‚Hvert verður tákn nærveru þinnar?‘
„Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ — MATTEUS 24:3.
1, 2. Hvað sýnir að fólk hefur áhuga á framtíðinni?
FLESTIR hafa áhuga á framtíðinni. Hvað um þig? Í bók sinni, Future Shock, nefnir prófessor Alvin Toffler að „samtökum, sem helga sig rannsóknum á framtíðinni, hafi fjölgað skyndilega.“ Hann bætir við: ‚Við höfum séð tilkomu hugmyndabanka sem beina athygli sinni að framtíðinni; framtíðarsinnuð tímarit spretta upp í Bandaríkjunum, á Englandi, Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi; og hægt er að sækja námskeið í framtíðarspátækni við fjölmarga háskóla.‘ En Toffler segir að lokum: „Að sjálfsögðu getur enginn ‚vitað‘ framtíðina fyrir í strangasta skilningi.“
2 Bókin Signs of Things to Come segir: „Lófalestur, kristalskoðun, stjörnuspár, spilaspár og I Ching eru allt misflóknar aðferðir til að gefa okkur einhverja hugmynd um hvað framtíð okkar hvers og eins kann að bera í skauti sínu.“ En í stað þess að notfæra okkur aðferðir manna ættum við frekar að leita til heimildaraðila sem hefur sannað sig — til Jehóva Guðs.
3. Hvers vegna er viðeigandi að leita þekkingar á framtíðinni hjá Guði?
3 Hinn sanni Guð sagði: „Það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá.“ (Jesaja 14:24, 27; 42:9) Já, Jehóva hefur getað látið mannkynið vita um það sem gerast muni og oft notað menn sem talsmenn sína. Einn þessara spámanna skrifaði: „[Jehóva] gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ — Amos 3:7, 8; 2. Pétursbréf 1:20, 21.
4, 5. (a) Hvers vegna getur Jesús hjálpað okkur að vita hvað framtíðin ber í skauti sér? (b) Hvaða tvíþættrar spurningar spurðu postular hans hann?
4 Jesús Kristur var mesti spámaður Guðs. (Hebreabréfið 1:1, 2) Við skulum einbeita okkur að einum af aðalspádómum Jesú er segir fyrir atburði sem eru að gerast í kringum okkur núna. Þessi spádómur gefur okkur líka innsýn í það sem gerist bráðlega þegar hið núverandi illa heimskerfi tekur enda og Guð lætur jarðneska paradís leysa það af hólmi.
5 Jesús sannaði að hann væri spámaður. (Markús 6:4; Lúkas 13:33; 24:19; Jóhannes 4:19; 6:14; 9:17) Það er því skiljanlegt hvers vegna postular hans, sem sátu með honum á Olíufjallinu og horfðu yfir Jerúsalem, spurðu hann um framtíðina: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ — Matteus 24:3; Markús 13:4.
6. Hvert er sambandið milli Matteusar 24. kafla, Markúsar 13. kafla og Lúkasar 21. kafla og hvaða spurningu ættum við að hafa brennandi áhuga á?
6 Þú finnur spurningu þeirra og svar Jesú í Matteusi 24. kafla, Markúsi 13. kafla og Lúkasi 21. kafla.a Á margan hátt bæta þessar frásagnir hver aðra upp, en þær eru ekki alveg eins. Til dæmis nefnir enginn nema Lúkas ‚drepsóttir á ýmsum stöðum.‘ (Lúkas 21:10, 11; Matteus 24:7; Markús 13:8) Rökrétt er að við spyrjum: Var Jesús aðeins að segja fyrir atburði sem áttu að gerast á æviskeiði áheyrenda hans eða hafði hann líka í huga okkar tíma og það sem framtíðin ber í skauti sínu?
Postularnir vildu vita það
7. Hvað voru postularnir sérstaklega að spyrja um en hversu umfangsmikið var svar Jesú?
7 Aðeins fáeinum dögum áður en Jesús var drepinn lýsti hann því yfir að Guð hefði hafnað Jerúsalem, höfuðborg Gyðinga. Borgin og hið mikla musteri hennar yrðu lögð í rúst. Sumir af postulunum spurðu þá um ‚tákn nærveru Jesú og endaloka heimskerfisins.‘ (Matteus 23:37–24:3) Vafalaust voru þeir aðallega með hugann við gyðingakerfið og Jerúsalem því að þeir gerðu sér ekki grein fyrir umfangi þess sem framundan var. En þegar Jesús svaraði þeim horfði hann mun lengra en til ársins 70 þegar Rómverjar eyddu Jerúsalem. — Lúkas 19:11; Postulasagan 1:6, 7.
