Hugfestu návist dags Jehóva
„Dagur [Jehóva] er nálægur í dómsdalnum.“ — JÓEL 3:19
1. Hvers vegna verður hið heilaga stríð, sem Jehóva boðar, ólíkt „heilögum“ stríðum mannkynsins?
„BOÐIÐ þetta meðal þjóðanna: Búið yður í heilagt stríð!“ (Jóel 3:14) Merkir þetta heilagt stríð? Okkur kann að hrylla við tilhugsuninni um „heilagt“ stríð þegar við rifjum upp fyrir okkur krossferðirnar, trúarstríðin og heimsstyrjaldirnar tvær — sem kristni heimurinn gegndi forystuhlutverki í. Hið heilaga stríð í spádómi Jóels er hins vegar ekki stríð milli þjóðanna. Það er ekki hatrömm barátta um yfirráð yfir landi eða eignum þar sem trúin er notuð sem afsökun. Það er réttlátt stríð. Það er stríð Guðs til að losa jörðina við ágirnd, átök, spillingu og kúgun. Það mun réttlæta hið réttmæta drottinvald Jehóva yfir öllu sköpunarverki hans. Þetta stríð mun ryðja brautina fyrir ríki Krists til að leiða mannkynið inn til þeirra þúsund ára friðar, velsældar og hamingju sem spámenn Guðs boðuðu. — Sálmur 37:9-11; Jesaja 65:17, 18; Opinberunarbókin 20:6.
2, 3. (a) Hvað er ‚dagur Jehóva‘ sem spáð er um í Jóel 3:19? (b) Hvers vegna verðskulda þjóðirnar það sem þær þurfa að standa frammi fyrir á þeim degi?
2 Hvað þá um ‚dag Jehóva‘ sem boðaður er í Jóel 3:19? „Æ, sá dagur!“ segir Jehóva, „því að dagur [Jehóva] er nálægur, og hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.“ Hvernig kemur hann sem „eyðing“? Spámaðurinn gefur skýringu síðar: „Flokkarnir þyrpast saman í dómsdalnum, því að dagur [Jehóva] er nálægur í dómsdalnum.“ (Jóel 1:15; 3:19) Þetta er dagurinn þegar Jehóva fullnægir dómi sínum á guðlausum manngrúa sem hafnar réttmætu drottinvaldi hans yfir himni og jörð. Það er ákvörðun Jehóva að gereyða heimskerfi Satans sem hefur svo lengi haldið mannkyni föngnu. — Jeremía 17:5-7; 25:31-33.
3 Hið spillta heimskerfi á jörðinni á yfir sér þennan úrskurð. En er heimur nútímans í raun og veru svona slæmur? Það ætti ekki að þurfa annað en að líta stundarkorn á sögu hans! Jesús gaf meginreglu í Matteusi 7:16: „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.“ Eru ekki stórborgir heims eru orðnar að óþrifabæli fíkniefnaneyslu, glæpa, ótta, siðleysis og mengunar? Víða um lönd kafna kröfur manna um frelsi í pólitískum glundroða, matvælaskorti og fátækt. Yfir einn milljaður manna í heiminum býr við hungurmörk. Og núna grúfir eyðniplágan, sem fíkniefni og siðlausir lífshættir kynda undir, eins og óveðursský yfir stórum hluta jarðar. Einkum síðan fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 hefur 20. öldin séð hnignun á öllum sviðum lífsins. — Samanber 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
4. Hvernig skorar Jehóva á þjóðirnar?
4 En Jehóva hefur verið að safna út úr öllum þjóðum mönnum sem fúslega þiggja fræðslu um vegu hans og ganga á hans stigum. Þessir menn, sameinaðir sem þjóð um alla jörðina, hafa smíðað plógjárn úr sverðum sínum og hafnað ofbeldisfullu háttarlagi heimsins. (Jesaja 2:2-4) Já, plógjárn úr sverðum sínum! En er það ekki gagnstætt þeirri áskorun sem Jehóva lætur boða í Jóel 3:14, 15? Þar lesum við: „Boðið þetta meðal þjóðanna: Búið yður í heilagt stríð! Kveðjið upp kappana! Allir herfærir menn komi fram og fari í leiðangur! Smíðið sverð úr plógjárnum yðar og lensur úr sniðlum yðar!“ Hér skorar Jehóva á valdhafa veraldar að leiða sameinaðan herstyrk sinn gegn sér við Harmagedón. En þeir geta ekki sigrað! Þeir bíða óhjákvæmilega algeran ósigur! — Opinberunarbókin 16:16.
