Sýnir Sakaría – hvernig snerta þær þig?
„Snúið ykkur til mín ... þá mun ég snúa mér til ykkar aftur.“ – SAK. 1:3.
1-3. (a) Hvernig var ástatt hjá þjóð Jehóva þegar Sakaría tók að spá? (b) Hvers vegna bað Jehóva þjóð sína að ,snúa aftur til sín‘?
FLJÚGANDI bókfell, kona lokuð inni í körfu og tvær vængjaðar konur sem svífa í vindinum og þenja vængina eins og storkar á flugi. Þetta eru dæmi um myndir sem eru dregnar upp í bók Sakaría. (Sak. 5:1, 7-9) Hvers vegna lét Jehóva spámanninn sjá þessar áhrifamiklu sýnir? Hvernig var ástatt hjá Ísraelsmönnum á þeim tíma? Hvernig snertir lýsing Sakaría á þessum sýnum okkur sem nú lifum?
2 Það ríkti mikill fögnuður meðal útvalinnar þjóðar Jehóva árið 537 f.Kr. Þjóðin var loksins laus úr Babýlon eftir 70 ára útlegð. Menn tóku til óspilltra málanna við að endurreisa sanna tilbeiðslu í Jerúsalem. Árið 536 f.Kr. lögðu þeir grunn að musterinu og „fólkið laust upp slíku fagnaðarópi að heyra mátti langt að“. (Esra. 3:10-13) En andstæðingar verksins létu fljótlega til sín taka. Fólkið missti kjarkinn andspænis öllum erfiðleikunum, hætti að sinna musterisbyggingunni og sneri sér að því að annast heimili sín og akra. Sextán árum síðar hafði vinnan við musteri Jehóva stöðvast með öllu. Það þurfti að minna þjóð Jehóva á að snúa aftur til hans og hætta að hugsa fyrst og fremst um eigin hag. Jehóva vildi að þjóðin tilbæði sig óttalaust og af öllu hjarta á nýjan leik.
3 Guð sendi Sakaría spámann til þjóðarinnar árið 520 f.Kr. til að minna hana á hvers vegna hún hefði verið leyst úr útlegðinni í Babýlon. Nafnið Sakaría merkir „Jehóva man“ og það kann að hafa minnt menn á mikilvægan sannleika: Þó að þeir hefðu gleymt að Jehóva bjargaði þeim hafði hann ekki gleymt þjóð sinni. (Lestu Sakaría 1:3, 4.) Hann fullvissaði þjóðina um að hann myndi hjálpa henni að endurreisa hreina tilbeiðslu en tók líka skýrt fram að hann myndi ekki sætta sig við að þjóðin væri hálfvolg í tilbeiðslunni. Könnum hvernig sjötta og sjöunda sýnin, sem Sakaría sá, hvatti Ísraelsmenn til verka. Könnum líka hvaða lærdóm við getum við dregið af sýnum Sakaría.
GUÐ REFSAR FYRIR ÞJÓFNAÐ
4. Hvað sér Sakaría í sjöttu sýninni og hvaða þýðingu hefur það að skrifað er báðum megin á bókrolluna? (Sjá 1. mynd í upphafi greinar.)
4 Í byrjun 5. kafla Sakaríabókar er sagt frá óvenjulegri sýn. (Lestu Sakaría 5:1, 2.) Sakaría sér bókfell á flugi. Það er næstum 9 metrar á lengd og 4,5 metrar á breidd!a Það er ekki uppvafið og er því tilbúið til lestrar. Það hefur að geyma dómsboðskap og skrifað er báðum megin á það. (Sak. 5:3) Yfirleitt var aðeins skrifað öðrum megin á bókrollur þannig að það er greinilega veigamikill og alvarlegur boðskapur sem er að finna á bókfellinu.
5, 6. Hvernig lítur Jehóva á þjófnað, óháð því í hvaða mynd hann er?
5 Lestu Sakaría 5:3, 4. Allt mannkyn þarf að standa Jehóva reikningsskap gerða sinna, en þeir sem bera nafn hans þó enn frekar. Þeir sem elska Guð vita að þeir myndu „misbjóða nafni Guðs“ með því að stela, óháð því í hvaða mynd þjófnaðurinn væri. (Orðskv. 30:8, 9) Það skiptir ekki máli hvaða hvöt býr að baki þjófnaði og ekki heldur að hann geti virst réttlætanlegur miðað við aðstæður. Þjófi finnst mikilvægara að láta eftir ágjörnum löngunum sínum en að þjóna Guði og leggur of mikla áherslu á efnislega hluti. Hann gerir lítið úr lögum Jehóva og lætur sem nafn hans sé máttlaust og skipti litlu máli.