8. Nefndu sumt af því sem Jesús sagði fyrir.
8 Eins og þú getur lesið í frásögum guðspjallanna þriggja talaði Jesús um að þjóð myndi rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, um hallæri, jarðskjálfta, voðafyrirburði og tákn á himni. Á árunum frá því að Jesús mælti þessi orð (árið 33) og fram til eyðingar Jerúsalem (árin 66-70) áttu að koma fram falsspámenn og falskristar. Gyðingar myndu ofsækja kristna menn sem væru að prédika boðskap Jesú.
9. Hvernig uppfylltist spádómur Jesú á fyrstu öldinni?
9 Þessir þættir táknsins komu raunverulega fram eins og sagnaritarinn Flavíus Jósefus staðfestir. Hann skrifar að áður en Rómverjar gerðu árás hafi falsmessíasar æst til uppreisnar. Hræðilegir jarðskjálftar urðu í Júdeu og annars staðar. Stríð brutust úr víða um Rómaveldi. Varð meiri háttar hungursneyð? Já, svo sannarlega. (Samanber Postulasöguna 11:27-30.) Hvað um prédikun Guðsríkis? Árið 60 eða 61, þegar Kólossubréfið var skrifað, hafði „von fagnaðarerindisins“ um Guðsríki borist víða um Afríku, Asíu og Evrópu.b — Kólossubréfið 1:23.
„ÞÁ“ mun endirinn koma
10. Hvers vegna ættum við að gefa gaum að gríska orðinu toʹte og hvaða þýðingu hefur það?
10 Að sumu leyti lýsti Jesús atburðunum eins og þeir ættu sér stað hver á fætur öðrum. Hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað . . . og þá mun endirinn koma.“ „Þá“ er ekki alltaf notað í tíðarmerkingu í daglegu tali, eins og verið sé að lýsa atburðum sem gerast hver af öðrum. Í Matteusi 24:14 er „þá“ hins vegar þýðing gríska atviksorðsins toʹte.c Grískufræðingar segja að toʹte sé „lýsandi tíðaratviksorð“ notað „til að kynna það sem kemur á eftir í tímaröð“ eða „til að kynna eftirfarandi atburð.“ Jesús var því að spá að Guðsríki yrði prédikað og þá (‚eftir það‘ eða ‚því næst‘) myndi „endirinn“ koma. Hvaða endir?
11. Hvernig beindi Jesús athyglinni að atburðum sem tengdust beinlínis eyðingu Jerúsalem?
11 Eina uppfyllingu spádóms Jesú er að finna í atburðunum sem leiddu til enda gyðingakerfisins. Styrjaldirnar, jarðskjálftarnir, hallærin og annað, sem Jesús spáði, átti sér stað á þriggja áratuga tímabili. En frá og með Matteusi 24:15, Markúsi 13:14 og Lúkasi 21:20 lesum við um atburði sem voru beinlínis tengdir yfirvofandi eyðingu þegar endirinn væri fyrir dyrum. — Sjá einföldu, brotnu línuna á yfirlitinu.
12. Hvernig átti rómverskur her þátt í að uppfylla Matteus 24:15?
12 Rómverjar svöruðu uppreisn Gyðinga árið 66 með því að senda her undir stjórn Cestíusar Gallusar til Jerúsalem og setjast um þessa borg sem Gyðingar álitu heilaga. (Matteus 5:35) Þrátt fyrir gagnárásir Gyðinga brutust Rómverjar inn í borgina. Þannig tóku þeir að „standa á helgum stað“ eins og Jesús spáði í Matteusi 24:15 og Markúsi 13:14. En þá gerðist nokkuð óvænt. Rómverjar hurfu skyndilega á brott þótt þeir hefðu umkringt borgina. Kristnir menn skildu þegar í stað að spádómur Jesú var að uppfyllast og með brotthvarfi hersins gátu þeir flúið frá Júdeu til fjallahéraðanna handan Jórdanar. Sagan staðfestir að þeir hafi gert það.