5. Hvað hlýst af því þegar Jesús sker upp „vínvið jarðarinnar“?
5 Til að ögra alvöldum Drottni Jehóva hafa voldugir valdhafar safnað sér ógurlegu vopnabúri — en til einskis! Jehóva gefur skipunina í Jóel 3:18: „Bregðið sigðinni, því að kornið er fullþroskað, komið og troðið, því að vínlagarþróin er full, það flóir út af lagarkerunum, því að illska þeirra er mikil.“ Þessi orð samsvara Opinberunarbókinni 14:18-20 þar sem hinum krýnda Messíasarkonungi, Jesú, er boðið: „Sker þrúgurnar af vínviði jarðarinnar, því að vínberin á honum eru orðin þroskuð.“ Konungurinn bregður beittri sigð og kastar þessum ögrandi þjóðum í „reiði-vínþröng Guðs hina miklu.“ Táknrænt séð gengur blóð út af vínþrönginni svo að tók upp undir beisli hestanna, 1600 skeiðrúm — um 300 kílómetra — þar frá! Þetta eru ógnvekjandi framtíðarhorfur fyrir þær þjóðir sem vanheiðra Jehóva!
Löghlýðnir borgarar
6. Hvernig líta vottar Jehóva á þjóðirnar og stjórnendur þeirra?
6 Merkir þetta að vottar Jehóva séu ókurteisir við þjóðirnar og valdhafa þeirra? Fjarri því! Þeir harma einfaldlega þá spillingu sem er öllum auðsæ og þeir vara við degi Jehóva til að fullnægja dómi sem nálgast óðfluga. Um leið fylgja þeir auðmjúkir boði Páls postula í Rómverjabréfinu 13:1: „Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn.“ Þeir sýna þessum mennsku valdhöfum tilhlýðilega virðingu en tilbiðja þá ekki. Sem löghlýðnir borgarar fylgja þeir stöðlum Biblíunnar varðandi heiðarleika, sannsögli og hreinleika og vinna að því að byggja upp gott siðferði með fjölskyldum sínum. Þeir hjálpa öðrum að læra hvernig þeir geti gert það líka. Þeir stunda frið við alla menn og taka ekki þátt í mótmælum eða pólitískum byltingum. Vottar Jehóva leitast við að vera til fyrirmyndar í því að hlýða lögum mennskra yfirvalda meðan þeir bíða þess að hið æsta yfirvald, alvaldur Drottinn Jehóva, komi aftur á fullkomnum friði og réttlátri stjórn á jörð.
Ákvörðun hans framfylgt
7, 8. (a) Á hvaða hátt verða þjóðirnar hrærðar og hvernig mun myrkur koma yfir þær? (b) Hverja táknar Jóel nú á tímum og hvernig njóta þeir blessunar, ólíkt heiminum almennt?
7 Á lifandi táknmáli gefur Jehóva frekari lýsingu á framkvæmd ákvörðunar sinnar: „Sól og tungl eru myrk orðin, og stjörnurnar hafa misst birtu sína. En [Jehóva] þrumar frá Síon og lætur raust sína gjalla frá Jerúsalem, svo að himinn og jörð nötra. En [Jehóva] er athvarf sínum lýð og vígi Ísraelsmönnum.“ (Jóel 3:20, 21) Hinar björtu framtíðarhorfur og velsæld, sem virðist blasa við mannkyninu, munu snúast í myrkur og þetta heimskerfi, sem er nú þegar í molum, verður hrært og hrist svo að það hrynur alveg, splundrast eins og í miklum jarðskjálfta! — Haggaí 2:20-22.
