Guð blessar ‚hina vitru‘
„Og hinir vitru munu skína eins og ljómi himinhvelfingarinnar og þeir, sem leitt hafa marga til réttlætis, eins og stjörnurnar um aldur og ævi.“ — DANÍEL 12:3.
1. Að hverju beinir engillinn athygli sinni eftir að hafa lýst hörmungatíð stríðsmangaranna?
SPÁDÓMURINN, sem engillinn flutti Daníel, hefur flutt okkur allt frá fjórðu öld f.o.t. fram til Harmagedón. Hann hefur sýnt okkur að Míkael mun koma á friði á jörðinni á þann eina veg sem gerlegt er: með því að þurrka stríðsmangarana út. Eftir þetta stórmerka yfirlit yfir mannkynssöguna, sem var skrifað áður en hún gerðist, lýsir engillinn nokkurri af þeirri blessun sem þjónar Guðs munu njóta „á hinum síðustu tímum.“ — Daníel 10:14.
Upprisutími
2. Í hvaða skilningi ‚vöknuðu‘ sumir „á hinum síðustu tímum“?
2 Engillinn segir Daníel: „Og margir þeirra, sem sofa í dufti jarðarinnar, munu upp vakna, sumir til eilífs lífs, sumir til smánar, til eilífrar andstyggðar.“ (Daníel 12:2) Svo virðist sem ‚hinir síðustu tímar‘ séu tímar upprisu þegar þeir „sem sofa í dufti jarðarinnar“ eru reistir upp. Slík upprisa hófst skömmu eftir að Jesús varð konungur árið 1914. (Matteus 24:3) Páll postuli horfði fram til þess tíma er hann skrifaði: „Vér, sem verðum eftir á lífi við komu Drottins, munum alls ekki fyrri verða en hinir sofnuðu. . . . Þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa.“ (1. Þessaloníkubréf 4:15, 16; Opinberunarbókin 6:9-11) Ljóst er því að skömmu eftir 1914 vakti Jesús þá af „Ísrael Guðs,“ sem voru þegar dánir trúfastir, til lífs sem andaverur á himnum. (Galatabréfið 6:16) Fyrir þá var upprisan „til eilífs lífs.“
3, 4. Í hvaða skilningi ‚dó‘ hópur trúfastra þjóna Guðs árið 1918?
3 En orð engilsins lýsa greinilega annarri upprisu einnig. Í um það bil fjóra áratugi fyrir 1914 hafði lítill hópur kristinna manna varað við því að það ár tækju heiðingjatímarnir enda eins og Jesús hafði sagt fyrir. (Lúkas 21:24) Þessir kristnu menn létu lögskrá félagið Zion Watch Tower Tract Society árið 1884 og birtu niðurstöður biblíurannsókna sinna í tímariti sem nefnt var Varðturn Síonar og boðberi nærveru Krists.
4 Árið 1914 sannaðist með stórbrotnum hætti að þeir höfðu farið með satt mál þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út og ‚fæðingarhríðirnar,‘ sem Jesús hafði sagt fyrir, hófust. (Matteus 24:7, 8) En trúarlegir fjandmenn þeirra notfærðu sér stríðsæsinginn til að ofsækja þá, með þeim afleiðingum að prédikun þeirra var nánast stöðvuð árið 1918 og fremstu þjónar Varðturnsfélagsins fangelsaðir á fölskum forsendum. Sá atburður vakti mikla gleði sumra. Hann uppfyllti líka spádóm í Opinberunarbókinni: „Og er þeir hafa lokið vitnisburði sínum, mun dýrið, sem upp stígur úr undirdjúpinu, heyja stríð við þá og mun sigra þá og deyða þá.“ — Opinberunarbókin 11:7.
5, 6. Hvernig uppfylltist árið 1919 spádómurinn um að ‚margir þeirra, sem svæfu í dufti jarðarinnar, myndu upp vakna‘?
