„Sjáumst í paradís!“
„Þú skalt vera með mér í paradís.“ – LÚK. 23:43, NW.
1, 2. Hvaða ólíku hugmyndir hefur fólk um paradís?
ÞETTA var tilfinningarík stund. Margir bræður og systur höfðu ferðast til Seúl í Suður-Kóreu til að sækja mót. Þegar þau voru að yfirgefa leikvanginn hópuðust í kringum þau trúsystkini. Mörg þeirra veifuðu og kölluðu: „Sjáumst í paradís!“ Hvaða paradís ætli þau hafi átt við?
2 Paradís hefur ólíka merkingu í hugum fólks. Sumir segja að paradís sé ímyndun. Aðrir segja að paradís sé hvar sem þeir upplifa gleði og ánægju í lífinu. Sársvöngum manni í veislu með fullt af kræsingum gæti fundist hann vera í paradís. Þegar ferðalangur nokkur á 19. öld kom í dal sem var þakinn villiblómum hrópaði hann upp yfir sig: „Hvílík paradís!“ Staðurinn nefnist enn Paradís, jafnvel þótt þar snjói yfir 15 metra á ári. Hvað er paradís í þínum augum? Vonarðu að hún komi?
3. Hvenær er fyrst talað um paradís í Biblíunni?
3 Biblían talar bæði um paradís sem var eitt sinn til og paradís sem er enn ókomin. Hugmyndin um paradís kemur snemma fram í Biblíunni. Í kaþólsku Douay-biblíunni, sem var þýdd úr latínu á ensku, segir í 1. Mósebók 2:8: „Frá upphafi plantaði Drottinn Guð paradís unaðarins. Þangað setti hann [Adam] sem hann hafði mótað.“ (Leturbreyting okkar.) Hebreski textinn talar um aldingarðinn Eden. Eden merkir „unaður“ og þessi garður var sannarlega unaðslegur. Þar var næga fæðu að finna, fallegt landslag og friður milli manna og dýra. – 1. Mós. 1:29-31.
4. Hvers vegna getum við kallað Edengarðinn paradís?
4 Hebreska orðið fyrir „garð“ er þýtt paraʹdeisos á grísku. Í alfræðibók eftir M’Clintock og Strong segir um paraʹdeisos: „Þegar grískur ferðamaður heyrði orðið sá hann fyrir sér stóran garð varinn gegn skemmdum, ósnortna náttúrufegurð með tignarlegum trjám sem bera mörg hver ávöxt og stórar hjarðir antilópna eða fjár ráfa um við bakka tærra lækja.“ – Samanber 1. Mósebók 2:15, 16.
5, 6. Hvernig glataðist paradís og hvaða spurningu vekur það?
5 Guð setti Adam og Evu í þess konar paradís. En þau voru þar ekki lengi. Hvers vegna? Þau misstu þann heiður þegar þau óhlýðnuðust Guði. Hvorki þau né afkomendur þeirra fengu að búa í paradísinni. (1. Mós. 3:23, 24) En þótt enginn hafi búið í þessum garði virðist vera að hann hafi verið til allt fram að flóðinu mikla á dögum Nóa.
6 Einhverjir gætu velt fyrir sér hvort nokkur maður, kona eða barn geti nokkurn tíma lifað í paradís á jörð. Hvað sýna staðreyndirnar fram á? Vonastu eftir að fá að lifa í paradís ásamt ástvinum þínum? Er sú von byggð á sterkum grunni? Geturðu útskýrt hvers vegna það er öruggt að paradís komi?
HVERNIG VITUM VIÐ AÐ PARADÍS KEMUR?
7, 8. (a) Hvaða loforð gaf Guð Abraham? (b) Um hvað ætli Abraham hafi hugsað þegar Guð gaf honum þetta loforð?
7 Það er rökrétt að svörin sé að finna í Biblíunni því að hún er innblásin af honum sem skapaði upprunalegu paradísina. Skoðum hvað Guð sagði við Abraham, vin sinn. Hann sagðist myndu gera afkomendur hans fjölmenna, „eins og sand á sjávarströnd“. Síðan gaf Jehóva þýðingarmikið loforð: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu.“ (Leturbreyting okkar; 1. Mós. 22:17, 18, Biblían 1981) Guð gaf einnig syni Abrahams og sonarsyni sama loforð. – Lestu 1. Mósebók 26:4; 28:14.
