„Varist alla ágirnd“
„Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ — LÚKAS 12:15.
1, 2. (a) Á hvað leggja margir mikla áherslu nú á dögum? (b) Hvaða áhrif getur þetta haft á okkur?
PENINGAR, eignir, upphefð, vel launað starf og fjölskylda. Flestir telja þetta vera mælikvarða á velgengni eða tryggingu fyrir öruggri framtíð. Ljóst er að margir, jafnt í ríkum löndum sem fátækum, leggja mikla áherslu á efnisleg gæði og velgengni. Áhugi þeirra á andlegum málum — ef hann er þá einhver — er hins vegar á hröðu undanhaldi.
2 Þessu var spáð í Biblíunni. Hún segir: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, . . . elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þjónar Guðs búa meðal fólks sem hugsar svona og eru því undir stöðugum þrýstingi í þá átt að samlagast þessum hugsunarhætti og þessu líferni. Hvernig getum við staðið gegn tilraunum heimsins til að ‚þröngva okkur í sitt mót‘? — Rómverjabréfið 12:2, J. B. Phillips, The New Testament in Modern English.
3. Hvaða ráðleggingar Jesú ætlum við að skoða betur?
3 Jesús, sem er ‚höfundur og fullkomnari trúarinnar‘, kenndi okkur mikilvæg sannindi á þessu sviði. (Hebreabréfið 12:2) Eitt sinn var hann að tala við mannfjöldann og fræða hann um andleg sannindi. Þá greip maður nokkur fram í fyrir honum og bað hann: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“ Með svari sínu veitti Jesús manninum — og öllum viðstöddum — mikilvægar ábendingar. Hann varaði sterklega við ágirnd og sagði síðan athyglisverða dæmisögu til að undirstrika orð sín. Við ættum að gefa alvarlegan gaum að því sem Jesús sagði við þetta tækifæri og kanna hvernig það getur verið okkur til góðs að fara eftir því. — Lúkas 12:13-21.
Óviðeigandi beiðni
4. Hvers vegna var óviðeigandi að maðurinn skyldi grípa fram í fyrir Jesú?
4 Áður en maðurinn greip fram í var Jesús að tala við lærisveinana og aðra um að forðast hræsni, hafa hugrekki til að játa trú á mannssoninn og um hjálp heilags anda. (Lúkas 12:1-12) Þetta eru mikilvæg mál sem lærisveinarnir þurftu að taka alvarlega. Jesús var að ræða þessi athyglisverðu viðfangsefni þegar maðurinn greip skyndilega fram í og bað Jesú um að skera úr máli fjölskyldu sinnar sem virðist hafa átt í deilu um arf og eignir. Við getum hins vegar dregið mikilvægan lærdóm af þessum atburði.
5. Hvað bar beiðni mannsins með sér?
5 Í biblíuskýringarriti segir að „oft megi fá vísbendingu um eðli manna af því í hvaða átt hugsanir þeirra beinast þegar þeir hlusta á trúarlega fræðslu“. Meðan Jesús var að tala um mikilvæg trúarleg sannindi var maðurinn líklega að hugsa um hvað hann gæti gert til að hagnast fjárhagslega. Þess er ekki getið hvort hann hafi haft réttmæta ástæðu til að krefjast þess að bróðir hans skipti arfi með honum. Ef til vill vildi hann reyna að notfæra sér vald Jesú og orðstír sem vitur dómari. (Jesaja 11:3, 4; Matteus 22:16) Beiðni hans gefur að minnsta kosti til kynna að hann hafi ekki haft rétt hugarfar — að hann hafi skort virðingu fyrir andlegum málum. Er þetta ekki góð áminning um að líta í eigin barm? Á safnaðarsamkomum er til dæmis ósköp auðvelt að láta hugann reika eða hugsa um það sem við ætlum að gera eftir samkomu. Við ættum heldur að hlusta af athygli á kennsluna og hugleiða hvernig við getum nýtt okkur hana til að styrkja sambandið við Jehóva Guð, föðurinn á himnum, og við trúsystkini okkar. — Sálmur 22:23; Markús 4:24.