5 Samkvæmt spádóminum áttu þeir þó ekki að liggja lengi ‚dánir.‘ „Og eftir dagana þrjá og hálfan fór lífsandi frá Guði í þá, og þeir risu á fætur. Og ótti mikill féll yfir þá, sem sáu þá. . . . Og þeir stigu upp til himins í skýi og óvinir þeirra horfðu á þá.“ (Opinberunarbókin 11:11, 12; Esekíel 37:1-14) Upprisa þeirra var greinilega táknræn, því að bókstafleg upprisa til lífs sem andaverur á himnum hlaut að vera ósýnileg óvinum þeirra. Það sem gerðist var að þeir voru reistir upp úr athafnaleysi, sem var líkt og dauði, til kostgæfs starfs fyrir augunum á þeim sem höfðu ætlað sér að gera út af við þá. Árið 1919 var fulltrúum Varðturnsfélagsins sleppt úr fangelsi, prédikunarstarfið endurskipulagt, og heimurinn sá upphaf mestu prédikunarherferðar í sögu mannkynsins. — Matteus 24:14.
6 Í þessum táknræna skilningi ‚vöknuðu upp margir þeirra sem sváfu í dufti jarðarinnar.‘ Árið 1919 hóf þessi litli hópur biblíunemenda að leita uppi og safna saman þeim sem eftir voru af bræðrum Krists, þannig að hægt væri að innsigla hinar 144.000 með tölu. (Matteus 24:31; Opinberunarbókin 7:1-3) Þeir sem tóku á móti boðskapnum vígðu sig Guði fyrir milligöngu Krists og urðu hluti af sýnilegu skipulagi Jehóva á jörð. Þeir fengu heilagan anda að gjöf, voru lýstir réttlátir vegna trúar sinnar á lausnarfórn Jesú og Guð tók sér þá fyrir andlega syni. — Rómverjabréfið 8:16; Galatabréfið 2:17; 3:8.
7. Í hvaða skilningi munu margir vakna „til eilífs lífs“?
7 Þeir af sonum Guðs sem varðveita trúfesti allt til æviloka sinna á jörð eiga trygga von um að fá að vera með Jesú Kristi á himnum. (1. Korintubréf 15:50-53) Upprisa þeirra sem andaverur er því til eilífs lífs. Meðan þeir eru enn á jörðinni njóta þeir friðar sín á meðal, jafnvel þótt þeir búi í stríðandi heimi. (Rómverjabréfið 14:19) Enn mikilvægara þó er að þeir eiga frið við Jehóva Guð og sjálfa sig, þann frið, „sem er æðri öllum skilningi.“ — Filippíbréfið 4:7.
Upprisa „til smánar“
8, 9. Á hvaða hátt gæti þessi andlega vakning orðið „til smánar, til eilífrar andstyggðar“?
8 En hvers vegna vakna þá sumir upp „til smánar, til eilífrar andstyggðar“? Sannleikurinn er sá að ekki varðveita allir trúfesti sem þiggja boðið um að verða hluti af Guðsríki. Sumir missa trúna og halda ekki út. (Hebreabréfið 2:1) Sumir gera jafnvel fráhvarf frá trúnni svo að nauðsynlegt er að víkja þeim úr kristna söfnuðinum. (Matteus 13:41, 42) Slíkir menn eru eins og maðurinn í dæmisögu Jesú sem fór í brúðkaupsveislu en klæddist ekki viðeigandi brúðkaupsklæðum. Honum var varpað út í ‚ystu myrkur. Þar varð grátur og gnístran tanna.‘ — Matteus 22:13; Efesusbréfið 4:18; 5:6-8.
9 Það er sorglegt að sumir skuli hafa þegið mestu sérréttindi, sem ófullkomnum mönnum hafa verið boðin, en síðan snúist gegn þeim! Um þá sem þannig breyta segir Páll postuli: „Ef menn eru eitt sinn orðnir upplýstir og hafa smakkað hina himnesku gjöf, fengið hlutdeild í heilögum anda og reynt Guðs góða orð og krafta komandi aldar, en hafa síðan fallið frá, þá er ógerlegt að endurnýja þá til afturhvarfs. Þeir eru að krossfesta Guðs son að nýju og smána hann.“ (Hebreabréfið 6:4-6) Þannig verður vakning þeirra „til smánar, til eilífrar andstyggðar.“ Þeir eiga sér enga von framar um eilíft líf.
