Er boðun þín eins og döggin?
BOÐUN okkar er áríðandi og mikils virði. En það kunna ekki allir að meta að við boðum þeim fagnaðarerindið. Jafnvel fólki, sem hefur áhuga á boðskap Biblíunnar, finnst kannski ekki nauðsynlegt að þiggja biblíunámskeið.
Þannig var það hjá Gavin sem byrjaði að mæta á samkomur en vildi ekki þiggja biblíunámskeið. Hann segir: „Ég hafði mjög litla þekkingu á Biblíunni og ég var feiminn við að láta fáfræði mína í ljós. Ég vildi ekki láta blekkjast og var smeykur við skuldbindingu.“ Hvað álítur þú? Var ómögulegt að hjálpa Gavin? Nei. Hugleiddu hvaða góðu áhrif það getur haft á fólk að kynnast Biblíunni. Jehóva sagði við þjóð sína til forna: „Ræða mín drjúpi sem dögg, eins og gróðrarskúr á grængresi.“ (5. Mós. 31:19, 30; 32:2) Einkenni daggarinnar sýna skemmtilega fram á hvernig við getum hjálpað fólki af ólíkum uppruna á áhrifaríkan hátt þegar við boðum trúna. – 1. Tím. 2:3, 4.
HVERNIG GETUR BOÐUNIN VERIÐ EINS OG DÖGGIN?
Döggin er ljúf. Dögg myndast smám saman þegar raki í loftinu breytist í litla vatnsdropa. Orð Jehóva ,drupu sem dögg‘ þegar hann talaði vingjarnlega, blíðlega og af nærgætni við þjóð sína. Við líkjum eftir honum þegar við virðum skoðanir annarra. Við hvetjum fólk til að rökhugsa og draga sínar eigin ályktanir. Þannig sýnum við tillitssemi og þá er auðveldara fyrir viðmælendur okkar að taka við því sem við segjum og boðun okkar verður áhrifaríkari.
Döggin er hressandi. Þegar við hugleiðum hvernig er best að glæða áhuga þeirra sem við hittum verður boðun okkar hressandi fyrir þá. Enginn þrýsti á Gavin sem minnst var á fyrr í greininni til að þiggja biblíunámskeið. Bróðir, sem heitir Chris, var fyrstur til að bjóða Gavin biblíunámskeið. Hann reyndi ýmsar leiðir til að tala við Gavin um Biblíuna án þess að það yrði óþægilegt. Hann útskýrði fyrir Gavin að rauður þráður gengi í gegnum alla Biblíuna og þegar hann skildi hver hann væri yrði auðveldara að fylgjast með á samkomum. Síðan sagði Chris honum að það hefðu verið spádómar Biblíunnar sem sannfærðu hann sjálfan um að Biblían sé áreiðanleg. Í kjölfarið ræddu þeir oft um uppfyllingu spádóma. Gavin fannst umræðurnar upplífgandi og þáði að lokum biblíunámskeið.
Döggin viðheldur lífi. Í Ísrael koma heit þurrkatímabil en þá rignir stundum ekki mánuðum saman. Án rakans, sem döggin veitir, visna plöntur og deyja. Nú á dögum búa menn við andlega þurrka, rétt eins og Jehóva sagði fyrir. (Amos 8:11) En hann lofaði að andasmurðir menn yrðu ,sem dögg frá honum‘ þegar þeir boðuðu boðskapinn um Guðsríki með stuðningi félaga sinna af ,öðrum sauðum‘. (Míka 5:6; Jóh. 10:16) Boðskapurinn, sem við boðum, er hluti af ráðstöfun Jehóva að gefa þeim líf sem þyrstir í sannleikann. Metum við þennan boðskap að verðleikum?
Döggin er blessun frá Jehóva. (5. Mós. 33:13) Boðun okkar getur verið þeim sem bregðast vel við boðskapnum til blessunar. Gavin hlaut einmitt slíka blessun. Í biblíunámi sínu fékk hann svör við öllum spurningum sínum. Hann varð brátt hæfur til að skírast og tekur nú dyggan þátt í að boða fagnaðarerindið um ríkið ásamt Joyce, eiginkonu sinni.
BOÐUN ÞÍN ER MIKILS VIRÐI
Að líkja boðun okkar við döggina getur einnig hjálpað okkur að meta okkar eigið framlag til boðunarinnar að verðleikum. Hvernig? Einn stakur dropi af vatni kemur litlu til leiðar. En ef daggardropar eru milljónir talsins veita þeir jörðinni nauðsynlega vætu. Eins getur okkar eigin þátttaka í boðuninni virst smávægileg í okkar augum. En þegar allir þjónar Jehóva leggja fúslega sitt af mörkum ná þeir að segja ,öllum þjóðum‘ frá fagnaðarerindinu. (Matt. 24:14) Verður boðun okkar til þess að aðrir hljóti blessun Jehóva? Hún verður það þegar boðskapurinn, sem við boðum, er eins og döggin – ljúfur og hressandi og viðheldur lífi.