6 Tókstu eftir að í Sakaría 5:3, 4 segir að „bölvunin ... lendi í húsi þjófsins ... og staðnæmist þar og gereyði þar jafnt viði sem veggjum“? Það er ekki hægt að loka dóm Jehóva úti með lás og slá. Hann getur þrengt sér inn í hvaða felustað sem er og dregið fram ranga breytni sem á sér stað meðal þjóna hans. Þó að hægt sé að fela þjófnað fyrir yfirvöldum, vinnuveitendum, safnaðaröldungum eða foreldrum er ekki hægt að fela hann fyrir Guði því að hann lofar að hver einasti þjófnaður komi fram í dagsljósið. (Hebr. 4:13) Það er ánægjulegt að umgangast fólk sem lætur sér annt um að vera heiðarlegt „í öllum greinum“. – Hebr. 13:18.
7. Hvernig getum við umflúið bölvunina sem kveðið er á um í bókfellinu fljúgandi?
7 Hvers kyns þjófnaður er móðgun við Jehóva. Við teljum það heiður að lifa í samræmi við háleitar siðferðisreglur hans. Við viljum ekki gera neitt sem varpar skugga á nafn hans. Ef við gætum þess getum við umflúið þann dóm sem verður hlutskipti þeirra sem brjóta lög hans af ásetningi.
LIFUM Í SAMRÆMI VIÐ LOFORÐ OKKAR „ALLA DAGA“
8-10. (a) Í hvaða tilgangi sverja menn eið? (b) Hvaða eið sór Sedekía konungur en hélt ekki?
8 Boðskapurinn á bókfellinu fljúgandi er einnig til viðvörunar þeim sem eru ,sekir um meinsæri við Guð‘. (Sak. 5:4) Menn sverja eið til að staðfesta að eitthvað sé rétt eða gefa hátíðlegt loforð um að gera eitthvað eða gera það ekki.
9 Það er háalvarlegt mál að sverja eið í nafni Jehóva. Sedekía gerði það en hann var síðasti konungurinn sem sat í Jerúsalem. Hann sór í nafni Jehóva að vera trúr og undirgefinn konungi Babýlonar. En hann hélt ekki eiðinn. Þar af leiðandi felldi Jehóva eftirfarandi dóm yfir honum: „Svo sannarlega sem ég lifi ... skal hann deyja í borg konungsins, sem veitti honum konungdóm, þar sem hann lítilsvirti eiðinn, sem hann vann honum, og rauf samninginn við hann.“ – Esek. 17:16.
10 Sedekía konungur hafði svarið eið í nafni Jehóva og var skuldbundinn að halda hann. (2. Kron. 36:13) Hann leitaði hins vegar á náðir Egypta í von um að geta brotist undan oki Babýlonar. En það kom honum að engu haldi. – Esek. 17:11-15, 17, 18.
11, 12. (a) Hvert er mikilvægasta heitið sem við getum unnið? (b) Hvaða áhrif ætti það að hafa á daglegt líf okkar að við höfum gefið Guði vígsluheit?
11 Jehóva hlustar líka á þau loforð sem við gefum. Hann tekur heit okkar alvarlega og við þurfum að halda þau til að hann hafi velþóknun á okkur. (Sálm. 76:12) Ekkert loforð okkar er mikilvægara en vígsluheitið sem við gefum honum. Þetta vígsluheit er hátíðlegt loforð um að þjóna Jehóva án skilyrða.
12 Hvað er fólgið í því að halda vígsluheit sitt? Við ættum að sýna með afstöðu okkar í prófraunum, stórum sem smáum, að við tökum alvarlega það heit okkar að lofa Jehóva „alla daga“. (Sálm. 61:9) Segjum til dæmis að einhver á vinnustað eða í skólanum daðri við þig. Líturðu á það sem tækifæri til að ,láta vegu Jehóva vera þér geðfellda‘ og daðra ekki á móti? (Orðskv. 23:26, Biblían 1981) Ef fjölskylda þín er ekki í trúnni biðurðu þá Jehóva um hjálp til að koma fram eins og Biblían hvetur til þó að enginn annar í fjölskyldunni geri það? Leitum við daglega í bæn til föðurins á himnum og þökkum honum fyrir að elska okkur og leyfa okkur að vera þegnar stjórnar sinnar? Gefum við okkur tíma daglega til að lesa í Biblíunni? Höfum við ekki í rauninni lofað að gera það? Málið snýst um að vera hlýðin. Við sýnum að við elskum Jehóva og höfum vígst honum af öllu hjarta með því að gera eins vel og við getum í þjónustu hans. Tilbeiðsla okkar er ekki bara formsatriði heldur lífsstefna. Það er sjálfum okkur til góðs að halda heit okkar við Guð. Ef við erum honum trú eigum við okkur örugga framtíð. – 5. Mós. 10:12, 13.
13. Hvað lærum við af sjöttu sýn Sakaría?
13 Sjötta sýn Sakaría hefur sýnt okkur fram á að þeir sem elska Jehóva eiga ekki að stela og gildir þá einu í hvaða mynd þjófnaðurinn er. Þeir eiga ekki heldur að vinna rangan eið. Við höfum líka séð að Jehóva gafst ekki upp á Ísraelsmönnum þó að þeir brygðust honum á ýmsa vegu. Hann skildi að þeir voru undir miklu álagi þar sem þeir voru umkringdir óvinum. Hann setur okkur gott fordæmi með því halda loforð sín og hann hjálpar okkur að halda þau loforð sem við gefum. Það gerir hann meðal annars með því að gefa okkur von því að hann lofar að útrýma illskunni um allan heim. Næsta sýn Sakaría veitir tryggingu fyrir því að þessi von verði að veruleika.
