Höldum áfram að vera þakklát
„Hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.“ — SÁLMUR 139:17.
1, 2. Hvers vegna ættum við að meta orð Guðs mikils og hvernig lýsti sálmaritarinn þakklæti sínu?
ÞETTA var stórmerkur bókarfundur. Þegar verið var að gera við musteri Jehóva í Jerúsalem fann Hilkía æðstiprestur „lögmálsbók Drottins, er gefin var fyrir Móse“. Eflaust var þetta upprunalega eintakið sem ritað var um 800 árum áður. Geturðu ímyndað þér hvernig Jósía konungi, sem var guðhræddur maður, hlýtur að hafa liðið þegar honum var afhent bókin? Hann vissi að þetta var dýrgripur og lét Safan kanslara lesa upphátt úr henni þegar í stað. — 2. Kroníkubók 34:14-18.
2 Núna geta milljarðar manna lesið orð Guðs í heild eða að hluta. En þýðir það að Ritningin sé ekki eins verðmæt eða mikilvæg og áður? Að sjálfsögðu ekki. Í henni er að finna hugsanir hins almáttuga Guðs sem eru skráðar þar okkur til góðs. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Sálmaritarinn Davíð lét í ljós hvað honum fannst um orð Guðs. Hann skrifaði: „En hversu torskildar [„dýrmætar“, NW] eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.“ — Sálmur 139:17.
3. Hvað ber vott um að Davíð hafi verið mjög andlega sinnaður?
3 Davíð var alltaf jafn þakklátur fyrir að eiga Jehóva að Guði og fyrir orð hans og tilbeiðslufyrirkomulag. Hann orti marga fagra sálma sem lýsa tilfinningum hans. Í Sálmi 27:4 skrifaði hann til dæmis: „Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.“ Í forn-hebresku merkir orðasambandið, sem þýtt er ‚sökkva sér niður í‘, að íhuga lengi, grandskoða, að skoða með ánægju og aðdáun. Davíð var greinilega mjög andlega sinnaður, mat mikils allt sem Jehóva sá honum fyrir og drakk í sig andlegu sannindin sem hann fékk frá honum. Þakklæti hans er til fyrirmyndar. — Sálmur 19:8-12.
Verum þakklát fyrir að þekkja sannleika Biblíunnar
4. Hvers vegna varð Jesús „glaður í heilögum anda“?
4 Þekking á orði Guðs er ekki háð gáfum eða veraldlegri menntun sem ýtir oft undir hroka. Hún er háð óverskuldaðri góðvild Jehóva og hann veitir hana auðmjúkum og hjartahreinum mönnum sem eru meðvitaðir um andlega þörf sína. (Matteus 5:3, NW; 1. Jóhannesarbréf 5:20) Þegar Jesús leiddi hugann að þeirri staðreynd að nöfn sumra ófullkominna manna yrðu skráð á himnum „varð hann glaður í heilögum anda og sagði: ‚Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum.‘“ — Lúkas 10:17-21.
5. Af hverju áttu lærsveinar Jesú ekki að líta á það sem sjálfsagðan hlut að þekkja sannleikann um ríki Guðs?
5 Eftir að hafa beðið þessarar innilegu bænar sneri Jesús sér að lærisveinunum og sagði: „Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið. Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.“ Já, Jesús hvatti trúfasta fylgjendur sína til að líta ekki á það sem sjálfsagðan hlut að þekkja dýrmæt sannindi um ríki Guðs. Þessi sannindi voru ekki opinberuð þjónum Guðs fyrr á tímum og þau voru alls ekki opinberuð „spekingum og hyggindamönnum“ á dögum Jesú. — Lúkas 10:23, 24.
6, 7. (a) Hvaða ástæður höfum við til að vera þakklát fyrir sannleikann sem Jehóva hefur opinberað? (b) Hvaða mun sjáum við á sannri trú og falskri?
6 Núna höfum við enn ríkari ástæðu til að vera þakklát fyrir sannleikann sem Jehóva hefur opinberað. Hann hefur gefið fólki sínu dýpri þekkingu á orði sínu fyrir milligöngu hins ‚trúa og hyggna þjóns‘. (Matteus 24:45; Daníel 12:10) Daníel spámaður skrifaði um tíma endalokanna: „Margir munu rannsaka [orð Guðs], og þekkingin mun vaxa.“ (Daníel 12:4) Ertu ekki sammála því að þekking á Guði hefur vaxið og að þjónar hans eru vel nærðir andlega?