6. Hvers vegna varð Jesús ekki við beiðni mannsins?
6 Hvað sem manninum gekk til með beiðni sinni varð Jesús ekki við henni heldur svaraði: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ (Lúkas 12:14) Með þessum orðum var Jesús að vísa til almennrar vitneskju fólks því að samkvæmt Móselögunum voru dómarar settir í borgum til að dæma í málum af þessu tagi. (5. Mósebók 16:18-20; 21:15-17; Rutarbók 4:1, 2) Jesús hafði öðrum og mikilvægari málum að sinna — að vitna um ríki Guðs og kenna fólki vilja hans. (Jóhannes 18:37) Við ættum að líkja eftir Jesú og láta ekki hversdagsleg mál glepja okkur heldur nota tíma okkar og krafta til að boða fagnaðarerindið og gera „allar þjóðir að lærisveinum“. — Matteus 24:14; 28:19.
Vörumst ágirnd
7. Hvaða skarplegu ábendingu kom Jesús með?
7 Jesús sá hvað bjó í hjörtum manna og vissi að eitthvað alvarlegra lá að baki beiðni mannsins um að skera úr persónulegu máli. Í stað þess að hafna einungis beiðninni sneri hann sér að kjarna málsins og sagði: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ — Lúkas 12:15.
8. Hvað er ágirnd og út í hvað getur hún leitt fólk?
8 Ágirnd er meira en löngun í peninga eða hluti sem geta komið að gagni eða haft sitt notagildi. Ágirnd er óhófleg löngun í auð og eignir eða löngun í eigur einhvers annars. Hún getur falið í sér óseðjandi græðgi í hluti — hugsanlega hluti sem einhverjir aðrir eiga — til þess eins að eignast þá. Gildir þá einu hvort hinn ágjarni þarfnast þeirra eða hvaða áhrif ágirnd hans hefur á aðra. Ágjarn maður lætur það sem hann langar í stjórna hugsunum sínum og gerðum í slíkum mæli að það verður eins og guðsdýrkun. Páll postuli leggur ágjarnan mann að jöfnu við skurðgoðadýrkanda sem á sér ekki arfsvon í ríki Guðs. — Efesusbréfið 5:5; Kólossubréfið 3:5.
9. Hvaða myndir getur ágirnd tekið á sig? Nefndu nokkur dæmi.
9 Tökum eftir að Jesús varaði við ‚allri ágirnd‘. Ágirnd birtist í mörgum myndum. Tíunda boðorðið nefnir nokkur dæmi: „Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.“ (2. Mósebók 20:17) Í Biblíunni er að finna ótal dæmi um einstaklinga sem drýgðu alvarlega synd vegna ágirndar af einu eða öðru tagi. Satan var fyrstur til að girnast eitthvað sem tilheyrði öðrum — dýrðina, heiðurinn og valdið sem Jehóva einn átti tilkall til. (Opinberunarbókin 4:11) Eva girntist réttinn til að ráða sér sjálf. Þegar hún lét blekkjast leiddi hún mannkynið út á braut syndar og dauða. (1. Mósebók 3:4-7) Illu andarnir voru englar sem urðu óánægðir með ‚tign sína og yfirgáfu eigin bústað‘ til að eignast eitthvað sem þeir áttu ekki rétt á. (Júdasarbréfið 6; 1. Mósebók 6:2) Og ekki má gleyma Bíleam, Akan, Gehasí og Júdasi. Þeir voru ekki ánægðir með hlutskipti sitt heldur misnotuðu aðstöðu sína af því að þeir girntust efnislega hluti. Það hafði hörmulegar afleiðingar fyrir þá.
