóðirnar ekki fótum troðið það sem Jerúsalem til forna táknaði, ríki hins löglega erfingja Davíðs. — Hebreabréfið 12:22.
17. Hvaða „lygispádóma“ boðuðu spámenn Ammoníta?
17 Spámenn Ammoníta sögðu að höfuðborg Ammons, Rabba, myndi fá umflúið eyðingu fyrir sverði Nebúkadnesars. En það voru ‚lygispádómar‘ því að land Ammoníta yrði gjöreytt. Á okkar dögum hefur Guð úrskurðað að þjóðunum verði eytt á eftir kristna heiminum, alveg eins og Rabba var eytt á eftir Jerúsalem. — Esekíel 21:28-32; Opinberunarbókin 16:14-16.
Jerúsalem dregin fyrir dóm
18. Fyrir hvaða syndir fordæmdi Esekíel Jerúsalem og hvernig ættum við að bregðast við því?
18 Aftur talar Esekíel orð Jehóva og fordæmir Jerúsalem fyrir syndir svo sem blóðsúthellingar, skurðgoðadýrkun, lauslæti, sviksemi og það að gleyma Guði. Blóðsekir höfðingjar borgarinnar voru sekir um valdníðslu að því marki að fremja réttarmorð og rógberar losuðu sig við óvini sína með því að bera á þá upplognar sakir. Vegna slíkra ranginda yrði Jerúsalembúum tvístrað. Vitneskjan um þetta ætti að styrkja þann ásetning okkar að forðast valdníðslu, lauslæti, rógburð og aðrar grófar syndir. — Esekíel 22:1-16.
19. Á hvaða hátt yrðu Júdamenn bræddir og hvers vegna var útrýming þeirra réttlætanleg?
19 Jehóva ætlaði líka að bræða Júdamenn í ofni. Það var ekki í þeim tilgangi að hreinsa þá eins og málm heldur bræða þá í brennandi reiði hans. (Esekíel 22:17-22) Sviksamir spámenn, löglausir prestar, ágjarnir höfðingjar og aðrir ranglátir menn verðskulduðu þennan dóm fyllilega. Allir voru fordæmdir. Úr því að enginn þeirra á meðal var málsvari réttlætisins ætlaði Guð að útrýma þeim í eldi reiði sinnar. — Esekíel 22:23-31.
Refsingin verðskulduð
20. Yfir hvaða táknrænar konur var reiði Guðs úthellt og hverjar voru þær?
20 Úthellingu reiði Guðs var því næst lýst sem dómi er fullnægt var á tveim táknrænum konum sekum um andlegan hórdóm. Önnur var Ohola, tíuættkvíslaríkið Ísrael með Samaríu sem höfuðborg. Hún var „hin eldri“ vegna þess að hún var mynduð úr flestum af ættkvíslum Ísraels, meðal annars þeim sem komnar voru af elstu sonum Jakobs, Rúben og Símeon. Systir hennar hét Oholíba en hún var tveggjaættkvíslaríkið Júda með Jerúsalem að höfuðborg. Nafnið Ohola merkir „tjald hennar.“ Nafnið Oholíba merkir „tjald mitt er í henni“ en það var við hæfi þar eð tjaldbúð Guðs eða musteri var í Júda. — Esekíel 23:1-4.
21. Hvar leitaði Ohola sér öryggis og hvaða viðvörun er það fyrir okkur?
21 Ohola (Ísrael) hvarf af sjónarsviðinu þegar Assýringar eyddu henni árið 740 f.o.t. Hvað hafði hún gert? (Lestu Esekíel 23:5-7.) Í trúleysi hafði Ohola reynt að tryggja öryggi sitt með stjórnmálabandalögum en það leiddi til þess að hún tók upp falska guðsdýrkun bandamanna sinna þannig að hún ‚saurgaði sig á skurðgoðum þeirra.‘ Við skulum láta okkur andlegan hórdóm Oholu að kenningu verða og varast veraldleg tengsl sem geta spillt trú okkar. — Jakobsbréfið 4:4; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