8 Taktu eftir hvernig Jehóva fullvissar þjóna sína um að hann verði athvarf og vígi þjóna sinna! Hvers vegna? Vegna þess að þeir eru eina þjóðin — alþjóðlegur lýður — sem hefur brugðist jákvætt við orðum Jehóva: „Þér skuluð viðurkenna, að ég er [Jehóva], Guð yðar.“ (Jóel 3:22) Með því að nafnið Jóel merkir „Jehóva er Guð“ er hann viðeigandi tákn smurðra votta Jehóva nú á tímum sem boða drottinvald Jehóva með dirfsku. (Samanber Malakí 1:11.) Ef við snúum okkur að inngangsorðunum í spádómi Jóels sjáum við að hann segir starf nútímaþjóna Guðs fyrir með lifandi líkingamáli.
Engisprettumergð
9, 10. (a) Hvaða plágu sagði Jóel fyrir? (b) Hvernig endurómar Opinberunarbókin spádóm Jóels um pláguna og hvaða áhrif hefur þessi plága á kristna heiminn?
9 Hlýðum nú á „orð [Jehóva], sem kom til Jóels“: „Heyrið þetta, þér öldungar, og hlustið, allir íbúar landsins! Hefir slíkt nokkurn tíma til borið á yðar dögum eða á dögum feðra yðar? Segið börnum yðar frá því og börn yðar sínum börnum og börn þeirra komandi kynslóð. Það sem nagarinn leifði, það át átvargurinn, það sem átvargurinn leifði, upp át flysjarinn, og það sem flysjarinn leifði, upp át jarðvargurinn.“ — Jóel 1:1-4.
10 Þetta er einstæð herför sem minnst verður um allar aldir. Hver skordýraplágan af annarri, þar sem engisprettur eru fyrirferðarmestar, gengur yfir landið og eyðir það. Hvað merkir þetta? Opinberunarbókin 9:1-12 talar einnig um engisprettuplágu sem Jehóva sendir út og hafa þær yfir sér ‚konung, engil undirdjúpsins,‘ sem er enginn annar en Kristur Jesús. Nafn hans, Abbadón (á hebresku) og Apollýón (á grísku) merkir „eyðing“ og „eyðandi.“ Þessar engisprettur tákna hinar smurðu leifar kristinna manna sem ganga fram núna á drottins degi til að eyða beitilöndum kristna heimsins með því að afhjúpa algerlega falstrú og boða hefnd Jehóva yfir honum.
11. Hvernig fá engisprettur nútímans liðsstyrk og hverjir sérstaklega sæta árásum þeirra?
11 Eins og fram kemur í Opinberunarbókinni 9:13-21 kemur mikið riddaralið í kjölfar engisprettuplágunnar. Það rætist sannarlega nú á dögum þegar hinar fáu þúsundir, sem eftir eru af smurðum kristnum mönnum, fá liðsstyrk yfir fjögurra milljóna ‚annarra sauða‘ sem saman mynda riddaralið sem ekkert fær staðið í móti! (Jóhannes 10:16) Þeir sameinast í að boða stingandi dóma Jehóva yfir skurðgoðadýrkendum kristna heimsins og yfir þeim sem iðrast ekki ‚manndrápa sinna, spíritisma, frillulífis né þjófnaðar.‘ Klerkastéttin — bæði kaþólskra og mótmælenda — sem hefur stutt dyggilega hinar glæpsamlegu styrjaldir þessarar aldar, svo og prestar sem misnota drengi kynferðislega og spilltir sjónvarpsprédikarar, eru meðal þeirra sem þessi dómsboðskapur beinist gegn.
12. Hvers vegna verðskulda leiðtogar kristna heimsins að heyra dómsboðskap og hvað mun bráðlega verða um þá, ásamt öllum sem tilheyra Babýlon hinni miklu?