10. Hvernig eigum við að ‚gæta okkar‘ eins og Jesús hvatti til?
10 Það var vel við hæfi að Jesús skyldi byrja á orðunum „gætið yðar“ þegar hann varaði við ágirnd. Af hverju? Af því að það er svo auðvelt að koma auga á ágirnd í fari annarra en sjaldgæft að menn viðurkenni að þeir séu sjálfir ágjarnir. Páll postuli bendir samt á að ‚fégirndin sé rót alls þess sem illt er‘. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Lærisveinninn Jakob segir að þegar ‚girndin sé orðin þunguð ali hún synd‘. (Jakobsbréfið 1:15) Við ættum því að fylgja orðum Jesú og hafa augun opin, ekki fyrir því hvort aðrir séu ágjarnir heldur fyrir því hvað við þráum í hjörtum okkar svo að við getum ‚varast alla ágirnd‘.
Allsnægtir
11, 12. (a) Hvernig varaði Jesús við ágirnd? (b) Hvers vegna þurfum við að gefa gaum að viðvörun Jesú?
11 Það er önnur ástæða fyrir því að við verðum að varast ágirnd. Tökum eftir hvað Jesús sagði í framhaldinu: „Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ (Lúkas 12:15) Þetta er vissulega umhugsunarvert á öld efnishyggjunnar þegar auðlegð og velmegun er lögð að jöfnu við hamingju og velgengni. Með þessum orðum var Jesús að benda á að ánægjulegt og innihaldsríkt líf sé ekki háð efnislegum eigum, sama hvað þær eru miklar.
12 Sumir gætu hins vegar verið á öðru máli. Þeir hugsa kannski sem svo að efnislegar eigur geri lífið þægilegra og ánægjulegra og þar með innihaldsríkara. Þeir helga sig því störfum sem gera þeim kleift að eignast öll þau tæki og tól sem hugurinn girnist. Þeir ímynda sér að þetta veiti þeim gott og þægilegt líf. En þeir sem hugsa þannig skilja ekki kjarnann í orðum Jesú.
13. Hvernig ættum við að líta á líf og eignir?
13 Jesús var ekki að tala um hvort það væri rétt eða rangt að eiga allsnægtir, heldur benda á að eigur manna tryggðu þeim ekki líf. Við vitum mætavel að það þarf ekki mikið til að viðhalda lífinu. Við þurfum bara svolítið fæði, klæði og svefnstað. Hinir ríku hafa ofgnótt af þessu og hinir fátæku geta þurft að strita við að afla sér nauðsynja. En þegar að ævilokunum kemur er munurinn enginn — allir hljóta sömu endalok. (Prédikarinn 9:5, 6) Ef lífið á að hafa einhvern tilgang getur það ekki og ætti ekki að byggjast eingöngu á því hvað hægt er að afla sér eða eiga. Þetta kemur skýrt í ljós þegar við könnum hvað Jesús átti við með orðinu líf.
14. Hvað getum við lært af merkingu orðsins líf í frásögn Biblíunnar?
14 Þegar Jesús sagði „enginn þiggur líf af eigum sínum“ er orðið „líf“ þýðing gríska orðsins zoeʹ. Orðið merkir ekki hvernig lífinu er lifað heldur merkir það lífið sjálft.a Jesús var að segja að við höfum ekki fulla stjórn á hve lengi við lifum eða hvort við verðum á lífi á morgun og gildir þá einu hvort við erum rík eða fátæk eða hvort við lifum í allsnægtum eða rétt drögum fram lífið. Í fjallræðunni sagði Jesús: „Hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?“ (Matteus 6:27) Í Biblíunni kemur skýrt fram að Jehóva er „uppspretta lífsins“ og það er aðeins hann sem getur veitt trúföstum mönnum endalaust líf, „hið sanna líf“ eða „eilífa lífið“, hvort heldur er á himni eða jörð. — Sálmur 36:10; 1. Tímóteusarbréf 6:12, 19.
