Fylgið fordæmi Jesú í guðrækni
„Víst er leyndardómur guðhræðslunnar mikill: Hann [Jesús] opinberaðist í holdi.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 3:16.
1. (a) Hvaða spurningu var ósvarað í meira en 4000 ár? (b) Hvenær og hvernig var henni svarað?
SPURNINGUNNI var ósvarað í meira en 4000 ár. Allt frá því að hinn fyrsti maður, Adam, hafði brugðist og ekki sýnt ráðvendni var þeirri spurningu ósvarað hvernig sýna mætti guðrækni meðal mannkyns. Loks fékkst svarið á fyrstu öld með komu sonar Guðs. Í sérhverri hugsun, orði og verki sýndi Jesús Kristur tryggð sína og trúfesti við Jehóva. Þannig opinberaði hann ‚leyndardóm guðrækninnar‘ og sýndi hvernig menn gætu ástundað slíka guðrækni. — 1. Tímóteusarbréf 3:16.
2. Hvers vegna ættum við að skoða vandlega fordæmi Jesú í því að ástunda guðrækni?
2 Vel fer á því að við ‚virðum fyrir okkur‘ fordæmi Jesú er við leggjum okkur fram við að ástunda guðrækni sem vígðir, skírðir kristnir menn. (Hebreabréfið 12:3) Hvers vegna? Fyrir því eru tvær ástæður. Sú fyrri er að fordæmi Jesú getur hjálpað okkur að rækta með okkur guðrækni. Jesús þekkti föður sinn betur en nokkur annar. (Jóhannes 1:18) Svo náið líkti Jesús eftir vegum og eiginleikum Jehóva að hann gat sagt: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9) Í gegnum líf og þjónustu Jesú getum við öðlast dýpri skilning á hinum fögru eiginleikum Jehóva og styrkt tryggðarbönd okkar við hinn ástríka skapara. Síðari ástæðan er sú að fordæmi Jesú getur hjálpað okkur að sýna guðrækni. Hann gaf fullkomið fordæmi um guðrækni í verki. Því er skynsamlegt að skoða hvernig við getum ‚íklæðst Kristi,‘ það er að segja tekið okkur hann sem fyrirmynd og líkt eftir fordæmi hans. — Rómverjabréfið 13:14.
3. Hvað ætti að vera innifalið í einkabiblíunámi okkar og hvers vegna?
3 Ekki hefur allt sem Jesús sagði og gerði verið skráð og varðveitt. (Jóhannes 21:25) Því ætti það sem skráð var undir handleiðslu Guðs að vera sérstaklega áhugavert fyrir okkur. Reglulegt einkabiblíunám ætti því að innifela á reglulegum grundvelli lestur guðspjallanna þar sem sagt er frá ævi Jesú. En eigi slíkur lestur að hjálpa okkur að ástunda guðrækni verðum við að taka okkur tíma til að hugleiða með þakklátum hjörtum það sem við lesum. Við þurfum líka að vera vakandi fyrir því sem ekki er augljóst við fyrstu sýn.
Sonurinn eftirmynd föður síns
4. (a) Hvað sýnir að Jesús var gæddur hlýju og djúpum tilfinningum? (b) Hvaða frumkvæði sýndi Jesús í samskiptum við aðra?
4 Jesús var maður hlýju og djúpra tilfinninga. Í Markúsi 10:1, 10, 13, 17 og 35 sést að fólki úr öllum aldurshópum og af alls kyns uppruna fannst hann viðmótsgóður og átti auðvelt með að leita til hans. Oftar en einu sinni tók hann börn í faðm sér. (Markús 9:36; 10:16) Hvers vegna gat fólk, jafnvel börn, verið svona óþvingað í návist Jesú? Vegna þess að hann hafði einlægan og ósvikinn áhuga á því. (Markús 1:40, 41) Það má sjá af því að oftar en einu sinni átti hann frumkvæðið að því að hjálpa þeim sem voru í nauðum. Þannig lesum við að hann hafi ‚séð‘ ekkjuna í Nain þegar verið var að bera son hennar til grafar. „Hann gekk að“ og reisti unga manninn upp frá dauðum en þess er ekki getið að nokkur hafi beðið hann um það. (Lúkas 7:13-15) Hann tók einnig frumkvæðið og læknaði óbeðinn konu sem var kreppt og mann sem var haldinn vatnssýki. — Lúkas 13:11-13; 14:1-4.
