Viðhaltu ótta þinn við Jehóva
„Ég er mikill konungur, — segir [Jehóva] allsherjar — , og menn óttast nafn mitt meðal heiðingjanna.“ — MALAKÍ 1:14.
1, 2. (a) Hvaða kraftmikinn boðskap er að finna í bók Malakí? (b) Hvaða lærdóm má draga af inngangsorðum boðskapar Jehóva?
„SPÁDÓMUR. Orð [Jehóva] til Ísraels fyrir munn Malakí.“ (Malakí 1:1) Þessi stuttu en áhrifaríku orð eru inngangsorð þeirrar biblíubókar sem kennd er við Malakí. Í Biblíunni eru spádómar oft fordæmingardómar vegna illsku og guðleysis. Það er sannarlega svo í Malakíbók sem geymir beinskeyttan og kjarnmikinn boðskap til Ísraelsþjóðarinnar. Þegar við skoðum hann nánar mun það undirstrika fyrir okkur nauðsyn þess að viðhalda ótta okkar við Jehóva og kærleika til hans.
2 Fyrstu tvö versin í bókinni eru lexía í því hvernig gefa á leiðbeiningar. Jehóva fullvissar áheyrendur sína um löngun sína til að hjálpa þeim: „‚Ég elska yður,‘ segir [Jehóva].“ Þetta eru hughreystandi og hlýleg orð fyrir hjartahreina menn innan hinnar syndugu Ísraelsþjóðar. Boðskapurinn heldur áfram: „Og ef þér spyrjið: ‚Með hverju hefur þú sýnt á oss kærleika þinn?‘ þá svarar [Jehóva]: ‚Var ekki Esaú bróðir Jakobs? En ég elskaði Jakob og hafði óbeit á Esaú, svo að ég gjörði fjallabyggðir hans að auðn og fékk eyðimerkursjakölunum arfleifð hans til eignar.‘“ — Malakí 1:2, 3.
3. Hverjar voru orsakirnar fyrir tilfinningum Jehóva í garð Jakobs og Esaús?
3 Hvers vegna elskaði Jehóva Jakob og síðar afkomendur Jakobs, Ísraelsmenn? Það var vegna þess að Jakob var guðhræddur og bar virðingu fyrir guðhræddum foreldrum sínum. Esaú var á hinn bóginn eigingjarn og óttaðist ekki Guð. Hann bar ekki heldur virðingu fyrir foreldrum sínum sem Guð hafði gefið rétt til að ætlast til hlýðni hans. Réttilega elskaði Jehóva Jakob en hataði Esaú. Þetta er aðvörun fyrir okkur. Við verðum að gæta þess að glata aldrei guðhræðslu okkar og verða efnishyggjumenn eins og Esaú sem hugsaði ekki um annað en að fullnægja löngunum holdsins. — 1. Mósebók 26:34, 35; 27:41; Hebreabréfið 12:16.
4, 5. (a) Hvaða áhrif hafði lífsstefna Jakobs og Esaús á afkomendur þeirra? (b) Hvaða áhrif hefði það átt að hafa á Ísraelsmenn?
4 Alveg eins og lífsstefna Jakobs var afkomendum hans, Ísraelsmönnum, til blessunar, eins hafði lífsstefna Esaús algerlega gagnstæð áhrif á afkomendur hans, Edómíta. Edómítar nutu ekki blessunar Jehóva. Illskeytt andstaða þeirra við þjóðina, sem var í sáttmálasambandi við Guð, kallaði yfir þá hatur Jehóva. Herir Nebúkadnesars og síðar Araba sigruðu þá. Að lokum hurfu Edómítar af sjónarsviðinu sem þjóð, eins og Jehóva hafði spáð. — Óbadía 18.
