Jehóva er þakklátur Guð
„Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans.“ — HEBREABRÉFIÐ 6:10.
1. Hvernig sýndi Jehóva að hann mat Rut hina móabísku mikils?
JEHÓVA kann að meta viðleitni þeirra sem leitast einlæglega við að gera vilja hans og hann umbunar þeim ríkulega. (Hebreabréfið 11:6) Hinn trúfasti Bóas þekkti þessa fögru hlið á persónuleika Guðs. Hann sagði við Rut hina móabísku sem annaðist tengdamóður sína, ekkjuna Naomí: „Drottinn umbuni verk þitt, og laun þín verði fullkomin, er þú hlýtur af Drottni.“ (Rutarbók 2:12) Umbunaði Guð Rut? Já, svo sannarlega. Saga hennar er jafnvel sögð í Biblíunni. Auk þess giftist hún Bóasi og varð bæði formóðir Davíðs konungs og Jesú Krists. (Rutarbók 4:13, 17; Matteus 1:5, 6, 16) Þetta dæmi í Biblíunni er aðeins eitt af mörgum sem sýnir að Jehóva er þakklátur Guð.
2, 3. (a) Af hverju er eftirtektarvert að Jehóva skuli sýna þjónum sínum þakklæti? (b) Hvers vegna er Jehóva innilega þakklátur? Lýstu með dæmi.
2 Jehóva áliti það ranglátt að meta ekki þjóna sína að verðleikum. Í Hebreabréfinu 6:10 segir: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.“ Það er eftirtektarvert að Guð sýnir dyggum þjónum sínum þakklæti þótt þeir séu syndugir og þá skorti dýrð hans. — Rómverjabréfið 3:23.
3 Þar sem við erum ófullkomin finnst okkur kannski að það sem við gerum í þjónustu Guðs sé ósköp lítilfjörlegt og verðskuldi ekki blessun hans. En Jehóva þekkir hvatir okkar og aðstæður og metur mikils heilshugar þjónustu okkar. (Matteus 22:37) Lýsum þessu með dæmi: Móðir finnur gjöf á eldhúsborðinu. Þetta er ódýr hálsfesti. Henni gæti fundist gjöfin ómerkileg og ýtt henni til hliðar. En af meðfylgjandi korti má sjá að gjöfin er frá litlu stúlkunni hennar sem notaði allt spariféð sitt til að kaupa hana. Nú sér móðirin gjöfina í nýju ljósi. Hún faðmar dóttur sína með tárin í augunum og þakkar henni innilega fyrir.
4, 5. Hvernig sýndi Jesús þakklæti líkt og faðir hans?
4 Þar sem Jehóva þekkir hvatir okkar og takmörk metur hann það mikils þegar við gefum honum okkar besta, hvort sem það er mikið eða lítið. Jesús endurspeglaði föður sinn fullkomlega að þessu leyti. Þú þekkir eflaust biblíufrásöguna af fátæku ekkjunni. Í Lúkasi 21:1-4 segir: „Þá leit [Jesús] upp og sá auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna. Hann sá og ekkju eina fátæka leggja þar tvo smápeninga. Þá sagði hann: ‚Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir. Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína.‘“
5 Já, Jesús þekkti aðstæður konunnar. Hann vissi að hún var fátæk ekkja og skildi hve mikils virði gjöfin var. Hann var djúpt snortinn. Hið sama er að segja um Jehóva. (Jóhannes 14:9) Finnst þér ekki hughreystandi að vita að þú getur öðlast velþóknun Guðs og sonar hans, hverjar sem aðstæður þínar eru?
Jehóva umbunar guðhræddum manni
6, 7. Hvernig og hvers vegna sýndi Jehóva Ebed-Melek þakklæti sitt?
6 Í Ritningunni sjáum við aftur og aftur að Jehóva umbunar þeim sem gera vilja hans. Tökum sem dæmi samskipti hans við guðhræddan mann frá Eþíópíu að nafni Ebed-Melek. Hann var samtímamaður Jeremía og þjónn í höll hins ótrúa Sedekía Júdakonungs. Ebed-Melek komst að því að höfðingjarnir í Júda höfðu ranglega sakað Jeremía spámann um undirróður og varpað honum í gryfju þar sem hann myndi svelta til bana. (Jeremía 38:1-7) Ebed-Melek vissi að menn hötuðu Jeremía vegna boðskaparins sem hann flutti og hætti því lífi sínu með því að ganga fram fyrir konunginn. Hann sagði hugrakkur: „Minn herra konungur! Illverk hafa þessir menn framið með öllu því, er þeir hafa gjört við Jeremía spámann, sem þeir köstuðu í gryfjuna, svo að hann hlýtur að deyja þar úr hungri.“ Að boði konungs tók Ebed-Melek með sér 30 menn og bjargaði spámanni Guðs. — Jeremía 38:8-13.