5. Hvað kenna þessar frásögur af þjónustu Jesú okkur um eiginleika Jehóva og vegu?
5 Þegar þú lest um atvik af þessu tagi skaltu staldra við og spyrja sjálfan þig: ‚Hvað segir þetta mér um eiginleika og vegu Jehóva, úr því að Jesús líkti fullkomlega eftir föður sínum?‘ Frásögurnar ættu að fullvissa okkur um að Jehóva sé Guð hlýju og djúpra tilfinninga. Sterkur og varanlegur áhugi hans á mönnum hefur komið honum til að eiga frumkvæðið að samskiptum við þá. Það þurfti ekki að þvinga hann til að gefa son sinn „til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16) Hann leitar færis á að ‚hneigjast að‘ þeim sem þjóna honum af kærleika. (5. Mósebók 10:15) Eins og Biblían segir: „Augu [Jehóva] hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann.“ — 2. Kroníkubók 16:9.
6. Hver verður árangurinn þegar við hugleiðum hlýju og djúpar tilfinningar Jehóva sem birtust í syni hans?
6 Ef þú hugleiðir hlýju og djúpar tilfinningar Jehóva í þessu ljósi, eins og sonur hans gaf dæmi um, þá mun það snerta hjarta þitt og hjálpa þér að meta enn betur að verðleikum aðlaðandi eiginleika hans. Það mun síðan tengja þig nánari böndum við hann. Þú munt finna hvöt hjá þér til að nálgast hann frjálsmannlega í bæn hvenær sem er og hvar sem er. (Sálmur 65:3) Það mun styrkja tryggðarbönd þín við hann.
7. Hvaða spurninga ættir þú að spyrja þig og hvers vegna, eftir að hafa hugleitt hlýju og djúpar tilfinningar Jehóva?
7 Munum þó að guðrækni felur meira í sér en aðeins lotningu. Eins og biblíufræðimaðurinn R. Lensky bendir á felur hún í sér „öll lotningarfull viðhorf og verk sem stafa af þeim.“ (Leturbreyting okkar.) Því skaltu spyrja sjálfan þig eftir að hafa hugleitt hlýju og djúpar tilfinningar Jehóva sem birtust í Jesú: ‚Hvernig get ég líkst Jehóva betur í þessu efni? Finnst öðrum ég vera viðmótsgóður?‘ Ef þú ert foreldri þurfa börnin þín að eiga greiðan aðgang að þér. Ef þú ert safnaðaröldungur ættu safnaðarmeðlimir vissulega að eiga greiðan aðgang að þér. Hvað getur þú gert til að aðrir eigi auðveldara með að nálgast þig? Þroskaðu með þér hlýju og næmar tilfinningar. Þú þarft að rækta með þér einlægan og ósvikinn áhuga á öðrum. Þegar þú lætur þér í raun og veru annt um aðra og ert fús til að gefa af sjálfum þér í þeirra þágu munu þeir finna það og laðast að þér.
8. (a) Hvað ættir þú að hafa í huga þegar þú lest frásögu Biblíunnar af Jesú? (b) Hvað lærum við um Jehóva af þeim frásögum sem vitnað er í neðanmáls?
8 Þegar þú lest frásögur Biblíunnar af Jesú skaltu því hafa í huga að þú getur lært margt um Jehóva sem persónu af því sem Jesús sagði og gerði.a Og þegar jákvætt mat þitt á eiginleikum Guðs, eins og þeir endurspegluðust í lífi Jesú, fær þig til að reyna að líkjast honum betur, þá ertu að láta guðrækni þína birtast í verki.
Guðrækni iðkuð gagnvart fjölskyldunni
9, 10. (a) Hvernig birtist kærleikur og umhyggja Jesú fyrir móður sinni, Maríu, stundu áður en hann dó? (b) Hvers vegna skyldi Jesús hafa falið Jóhannesi postula en ekki einhverjum bræðra sinna af holdinu að annast Maríu?
