Hið mikla andlega musteri Jehóva
„Vér höfum þann æðsta prest, . . . [sem] er helgiþjónn helgidómsins og tjaldbúðarinnar, hinnar sönnu, sem [Jehóva] reisti, en eigi maður.“ — HEBREABRÉFIÐ 8:1, 2.
1. Hvaða kærleiksríka ráðstöfun gerði Guð fyrir syndugt mannkyn?
VEGNA síns mikla kærleika til mannkynsins sá Jehóva Guð fyrir fórn til að taka burt syndir heimsins. (Jóhannes 1:29; 3:16) Til þess þurfti að færa líf frumgetins sonar hans frá himnum í móðurlíf gyðingameyjar er María hét. Engill Jehóva útskýrði greinilega fyrir Maríu að barnið, sem hún myndi bera undir belti, yrði „kallað heilagt, sonur Guðs.“ (Lúkas 1:34, 35) Jósef, sem var heitbundinn Maríu, var sagt að Jesús væri getinn með kraftaverki og myndi „frelsa lýð sinn frá syndum þeirra.“ — Matteus 1:20, 21.
2. Hvað gerði Jesús þegar hann var um þrítugt og hvers vegna?
2 Jesús hlýtur að hafa skilið sumt í sambandi við undraverða fæðingu sína er hann komst á legg. Hann vissi að himneskur faðir hans ætlaði honum að vinna björgunarstarf á jörðinni. Sem fulltíða maður um þrítugt kom hann því til Jóhannesar, spámanns Guðs, til að skírast í ánni Jórdan. — Markús 1:9; Lúkas 3:23.
3. (a) Hvað átti Jesús við með orðunum „fórn og gjafir hefur þú eigi viljað“? (b) Hvaða afbragðsfordæmi gaf Jesús öllum sem vilja verða lærisveinar hans?
3 Jesús bað meðan hann var að skírast. (Lúkas 3:21) Ljóst er að frá þessari stund í lífi sínu uppfyllti hann orðin í Sálmi 40:7-9 eins og Páll postuli benti síðar á: „Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað, en líkama hefur þú búið mér.“ (Hebreabréfið 10:5) Þannig sýndi Jesús að hann skildi að Guð ‚vildi eigi‘ að haldið yrði áfram að færa dýrafórnir í musterinu í Jerúsalem. Hann gerði sér ljóst að Guð hafði búið honum, Jesú, fullkominn mannslíkama til að færa að fórn. Þar með yrði ekki lengur þörf á að færa dýrafórnir. Jesús lét í ljós innilega löngun sína að lúta vilja Guðs og hélt áfram í bæn sinni: „Sjá, ég er kominn — í bókinni er það ritað um mig — ég er kominn til að gjöra þinn vilja, Guð minn!“ (Hebreabréfið 10:7) Jesús gaf öllum, sem urðu lærisveinar hans síðar, stórfenglegt fordæmi um hugrekki og óeigingjarna hollustu á skírnardegi sínum. — Markús 8:34.
4. Hvernig sýndi Guð að hann hefði velþóknun á því að Jesús byði sig fram sem fórn?
4 Sýndi Guð að hann hefði velþóknun á skírnarbæn Jesú? Látum einn af útvöldum postulum Jesú svara því: „Þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: ‚Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘“ — Matteus 3:16, 17; Lúkas 3:21, 22.
5. Hvað táknaði hið bókstaflega altari í musterinu?
5 Að Guð skyldi viðurkenna líkama Jesú sem framtíðarfórn merkti í andlegum skilningi að altari meira en altarið í musterinu í Jerúsalem væri komið fram á sjónarsviðið. Hið bókstaflega altari, þar sem dýr voru færð að fórn, var fyrirboði þessa andlega altaris sem var í reynd ‚vilji‘ Guðs eða ráðstöfun til að þiggja mannslíf Jesú sem fórn. (Hebreabréfið 10:10) Þess vegna gat Páll postuli skrifað kristnum bræðrum sínum: „Vér höfum altari, og hafa þeir, er tjaldbúðinni [eða musterinu] þjóna, ekki leyfi til að eta af því.“ (Hebreabréfið 13:10) Með öðrum orðum þá njóta sannkristnir menn góðs af langtum betri friðþægingarfórn en flestir prestar Gyðinga höfnuðu henni.