7 Jehóva sá að Ebed-Melek hafði sterka trú og hún hjálpaði honum að sigrast á hverjum þeim ótta sem kann að hafa leitað á hann. Jehóva sýndi þakklæti sitt og sagði við Ebed-Melek fyrir milligöngu Jeremía: „Sjá, ég læt orð mín um ógæfu, en eigi um hamingju, koma fram á þessari borg. . . . En ég skal frelsa þig á þeim degi . . . og þú skalt ekki seldur verða á vald mönnum þeim, er þú hræðist, heldur skal ég láta þig komast undan . . . og þú skalt hljóta líf þitt að herfangi, af því að þú hefir treyst mér.“ (Jeremía 39:16-18) Jehóva frelsaði Ebed-Melek og Jeremía frá illum höfðingjum Júda og síðar frá Babýloníumönnum sem jöfnuðu Jerúsalem við jörðu. Jehóva „verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra,“ segir í Sálmi 97:10.
„Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér“
8, 9. Hvers konar bænir metur Jehóva mikils eins og sjá má af fordæmi Jesú?
8 Það sem Biblían segir um bænina er annað merki þess að Jehóva sé þakklátur fyrir guðrækni okkar og kunni að meta hana. „Bæn hreinskilinna er honum þóknanleg,“ sagði vitur maður til forna. (Orðskviðirnir 15:8) Á dögum Jesú báðust margir trúarleiðtogar fyrir á almannafæri. Þeir gerðu það ekki af einlægri guðrækni heldur til að sýnast fyrir mönnum. „Þeir hafa tekið út laun sín,“ sagði Jesús. Síðan sagði hann fylgjendum sínum: „Nær þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.“ — Matteus 6:5, 6.
9 Jesús var að sjálfsögðu ekki að fordæma það að biðjast fyrir opinberlega. Stundum gerði hann það sjálfur. (Lúkas 9:16) Jehóva metur það mikils þegar við biðjum til hans af einlægu hjarta án þess að það hvarfli að okkur að sýnast fyrir öðrum. Einkabænir okkar eru meira að segja góð vísbending um traust okkar til Guðs og hve heitt við elskum hann. Það kemur því ekki á óvart að Jesús hafi oft leitað uppi afvikna staði til að biðjast fyrir. Einu sinni gerði hann það „árla, löngu fyrir dögun“. Við annað tækifæri „gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi“. Og áður en hann valdi postulana 12 var hann einn alla nóttina á bæn til Guðs. — Markús 1:35; Matteus 14:23; Lúkas 6:12, 13.
10. Um hvað getum við verið viss þegar bænir okkar vitna um einlægni og sterkar tilfinningar?
10 Ímyndaðu þér hve vandlega Jehóva hlýtur að hafa hlýtt á innilegar bænir sonar síns. Stundum baðst Jesús fyrir „með sárum kveinstöfum og táraföllum . . . og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar“. (Hebreabréfið 5:7; Lúkas 22:41-44) Þegar bænir okkar vitna um slíka einlægni og sterkar tilfinningar getum við verið viss um að faðirinn á himnum hlustar vel á þær og kann að meta þær. Já, Jehóva er „nálægur . . . öllum sem ákalla hann í einlægni“. — Sálmur 145:18.
11. Hvað finnst Jehóva um það sem við gerum þegar við erum ein?
11 Fyrst Jehóva er þakklátur þegar við biðjum til hans í einrúmi hlýtur hann að vera þakklátur þegar við hlýðum honum þótt enginn sjái til. Jehóva veit hvað við gerum þegar við erum ein. (1. Pétursbréf 3:12) Ef við erum trúföst og hlýðin þótt enginn sjái til er það gott merki um að við þjónum Guði „af öllu hjarta“, hjarta sem hefur hreinar hvatir og er einbeitt í því að gera það sem er rétt. (1. Kroníkubók 28:9) Með slíkri hegðun gleðjum við hjarta Jehóva. — Orðskviðirnir 27:11; 1. Jóhannesarbréf 3:22.