12 Það er slíkum spilltum og kjólklæddum „herramönnum“ sem Jehóva birtir stefnu sína: „Vaknið, þér ofdrykkjumenn, og grátið! Kveinið allir þér, sem vín drekkið, yfir því að vínberjaleginum er kippt burt frá munni yðar.“ (Jóel 1:5) Núna á 20. öldinni hafa trúarsöfnuðir kristna heimsins skipt á hreinum siðferðisreglum orðs Guðs fyrir undanlátsemi heimsins. Það hefur verið sætt í munni falstrúarbragðanna og sóknarbarnanna að dreypa á háttarlagi heimsins, en uppskera þeirra í andlegum og líkamlegum sjúkdómum hefur verið allt annað en ánægjuleg! Bráðlega verður það ‚vilji‘ Guðs, eins og lýst er í Opinberunarbókinni 17:16, 17, að stjórnmálaöflin snúist gegn öllu heimsveldi falstrúarbragðanna, Babýlon hinni miklu, og eyði því. Þá fyrst, er hún sér ákvörðun Jehóva framfylgt gegn sér, ‚vaknar‘ hún af drykkjuvímu sinni.
„Fjölmenn þjóð og voldug“
13. Á hvaða hátt virðist engisprettusægurinn „fjölmenn þjóð og voldug“ í augum kristna heimsins?
13 Spámaður Jehóva lýsir síðan engisprettumergðinni sem sé hún „fjölmenn þjóð og voldug,“ og þannig lítur hún út í augum Babýlonar hinnar miklu. (Jóel 2:2, NW) Til dæmis harmar klerkasrétt hennar það að kristna heiminum skuli hafa mistekist að snúa Búddhatrúarmönnum í Japan. Núna streyma hins vegar yfir 160.000 japanskir vottar yfir landið og halda einkanám í Biblíunni á yfir 200.000 heimilum manna. Á Ítalíu eru hinir 180.000 vottar Jehóva viðurkenndir sem næststærsta trúfélag á eftir kaþólsku kirkjunni. Til einskis harmaði rómversk kaþólskur hefðarklerkur á Ítalíu það að vottar Jehóva skuli taka frá kirkjunni ‚að minnsta kosti 10.000 trúfasta kaþólikka‘ á hverju ári.a Vottarnir taka slíku fólki tveim örmum. — Jesaja 60:8, 22.
14, 15. Hvernig lýsir Jóel engisprettumergðinni og á hvaða veg hefur það uppfyllst nú á dögum?
14 Jóel 2:7-9 lýsir engisprettuhjörð hinna smurðu þannig: „Þeir hlaupa sem hetjur, stíga upp á borgarvegginn sem hermenn, sérhver þeirra gengur sína leið og enginn riðlast á annars braut. Enginn þeirra þrengir öðrum, hver gengur sína braut, jafnvel mót skotspjótum þeytast þeir áfram án þess að stöðva ferð sína. Þeir ráðast inn í borgina, hlaupa á borgarvegginn, stíga upp í húsin, fara inn um gluggana sem þjófar.“
15 Þetta er lifandi lýsing á hersveit hinna smurðu ‚engispretta‘ sem nú eiga sér yfir fjórar milljónir félaga, hina aðra sauði! Enginn ‚veggur‘ trúarlegs fjandskapar getur haldið aftur af þeim. Djarflega ‚ganga þeir þá götu sem þeir hafa komist á‘ með opinberlegum vitnisburði og öðru kristnu starfi. (Samanber Filippíbréfið 3:16.) Í stað þess að láta undan hafa þeir verið fúsir til að mæta dauða sínum eins og þær þúsundir votta sem ‚féllu fyrir skotspjótum‘ vegna þess að þeir neituðu að heilsa hinum kaþólska Hitler með hitlerskveðju í Þýskalandi á tímum nasista. Engisprettusveitin hefur borið rækilega vitni í ‚borginni,‘ kristna heiminum, klifið yfir allar hindranir og smogið líkt og þjófar inn á heimilin þegar hún hefur dreift milljörðum biblíurita í starfi sínu hús úr húsi. Það er vilji Jehóva að þessi vitnisburður sé gefinn og enginn máttur á himni eða jörð getur stöðvað það. — Jesaja 55:11.