6. (a) Hvað kom fram á sjónarsviðið við skírn Jesú? (b) Hvað merkir titillinn Messías eða Kristur?
6 Smurning Jesú með heilögum anda merkti að allt hið andlega musterisfyrirkomulag Guðs hefði nú komið fram á sjónarsviðið en þar þjónaði Jesús sem æðsti prestur. (Postulasagan 10:38; Hebreabréfið 5:5) Lærisveininum Lúkasi var innblásið að tilgreina að þessi merki atburður hefði átt sér stað „á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara.“ (Lúkas 3:1-3) Það svarar til ársins 29 — nákvæmlega 69 áravikum eða 483 árum eftir að Artaxerxes konungur fyrirskipaði að múrar Jerúsalem skyldu endurreistir. (Nehemíabók 2:1, 5-8) Samkvæmt spádóminum myndi ‚hinn smurði höfðingi,‘ Messías, koma fram það ár. (Daníel 9:25) Mörgum Gyðingum var greinilega kunnugt um það. Lúkas greinir svo frá að ‚eftirvænting hafi verið vakin hjá lýðnum‘ í sambandi við komu Messíasar eða Krists, en þessir titlar eru úr hebresku og grísku og merkja hið sama, „hinn smurði.“ — Lúkas 3:15.
7. (a) Hvenær vígði Guð „hið háheilaga“ og hvað þýddi það? (b) Hvað annað gerðist þegar Jesús skírðist?
7 Við skírn Jesú var himneskur bústaður Guðs vígður eða tekinn frá sem „hið háheilaga“ í hinu mikla andlega musterisfyrirkomulagi. (Daníel 9:24) ‚Tjaldbúðin, hin sanna, sem Jehóva reisti, en eigi maður,‘ var tekin til starfa. (Hebreabréfið 8:2) Einnig, með því að skírast með vatni og heilögum anda, endurfæddist maðurinn Jesús Kristur sem andlegur sonur Guðs. (Samanber Jóhannes 3:3.) Það þýddi að Guð myndi, þegar þar að kæmi, kalla son sinn aftur til lífs á himnum þar sem hann myndi þjóna við hægri hönd föður síns sem konungur og æðsti prestur „að eilífu að hætti Melkísedeks.“ — Hebreabréfið 6:20; Sálmur 110:1, 4.
Hið allra helgasta á himnum
8. Hvaða nýjar myndir hafði hásæti Guðs á himnum nú tekið á sig?
8 Daginn sem Jesús skírðist hafði himneskt hásæti Guðs tekið á sig nýjar myndir. Fullkomin mannsfórn til að friðþægja fyrir syndir heimsins lagði áherslu á heilagleika Guðs andstætt syndugu eðli mannsins. Áhersla var einnig lögð á miskunn Guðs með því að nú sýndi hann vilja sinn til að láta blíðkast eða þiggja friðþægingu. Hásæti Guðs á himnum var þannig orðið eins og innsta rými musterisins þangað sem æðsti presturinn gekk inn einu sinni á ári með dýrablóð til að friðþægja fyrir syndir á táknrænan hátt.
9. (a) Hvað táknaði fortjaldið milli hins heilaga og hins allra helgasta? (b) Hvernig gekk Jesús inn fyrir fortjaldið í andlegu musteri Guðs?
9 Tjaldið milli hins heilaga og hins allra helgasta táknaði holdlegan líkama Jesú. (Hebreabréfið 10:19, 20) Holdslíkaminn var tálminn sem kom í veg fyrir að Jesús gæti gengið fram fyrir föður sinn meðan hann var á jörðinni. (1. Korintubréf 15:50) Á dauðastund Jesú „rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr.“ (Matteus 27:51) Það gaf til kynna með áhrifamiklum hætti að tálminn í vegi fyrir því að Jesús gengi inn í himininn hefði nú verið fjarlægður. Þrem dögum síðar vann Jehóva Guð einstakt kraftaverk. Hann vakti Jesú upp til lífs, ekki sem dauðlegan mann af holdi og blóði heldur sem dýrlega andaveru sem lifir „að eilífu.“ (Hebreabréfið 7:24) Fjörutíu dögum síðar steig Jesús upp til himna og gekk inn í hið raunverulega „háheilaga“ „til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.“ — Hebreabréfið 9:24.