5 Dómur Guðs yfir Edóm var byrjaður að rætast fyrir daga Malakí. Hvaða áhrif hefði það átt að hafa á Ísraelsmenn? Jehóva segir þeim: „Þér munuð sjá það með eigin augum og þér munuð segja: ‚Mikill er [Jehóva] langt út yfir landamæri Ísraels.‘“ (Malakí 1:5) Í aldanna rás hafði Ísrael séð „með eigin augum“ kærleika Jehóva til sín sem þjóðar.
Verk okkar sýna hvort við óttumst Guð
6. Um hvað ásakaði Jehóva Ísraelsmenn?
6 Boðskapurinn heldur áfram: „Sonurinn skal heiðra föður sinn og þrællinn húsbónda sinn. En sé ég nú faðir, hvar er þá heiðurinn sem mér ber, og sé ég húsbóndi, hvar er þá lotningin sem mér ber? — segir [Jehóva] allsherjar við yður, þér prestar, sem óvirðið nafn mitt.“ (Malakí 1:6; 2. Mósebók 4:22, 23; 5. Mósebók 32:6) Jehóva hafði leiðrétt Ísraelsmenn, séð þeim farborða og verndað alveg eins og faðir son sinn. Til hvers ætlaðist hann réttilega á móti? Að njóta heiðurs og lotningar. Þjóðin, þeirra á meðal prestarnir, gerði það ekki heldur sýndi nafni Jehóva óvirðingu, jafnvel fyrirleit það. Þjóðin varð ‚fráhorfnir synir.‘ — Jeremía 3:14, 22; 5. Mósebók 32:18-30; Jesaja 1:2, 3.
7. Hvað fannst Ísraelsmönnum um þessa ásökun og hverju svaraði Jehóva?
7 Ísraelsmenn spurðu: „Með hverju óvirðum vér nafn þitt?“ Jehóva svaraði með áhersluþunga: „Þér berið fram óhreina fæðu á altari mitt. Og enn getið þér spurt: ‚Með hverju ósæmum vér þig?‘ þar sem þér þó segið: ‚Borð [Jehóva] er lítils metandi!‘ Og þegar þér færið fram blinda skepnu til fórnar, þá kallið þér það ekki saka, og þegar þér færið fram halta eða sjúka skepnu, þá kallið þér það ekki saka. Fær landstjóra þínum það, vit hvort honum geðjast þá vel að þér eða hvort hann tekur þér vel! — segir [Jehóva] allsherjar.“ — Malakí 1:6-8.
8. Hvað gáfu Ísraelsmenn til kynna með verkum sínum?
8 Við getum séð fyrir okkur Ísraelsmann virða fyrir sér hjörðina og velja síðan blinda eða halta skepnu til að færa Jehóva að fórn. Með þeim hætti gæti hann látið eins og hann væri að færa fórn en samt sem áður haldið því besta af hjörðinni fyrir sjálfan sig. Hann myndi ekki voga sér að gera slíkt gagnvart landstjóranum! En Ísraelsmenn gerðu það gagnvart Jehóva — rétt eins og hann gæti ekki séð svik þeirra og pretti. Jehóva spurði þá réttilega: „Hvar er þá lotningin sem mér ber?“ Með orðum sínum sögðust þeir óttast Jehóva en með verkum sínum létu þeir annað skýrt í ljós. — 5. Mósebók 15:21.
9. Hver voru viðbrögð prestanna við því sem fólkið gerði?
9 Hver voru viðbrögð prestanna við þessum fyrirlitlegu fórnum? Þeir ‚kölluðu það ekki saka.‘ Þeir réttlættu óguðleika Ísraelsmanna. Jafnvel þótt útlagarnir, sem sneru heim frá Babýlon, færu kostgæfilega af stað í því að endurreisa sanna guðsdýrkun urðu þeir síðar kærulausir, stoltir og réttlátir í eigin augum. Þeir hættu að óttast Jehóva. Þess vegna var musterisþjónusta þeirra háðung ein og hátíðahöld þeirra voru ytra formið eitt saman. — Malakí 2:1-3; 3:8-10.