15. Hvers vegna leggja margir traust sitt á efnislegar eigur?
15 Orð Jesú bera með sér hve fólk á auðvelt með að hafa brenglaða sýn á lífið. Allir eru ófullkomnir og hljóta sömu endalok óháð því hvort þeir eru ríkir eða fátækir. Móse sagði forðum daga: „Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.“ (Sálmur 90:10; Jobsbók 14:1, 2; 1. Pétursbréf 1:24) Fólk, sem hefur ekki eignast gott samband við Guð, hugsar þess vegna oft eins og Páll postuli benti á þegar hann sagði: „Etum . . . og drekkum, því að á morgun deyjum vér.“ (1. Korintubréf 15:32) Mörgum þykir lífið hverfult og óöruggt og þeir reyna að finna öryggi og festu með hjálp efnislegra eigna. Þeim finnst ef til vill að efnislegir og áþreifanlegir hlutir geri lífið á einhvern hátt öruggara. Þeir strita því þrotlaust við að sanka að sér auði og eignum og telja sér trú um að slíkir hlutir veiti öryggi og hamingju. — Sálmur 49:7, 12, 13.
Örugg framtíð
16. Hvað ræður ekki raunverulegu gildi lífsins?
16 Vel má vera að betri lífskjör — gott húsnæði og meira en nóg af mat, fötum og öðrum gæðum — geti stuðlað að þægilegra lífi. Það getur jafnvel tryggt manni betri læknisþjónustu og bætt nokkrum árum við ævina. En er slíkt líf innihaldsríkara og öruggara? Raunverulegt gildi lífsins ræðst ekki af því hve lengi við lifum eða hve mikið af efnislegum hlutum við eigum eða höfum aðgang að. Páll postuli benti á hættuna sem fylgir því að treysta um of á slíka hluti. Hann skrifaði Tímóteusi: „Bjóð ríkismönnum þessarar aldar að hreykja sér ekki né treysta fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:17.
17, 18. (a) Hverjir eru framúrskarandi fyrirmyndir í afstöðu sinni til efnislegra hluta? (b) Um hvaða dæmisögu verður fjallað í næstu grein?
17 Það er óviturlegt að setja traust sitt á auð vegna þess að hann er ‚fallvaltur‘. Ættfaðirinn Job var mjög auðugur en þegar hörmung dundi skyndilega yfir gátu eigur hans ekki verndað hann, þær hurfu á augabragði. Það var sterkt samband hans við Guð sem verndaði hann í öllum prófraunum og þrengingum. (Jobsbók 1:1, 3, 20-22) Abraham átti miklar eignir en hann lét það ekki aftra sér frá því að taka að sér erfitt verkefni sem Jehóva fól honum. Fyrir vikið hlaut hann þá blessun að „verða faðir margra þjóða“. (1. Mósebók 12:1, 4; 17:4-6) Þessir menn og aðrir eru verðugar fyrirmyndir fyrir okkur til að líkja eftir. Hvort sem við erum ung eða gömul verðum við að líta í eigin barm og kanna hvað sé mikilvægast í lífinu og á hvað við setjum traust okkar. — Efesusbréfið 5:10; Filippíbréfið 1:10.
18 Þessi fáu orð Jesú um ágirnd og rétta sýn á lífið eru sannarlega áhrifamikil og upplýsandi. En Jesús hafði fleira um málið að segja og sagði því næst athyglisverða dæmisögu um ríkan en óskynsaman mann. Hvaða þýðingu hefur hún fyrir okkur nú á dögum og hvað getum við lært af henni? Um það verður fjallað í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Gríska orðið biʹos er einnig þýtt líf. Í orðabókinni Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words segir að biʹos þýði „æviskeið“, „líferni“ og „lífsviðurværi“.
Hvert er svarið?
• Hvað getum við lært af því að Jesús skyldi ekki verða við beiðni manns nokkurs?
• Hvers vegna verðum við að varast ágirnd og hvernig getum við gert það?
• Hvers vegna er lífið ekki háð efnislegum eigum?
• Hvað getur gert lífið innihaldsríkt og öruggt?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Hvers vegna varð Jesús ekki við beiðni manns nokkurs?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Ágirnd getur haft hrikalegar afleiðingar.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Hvernig sýndi Abraham að hann hafði rétt viðhorf til efnislegra eigna?