‚Fylltir heilögum anda‘
16, 17. (a) Hvenær fengu orð Jóels 3:1, 2 einstæða uppfyllingu? (b) Hvaða spádómsorð Jóels rættust ekki fullkomlega á fyrstu öldinni?
16 Jehóva segir vottum sínum: „Þér skuluð viðurkenna, að ég er meðal Ísraels og að ég er [Jehóva], yðar Guð, og enginn annar.“ (Jóel 2:27) Þjónar hans öðluðust þennan dýrmæta skilning þegar Jehóva byrjaði að uppfylla orð sín í Jóel 3:1: „En síðar meir mun ég úthella anda mínum yfir allt hold. Synir yðar og dætur yðar munu spá.“ Það gerðist á hvítasunnudeginum árið 33 þegar lærisveinar Jesú, sem voru samankomnir, voru smurðir og „fylltust allir heilögum anda.“ Í krafti heilags anda prédikuðu þeir og á þeim degi „bættust við um þrjú þúsund sálir.“ — Postulasagan 2:4, 16, 17, 41.
17 Á þessum gleðidegi vitnaði Pétur líka í Jóel 3:3-5: „Og ég mun láta tákn verða á himni og á jörðu: blóð, eld og reykjarstróka. Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva] kemur. Og hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast.“ Þessi orð rættust að hluta til þegar Jerúsalem var eytt árið 70.
18. Hvenær hófst hin meiri uppfylling Jóels 3:1, 2?
18 En Jóel 3:1-5 átti eftir að rætast enn frekar. Já, þessi spádómur hefur ræst á einstakan hátt síðan í september árið 1919. Þá var haldið eftirminnilegt mót þjóna Jehóva í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum. Andi Guðs starfaði þar greinilega og smurðir þjónar hans voru örvaðir til að hefja vitnisburðarherferð sína um heim allan sem er enn í gangi. Og vöxturinn hefur verið stórkostlegur! Þeim liðlega 7000, sem voru viðstaddir mótið í Cedar Point, hefur fjölgað upp í 10.650.158 sem sóttu minningarhátíðina um dauða Jesú þann 30. mars 1991. Þar af játuðu aðeins 8850 að þeir væru smurðir kristnir menn. Mikil er gleði þeirra allra að sjá þennan ávöxt sem hinn kraftmikli andi Jehóva kallar fram um allan heim! — Jesaja 40:29, 31.
19. Hver ættu að vera viðhorf sérhvers okkar í ljósi þess hve nálægur dagur Jehóva er?
19 Rétt framundan er „hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva]“ sem mun leggja heimskerfi Satans í rúst. (Jóel 3:4) Til allrar hamingju mun ‚hver sá sem ákallar nafn Jehóva frelsast.‘ (Postulasagan 2:21) Hvernig þá? Pétur postuli segir okkur að ‚dagur Jehóva muni koma sem þjófur‘ og bætir svo við: „Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags.“ Með því að við höfum í huga að dagur Jehóva er nálægur fögnum við því að sjá loforð Jehóva um réttlátan ‚nýjan himin og nýja jörð‘ rætast. — 2. Pétursbréf 3:10-13.
[Neðanmáls]
a La Repubblica, Róm, Ítalíu, 12. nóvember 1985 og La rivista del clero italiano, maí 1985.
Getur þú útskýrt?
◻ Hvað er ‚dagur Jehóva‘?
◻ Hvernig mun Jesús uppskera ‚vínvið jarðarinnar‘ og hvers vegna?
◻ Á hvaða hátt hefur engisprettuplága hrjáð kristna heiminn síðan 1919?
◻ Hvernig var anda Jehóva úthellt yfir þjóna hans árið 33 og aftur árið 1919?