13. Hvers vegna gátu kristnir menn hlýtt hvatningu Jesú um að flýja?
13 En hvers vegna þurfti nokkur maður að flýja úr því að Rómverjar voru farnir frá Jerúsalem og næsta nágrenni? Orð Jesú sýndu að atburðirnir sönnuðu að ‚eyðing Jerúsalem væri í nánd.‘ (Lúkas 21:20) Já, eyðing. Hann sagði fyrir ‚þrengingu sem engin hefði þvílík verið frá upphafi og myndi aldrei aftur verða.‘ Um þrem og hálfu ári síðar, árið 70, kom sannarlega ‚mikil þrenging‘ yfir Jerúsalem af völdum rómverskra herdeilda undir stjórn Títusar hershöfðingja. (Matteus 24:21; Markús 13:19) En hvers vegna ætli Jesús hafi lýst þessu sem meiri þrengingu en hefði nokkurn tíma átt sér stað fyrr né síðar?
14. Hvers vegna getum við sagt að það sem kom fyrir Jerúsalem árið 70 hafi verið ‚svo mikil þrenging‘ að engin slík hafi orðið fyrr né síðar?
14 Babýloníumenn lögðu Jerúsalem í rúst árið 607 f.o.t. og hræðilegir bardagar hafa átt sér stað í borginni á okkar öld. En það sem gerðist árið 70 var óvenjumikil þrenging. Eftir um fimm mánaða umsátur yfirbuguðu hermenn Títusar Gyðinga. Þeir drápu um 1.100.000 þeirra og tóku næstum 100.000 til fanga. Auk þess jöfnuðu Rómverjar Jerúsalem við jörðu. Þetta sannaði að fyrrum velþóknanlegt tilbeiðslukerfi Gyðinga með musterið sem miðdepil var endanlega liðið undir lok. (Hebreabréfið 1:2) Það mátti því réttilega líta á atburði ársins 70 sem ‚svo mikla þrengingu sem engin hefði þvílík verið [í þeirri borg, þjóð eða kerfi] frá upphafi heims og myndi aldrei verða aftur.‘ — Matteus 24:21.d
Meira í vændum eins og spáð var
15. (a) Hvað átti að gerast eftir þrengingu Jerúsalem samkvæmt spádómi Jesú? (b) Hvað hljótum við að álykta í sambandi við uppfyllingu spádóms Jesú, í ljósi Matteusar 24:23-28?
15 En Jesús takmarkaði ekki spádóm sinn við þrenginguna á fyrstu öld. Biblían sýnir að margt átti að koma á eftir þeirri þrengingu eins og gefið er í skyn með orðinu toʹte eða „þá“ í Matteusi 24:23 og Markúsi 13:21. Hvað átti að gerast á tímabilinu eftir árið 70? Eftir þrengingu gyðingakerfisins áttu fleiri falskristar og falsspámenn að koma fram. (Berðu Markús 13:6 saman við 13:21-23.) Sagan staðfestir að slíkir einstaklingar hafa komið fram á þeim öldum sem liðnar eru frá eyðingu Jerúsalem árið 70, enda þótt þeir hafi ekki afvegaleitt fólk með skýra andlega sjón sem er í sannleika að skima eftir ‚nærveru‘ Krists. (Matteus 24:27, 28) Engu að síður gefur þessi þróun í kjölfar þrengingarinnar miklu árið 70 eina vísbendingu um að Jesús hafi litið lengra en til þessarar þrengingar á fyrstu öld. Hún var aðeins byrjunaruppfylling.
16. Hverju bætir Lúkas 21:24 við spádóm Jesú og hvaða þýðingu hefur það?
16 Ef við berum Matteus 24:15-28 og Markús 13:14-23 saman við Lúkas 21:20-24 finnum við aðra vísbendingu um að spá Jesú hafi náð fram yfir eyðingu Jerúsalem. Við munum að Lúkas einn hafði minnst á drepsóttir. Eins var það hann einn sem lauk þessum hluta spádóms Jesú með orðunum: „Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.“e (Lúkas 21:24) Babýloníumenn höfðu sett síðasta konung Gyðinga af árið 607 f.o.t. og eftir það var Jerúsalem, sem táknaði ríki Guðs, fótum troðin. (2. Konungabók 25:1-26; 1. Kroníkubók 29:23; Esekíel 21:25-27) Í Lúkasi 21:24 gaf Jesús til kynna að þetta ástand myndi vara langt fram í tímann uns tími Guðs kæmi til að koma Guðsríki aftur á.