9 Ævi og þjónusta Jesú Krists sýnir margt um það hvernig guðrækni ætti að birtast. Hrífandi dæmi er að finna í Jóhannesi 19:25-27 þar sem við lesum: „Hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði [Jóhannes], segir hann við móður sína: ‚Kona, nú er hann sonur þinn.‘ Síðan sagði hann við lærisveininn: ‚Nú er hún móðir þín.‘ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.“
10 Hugsaðu þér! Aðeins nokkrum augnablikum áður en Jesús lagði jarðneskt líf sitt í sölurnar fékk kærleikur hans og umhyggja hann til að fela hinum ástkæra Jóhannesi postula að annast móður sína, Maríu (sem þá var greinilega orðin ekkja). En hvers vegna valdi hann Jóhannes en ekki einhvern af bræðrum sínum að holdinu? Vegna þess að Jesús lét sér umhugað ekki aðeins um líkamlegar og efnislegar þarfir Maríu heldur sérstaklega andlega velferð hennar. Og Jóhannes postuli (sem ef til vill var náskyldur Jesú) hafði sýnt trú sína í verki, en hins vegar bendir ekkert til að bræður Jesú að holdinu hefðu enn tekið trú. — Matteus 12:46-50; Jóhannes 7:5.
11. (a) Hvernig getur kristinn maður iðkað guðrækni á eigin heimili, að sögn Páls? (b) Hvers vegna annast sannkristinn maður aldraða foreldra sína?
11 Hvernig var þessi umhyggja merki um guðrækni? Páll postuli skýrir það: „Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur. En ef einhver ekkja á börn eða barnabörn, þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs.“ (1. Tímóteusarbréf 5:3, 4) Það að heiðra foreldra sína með því að styðja þá fjárhagslega, þegar þess verður þörf, er merki um guðrækni eins og Páll segir. Hvernig þá? Jehóva, höfundur fjölskyldufyrirkomulagsins, fyrirskipar börnum að heiðra foreldra sína. (Efesusbréfið 3:14, 15; 6:1-3) Þess vegna gerir sannkristinn maður sér grein fyrir að það er ekki aðeins merki um kærleika til foreldranna að sinna slíkri fjölskylduábyrgð heldur einnig merki um lotningu fyrir Guði og hlýðni við boð hans. — Samanber Kólossubréfið 3:20.
12. Hvernig er hægt að sýna guðrækni gagnvart öldruðum foreldrum og af hvaða hvötum skyldi það gert?
12 Hvernig er þá hægt að iðka guðrækni gagnvart meðlimum fjölskyldunnar? Það hlýtur að fela í sér að fullnægja andlegum og efnislegum þörfum aldraðra foreldra eins og Jesús gerði. Það ber vott um skort á guðrækni ef það er ekki gert. (Samanber 2. Tímóteusarbréf 3:2, 3, 5.) Vígður kristinn maður sér fyrir þurfandi foreldrum sínum, ekki aðeins sökum góðvildar eða skyldutilfinningar heldur vegna kærleika til fjölskyldu sinnar, og hann gerir sér grein fyrir því hve þunga áherslu Jehóva leggur á að slíkri ábyrgð sé sinnt. Þannig er það eitt af merkjum guðrækninnar að annast aldraða foreldra sína.b
13. Hvernig getur kristinn faðir iðkað guðrækni gagnvart fjölskyldu sinni?
13 Hægt er að iðka guðrækni á heimilinu á aðra vegu. Kristnum föður er til dæmis skylt að sjá fjölskyldu sinni farborða efnislega, tilfinningalega og andlega. Þess vegna skipuleggur hann reglulegt biblíunám með fjölskyldunni, auk þess að sjá henni fyrir efnislegum nauðsynjum. Hann skipuleggur tíma til reglulegrar þátttöku í þjónustunni á akrinum ásamt fjölskyldu sinni. Hann gætir góðs jafnvægis og gerir sér grein fyrir að fjölskyldan þarfnast einnig hvíldar og afþreyingar. Hann skipar hlutunum í rétta forgangsröð og leyfir ekki skyldum sínum í söfnuðinum koma sér til að vanrækja fjölskylduna. (1. Tímóteusarbréf 3:5, 12) Hvers vegna gerir hann allt þetta? Það er ekki eingöngu út af skyldukvöð heldur vegna þess að hann elskar fjölskyldu sína. Hann gerir sér grein fyrir því hve mikla áherslu Jehóva leggur á umönnun fjölskyldunnar. Hann iðkar guðrækni með því að rækja þannig skyldur sínar sem eiginmaður og faðir.