7 Við sjáum gríðarlegan mun á andlegri velsæld þjóna Guðs og trúarglundroða Babýlonar hinnar miklu. Margir eru þar af leiðandi vonsviknir með falstrúarbrögðin, þeir hafa fengið óbeit á þeim og snúa sér til sannrar trúar. Þetta er auðmjúkt fólk sem vill hvorki eiga „hlut í syndum“ Babýlonar hinnar miklu né hreppa „plágur hennar“. Jehóva og þjónar hans bjóða öllu slíku fólki að koma inn í hinn sannkristna söfnuð. — Opinberunarbókin 18:2-4; 22:17.
Þakklátir menn streyma til Guðs
8, 9. Hvernig uppfyllast orðin í Haggaí 2:7 nú á tímum?
8 Jehóva sagði um andlegt musteri sitt: „Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð.“ (Haggaí 2:7) Þessi merkilegi spádómur rættist á dögum Haggaí þegar heimkomnir Gyðingar endurbyggðu musterið í Jerúsalem. Núna hljóta orð Haggaí frekari uppfyllingu í tengslum við hið mikla andlega musteri Jehóva.
9 Milljónir manna hafa nú þegar komið til þessa táknræna musteris til að tilbiðja Guð „í anda og sannleika“ og á hverju ári streyma þangað „gersemar allra þjóða“ í hundraða þúsunda tali. (Jóhannes 4:23, 24) Í ársskýrslunni fyrir þjónustuárið 2006 má til dæmis sjá að 248.327 létu skírast til tákns um að þeir væru vígðir Jehóva. Það eru að meðaltali 680 nýir á hverjum degi. Þeir elska sannleikann og þrá að þjóna Jehóva sem boðberar fagnaðarerindisins og það ber vott um að hann hafi dregið þá til sín. — Jóhannes 6:44, 65.
10, 11. Endursegðu frásögu af hjónum sem lærðu að meta sannleika Biblíunnar.
10 Margir þessara hjartahreinu manna löðuðust að sannleikanum því að þeir sáu „þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem Guði þjónar, og hins, sem ekki þjónar honum“. (Malakí 3:18) Hjónin Wayne og Virginia eru dæmi um þetta. Þau tilheyrðu mótmælendakirkju en höfðu aldrei fengið svör við mörgum af spurningum sínum. Þau höfðu andstyggð á styrjöldum og mislíkaði það þegar þau sáu presta blessa hermenn og vopn. Þegar aldurinn færðist yfir þau fannst þeim aðrir í kirkjunni sýna sér afskiptaleysi þótt Virginia hefði kennt í sunnudagaskólanum árum saman. „Enginn heimsótti okkur né lét sig varða um andlega velferð okkar,“ sögðu þau. „Kirkjan vildi bara fá peninga. Við vorum ráðvillt.“ Og þau urðu fyrir enn meiri vonbrigðum þegar kirkjan tók upp frjálslynda stefnu gagnvart samkynhneigð.
11 Nú gerðist það að barnabarn þeirra varð vottur Jehóva og síðar meir dóttir þeirra. Þótt Wayne og Virginia hafi í fyrstu verið ósátt við það skiptu þau seinna um skoðun og þáðu biblíunámskeið. „Á aðeins þremur mánuðum,“ sagði Wayne, „fengum við að vita meira um Biblíuna en á undangegnum 70 árum. Við höfðum aldrei heyrt að Guð héti Jehóva og vissum ekkert um Guðsríki eða paradís á jörð.“ Áður en langt um leið fóru þessi einlægu hjón að sækja samkomur og fara í boðunarstarfið. „Við viljum segja öllum frá sannleikanum,“ segir Virginia. Þegar þau létu skírast árið 2005 voru þau bæði komin á níræðisaldur. „Við höfum fundið sannkristinn söfnuð þar sem við eigum heima,“ segja þau.