12, 13. Hvernig getum við verndað hugann og hjartað og verið eins og lærisveinninn Natanael?
12 Trúfastir kristnir menn gæta þess þar af leiðandi að syndga ekki í laumi, til dæmis með því að horfa á klám og ofbeldi, því að það spillir huganum og hjartanu. Þótt hægt sé að fela sumar syndir fyrir mönnum vitum við að „allt er bert og öndvert augum [Guðs]. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.“ (Hebreabréfið 4:13; Lúkas 8:17) Ef við leggjum okkur fram um að forðast allt sem er Jehóva vanþóknanlegt njótum við þess að hafa hreina samvisku og vitum að við höfum velþóknun hans. Það leikur enginn vafi á því að Jehóva metur mikils þann sem „fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta“. — Sálmur 15:1, 2.
13 En hvernig getum við verndað hugann og hjartað í heimi sem er gegnsýrður illsku? (Orðskviðirnir 4:23; Efesusbréfið 2:2) Auk þess að nýta okkur að fullu andlegu fæðuna sem Jehóva sér okkur fyrir verðum við að gera allt sem við getum til að forðast illt og gera gott. Við verðum að bregðast skjótt við svo að óviðeigandi langanir festi ekki rætur og verði til þess að við syndgum. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Yrðirðu ekki ánægður ef Jesús myndi segja um þig eins og hann sagði um Natanael: „Hér er sannur [maður], sem engin svik eru í“? (Jóhannes 1:47) Natanael, einnig nefndur Bartólómeus, hlaut síðar þann heiður að verða einn af 12 postulum Jesú. — Markús 3:16-19.
„Miskunnsamur og trúr æðsti prestur“
14. Hvernig brást Jesús við því sem María gerði, ólíkt viðbrögðum annarra?
14 Jesús var „ímynd hins ósýnilega Guðs“ og líkti alltaf fullkomlega eftir honum með því að meta að verðleikum þá sem þjóna Guði af hreinu hjarta. (Kólossubréfið 1:15) Tökum dæmi. Fimm dögum áður en Jesús lagði líf sitt í sölurnar voru hann og sumir lærisveinanna gestir á heimili Símonar í Betaníu. Um kvöldið tók María, systir Mörtu og Lasarusar, „pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum“ (jafnvirði heilla árslauna) og hellti á höfuð og fætur Jesú. (Jóhannes 12:3) „Til hvers er þessi sóun?“ spurðu sumir. En Jesú sá það sem María gerði í allt öðru ljósi. Hann leit á þetta sem merki um örlæti og fannst það mjög þýðingarmikið þar sem stutt var í dauða hans og greftrun. Í stað þess að gagnrýna Maríu heiðraði hann hana. Hann sagði: „Hvar sem fagnaðarerindi þetta verður flutt, um heim allan, mun þess og getið verða, sem hún gjörði, til minningar um hana.“ — Matteus 26:6-13.
15, 16. Hvernig er það okkur til góðs að Jesús skuli hafa þjónað á jörðinni sem maður?
15 Við ættum að meta það mikils að eiga okkur leiðtoga sem er svona þakklátur að eðlisfari. Líf Jesú hér á jörðinni bjó hann undir það starf sem Jehóva ætlaði honum, að þjóna fyrst sem æðsti prestur og konungur yfir söfnuði hinna andasmurðu og síðar yfir heiminum. — Kólossubréfið 1:13; Hebreabréfið 7:26; Opinberunarbókin 11:15.
16 Jesús hafði mikinn áhuga á mönnunum og þótti afar vænt um þá jafnvel áður en hann kom til jarðar. (Orðskviðirnir 8:31) Þegar hann bjó á jörðinni sem maður kynntist hann betur þeim erfiðleikum sem við verðum fyrir í þjónustunni við Guð. Páll postuli sagði að Jesús ætti „í öllum greinum . . . að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur“. Páll heldur áfram: „Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.“ Jesús getur „séð aumur á veikleika vorum,“ því að hans hefur verið freistað „á allan hátt eins og vor, en án syndar“. — Hebreabréfið 2:17, 18; 4:15, 16.
17, 18. (a) Hvernig má sjá af bréfunum til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu að Jesús skildi fullkomlega aðstæður fylgjenda sinna? (b) Undir hvað var verið að búa þessa andasmurðu kristnu menn?