10. (a) Hvaða fórnir vill Jehóva fá nú á tímum? (b) Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að Jehóva hafi velþóknun á fórn okkar?
10 Einhver andmælir kannski og segir: ‚Þetta á ekki við okkur; við færum ekki lengur dýrafórnir.‘ En við höfum annars konar fórnir að færa. Tökum eftir hvatningu Páls: „Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi.“ (Rómverjabréfið 12:1) Sú fórn, sem Jehóva vill nú á dögum, ert þú sjálfur, það er að segja kraftar þínir, eignir og hæfileikar. Fórn okkar er honum velþóknanleg aðeins ef hún er það besta sem við getum gefið. Það er tvímælalaust til tjóns fyrir samband okkar við Jehóva ef við tökum hið besta sjálf en færum honum afganginn að fórn, líkt og halta og sjúka skepnu.
11. Hvað ættu allir vígðir þjónar Jehóva að rannsaka?
11 Jafnvel þótt sumir kunni í reynd að segja að slíkt saki ekki vitum við hverjar tilfinningar Jehóva eru. Við skulum því skoða grandgæfilega „fórn“ okkar fólgna í heilagri þjónustu sem tekur til hlutdeildar okkar í prédikun, einkanámi, bæn og samkomusókn. Ert þú viss um að þú gefir Jehóva hið besta, ekki aðeins afganginn? Það er hætta á því að verða svo upptekinn af afþreyingu eða skemmtun um helgar að við höfum hvorki tíma né krafta til að prédika boðskapinn um Guðsríki og sækja samkomur. Allt líf okkar, daglegar athafnir, þeirra á meðal viðhorf og áhugahvatir, ættu að vera tengdar þeirri fórn sem við viljum færa Jehóva. Gefðu Jehóva ekkert nema hið besta!
Þeir sem í sannleika óttast Guð
12. Hvaða ráð gaf Jehóva Ísraelsmönnum?
12 „Og nú,“ segir spádómurinn, „blíðkið Guð, til þess að hann sýni oss líknsemi.“ (Malakí 1:9) Jehóva hvatti Ísraelsmenn til að gera það sem var rétt, óttast Guð með tilhlýðilegum hætti og færa honum að fórn það sem hann verðskuldaði. Við verðum að gera hið sama nú á dögum. Aðeins með því að lifa samkvæmt kröfum Jehóva getum við eignast og viðhaldið hylli hans.
13. (a) Hvaða gildru gætum við fallið í ef við óttuðumst ekki Guð? (b) Hvernig létu prestar Ísraels græðgi ná tökum á sér?
13 Ef við óttumst ekki Guð gæti þjónusta okkar við hann verið aðeins ytri athafnir eða stafað af eigingjörnum hvötum. Taktu eftir hvernig Jehóva spyr presta Ísraels út úr í sambandi við musterisþjónustu sína: „Sæmra væri, að einhver yðar lokaði musterisdyrunum, svo að þér tendruðuð ekki eld til ónýtis á altari mínu. Ég hefi enga velþóknun á yður — segir [Jehóva] allsherjar og ég girnist enga fórnargjöf af yðar hendi.“ (Malakí 1:10) Prestarnir gegndu vissulega skyldustörfum sínum í musterinu, læstu dyrunum að helgidóminum og kveiktu eld á ölturunum. En þeir gerðu þetta ekki ókeypis. Þeir ætluðust til að fá mútur og „gjafir“ frá þeim Ísraelsmönnum sem komu til að færa fórnir í musterinu. En Jehóva hafði enga velþóknun þá og hefur enga velþóknun núna á þjónustu sem er innt af hendi aðeins af eigingjörnum hvötum. Hún er fyrirlitleg í hans augum.