8 Í Biblíunni er ekkert sem bendir til þess að Abraham hafi staðið í þeirri trú að mennirnir fengju laun sín í paradís á himnum. Þegar Guð sagði að „allar þjóðir á jörðinni“ hlytu blessun hefur Abraham því hugsað um blessun á jörð. Guð gaf þetta loforð og það var fyrirheit um betra ástand fyrir „allar þjóðir á jörðinni“. En eru þetta einu rökin í Biblíunni fyrir því að paradís verði á jörð?
9, 10. Hvaða önnur loforð gefa okkur ástæðu til að ætla að paradís komi?
9 Davíð, einn afkomenda Abrahams, talaði um þann tíma þegar ,þeir sem illt vinna‘ og ,þeir sem ranglæti fremja‘ yrðu ekki lengur til. Hvað merkir það? ,Hinn óguðlegi verður horfinn.‘ (Sálm. 37:1, 2, 10) „En hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“ Davíð var einnig innblásið að spá: „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ (Sálm. 37:11, 29; 2. Sam. 23:2) Hvaða áhrif heldurðu að þessi loforð hafi haft á þá sem vildu gera vilja Guðs? Þeir höfðu góða ástæðu til að ætla að fyrst aðeins réttlátt fólk fengi að búa á jörðinni yrði hún með tímanum aftur að paradís eins og Edengarðurinn var.
10 Flestir Ísraelsmenn, sem sögðust þjóna Jehóva, sneru með tímanum baki við honum og sannri tilbeiðslu. Guð leyfði því Babýloníumönnum að vinna sigur á þjóðinni, leggja landið í eyði og hneppa marga íbúa þess í útlegð. (2. Kron. 36:15-21; Jer. 4:22-27) Spámenn Guðs sögðu hins vegar fyrir að 70 árum síðar myndi fólk hans snúa aftur til heimalands síns. Þessir spádómar rættust. En þeir hafa líka þýðingu fyrir okkur. Skoðum suma þeirra og höfum í huga það sem koma skal – paradís á jörð.
11. Hver var fyrri uppfylling spádómsins í Jesaja 11:6-9 og hverju gætum við velt fyrir okkur?
11 Lestu Jesaja 11:6-9. Fyrir milligöngu Jesaja sagði Guð fyrir að Ísraelsmenn myndu búa við friðsælar aðstæður eftir að þeir sneru heim. Þeir þyrftu ekki að óttast árásir dýra eða dýrslegra manna. Ungir sem aldnir yrðu óhultir. Minnir þetta ekki á aðstæðurnar í Edengarðinum? (Jes. 51:3) Spádómurinn í Jesaja sagði líka að allt landið – sem sagt öll jörðin, ekki aðeins Ísraelsþjóðin – yrði „fullt af þekkingu á Drottni eins og vatn hylur sjávardjúpið“. Hvenær mun það verða?
12. (a) Hvaða blessun hlutu þeir sem sneru heim úr útlegðinni í Babýlon? (b) Hvað gefur til kynna að spádómurinn í Jesaja 35:5-10 eigi eftir að rætast í enn ríkari mæli?
12 Lestu Jesaja 35:5-10. Jesaja leggur aftur áherslu á að Ísraelsmönnum myndi ekki stafa nein ógn af dýrum eða mönnum eftir að þeir sneru heim. Landið myndi gefa af sér ríkulegan ávöxt vegna þess að nóg yrði af vatni, rétt eins og í Edengarðinum. (1. Mós. 2:10-14; Jer. 31:12) Yrði það eina uppfyllingin? Ekkert bendir til þess að þeir sem sneru heim úr útlegðinni hafi læknast fyrir kraftaverk. Blindir fengu til að mynda ekki sjónina. Guð var því að gefa til kynna að bókstaflegar lækningar ættu enn eftir að eiga sér stað.