17 Eftir að Jesús var reistur upp frá dauðum mátti augljóslega sjá að hann skildi þær raunir sem lærisveinar hans gengu í gegnum. Tökum sem dæmi bréf hans til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu sem Jóhannes postuli skrifaði. Jesús sagði við söfnuðinn í Smyrnu: „Ég þekki þrengingu þína og fátækt.“ Jesús var í rauninni að segja: „Ég skil vandamál ykkar fyllilega og veit hvað þið eruð að ganga í gegnum.“ Síðan bætti hann við fullur samúðar og í krafti þess valds sem hann hafði fengið með staðfestu sinni til dauðadags: „Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ — Opinberunarbókin 2:8-10.
18 Í bréfunum til safnaðanna sjö er fjöldi dæma sem sýna að Jesú var fullkunnugt um prófraunir lærisveina sinna og að hann mat mikils ráðvendni þeirra. (Opinberunarbókin 2:1–3:22) Hafðu hugfast að hér var Jesús að ávarpa andasmurða kristna menn sem áttu von um að ríkja með honum á himnum. Á sama hátt og Drottinn þeirra hafði verið undirbúinn var verið að undirbúa þá undir það háleita verkefni sem beið þeirra. Þeir áttu af mikilli miskunnsemi að aðstoða við að miðla blessuninni af lausnarfórn Krists til þjáðs mannkyns. — Opinberunarbókin 5:9, 10; 22:1-5.
19, 20. Hvernig sýnir hinn mikli múgur Jehóva og syni hans þakklæti sitt?
19 Kærleikur Jesú til andasmurðra fylgjenda sinna nær að sjálfsögðu einnig til trúfastra manna af öðrum sauðum. Milljónir manna af öllum þjóðum tilheyra þessum ‚mikla múgi‘ og munu lifa af ‚þrenginguna miklu‘. (Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9, 14) Þeir streyma til Jesú, þakklátir fyrir lausnarfórn hans og vonina um eilíft líf. Hvernig sýna þeir þakklæti sitt? Með því að „þjóna [Guði] dag og nótt“. — Opinberunarbókin 7:15-17.
20 Í ársskýrslunni fyrir þjónustuárið 2006 má greinilega sjá að þessir trúföstu menn þjóna Guði sannarlega dag og nótt.a Á þessu eina ári hafa þeir, ásamt fámennum hópi andasmurðra kristinna manna, notað alls 1.333.966.199 klukkustundir í boðunarstarfinu, sem samsvarar meira en 150.000 árum.
Höldum áfram að sýna þakklæti
21, 22. (a) Hvers vegna verða kristnir menn nú á dögum að vera sérstaklega meðvitaðir um að sýna þakklæti? (b) Um hvað verður rætt í næstu grein?
21 Í samskiptum við ófullkomna menn hafa Jehóva og sonur hans sýnt einstakt þakklæti sem snertir okkur djúpt. En því miður gefa fæstir nokkurn gaum að Guði heldur beina athyglinni að eigin hugðarefnum. Páll postuli lýsti fólkinu á „síðustu dögum“ með þessum orðum: „Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, . . . vanþakklátir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Gerólíkt þeim sýna sannkristnir menn þakklæti sitt fyrir allt sem Jehóva hefur gert fyrir þá með því að biðja innilega til hans, hlýða honum fúslega og þjóna honum af heilum huga. — Sálmur 62:9; Markús 12:30; 1. Jóhannesarbréf 5:3.
22 Í næstu grein ræðum við um nokkrar af þeim mörgu andlegu gjöfum sem Jehóva hefur í kærleika sínum gefið okkur. Megi þakklæti okkar dýpka enn frekar þegar við leiðum hugann að þessum ‚góðu gjöfum‘.— Jakobsbréfið 1:17.
[Neðanmáls]
a Ársskýrsluna er að finna í Varðturninum (á ensku) 1. febrúar 2007, bls. 27-30.
Hvert er svarið?
• Hvernig hefur Jehóva sýnt að hann er þakklátur Guð?
• Hvernig getum við glatt hjarta Jehóva þegar aðrir sjá ekki til?
• Hvernig sýndi Jesús þakklæti?
• Hvernig hjálpaði jarðvist Jesú honum að verða samúðarfullur og þakklátur stjórnandi?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Jehóva er eins og ástríkt foreldri og metur það mikils þegar við gefum honum það besta sem við eigum.