14. Hvers vegna þurfum við stöðugt að vera á varðbergi gagnvart ágirnd?
14 Þörfin á að vera á verði gegn eigingirni og ágirnd er ekki minni núna. Aftur og aftur varar Ritningin okkur við ágirnd og segir að ágjarnir menn njóti ekki hylli Jehóva. (1. Korintubréf 6:10; Efesusbréfið 5:5) Megi kærleikur okkar og ótti við Jehóva forða okkur frá því að inna þjónustu okkar nokkurn tíma af hendi af eigingjörnum hvötum. Við ættum að vera skjót til að uppræta hverja slíka tilhneigingu sem kynni að skjóta upp kollinum í hjörtum okkar. Öldungar og safnaðarþjónar eru sérstaklega varaðir við því að vera ‚ekki sólgnir í ljótan gróða.‘ (Títusarbréfið 1:7; 1. Tímóteusarbréf 3:8; 1. Pétursbréf 5:2) Sumir kunna af ásettu ráði að stofna til vináttutengsla aðeins við bræður sem geta hjápað þeim efnislega. Það gæti leitt til þess að slíkir bræður, sem eru vel settir fjárhagslega, séu teknir fram yfir aðra og tregðu gæti til að gefa þeim leiðbeiningar eða áminningar. Við viljum aldrei vera eins og hinir ágjörnu prestar í Ísrael sem ætluðust til þess að samlandar þeirra færðu þeim „gjafir“ og mútur.
15. (a) Hvernig gaf Malakí til kynna að um alla jörðina myndu finnast menn sem óttuðust Jehóva? (b) Hvaða aðrir ritningarstaðir styðja það?
15 Ef Jehóva bæri núna fram spurninguna: „Hvar er þá heiðurinn sem mér ber?“ gætu þá einhverjir svarað: ‚Hérna! Við óttumst þig og heiðrum‘? Já, tvímælalaust. Hverjir? Trúfastir vottar Jehóva sem er að finna út um allan heim. Talað er spádómlega um þennan alþjóðlega hóp manna og það starf sem hann ætti að vinna í Malakí 1:11. „Frá upprás sólar allt til niðurgöngu hennar er nafn mitt mikið meðal þjóðanna, og alls staðar er nafni mínu fórnað reykelsi og hreinni matfórn, því að nafn mitt er mikið meðal þjóðanna — segir [Jehóva] allsherjar.“ — Sjá einnig Sálm 67:8; Jesaja 33:5, 6; 41:5; 59:19; Jeremía 32:39, 40.
16. Hvað felst í því að nafn Jehóva skyldi vera mikið „frá upprás sólar allt til niðurgöngu hennar,“ og hvernig rætist það?
16 Malakí lýsir hér á viðeigandi hátt því mikla starfi sem unnið er á okkar tímum við að prédika fagnaðarerindið um alla jörðina. (Matteus 24:14; Opinberunarbókin 14:6, 7) Frá sólarupprás til sólarlags merkir í landfræðilegum skilningi frá austri til vesturs. Óháð því hvar við leitum á jörðinni nú á dögum finnum við fólk sem óttast Jehóva og gerir vilja hans. Frá sólarupprás til sólarlags er allur dagurinn. Já, guðhræddir þjónar hans eru stöðugt að lofa hann allan daginn. Eins og Jehóva lofaði eru þeir sem í sannleika óttast hann að kunngera nafn hans um alla jörðina. — 2. Mósebók 9:16; 1. Kroníkubók 16:23, 24; Sálmur 113:3.
Viðhaltu guðhræðslunni
17. Hvaða afleiðingar gæti það haft ef við hættum að virða Jehóva og óttast hann?
17 Fyrir þá sem ekki virða og óttast Jehóva verður tilbeiðsla og þjónusta við Guð byrði. Jehóva sagði við Ísraelsmenn: „Þér vanhelgið það [nafn Guðs] með því að þér segið: ‚Borð [Jehóva] er óhreint, og það sem af því fellur oss til fæðslu, er einskis vert.‘ Og þér segið: ‚Sjá, hvílík fyrirhöfn!‘“ (Malakí 1:12, 13) Hið sama getur gerst nú á tímum. Fyrir þá sem glata guðhræðslu sinni geta samkomur, þjónusta á akrinum og aðrar kristnar athafnir orðið byrði.