Að skína „eins og ljós í heiminum“
10. Hverjir eru „hinir vitru“ og hvernig hafa þeir „leitt . . . marga til réttlætis“?
10 En um þá sem varðveita trúfesti segir spádómurinn: „Og hinir vitru munu skína eins og ljómi himinhvelfingarinnar og þeir, sem leitt hafa marga til réttlætis, eins og stjörnurnar um aldur og ævi.“ (Daníel 12:3) „Hinir vitru“ eru bersýnilega þeir trúföstu menn sem eftir eru af hinum smurða, kristna söfnuði og hafa ‚fyllst þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans.‘ Með styrk Jehóva ‚fyllast þeir þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og geta með gleði þakkað föðurnum sem hefur gert þá hæfa til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu.‘ (Kólossubréfið 1:9, 11, 12) Allt frá 1919 hafa þeir ‚skinið sem ljósberar‘ meðal manna, enda þótt ‚myrkur hafi grúft yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum.‘ (Jesaja 60:2; Filippíbréfið 2:15; Matteus 5:14-16) Þeir „skína sem sól í ríki föður þeirra.“ — Matteus 13:43.
11. In what way have “the ones having insight” proved to be “those who are bringing the many to righteousness”?
11 Hvernig ‚leiða þeir marga til réttlætis‘? (Daníel 12:3) Svo er trúföstum vitnisburði þeirra að þakka að síðustu meðlimum andlegu Ísraelsþjóðarinnar hefur verið safnað og þeir lýstir réttlátir til lífs á himnum. Auk þess hefur mikill múgur ‚annarra sauða‘ birst og safnast til ljóssins frá Jehóva sem ‚þjóð Daníels‘ endurspeglar. (Jóhannes 10:16; Sakaría 8:23) Þessir ‚aðrir sauðir‘ hafa fúslega gengið í lið með hinum smurðu í því starfi að prédika ‚fagnaðarerindið.‘ (Matteus 24:14; Jesaja 61:5, 6) Þeir iðka líka trú á úthellt blóð Jesú Krists, þannig að þeir eru lýstir réttlátir til vináttusambands við Guð. (Opinberunarbókin 7:9-15; samanber Jakobsbréfið 2:23.) Ef þeir standa trúfastir allt til enda munu nöfn þeirra áfram ‚finnast skráð í bókinni.‘ Þeir mega því vænta þess að lifa af þá mestu hörmungatíð sem riðið hefur yfir þjóðirnar. — Daníel 12:1; Matteus 24:13, 21, 22.
‚Þeir munu skína‘ um aldur og ævi
12, 13. (a) Hvernig geta „hinir vitru“ ‚skinið um aldur og ævi‘? (b) Á hvaða annan hátt munu þeir ‚leiða marga til réttlætis‘?
12 Engillinn sagði Daníel: „Hinir vitru munu skína eins og ljómi himinhvelfingarinnar . . . eins og stjörnurnar um aldur og ævi.“ (Daníel 12:3) Hvernig geta hinir smurðu skinið að eilífu þar eð þeir eiga allir að deyja með tíð og tíma? Þeir munu halda áfram að „skína“ eftir dauða sinn. Í Opinberunarbókinni lýsir Jesús þeim fyrir okkur eins og þeir eru á himnum: „Hásæti Guðs og lambsins mun í borginni vera og þjónar hans munu honum þjóna. Þeir munu sjá ásjónu hans og nafn hans mun vera á ennum þeirra. Og nótt mun ekki framar til vera og þeir þurfa ekki lampaljós né sólarljós, því að [Jehóva] Guð skín á þá og þeir munu ríkja um aldir alda.“ — Opinberunarbókin 22:3-5.