13, 14. Hvernig sáu fyrrverandi útlagarnir Jesaja 65:21-23 rætast og hvaða hluti spádómsins á enn eftir að verða að veruleika? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
13 Lestu Jesaja 65:21-23. Gyðingarnir sneru hvorki heim í þægileg hús né voru akrar og víngarðar tilbúnir til uppskeru. En það átti eftir að breytast því að Guð blessaði þá. Hugsaðu þér hve glaðir þeir hafa verið að reisa sín eigin hús og búa í þeim. Þeir gátu ræktað jörðina og gætt sér á ríkulegum ávexti hennar.
14 Tökum eftir mikilvægum þætti þessa spádóms. Mun sá tími koma að við ,náum aldri trjánna‘? Sum tré lifa um þúsundir ára. Mennirnir þyrftu að vera heilbrigðir til að geta náð svona háum aldri. Það yrði draumi líkast ef þeir gætu lifað við aðstæðurnar sem Jesaja lýsir, það yrði hrein paradís! Og þessi spádómur mun ræstast.
15. Hvaða margvíslegu blessun er sagt frá í Jesajabók?
15 Hugleiðum hvernig loforðin, sem við höfum rætt, sýna fram á að paradís muni koma. Guð mun blessa fólk um alla jörð. Enginn þarf að óttast dýr eða dýrslega menn. Blindir, heyrnarlausir og lamaðir fá lækningu. Fólk byggir sín eigin hús og hefur yndi af því að rækta næringarríkan mat. Það lifir lengur en trén. Biblían færir rök fyrir því að slík framtíð sé í vændum. Einhverjir gætu þó fullyrt að við lesum meira út úr þessum spádómum en góðu hófi gegnir. Hverju myndir þú svara? Hvaða áreiðanlegu rök hefurðu fyrir því að hlakka til raunverulegrar paradísar á jörð? Mesta mikilmenni sem lifað hefur gaf okkur traust rök fyrir því.
ÞÚ MUNT VERA Í PARADÍS!
16, 17. Við hvaða tækifæri talaði Jesús um paradís?
16 Jesús var dæmdur til dauða þótt saklaus væri og staurfestur milli tveggja glæpamanna af gyðingaættum. Annar þeirra viðurkenndi að Jesús væri konungur og bar fram eftirfarandi bón áður en hann dó: „Jesús, minnst þú mín þegar þú kemur í ríki þitt!“ (Lúk. 23:39-42) Svar Jesú í Lúkasi 23:43 varðar framtíð þína. Sumir nútímafræðimenn þýða versið orðrétt: „Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“ Tökum eftir orðunum „í dag“. Hvað átti Jesús við? Á því eru skiptar skoðanir.
17 Í mörgum málum nú til dags eru notuð greinarmerki svo sem kommur og tvípunktar til að afmarka eða skýra merkingu málsgreinar. En í elstu grísku handritunum, sem til eru, voru ekki alltaf notuð greinarmerki. Það vekur þá spurningu hvort Jesús hafi verið að segja: „Ég segi þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“ Eða: „Ég segi þér í dag: Þú skalt vera með mér í Paradís.“ Þýðendur eru ekki á einu máli um hvað Jesús hafi átt við og setja því ekki allir tvípunktinn á sama stað. Hægt er að finna báðar útgáfur í algengum biblíuútgáfum.
18, 19. Hvað hjálpar okkur að skilja það sem Jesús sagði?
18 En höfum í huga það sem Jesús hafði áður sagt fylgjendum sínum: „Mannssonurinn [mun] vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.“ Hann sagði líka: „Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur og þeir munu lífláta hann en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ (Matt. 12:40; 16:21; 17:22, 23; Mark. 10:34) Pétur postuli staðfestir að þetta hafi gerst. (Post. 10:39, 40) Jesús fór því ekki til neinnar paradísar daginn sem hann og glæpamaðurinn dóu. Jesús var nokkra daga í „helju“, það er að segja gröfinni eða Hades, áður en Guð reisti hann upp. – Post. 2:31, 32.a
19 Á þessu má sjá að áður en Jesús gaf glæpamanninum loforðið sagði hann: „Sannlega segi ég þér í dag.“ Það var algengt að taka svona til orða, jafnvel á dögum Móse en hann sagði eitt sinn: „Þessi orð, sem ég boða þér í dag, skulu vera þér hugföst.“ – 5. Mós. 6:6; 7:11; 8:1, 19.