17. Hvaða þriðja vísbending er um að spádómur Jesú ætti að ná langt fram í tímann?
17 Þriðja vísbendingin um að Jesús hafi einnig verið að benda til uppfyllingar löngu síðar er þessi: Að sögn Ritningarinnar átti Messías að deyja og verða reistur upp. Eftir það myndi hann sitja Guði á hægri hönd uns faðirinn sendi hann fram til að sigra. (Sálmur 110:1, 2) Jesús vék að því að hann myndi sitja við hægri hönd föður síns. (Markús 14:62) Páll postuli staðfesti að hinn upprisni Jesús væri við hægri hönd Jehóva og biði þess tíma er hann yrði konungur og böðull Guðs. — Rómverjabréfið 8:34; Kólossubréfið 3:1; Hebreabréfið 10:12, 13.
18, 19. Hvernig tengist Opinberunarbókin 6:2-8 hinum hliðstæðu spádómum guðspjallanna?
18 Fjórðu og afdráttarlausasta vísbendingin um að spádómur Jesú um endalok heimskerfisins nái fram yfir fyrstu öldina er að finna í 6. kafla Opinberunarbókarinnar. Hún er skrifuð áratugum eftir árið 70 en þar lýsir Jóhannes sviðsmynd með athafnasömum riddurum sem grípur athygli okkar. (Opinberunarbókin 6:2-8) Þessi spádómlega innsýn í ‚Drottins dag‘ — nærverudag hans — bendir á 20. öldina sem tíma áberandi hernaðar (vers 4), víðtæks matvælaskorts (vers 5 og 6) og ‚drepsóttar‘ (vers 8). Ljóst er að þetta er hliðstæða þess sem Jesús sagði í guðspjöllunum og sannar að spádómur hans á sér meiri uppfyllingu núna á „Drottins degi.“ — Opinberunarbókin 1:10.
19 Upplýst fólk viðurkennir að hið samsetta tákn, sem sagt er fyrir í Matteusi 24:7-14 og Opinberunarbókinni 6:2-8, hefur verið augljóst á okkar tímum frá því að heimsstyrjöld braust út í fyrsta sinn árið 1914. Vottar Jehóva hafa kunngert um allan heim að spádómur Jesú eigi sér sína síðari og meiri uppfyllingu núna, eins og grimmileg stríð, skelfilegir jarðskjálftar, hörmuleg hungursneyð og skefjalausir sjúkdómar bera vitni. Um síðastnefnda atriðið sagði U.S.News & World Report (27. júlí 1992): „Alnæmisfaraldurinn . . . dregur fórnarlömb sín til dauða í milljónatali og getur bráðlega orðið dýrasta og hörmulegasta plága mannkynssögunnar. Svartidauði drap um 25 milljónir hrjáðra sálna á 14. öld. Núna ganga um 12 milljónir manna með HIV-veiruna, sem veldur alnæmi, en árið 2000 verður þeim búið að fjölga upp í 30 til 110 milljónir. Ef engin lækning finnst eru allir dauðans matur.“
20. Hvað átti fyrri uppfylling Matteusar 24:4-22 að ná yfir en hvaða önnur uppfylling er ljós?
20 Hvað eigum við þá að álykta um svar Jesú við fyrirspurn postulanna? Spádómur hans sagði nákvæmlega fyrir atburði sem voru undanfari eyðingar Jerúsalem og náðu yfir hana og hann nefndi sumt af því sem kæmi eftir árið 70. En stærsti hluti spádómsins átti að eiga sér aðra og meiri uppfyllingu í framtíðinni og vera undanfari mikillar þrengingar sem átti að binda enda á hið núverandi illa heimskerfi. Með öðrum orðum uppfylltist spá Jesú í Matteusi 24:4-22, svo og hliðstæðar frásagnir Markúsar og Lúkasar, frá árinu 33 út í gegnum þrenginguna árið 70. En þessi sömu vers áttu að eiga sér aðra uppfyllingu, þeirra á meðal enn meiri þrengingu í framtíðinni. Þessi meiri uppfylling á sér stað núna! Við getum séð merki þess daglega!f
Undanfari hvers?
21, 22. Hvar finnum við spádómlega vísbendingu um að meiri framvindu mála?