13 Þessir upprisnu menn munu ríkja sem konungar líkt og stjörnur á himni „um aldur og ævi.“ Andlegur ljómi þeirra mun færa mannkyninu mikla blessun. (Opinberunarbókin 14:13) Opinberunarbókin lýsir þeim sem ‚nýrri Jerúsalem‘ og segir: „Og borgin þarf ekki heldur sólar við eða tungls til að lýsa sér, því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar. Og þjóðirnar munu ganga í ljósi hennar og konungar jarðarinnar færa henni dýrð sína.“ (Opinberunarbókin 21:2, 9, 23, 24) Hinir upprisnu munu eiga þátt í því að nota lausnarfórn Jesú „til lækningar þjóðunum.“ (Opinberunarbókin 22:2) Þegar þúsundáraríkinu lýkur og Jesús hefur ásamt 144.000 meðkonungum sínum og prestum lyft trúföstum mönnum upp til fullkomleika, þá hafa þeir sannarlega ‚leitt marga til réttlætis.‘ Eftir lokaprófraunina mun endurreist mannkyn mynda fullkomið mannfélag sem býr í paradís á jörð að eilífu. (Opinberunarbókin 20:7-10; Sálmur 37:29) Með þeim hætti mun sýnilegur árangur hinnar himnesku dýrðar ‚þjóðar Daníels‘ einnig vara „um aldur og ævi.“
Önnur upprisa
14. Hverjir aðrir fá hlut í spádóminum um að „margir þeirra, sem sofa í dufti jarðarinnar, munu upp vakna“?
14 Orð engilsins flytja okkur því langt fram yfir þann tíma þegar Míkael ‚gengur fram‘ og hin ‚mikla hörmungatíð‘ rennur upp; hann leiðir okkur allt inn í hina nýju heimsskipan. Blessanirnar, miðlað fyrir milligöngu þeirra sem skína „eins og stjörnurnar,“ einskorðast ekki við þá sem lifa ‚hörmungatíðina‘ af. Meðan Jesús var enn maður á jörðinni sagði hann: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“ (Jóhannes 5:28, 29) Þessi orð vísa til bókstaflegrar upprisu látinna manna, og vafalaust er sú upprisa enn frekari uppfylling á orðum engilsins: „Margir þeirra, sem sofa í dufti jarðarinnar, munu upp vakna.“ — Daníel 12:2.
15. Hvernig geta þeir sem fá upprisu þá vaknað „til eilífs lífs“?
15 Daníel verður sjálfur í hópi þeirra sem verða vaktir með þessum sérstaka hætti. Engillinn sagði honum: „En þú, gakk áfram til endalokanna, og þú munt hvílast [sofna dauðasvefni] og upp rísa til að taka þitt hlutskipti við endi daganna.“ (Daníel 12:13) Þeim sem reistir verða upp á þeim tíma eins og Daníel og bregðast með jákvæðum hætti við þjónustu Jesú og bræðra hans af himnum ofan, verður lyft upp til fullkomleika. Þegar þeir standast lokaprófraunina verða nöfn þeirra rituð óafmáanlega í bók lífsins. (Opinberunarbókin 20:5) Fyrir þá verður upprisan „til eilífs lífs.“
16. Fyrir hverja verður upprisan í hinni nýju heimsskipan „til eilífrar andstyggðar“?
16 En ekki munu allir sýna þau viðbrögð. Sumir munu vafalaust reyna að koma aftur á þeim háttum sem hafa svo lengi rænt manninn friði. En þeir fá skýra aðvörun í Biblíunni: „En fyrir hugdeiga og vantrúaða og viðurstyggilega og manndrápara og frillulífismenn og töframenn [andatrúarmenn, NW], skurðgoðadýrkendur og alla lygara er staður búinn í díkinu, sem logar af eldi og brennisteini. Það er hinn annar dauði.“ (Opinberunarbókin 21:8) Þessi „annar dauði“ er beinn dómur frá Jehóva, dauði sem engin upprisa er frá. Þeir sem deyja þeim dauða eru afmáðir eilíflega. Þeir sem meta ekki að verðleikum upprisu til lífs í nýrri skipan Guðs deyja hinum öðrum dauða; þeir hafa því vaknað „til smánar, til eilífrar andstyggðar.“ — Daníel 12:2.