20. Hvað styður það að skilningur okkar á orðum Jesú sé réttur?
20 Biblíuþýðandi frá Mið-Austurlöndum segir um orð Jesú: „Áherslan í textanum er á orðin ,í dag‘ og því ætti að standa: ,Sannlega segi ég þér í dag: Þú skalt vera með mér í Paradís.‘ Loforðið var gefið á þessum degi og átti að efna síðar. Þetta er algeng málhefð í Austurlöndum og gefur til kynna að loforðið var gefið á vissum degi og yrði sannarlega haldið.“ Þess vegna segir í sýrlenskri útgáfu frá fimmtu öld: „Amen, ég segi þér í dag að í Edengarðinum muntu með mér vera.“ Þetta loforð ætti að vera okkur öllum uppörvun.
21. Hvað varð ekki um glæpamanninn og hvers vegna?
21 Glæpamaðurinn vissi ekki að Jesús hafði gert sáttmála við trúfasta postula sína um að þeir skyldu vera með honum á himni. (Lúk. 22:29) Glæpamaðurinn hafði ekki einu sinni verið skírður. (Jóh. 3:3-6, 12) Það er því augljóst að hann hafði ekki verið valinn til að fara til himna. Loforð Jesú hlýtur því að eiga við um jarðneska paradís. Þó nokkrum árum síðar sagði Páll postuli frá sýn þar sem „maður var hrifinn upp í Paradís“. (2. Kor. 12:1-4) Ólíkt glæpamanninum voru Páll og hinir trúföstu postularnir valdir til að fara til himna og ríkja þar með Jesú. Páll talaði samt um paradís sem átti eftir að verða í framtíðinni.b Yrði hún á jörðinni? Færð þú að vera þar?
HVERS GETURÐU VÆNST?
22, 23. Hverju geturðu vonast eftir?
22 Höfum í huga að Davíð sá fyrir þann tíma þegar „réttlátir fá landið til eignar“. (Sálm. 37:29; 2. Pét. 3:13) Hann var að tala um tímann þegar fólk á jörðinni lifir í samræmi við réttláta vegi Guðs. Í spádóminum í Jesaja 65:22 segir: „Þjóð mín mun ná aldri trjánna.“ Það merkir að fólk muni lifa um þúsundir ára. Geturðu búist við því? Já, því að í Opinberunarbókinni 21:1-4 segir að Guð muni blessa mennina og ein blessunin verður sú að „dauðinn mun ekki framar til vera“.
23 Það er því augljóst hvað Biblían kennir. Adam og Eva misstu paradísina í Eden, en hún glataðist ekki að eilífu. Guð mun blessa fólk á jörðinni rétt eins og hann lofaði. Davíð var innblásið að skrifa að hinir hógværu og réttlátu myndu erfa jörðina og lifa á henni að eilífu. Spádómarnir í bók Jesaja gefa okkur ærna ástæðu til að hlakka til þess dásamlega tíma sem er fram undan. Hvenær verður það? Þegar það sem Jesús lofaði glæpamanninum rætist. Þú getur verið í þeirri paradís. Þá mun rætast það sem bræður og systur kölluðu á mótinu í Suður-Kóreu: „Sjáumst í paradís!“
a Prófessor Marvin Pate skrifaði: „Yfirleitt hefur verið talið að orðin ,í dag‘ vísi til sólarhrings. Vandamálið er að það stangast á við það sem Biblían segir annars staðar. Til dæmis segir að Jesús hafi fyrst ,stigið niður‘ í Hades eftir að hann dó (Matt. 12:40; Post. 2:31; Rómv. 10:7) og síðan stigið upp til himna.“
b Sjá „Spurningar frá lesendum“ í þessu tölublaði.