22. Hvað er kristni heimurinn að gera líkt og Ohola og Oholíba en hvernig mun fara fyrir honum?
22 Oholíba (Júda) hafði fetað enn meiri syndabraut en systir hennar og því kom ógæfa yfir hana sem þjóð árið 607 f.o.t. Börn hennar féllu fyrir sverði eða voru leidd burt í fjötrum og hún var svívirt meðal þjóðanna. Líkt og Ohola og Oholíba drýgir kristni heimurinn andlegan hórdóm en það er synd í augum þess Guðs sem hann hyggur sig tilbiðja. Mótmælendatrúin, með sínum mörgu sértrúarsöfnuðum, hefur saurgað sig enn meira með verslunar- og stjórnmálaöflum heimsins en eldri systir hennar, rómversk-kaþólska trúin. Jehóva mun þannig sjá til þess að öllum kristna heiminum verði gereytt. Þá munu menn vita að hann er alvaldur Drottinn Jehóva. Það mun styrkja þann ásetning okkar að forðast óviðeigandi veraldleg tengsl ef við munum að félagar kristna heimsins munu bráðlega snúast gegn honum og fullnægja dómi Guðs á honum sem er einn meginhluti Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða. — Esekíel 23:8-49; Opinberunarbókin 17:1-6, 15-18.
Hræsnarar steini lostnir
23. Hvernig var Jerúsalem lýst í boðskap Guðs til Esekíels síðla í desember árið 609 f.o.t. og hvað átti að verða um hana?
23 Sama dag síðla í desember og Nebúkadnesar hóf átján mánaða umsátur sitt um Jerúsalem (þann 10. tebet árið 609 f.o.t.) sendi Jehóva Esekíel annan boðskap á myndrænu máli. Núna birtist hin umsetna Jerúsalem sem suðupottur er borgarbúar skyldu ‚soðnir‘ í. Siðspilling hafði orðið til þess að potturinn táknræni hafði ‚ryðgað.‘ Syndararnir yrðu leiddir út úr Jerúsalem, „hvert stykkið eftir annað,“ og hörmungar hennar myndu ekki taka enda fyrr en hún væri gereydd. Jehóva hafði dæmt Jerúsalem eftir vondum verkum hennar og það varð að eyða henni alveg eins og það verður að eyða kristna heiminum. — Esekíel 24:1-14.
24. (a) Hvers vegna lét Esekíel enga sorg í ljós þegar eiginkona hans dó? (b) Hvernig mun kristni heimurinn bregðast við þegar „sverð“ Jehóva kemur yfir hann og hvað mun hann fá að vita?
24 Að því búnu átti Esekíel að hegða sér óeðlilega. (Lestu Esekíel 24:15-18.) Hvers vegna átti spámaðurinn ekki að láta í ljós harm þegar eiginkona hans dó? Til að sýna hve steini lostnir Gyðingarnir yðru þegar Jerúsalem, íbúum hennar og musteri yrði eytt. Esekíel hafði þegar sagt nóg um slík mál og þurfti ekki að flytja boðskap Guðs á ný fyrr en honum yrðu færðar fregnir af falli Jerúsalem. Á sama hátt verður kristni heimurinn og trúmenn hans steini lostnir þegar eyðingu þeirra ber að garði. Eftir að ‚þrengingin mikla‘ hefst nægir það sem hinn smurði varðmannahópur hefur þegar sagt um hann. (Matteus 24:21) En þegar „sverð“ Guðs kemur yfir kristna heiminn munu steini lostnir trúmenn hans og aðrir ‚verða að viðurkenna að hann er Jehóva.‘ — Esekíel 24:19-27.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað gerðist þegar Jehóva brá ‚sverði‘ sínu gegn Júda og Ísrael?
◻ Hvaða áhrif ætti eiðrof Sedekía gagnvart Nebúkadnesar að hafa á okkur?
◻ Hvað táknar „sverð“ Guðs?
◻ Hvaða atvik tengt Nebúkadnesar sýnir að enginn getur bægt frá sér ‚sverði‘ Jehóva?
◻ Hvað gerðist til uppfyllingar Esekíel 21:25-27?
◻ Um hvað var það fyrirmynd að Esekíel skyldi ekki láta neina sorg í ljós þegar eiginkona hans dó?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Hvaða spádómur byrjaði að uppfyllast þegar Sedekía konungur rauf eið sinn við Nebúkadnesar og var tekinn til fanga?