„Þekkingin mun vaxa“
17. Hvernig vitum við að spádómurinn um konunginn norður frá og konunginn suður frá var skráður fyrst og fremst til gagns okkur sem nú lifum?
17 Þessu næst ræður engillinn Daníel heilt: „En þú, Daníel, halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa.“ (Daníel 12:4) Þessi orð vekja mikla athygli hjá okkur. Þótt spádómur engilsins um konungana tvo hafi byrjað að rætast fyrir um það bil 2300 árum, þá er það fyrst og fremst á endalokatímanum, einkum eftir 1914, sem skilningur hefur fengist á honum. Á okkar tímum ‚rannsaka margir Biblíuna‘ og þekkingin hefur vaxið mjög. Núna er sá tími er Jehóva hefur gefið hinum vitru skilning og þekkingu.
18. (a) Hvaða meginþættir spádómsins eru nú um það bil að rætast? (b) Hvaða jafnvægi hjálpar það okkur að varðveita?
18 Það að margir hlutar spádómsins skuli hafa ræst á öldum áður styrkir trú okkar á þá hluta hans sem enn hafa ekki uppfyllst. (Jósúa 23:14) Togstreita milli konungsins norður frá og konungsins suður frá er nú í algleymingi alveg eins og engillinn sagði fyrir. Spádómurinn varar auk þess við því að enn hættulegri tímar séu framundan. Okkur er því hjálpað að halda jafnvægi svo að við látum hvorugan konunginn teyma okkur til fylgis við sig með áróðri sínum. Núna ber okkur að styrkja traust okkar til Jehóva. Gleymum aldrei að „Míkael, hinn mikli verndarengill,“ hefur ‚gengið fram‘ í þágu þjóna Guðs. Eina trygging okkar fyrir hjálpræði felst í því að lúta ríki Guðs í höndum Krists Jesú. — Postulasagan 4:12; Filippíbréfið 2:9-11.
19. Hvaða þýðingu hafa orð engilsins við Daníel fyrir eitt og sérhvert okkar?
19 Þú skalt því halda þig sem næst ‚hinum vitru‘ er „skína eins og ljómi himinhvelfingarinnar.“ Vertu kappsamur í starfi þínu í þágu Guðsríkis. (1. Korintubréf 15:58; Rómverjabréfið 15:5, 6) Dýpkaðu kærleika þinn til sannleikans í orði Guðs og gættu sem fjársjóðar þess friðar sem nú þegar ríkir í skipulagi Guðs. (Sálmur 119:165; Efesusbréfið 4:1-3; Filippíbréfið 2:1-5) Þá munt þú, þegar Míkael ‚gengur fram‘ til að fótum troða óvini Jehóva, komast undan ásamt öllum þjónum Guðs „sem skráðir finnast í bókinni.“
Manst þú svörin?
◻ Í hvaða skilningi eru „margir þeirra, sem sofa í dufti jarðarinnar,“ nú þegar vaknaðir?
◻ Hvernig getur þessi ‚vakning‘ orðið „til smánar“?
◻ Hvernig skína „hinir vitru“ eins og ljósberar og leiða marga til réttlætis?
◻ Hvaða framtíðaruppfyllingu fá orðin um þá „sem sofa í dufti jarðarinnar“?
◻ Hvernig uppfyllast orðin í Daníel 12:4?
[Mynd á blaðsíðu 30]
Frá 1919 hefur lífgandi sannleikur geislað út frá ‚hinum vitru.‘
[Credit line]
Ljósmynd: NASA