10. (a) Hvað gerðist eftir að Jesús bar verðgildi fórnar sinnar fram fyrir himneskan föður sinn? (b) Hvaða þýðingu hafði smurning með heilögum anda fyrir lærisveina Krists?
10 Tók Guð við verðmæti hins úthellta blóðs Jesú til friðþægingar fyrir syndir heimsins? Það gerði hann vissulega. Sönnunin fyrir því kom nákvæmlega 50 dögum eftir upprisu Jesú, á hvítasunnudeginum. Heilögum anda Guðs var úthellt yfir 120 lærisveina Jesú sem saman voru komnir í Jerúsalem. (Postulasagan 2:1, 4, 33) Líkt og æðsti prestur þeirra, Jesús Kristur, voru þeir nú smurðir til að þjóna sem ‚heilagt prestafélag, til að bera fram andlegar fórnir‘ í hinu mikla andlega musterisfyrirkomulagi Guðs. (1. Pétursbréf 2:5) Enn fremur mynduðu þessir smurðu menn nú nýja þjóð, ‚heilaga þjóð‘ Guðs, hinn andlega Ísrael. Þaðan í frá áttu allir spádómar um gæði Ísraels, svo sem fyrirheitið um ‚nýja sáttmálann‘ í Jeremía 31:31, við hinn smurða kristna söfnuð, hinn raunverulega „Ísrael Guðs.“ — 1. Pétursbréf 2:9; Galatabréfið 6:16.
Aðrir þættir andlegs musteris Guðs
11, 12. (a) Hvað táknaði forgarður prestanna í sambandi við Jesú, og hvað táknar hann í sambandi við smurða fylgjendur hans? (b) Hvað táknar vatnskerið og hvernig er það notað?
11 Enda þótt hið allra helgasta hafi táknað „sjálfan himininn,“ þar sem Guð situr í hásæti, er allt annað í andlegu musteri Guðs tengt jörðinni. (Hebreabréfið 9:24) Í musterinu í Jerúsalem var innri forgarður presta með fórnaraltari og stóru vatnskeri sem þeir notuðu til að hreinsa sig áður en þeir gegndu heilagri þjónustu. Hvað táknar allt þetta í andlegu musterisfyrirkomulagi Guðs?
12 Hvað Jesú Krist varðar táknaði innri forgarður prestanna syndleysi hans sem fullkomins, mennsks sonar Guðs. Vegna trúar á fórn Krists er smurðum fylgjendum hans tilreiknað réttlæti. Guð getur því með réttu komið fram við þá eins og þeir séu syndlausir. (Rómverjabréfið 5:1; 8:1, 33) Þess vegna táknar þessi forgarður líka hið tilreiknaða réttlæti sem meðlimir hins heilaga prestafélags njóta frammi fyrir Guði sem menn. En smurðir kristnir menn eru eftir sem áður ófullkomnir og hættir til að syndga. Vatnskerið í forgarðinum táknar orð Guðs sem æðsti presturinn Jesús notar til að hreinsa hið heilaga prestafélag stig af stigi. Með því að gangast undir þessa hreinsun öðlast þeir virðulegt yfirbragð sem heiðrar Guð og laðar utanaðkomandi menn að hreinni tilbeiðslu hans. — Efesusbréfið 5:25, 26; samanber Malakí 3:1-3.
Hið heilaga
13, 14. (a) Hvað táknar hið heilaga í musterinu í sambandi við Jesú og smurða fylgjendur hans? (b) Hvað táknar gullljósastikan?
13 Fremri salur musterisins táknar göfugra ástand en forgarðurinn. Hvað hinn fullkomna mann Jesú Krist varðar táknar hið heilaga endurfæðingu hans sem andlegs sonar Guðs er átti að snúa aftur til lífs á himnum. Eftir að smurðir fylgjendur hans eru lýstir réttlátir vegna trúar sinnar á úthellt blóð Krists finna þeir einnig fyrir þessari sérstöku starfsemi anda Guðs. (Rómverjabréfið 8:14-17) Með „vatni [það er að segja skírninni] og anda“ „fæðast [þeir] að nýju,“ endurfæðast sem andlegir synir Guðs. Þar af leiðandi hafa þeir von um að verða reistir upp til lífs á himnum sem andasynir Guðs, svo framarlega sem þeir varðveita trúfesti allt til dauða. — Jóhannes 3:5, 7; Opinberunarbókin 2:10.