ILLSKAN ER ,SETT Á SINN STAБ
14, 15. (a) Hvað sér Sakaría í sjöundu sýninni? (Sjá 2. mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað táknar konan í efukerinu og hvers vegna er hún lokuð inni?
14 Eftir að Sakaría hefur horft á bókfellið á flugi segir engill honum að líta upp. Hvað sér Sakaría í sjöundu sýninni? Hann sér nálgast körfu sem engillinn kallar „efuker“. (Lestu Sakaría 5:5-8.) Þetta er miðlungsstór karfa með blýloki. Lokinu er lyft af og Sakaría sér þá að kona situr niðri í körfunni. Engillinn segir að konan sé „Illskan“. Sakaría bregður illa þegar hann sér hana reyna að komast upp úr körfunni. Engillinn er fljótur til, þrýstir henni niður í körfuna og lokar henni með þungu blýlokinu. Hvað táknar þetta?
15 Af þessum kafla sýnarinnar má sjá að Jehóva umber ekki illsku í nokkurri mynd meðal þjóna sinna. Hann sér til þess að henni sé haldið í skefjum og hún upprætt eins fljótt og auðið er. (1. Kor. 5:13) Engillinn fullvissar okkur um það með því að skella blýlokinu aftur á körfuna.
16. (a) Hvað verður um efukerið í sýn Sakaría? (Sjá 3. mynd í upphafi greinar.) (b) Hvert fara vængjuðu konurnar með efukerið?
16 Næst birtast tvær konur með sterka vængi eins og storksvængi. (Lestu Sakaría 5:9-11.b) Þær eru býsna ólíkar konunni í körfunni. Þær svífa á sterkum vængjunum að körfunni sem inniheldur ,Illskuna‘ og lyfta henni upp á milli sín. Þær fljúga síðan með hana til ,Sínearlands‘, það er að segja Babýlonar. Hvers vegna fara þær með Illskuna þangað?
17, 18. (a) Hvers vegna á „Illskan“ vel heima í Sínearlandi? (b) Hvað er skylda okkar að gera varðandi illskuna?
17 Ísraelsmönnum á dögum Sakaría hefur eflaust þótt viðeigandi að senda Illskuna til Sínearlands. Sakaría og samlandar hans vissu af eigin raun að Babýlon var staður þar sem illskan réð ríkjum. Þeir höfðu alist upp þar og höfðu þurft að berjast hvern einasta dag til að verða ekki fyrir áhrifum af skurðgoðadýrkun og andstyggilegu hátterni þessarar heiðnu þjóðar. Sýnin hlýtur að hafa verið mikill léttir fyrir þá því að hún veitti þeim tryggingu fyrir því að Jehóva myndi sjá um að sönn guðsdýrkun héldist hrein.
18 En sýnin minnti Gyðingana einnig á að það var skylda þeirra að halda guðsdýrkun sinni hreinni. Það má ekki leyfa illskunni að skjóta rótum meðal þjóna Jehóva og hún fær ekki að gera það. Söfnuður Jehóva er hreinn og þar njótum við verndar og umhyggju. Eftir að við höfum fengið að ganga inn í hann er það skylda okkar að gera það sem við getum til að halda honum hreinum. Langar okkur til að halda ,húsi‘ okkar hreinu? Engin illska á heima í andlegu paradísinni.
VIÐ HEIÐRUM JEHÓVA MEÐ ÞVÍ AÐ VERA HREIN
19. Hvað þýða sýnir Sakaría fyrir okkur sem nú lifum?
19 Sjötta og sjöunda sýn Sakaría eru alvarleg viðvörun til þeirra sem eru óheiðarlegir. Þær eru áminning um að Jehóva umber ekki ranga breytni. Þeir sem tilbiðja hann í einlægni verða að hata hið illa. Þessar sýnir eru einnig hlýleg ábending frá föður okkar á himnum um að við umflýjum ógæfu og dauða ef við sækjumst eftir velþóknun hans og vernd. Þá blessar hann okkur fúslega, og allt sem við leggjum á okkur til að halda okkur hreinum í illum heimi er erfiðisins virði. Við getum treyst að við getum það með hjálp Jehóva. En hvernig getum við verið örugg um að sönn tilbeiðsla haldi velli í heimi sem er jafn óguðlegur og raun ber vitni? Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að Jehóva verndi söfnuð sinn í aðdraganda þrengingarinnar miklu? Þessum spurningum er svarað í næstu grein.
a Alin var 44,5 cm. Sjá Handbók biblíunemandans.
b Sakaría 5:11 (Biblían 1981): „Hann svaraði mér: ,Þær ætla að reisa henni hús í Sínearlandi, og þegar það er búið, þá setja þær hana þar á sinn stað.‘“