14. Hvernig getur kristin eiginkona sýnt guðrækni á heimili sínu?
14 Kristnum eiginkonum ber einnig skylda til að iðka guðrækni á heimili sínu. Hvernig? Biblían segir að eiginkona eigi að ‚vera undirgefin‘ eiginmanni síum og ‚bera lotningu‘ fyrir honum. (Efesusbréfið 5:22, 23) Jafnvel þótt eiginmaðurinn sé ekki í trúnni heldur hún áfram að vera honum undirgefin. (1. Pétursbréf 3:1) Kristin kona lætur slíka undirgefni í ljós með því að styðja mann sinn í ákvörðunum hans, svo lengi sem þær stangast ekki á við lög Guðs. (Postulasagan 5:29) Og hvers vegna rækir hún þetta hlutverk? Ekki einvörðungu vegna þess að hún elskar mann sinn heldur fyrst og fremst vegna þess að hún gerir sér ljóst að það „sómir þeim, er Drottni heyra til“ — það er ráðstöfun Guðs varðandi fjölskylduna. (Kólossubréfið 3:18) Með því að vera fúslega undirgefin manni sínum er hún þannig að láta í ljós guðrækni.
„Því að til þess er ég kominn“
15. Á hvaða einstakan hátt sýndi Jesús guðrækni?
15 Ein af hinum áberandi leiðum Jesú til að sýna guðrækni fólst í því að ‚flytja fagnaðarerindið um Guðsríki.‘ (Lúkas 4:43) Eftir skírn sína í Jórdan árið 29 var Jesús algerlega upptekinn af þessu mikilvæga verki. „Til þess er ég kominn,“ sagði hann. (Markús 1:38; Jóhannes 18:37) En á hvaða hátt var þetta merki um guðrækni?
16, 17. (a) Af hvaða hvötum var Jesús algerlega upptekinn við að prédika og kenna? (b) Hvers vegna var prédikun og kennsla Jesú merki um guðrækni hans?
16 Við munum að guðrækni felur í sér að lifa á þann hátt sem þóknast Guði, vegna kærleika til hans og þess að við metum mikils aðlaðandi eiginleika hans. Hvað var það sem kom Jesú til að eyða síðustu æviárum sínum á jörð í að prédika og kenna og láta nánast ekkert annað komast að? Var það bara skyldutilfinning? Enginn vafi leikur á að hann bar umhyggju fyrir fólki. (Matteus 9:35, 36) Hann gerði sér fulla grein fyrir því að smurning hans með heilögum anda veitti honum umboð til að inna þjónustu sína af hendi. (Lúkas 4:16-21) En tilefni hans átti sér dýpri rætur.
17 „Ég elska föðurinn,“ sagði Jesús postulum sínum síðasta kvöldið sem hann var á lífi á jörð. (Jóhannes 14:31) Sá kærleikur var byggður á mjög djúptækri og náinni þekkingu á eiginleikum Jehóva. (Lúkas 10:22) Jesús mat föður sinn mjög mikils í hjarta sér og hafði yndi af að gera vilja hans. (Sálmur 40:9) Það var honum „matur“ — bæði lífsnauðsynlegt og gómsætt. (Jóhannes 4:34) Hann setti fullkomið fordæmi í því að ‚leita fyrst Guðsríkis‘ í stað þess að láta sjálfan sig ganga fyrir. (Matteus 6:33) Það var því ekki aðeins hvað hann gerði eða hversu mikið hann gerði heldur ástæðan fyrir því að hann gerði það sem réði því að þjónusta hans, prédikun og kennsla var tákn um guðrækni.