18. Hvað hefur af og til hent suma af þjónum Jehóva nú á tímum?
18 Taktu eftir hvernig slíkum einstaklingum var lýst í Varðturninum þann 1. janúar 1937: „Fyrir hina ótrúföstu eru þau sérréttindi að þjóna Jehóva með því að færa öðrum ávexti Guðsríkis, eins og Drottinn hefur boðið, orðin þreytandi viðhafnarsiður og formsatriði sem gefur þeim ekkert færi á að skína í augum mannanna. Það að bera boðskapinn um ríkið hús úr húsi í prentaðri mynd og bjóða hann fólki er of auðmýkjandi fyrir þá sem líta upp til sjálfra sín. Þeir hafa enga gleði af því. . . . Þess vegna hafa þeir sagt og segja enn: ‚Þetta er þreytandi strit að ganga um með bækur og selja þær!‘“ Jafnvel nú á tímum eru þeir til sem stöku sinnum finnst þjónustan á akrinum þjakandi þrældómur og samkomurnar leiðinlegar. Þannig getur farið ef við hættum að óttast Jehóva og um leið að elska hann.
19. Hvernig getum við haldið áfram að sýna að við kunnum að meta ráðstafanir Jehóva?
19 Það að varðveita óttann við Jehóva mun varðveita okkur auðmjúk frammi fyrir honum og sífellt þakklát fyrir allt það sem hann gerir fyrir okkur. Hvort heldur við erum á lítilli samkomu á einkaheimili eða stóru móti þar sem tugþúsundir koma saman erum við Jehóva þakklát fyrir þau sérréttindi að vera með kristnum bræðrum okkar. Við sýnum þakklæti okkar með því að vera þar viðstödd og hvetja aðra viðstadda til „kærleika og góðra verka“ með uppbyggilegum samræðum okkar og athugasemdum á samkomum. (Hebreabréfið 10:24, 25) Ef okkur falla í skaut þau sérréttindi að sjá um atriði á samkomum skulum við forðast það að draga undirbúning fram á síðasta augnablik. Við megum aldrei líta á slík verkefni sem einhver smávægileg, dagleg verk. Þau eru heilög sérréttindi og það hvernig við önnumst þau er enn ein vísbending um hvernig við virðum og óttumst Jehóva.
20. (a) Hverju megum við aldrei gleyma? (b) Að hvaða niðurstöðu komumst við?
20 Það hefur sorglegar afleiðingar fyrir fólk að hætta að óttast Guð! Það hættir þá að meta að verðleikum þau óverðskulduðu sérréttindi að eiga samband við drottinvald alheimsins. „Ég er mikill konungur, — segir [Jehóva] allsherjar —, og menn óttast nafn mitt meðal heiðingjanna.“ (Malakí 1:14; Opinberunarbókin 15:4) Megum við aldrei gleyma því. Megi eitt og sérhvert okkar vera eins og sálmaritarinn sem sagði: „Ég er félagi allra þeirra er óttast þig.“ (Sálmur 119:63) Eftir að hafa athugað þetta mál komumst við að sömu niðurstöðu og Salómon þegar hann sagði: „Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra. Því að Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.“ — Prédikarinn 12:13, 14.
Lærdómur af bók Malakí
◻ Hvers vegna bar Ísraelsmönnum að óttast Jehóva?
◻ Hvernig gefa verk okkar til kynna hvort við óttumst Jehóva í sannleika?
◻ Hvað sannar að um alla jörðina er að finna menn sem óttast Jehóva?
◻ Hvers vegna er mikilvægt að halda áfram að óttast Guð?
[Innskot]
Nafn Jehóva verður miklað „frá upprás sólar allt til niðurgöngu hennar.“
[Mynd á blaðsíðu 15]
Ísraelsmenn fyrirlitu Jehóva með því að færa honum blindar, haltar eða sjúkar skepnur að fórn.