Hæf til sérhvers góðs verks
12. Hvernig hjálpar Jehóva þjónum sínum alltaf og hvað verðum við að gera til að njóta góðs af því?
12 Jehóva hjálpar þjónum sínum alltaf að gera vilja sinn. Nói fékk til dæmis skýr og nákvæm fyrirmæli um hvernig hann ætti að smíða örkina. Það þurfti að takast í fyrstu tilraun og það tókst. Af hverju? Af því að „Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ (1. Mósebók 6:14-22) Nú á dögum gefur Jehóva þjónum sínum einnig allt sem þeir þurfa til að gera vilja hans. Helsta verkefni okkar er að sjálfsögðu að prédika fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs og hjálpa verðugum að gerast lærisveinar Jesú Krists. Og eins og á dögum Nóa veltur árangurinn á því að við séum hlýðin. Við verðum að fylgja fúslega þeim leiðbeiningum sem Jehóva veitir fyrir milligöngu orðs síns og safnaðar. — Matteus 24:14; 28:19, 20.
13. Hvernig kennir Jehóva okkur?
13 Til að geta sinnt þessu starfi verðum við að læra að fara rétt með helsta verkfæri okkar, Biblíuna, sem er „nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks“. (2. Tímóteusarbréf 2:15; 3:16, 17) Jehóva notar söfnuðinn til að veita okkur mikilvæga kennslu eins og hann gerði á fyrstu öldinni. Í 99.770 söfnuðum um allan heim er Boðunarskólinn og þjónustusamkoman haldin í hverri viku til að hjálpa okkur í boðunarstarfinu. Sýnirðu að þú sért þakklátur fyrir þessar mikilvægu samkomur með því að sækja þær að staðaldri og fara eftir því sem þú lærir? — Hebreabréfið 10:24, 25.
14. Hvernig sýna þjónar Jehóva þakklæti sitt fyrir þann heiður að fá að þjóna Guði? (Takið með upplýsingar úr ársskýrslunni sem er að finna í Varðturninum (á ensku) 1. febrúar 2007, bls. 27-30.)
14 Milljónir þjóna Guðs um allan heim sýna þakklæti sitt fyrir þá kennslu sem þeir fá með því að leggja sig alla fram í boðunarstarfinu. Sem dæmi má nefna að á þjónustuárinu 2006 notuðu 6.741.444 boðberar 1.333.966.199 klukkustundir í öllum greinum boðunarstarfsins, þar á meðal til að halda 6.286.618 biblíunámskeið. Þetta eru aðeins nokkrar af þeim uppörvandi tölum sem finna má í ársskýrslunni. Bræður okkar á fyrstu öldinni fengu örugglega mikinn styrk af því að heyra fregnir af framgangi boðunarstarfsins á sínum tíma. Við hvetjum þig til að skoða ársskýrsluna vandlega þér til hvatningar. — Postulasagan 1:15; 2:5-11, 41, 47; 4:4; 6:7.
15. Af hverju ætti enginn, sem þjónar Jehóva heilshugar, að vera óánægður með þjónustu sína?
15 Sú mikla lofgjörð, sem stígur upp til Jehóva Guðs ár hvert, er merki um það hve þakklátir þjónar hans eru fyrir að mega þekkja hann og vitna um hann. (Jesaja 43:10) Lofgerðarfórn sumra af öldruðum eða veikum trúsystkinum okkar er að vísu sambærileg við framlag fátæku ekkjunnar. En við skulum ekki gleyma því að Jehóva og sonur hans kunna að meta alla þá sem þjóna Jehóva heilshugar og gera sitt besta. — Lúkas 21:1-4; Galatabréfið 6:4.
16. Hvaða kennslugögnum hefur Jehóva séð okkur fyrir á undanförnum árum?
16 Auk þess að þjálfa okkur fyrir boðunarstarfið veitir Jehóva okkur frábær kennslugögn fyrir milligöngu safnaðarins. Á undanförnum áratugum höfum við meðal annars fengið bækurnar Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs, Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, Þekking sem leiðir til eilífs lífs og nú síðast bókina Hvað kennir Biblían? Þeir sem kunna að meta þessi hjálpargögn nota þau vel í boðunarstarfinu.
Notaðu vel bókina Hvað kennir Biblían?
17, 18. (a) Hvaða kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? notar þú gjarnan í boðunarstarfinu? (b) Hvað sagði farandhirðir nokkur um bókina?
17 Bókin Hvað kennir Biblían? hefur reynst mikil lyftistöng fyrir boðunarstarfið. Í henni eru 19 kaflar ásamt ítarlegum viðauka og hún er skrifuð á skýru og einföldu máli. Í 12. kafla er til dæmis rætt um líferni sem gleður Guð. Þar er útskýrt fyrir nemandanum hvernig hann geti öðlast vináttu Guðs, en það hafa margir ekki ímyndað sé að væri hægt. (Jakobsbréfið 2:23) Hvaða viðtökur hefur þetta biblíunámsrit fengið?