21 Jesús lauk ekki spádómi sínum með því að nefna að falsspámenn myndu gera villandi tákn á hinu langa tímabili ‚þar til tímar heiðingjanna væru liðnir.‘ (Lúkas 21:24; Matteus 24:23-26; Markús 13:21-23) Þess í stað hélt hann áfram og sagði að aðrir óvæntir atburðir myndu gerast sem sæjust um allan heim. Þeir yrðu tengdir komu Mannssonarins í mætti og dýrð. Markús 13:24-27 er dæmigert fyrir áframhaldandi spádóm Jesú:
22 „En á þeim dögum, eftir þrenging þessa, mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð. Og hann mun senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta.“
23. Hvers vegna getum við leitað að uppfyllingu Matteusar 24:29-31 löngu eftir fyrstu öldina?
23 Mannssonurinn, hinn upprisni Jesús Kristur, kom ekki með þessum tilkomumikla hætti eftir eyðingu gyðingakerfisins árið 70. Vissulega viðurkenndu ekki allar kynkvíslir jarðar hann, eins og Matteus 24:30 bætir við, og himneskir englar söfnuðu ekki heldur öllum hinum smurðu af allri jörðinni. Hvenær átti þessi viðbótarþáttur hins stórbrotna spádóms Jesú þá að uppfyllast? Er hann að uppfyllast með atburðum sem eru að gerast allt í kringum okkur núna, eða gefur hann guðlega innsýn í það sem vænta má í náinni framtíð? Við ættum sannarlega að vilja vita það vegna þess að Lúkas segir frá hvatningu Jesú: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ — Lúkas 21:28.
[Neðanmáls]
a Í yfirlitinu á bls. 14 og 15 er að finna úrdrátt úr þessum köflum. Brotalínur afmarka hliðstæða kafla.
b Sögulegar tilvitnanir um þessa atburði er að finna í Varðturninum 1. febrúar 1971, bls. 21-3.
c Toʹte kemur yfir 80 sinnum fyrir í Matteusi (9 sinnum í 24. kafla) og 15 sinnum í Lúkasi. Markús notar toʹte aðeins 6 sinnum, þar af fjórum sinnum um „táknið.“
d Breski rithöfundurinn Matthew Henry sagði: „Eyðing Jerúsalem fyrir hendi Kaldea var mjög skelfileg en þessi var enn hræðilegri. Alger útrýming blasti við . . . Gyðingum.“
e Margir sjá áherslubreytingu í frásögn Lúkasar eftir Lúkas 21:24. Dr. Leon Morris segir: „Jesús heldur áfram að tala um tíma heiðingjanna. . . . Flestir fræðimenn álíta að athyglin beinist núna að komu Mannssonarins.“ Prófessor R. Ginns skrifar: „Koma Mannssonarins — (Mt 24:29-31; Mk 13:24-27). Að ‚tímar heiðingjanna‘ skuli nefndir er sem inngangur þessa stefs; [Lúkas] lítur nú frá rústum Jerúsalem inn í framtíðina.“
f Prófessor Walter L. Liefeld skrifar: „Það er áreiðanlega hægt að ganga út frá því að spár Jesú hafi falið í sér tvö stig: (1) atburði ársins 70 í sambandi við musterið og (2) atburði fjarlægrar framtíðar sem lýst er með málfari opinberunarbókar.“ Biblíuskýringarit í ritstjórn J. R. Dummelows segir: „Margar alvarlegustu ráðgáturnar í sambandi við þessa miklu ræðu hverfa þegar haft er í huga að Drottinn okkar var ekki að tala um einn atburð heldur tvo, og að sá fyrri var táknrænn fyrir þann síðari . . . sérstaklega [Lúkas] 21:24, sem talar um ‚tíma heiðingjanna,‘ . . . setur ótiltekið tímabil milli falls Jerúsalem og heimsendis.“
Manst þú?
◻ Hvernig uppfylltist svar Jesú við spurningunni í Matteusi 24:3 fram til ársins 70?
◻ Hvernig hjálpar notkun orðsins toʹte okkur að skilja spádóm Jesú?
◻ Í hvaða skilningi var hin „mikla þrenging“ fyrstu aldarinnar meiri en orðið hafði áður?
◻ Hvaða tveim, einstökum hliðum á spádómi Jesú, sem varða okkur nútímamenn, víkur Lúkas að?
◻ Hvað bendir til annarrar og meiri uppfyllingar spádómsins í Matteusi 24:4-22?
[Tafla á blaðsíðu 14, 15]
4 „Jesús svaraði þeim: ‚Varist að láta nokkurn leiða yður í villu. 5 Margir munu koma í mínu nafni og segja: „Ég er Kristur!“ og marga munu þeir leiða í villu. 6 Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess, að skelfast ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.
7 Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. 8 Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.
9 Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns. 10 Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata. 11 Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu. 12 Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna. 13 En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða. 14 Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.
--------------------------------------------------------
15 Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað,‘ — lesandinn athugi það — 16 ‚þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla. 17 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt. 18 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína. 19 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum. 20 Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi. 21 Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða. 22 Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.