14 Guðsdýrkendurnir úti fyrir sáu ekki prestana sem þjónuðu í hinu heilaga í jarðneska musterinu. Eins er það að þorri tilbiðjenda Guðs, þeir sem hafa von um eilíft líf í paradís á jörð, skilja ekki til fulls né fá að reyna hið andlega ástand sem smurðir kristnir menn eru í. Gullljósastikan í tjaldbúðinni táknar upplýst ástand smurðra kristinna manna. Starfsemi heilags anda Guðs varpar ljósi á Biblíuna eins og olían á lömpunum lýsir. Kristnir menn halda ekki skilningnum, sem þeir fá þannig, út af fyrir sig. Þeir hlýða Jesú sem sagði: „Þér eruð ljós heimsins. . . . Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.“ — Matteus 5:14, 16.
15. Hvað táknar brauðið á skoðunarbrauðaborðinu?
15 Til að viðhalda þessu upplýsta ástandi verða smurðir kristnir menn að nærast að staðaldri á því sem brauðið á skoðunarbrauðaborðinu táknaði. Orð Guðs er aðaluppspretta andlegrar fæðu þeirra, og þeir leitast við að lesa það og hugleiða daglega. Jesús hét líka að veita þeim „mat á réttum tíma“ fyrir milligöngu síns ‚trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45) Þessi „þjónn“ er allur hópur smurðra kristinna manna á jörðinni á hverjum tíma. Kristur hefur notað þennan smurða hóp til að birta upplýsingar um uppfyllingu biblíuspádóma og til að veita tímabæra leiðsögn um það hvernig fara skuli eftir meginreglum Biblíunnar í daglega lífinu nú á tímum. Þess vegna nærast smurðir kristnir menn þakklátir á öllum slíkum andlegum vistum. En þeir þurfa að gera meira til að viðhalda andlegu lífi sínu en aðeins að innbyrða þekkingu á Guði í huga og hjarta. Jesús sagði: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ (Jóhannes 4:34) Eins hafa smurðir kristnir menn yndi af því að leggja sig daglega fram um að gera opinberaðan vilja Guðs.
16. Hvað táknar þjónustan við reykelsisaltarið?
16 Kvölds og morgna bar prestur fram reykelsi fyrir Guð á reykelsisaltarinu í hinu heilaga. Samtímis báðu dýrkendur, sem ekki voru prestar, til Guðs þar sem þeir stóðu í ytri forgörðum musteris hans. (Lúkas 1:8-10) ‚Reykelsið eru bænir hinna heilögu,‘ segir Biblían. (Opinberunarbókin 5:8) „Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt,“ orti sálmaritarinn Davíð. (Sálmur 141:2) Smurðir kristnir menn meta líka mikils þau sérréttindi sín að nálgast Jehóva í bæn fyrir milligöngu Jesú Krists. Innilegar bænir frá hjartanu eru eins og sætur reykelsisilmur. Smurðir kristnir menn lofa líka Guð á aðra vegu þegar þeir nota varir sínar til að kenna öðrum. Guð hefur sérstaka velþóknun á þolgæði þeirra í þrautum og ráðvendni í prófraunum. — 1. Pétursbréf 2:20, 21.
17. Hvað fólst í uppfyllingu þeirrar spádómsmyndar er æðsti presturinn gekk fyrst inn í hið allra helgasta á friðþægingardeginum?
17 Á friðþægingardeginum varð æðsti prestur Ísraels að fara inn í hið allra helgasta og brenna reykelsi á glóandi kolum í reykelsiskeri úr gulli. Það varð hann að gera áður en hann bar blóð syndafórnanna þangað inn. Í uppfyllingu þessarar spádómsmyndar varðveitti maðurinn Jesús algera ráðvendni við Jehóva Guð áður en hann færði líf sitt sem einu varanlegu fórnina fyrir syndir okkar. Þannig sýndi hann að fullkominn maður gat varðveitt ráðvendni við Guð, hvaða þvingun sem Satan kynni að beita hann. (Orðskviðirnir 27:11) Er Jesús var reyndur bað hann „með sárum kveinstöfum og táraföllum . . . og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar.“ (Hebreabréfið 5:7) Þannig vegsamaði hann Jehóva sem réttlátan og réttmætan drottinvald alheimsins. Guð umbunaði Jesú með því að reisa hann upp frá dauðum til ódauðleika á himnum. Í þessari háu stöðu gefur Jesús gaum að annarri ástæðu fyrir komu sinni til jarðar, það er að segja að sætta iðrunarfulla mennska syndara við Guð. — Hebreabréfið 4:14-16.