18 Farandhirðir í Ástralíu segir að bókin „virki mjög aðlaðandi á fólk og dragi húsráðendur strax inn í umræðurnar“. Hann segir einnig að bókin sé svo einföld í notkun að hún „hafi gefið mörgum boðberum aukið sjálfsöryggi og gleði í boðunarstarfinu. Það er ekki að undra að margir skuli kalla hana gullmolann.“
19-21. Endursegðu nokkrar frásögur sem draga fram gildi bókarinnar Hvað kennir Biblían?
19 „Guð hlýtur að hafa sent þig,“ sagði kona í Gvæjana við brautryðjanda sem heimsótti hana. Sambýlismaður konunnar hafði nýlega farið frá henni og tveim ungum börnum þeirra. Brautryðjandinn fletti upp á 1. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? og las upp 11. greinina undir fyrirsögninni „Hvað finnst Guði um ranglætið sem við megum þola?“ „Efnið snerti konuna djúpt,“ sagði brautryðjandinn. „Hún þurfti meira að segja að standa upp og fara baka til í búðinni sinni þar sem hún hágrét.“ Hún þáði boð um biblíunámskeið með systur á staðnum og tekur góðum framförum.
20 José, sem býr á Spáni, missti konuna sína í bílslysi. Hann fór að nota eiturlyf sér til huggunar og leitaði einnig til sálfræðinga. En sálfræðingarnir gátu ekki svarað spurningunni sem hvíldi þyngst á honum: „Hvers vegna leyfði Guð að konan mín dæi?“ Dag nokkur hitti hann Francesc sem vann hjá sama fyrirtæki og hann. Francesc stakk upp á því að þeir færu yfir 11. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? en hann nefnist „Af hverju leyfir Guð þjáningar?“ Útskýringar Biblíunnar og dæmið um kennarann og nemandann hafði sterk áhrif á José. Hann fór að kynna sér Biblíuna af alvöru, kom á svæðismót og sækir nú samkomur í ríkissalnum.
21 Roman er fertugur kaupsýslumaður í Póllandi og hefur alltaf borið virðingu fyrir orði Guðs. En þar sem hann var mjög upptekinn af vinnunni tók hann ekki svo miklum framförum í biblíunámi sínu. Hann kom samt á umdæmismót og fékk eintak af bókinni Hvað kennir Biblían? Eftir það varð mikil breyting til batnaðar. Hann segir: „Þegar maður les þessa bók virðast allar grundvallarkenningar Biblíunnar smella saman og mynda eina heildarmynd rétt eins og í púsluspili.“ Roman er nú í reglubundnu biblíunámi og tekur góðum framförum.
Höldum áfram að vera þakklát
22, 23. Hvernig getum við haldið áfram að vera þakklát fyrir vonina sem við höfum?
22 Eins og fram kom á umdæmismótunum „Lausnin er í nánd“ þrá sannkristnir menn hina ‚eilífu lausn‘ sem Guð hefur lofað þeim og er möguleg vegna úthellts blóðs Jesú Krists. Besta leiðin til að sýna innilegt þakklæti okkar fyrir þessa stórkostlegu von er að hreinsa okkur „frá dauðum verkum, til að þjóna Guði lifanda“. — Hebreabréfið 9:12, 14.
23 Já, það er sannarlega kraftaverk að rúmlega sex milljónir boðbera fagnaðarerindisins skuli halda trúfastlega áfram í þjónustu Guðs þar sem eigingirnin í heiminum er allsráðandi. Það er einnig sönnun þess að vottar Guðs séu afar þakklátir fyrir að mega þjóna honum því að þeir vita að erfiði þeirra „er ekki árangurslaust í Drottni“. Höldum alltaf áfram að vera þakklát. — 1. Korintubréf 15:58; Sálmur 110:3.
Hvert er svarið?
• Hvernig er þakklæti sálmaritarans okkur til fyrirmyndar?
• Hvernig rætast orðin í Haggaí 2:7 nú á dögum?
• Hvað hefur Jehóva gefið vottum sínum svo að þeir geti þjónað honum sem best?
• Hvernig geturðu sýnt að þú sért þakklátur fyrir gæsku Jehóva?
[Myndir á blaðsíðu 31]
Jehóva veitir okkur allt sem við þurfum til að gera vilja hans.