18. Hvers vegna er einhver þátttaka í þjónustunni ekki sjálfkrafa merki um guðrækni?
18 Hvernig getum við fylgt fordæmi ‚fyrirmyndarinnar,‘ Jesú, að þessu leyti? (1. Pétursbréf 2:21) Allir sem þiggja boð Jesú um að ‚koma og fyglja honum‘ hafa umboð frá Guði til að prédika fagnaðarerindið um ríkið og gera menn að lærisveinum. (Lúkas 18:22; Matteus 24:14; 28:19, 20) Merkir það að við séum að sýna guðrækni ef við bara tökum einhvern þátt í boðun fagnaðarerindisins? Svo þarf ekki að vera. Ef þátttaka okkar í þjónustunni væri einungis til málamynda, til þess eins að þóknast einhverjum í fjölskyldunni eða öðrum, þá væri tæpast hægt að líta á hana sem ‚guðrækni.‘ — 2. Pétursbréf 3:11.
19. (a) Hver verður að vera meginástæðan fyrir því sem við gerum í þjónustunni? (b) Hver er árangurinn þegar djúpur kærleikur til Guðs knýr okkur til verka?
19 Tilefni okkar verður að rista dýpra eins og var hjá Jesú. Hann sagði: „Þú skalt elska [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu [tilfinningum, löngunum og innstu kenndum], allri sálu þinni [lífi og allri veru], öllum huga þínum [andlegum hæfileikum og vitsmunum] og öllum mætti þínum.“ Skynugur fræðimaður bætti við: „Það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“ (Markús 12:30, 33, 34) Það skiptir því ekki aðeins máli hvað við gerum heldur líka hvers vegna við gerum það. Djúptækur kærleikur til Guðs, sem snertir alla strengi í okkur, verður að vera meginástæðan fyrir því að við innum þjónustu okkar af hendi. Þegar svo er munum við ekki gera okkur ánægð með að taka þátt í henni einungis til málamynda heldur finna hvöt hjá okkur til að sýna hve djúpt guðrækni okkar ristir með því að gera okkar ýtrasta. (2. Tímóteusarbréf 2:15) Um leið munum við ekki vera gagnrýnin og bera saman þjónustu okkar og annarra, þegar kærleikur til Guðs er sú hvöt sem knýr okkur. — Galatabréfið 6:4.
20. Hvernig getum við haft fullt gagn af fordæmi Jesú í því að ástunda guðrækni?
20 Við getum verið innilega þakklát Jehóva fyrir að opinbera okkur leyndardóm guðrækninnar! Með því að nema og rannsaka vandlega það sem Jesús sagði og gerði og með því að leggja okkur fram um að líkja eftir honum fáum við hjálp bæði til að rækta með okkur og láta í ljós guðrækni í ríkari mæli en áður. Jehóva mun blessa okkur ríkulega ef við fylgjum fordæmi Jesú í því að ástunda guðrækni sem vígðir, skírðir kristnir menn. — 1. Tímóteusarbréf 4:7, 8.
[Neðanmáls]
a Sjá fleiri dæmi um það sem læra má um Jehóva af frásögum í Matteusi 8:2, 3; Markúsi 14:3-9; Lúkasi 21:1-4 og Jóhannesi 11:33-36.
b Ítarlega umræðu um það að sýna guðrækni gagnvart öldruðum foreldrum er að finna í Varðturninum þann 1. október 1987, bls. 13-18.
Manst þú?
◻ Hvers vegna ættum við að íhuga fordæmi Jesú í því að sýna guðrækni?
◻ Hvað lærum við um Jehóva af þeirri hlýju og þeim djúpu tilfinningum sem Jesús lét í ljós?
◻ Hvernig getum við sýnt guðrækni gagnvart öðrum í fjölskyldunni?
◻ Af hvaða hvötum þarf þjónusta okkar að vera sprottin til að hún sé merki um guðrækni?
[Mynd á blaðsíðu 16]
„En ef einhver ekkja á börn eða barnabörn, þá læri þau . . . að . . . endurgjalda foreldrum sínum.“