Hin meiri dýrð andlegs musteris Guðs
18. Hvernig hefur Jehóva veitt andlegu musteri sínu einstaka dýrð?
18 „Hin síðari dýrð þessa musteris mun meiri verða en hin fyrri var,“ sagði Jehóva. (Haggaí 2:9) Með því að reisa Jesú upp sem ódauðlegan konung og æðsta prest veitti Jehóva andlegu musteri sínu óviðjafnanlega dýrð. Jesús er nú í aðstöðu til að gerast „öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis.“ (Hebreabréfið 5:9) Lærisveinarnir 120, sem fengu heilagan anda á hvítasunnunni árið 33, voru fyrstir til að sýna slíka hlýðni. Opinberunarbókin sagði fyrir að þessir andlegu synir Ísraels yrðu að lokum 144.000. (Opinberunarbókin 7:4) Við dauðann beið það hlutskipti margra þeirra að liggja meðvitundarlausir í sameiginlegri gröf mannkynsins og bíða konunglegrar nærveru Jesú. Hið spádómlega tímatal í Daníel 4:10-17, 20-27 bendir á að Jesús hafi byrjað að ríkja mitt á meðal óvina sinna árið 1914. (Sálmur 110:2) Smurðir kristnir menn biðu þessa árs með miklum áhuga um áratuga skeið. Fyrri heimsstyrjöldin og hörmungarnar, sem mannkynið leið í henni, sönnuðu að Jesús hefði raunverulega verið krýndur sem konungur árið 1914. (Matteus 24:3, 7, 8) Skömmu síðar, þegar tíminn var kominn að ‚dómurinn byrjaði á húsi Guðs,‘ efndi Jesús loforð sitt við smurða lærisveina sína sem höfðu sofnað dauðasvefni: „Ég [kem] aftur og tek yður til mín.“ — 1. Pétursbréf 4:17; Jóhannes 14:3.
19. Hvernig fá leifar hinna 144.000 aðgang að hinu allra helgasta á himnum?
19 Hinir 144.000 meðlimir prestafélagsins heilaga hafa enn ekki allir fengið lokainnsigli og verið safnað til síns himneska heima. Leifar þeirra eru enn á jörðinni í því andlega ástandi sem hið heilaga táknaði, aðskildir frá heilagri návist Guðs með ‚fortjaldinu‘ eða holdslíkömum sínum. Þegar þeir deyja trúfastir eru þeir reistir tafarlaust upp sem ódauðlegar andaverur til að sameinast þeim af hinum 144.000 sem eru þegar á himnum. — 1. Korintubréf 15:51-53.
20. Hvaða mikilvægt starf vinna þeir sem eftir eru af hinu heilaga prestafélagi nú á tímum og með hvaða árangri?
20 Dýrð hins andlega musteris Guðs hefur aukist með þjónustu svo margra presta á himnum ásamt æðsta prestinum mikla. En þeir sem eftir eru af hinu heilaga prestafélagi vinna verðmætt starf á jörðinni. Með prédikun þeirra er Guð að „hræra allar þjóðir“ með því að lýsa yfir dómi sínum eins og sagt er fyrir í Haggaí 2:7. Um leið eru dýrkendur Jehóva í milljónatali, „gersemar allra þjóða,“ að flykkjast inn í jarðneska forgarða musteris hans. Hvernig falla þeir inn í tilbeiðslufyrirkomulag Guðs og hvaða dýrðar getum við búist við að hið mikla andlega musteri hans eigi eftir að njóta í framtíðinni? Fjallað er um þessar spurningar í næstu grein.
Upprifjunarspurningar
◻ Hvaða afbragðsfordæmi gaf Jesús árið 29?
◻ Hvaða fyrirkomulag tók til starfa árið 29?
◻ Hvað táknar hið heilaga og hið allra helgasta?
◻ Hvernig hefur hið mikla andlega musteri öðlast dýrð?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Hið mikla andlega musteri Guðs tók til starfa er Jesús var smurður með heilögum anda árið 29.