--------------------------------------------------------
23 Ef einhver segir þá við yður: „Hér er Kristur“ eða „þar“, þá trúið því ekki. 24 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti. 25 Sjá, ég hef sagt yður það fyrir. Ef þeir segja við yður: „Sjá, hann er í óbyggðum,“ þá farið ekki þangað. 26 Ef þeir segja: „Sjá, hann er í leynum,“ þá trúið því ekki. 28 Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins. 29 Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er.
--------------------------------------------------------
--------------------------------------------------------
29 En þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. 30 Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð. 31 Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.‘“
5 „En Jesús tók að segja þeim: ‚Varist að láta nokkurn leiða yður í villu. 6 Margir munu koma í mínu nafni og segja: „Það er ég!“ og marga munu þeir leiða í villu. 7 En þegar þér spyrjið hernað og ófriðartíðindi, þá skelfist ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.
8 Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verða landskjálftar á ýmsum stöðum og hungur. Þetta er upphaf fæðingarhríðanna.
9 Gætið að sjálfum yður. Menn munu draga yður fyrir dómstóla, í samkundum verðið þér húðstrýktir, og þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna, þeim til vitnisburðar. 10 En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið. 11 Þegar menn taka yður og draga fyrir rétt, hafið þá ekki fyrirfram áhyggjur af því, hvað þér eigið að segja, heldur talið það, sem yður verður gefið á þeirri stundu. Þér eruð ekki þeir sem tala, heldur heilagur andi. 12 Þá mun bróðir selja bróður í dauða og faðir barn sitt. Börn munu rísa gegn foreldrum og valda þeim dauða. 13 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.
--------------------------------------------------------
14 En þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar standa þar, er ekki skyldi — lesandinn athugi það — þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla. 15 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan og inn í húsið að sækja neitt. 16 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína. 17 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum. 18 Biðjið, að það verði ekki um vetur. 19 Á þeim dögum verður sú þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi sköpunar, er Guð skapaði, allt til þessa, og mun aldrei verða. 20 Ef [Jehóva] hefði ekki stytt þessa daga, kæmist enginn maður af. En hann hefur stytt þá vegna þeirra, sem hann hefur útvalið.
--------------------------------------------------------
21 Og ef einhver segir þá við yður: „Hér er Kristur,“ eða: „Þar,“ þá trúið því ekki. 22 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra tákn og undur til að leiða afvega hina útvöldu ef orðið gæti. 23 Verið varir um yður. Ég hef sagt yður allt fyrir.
--------------------------------------------------------
--------------------------------------------------------
24 En á þeim dögum, eftir þrenging þessa, mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. 25 Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. 26 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýjum með miklum mætti og dýrð. 27 Og hann mun senda út englana og safna sínum útvöldu úr áttunum fjórum, frá skautum jarðar til himinskauta.‘“
8 „Hann svaraði: ‚Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: „Það er ég!“ og „Tíminn er í nánd!“ Fylgið þeim ekki. 9 En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara, en endirinn kemur ekki samstundis.‘
10 Síðan sagði hann við þá: ‚Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, 11þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni.
12 En á undan öllu þessu munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, færa yður fyrir samkundur og í fangelsi og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns. 13 Þetta veitir yður tækifæri til vitnisburðar. 14 En festið það vel í huga að vera ekki fyrirfram að hugsa um, hvernig þér eigið að verjast, 15 því ég mun gefa yður orð og visku, sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið. 16 Jafnvel foreldrar og bræður, frændur og vinir munu framselja yður, og sumir yðar munu líflátnir. 17 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns, 18 en ekki mun týnast eitt hár á höfði yðar. 19 Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.
--------------------------------------------------------
20 En þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. 21 Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana. 22 Því þetta eru refsingardagar, þá er allt það rætist, sem ritað er. 23 Vei þeim, sem þungaðar eru, og þeim sem börn hafa á brjósti á þeim dögum, því að mikil neyð mun þá verða í landinu og reiði yfir lýð þessum. 24 Þeir munu falla fyrir sverðseggjum og herleiddir verða til allra þjóða,
--------------------------------------------------------
og Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.
--------------------------------------------------------
--------------------------------------------------------
25 Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. 26 Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast. 27 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. 28 En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.‘“
[Mynd á blaðsíðu 10]
Þrengingin árið 70 var mesta þrenging sem nokkru sinni kom yfir Jerúsalem og gyðingakerfið.