Er hægt að treysta bókinni?
„Ég finn fleiri örugg merki um trúverðugleika í Biblíunni en í nokkurri veraldarsögubók.“ — Sir Isaac Newton, nafntogaður enskur vísindamaður.1
ER HÆGT að treysta þessari bók — Biblíunni? Fjallar hún um fólk sem var óneitanlega uppi, staði sem voru raunverulega til og atburði sem áttu sér virkilega stað? Ef svo er ættu að finnast vísbendingar um að ritarar hennar hafi verið vandvirkir og heiðarlegir. Þær eru til. Stór hluti þeirra hefur fundist grafinn í jörð og þær eru jafnvel í enn ríkari mæli í bókinni sjálfri.
Sönnunargögnin grafin upp
Fornleifar, sem grafnar hafa verið upp í biblíulöndunum, styðja sögulega og landfræðilega nákvæmni Biblíunnar. Skoðum aðeins nokkur þeirra sönnunargagna sem fornleifafræðingar hafa grafið upp.
Davíð, hinn hugaði, ungi fjárhirðir sem varð konungur Ísraels, er lesendum Biblíunnar vel kunnur. Nafn hans kemur 1138 sinnum fyrir í Biblíunni og orðalagið „hús Davíðs“ — sem vísar oft til konungsættar hans — kemur 25 sinnum fyrir. (1. Samúelsbók 16:13; 20:16) Þangað til nýlega var þó engin skýr sönnun til utan Biblíunnar fyrir því að Davíð hafi verið uppi. Var Davíð aðeins skáldskapur?
Árið 1993 fann flokkur fornleifafræðinga undir stjórn prófessors Avrahams Biran undraverðar fornleifar sem greint var frá í blaðinu Israel Exploration Journal. Í fornum haug, nefndur Tel Dan, í norðurhluta Ísraels grófu þeir ofan af basaltsteini. Grafin í steininn eru orðin „Hús Davíðs“ og „Ísraelskonungur.“2 Áletrunin er rakin til níundu aldar f.o.t. og sögð vera hluti af sigurminnismerki sem Aramaear reistu, en þeir voru óvinir Ísraels og bjuggu í austri. Hvers vegna er þessi forna áletrun svona markverð?
Tímaritið Biblical Archaeology Review byggði á skýrslu prófessors Biran og samstarfsmanns hans, prófessors Josephs Naveh, þegar það sagði um þennan fund: „Þetta er í fyrsta sinn sem nafn Davíðs hefur fundist í fornri áletrun utan Biblíunnar.“3a Annað er eftirtektarvert í tengslum við þessa áletrun. Orðasambandið „Hús Davíðs“ er skrifað sem eitt orð. Málfræðingurinn prófessor Anson Rainey segir: „Orðaskilum . . . er oft sleppt, einkum ef orðasamsetningin er eiginnafn sem föst hefð er fyrir. ‚Hús Davíðs‘ var vissulega slíkt alkunnugt pólitískt og landfræðilegt nafn um miðja níundu öld f.o.t.“5 Davíð konungur og konungsætt hans voru því greinilega vel þekkt til forna.
Var Níníve — hin mikla borg Assýríu sem nefnd er í Biblíunni — til í raun og veru? Það er ekki lengra síðan en á fyrri hluta 19. aldar að sumir biblíugagnrýnendur neituðu að trúa því. En árið 1849 gróf Sir Austen Henry Layard upp rústir hallar Sanheríbs konungs í Kuyunjik en sá staður reyndist vera hluti hinnar fornu Níníve. Þaggað var því niður í gagnrýnendum hvað þetta snerti. En rústirnar höfðu frá meiru að segja. Eitt herbergi var vel varðveitt og á veggjum þess voru myndir sem sýndu hertöku víggirtrar borgar og hvernig herteknir íbúar hennar voru látnir ganga í röð fram hjá innrásarkonunginum. Fyrir ofan konunginn er þessi áletrun: „Sanheríb, konungur heimsins, Assýríukonungur, sat á nîmedu -hásæti og lét færa fyrir sig herfangið úr Lakís (La-ki-su).“6
Þessi mynd og áletrun, sem skoða má í Breska þjóðminjasafninu, koma heim og saman við frásögn Biblíunnar af hertöku Sanheríbs á borginni Lakís í Júdeu, eins og hún er skráð í 2. Konungabók 18:13, 14. Um mikilvægi þessa fundar skrifaði Layard: „Hver hefði trúað, áður en þessir fundir komu í ljós, að líklegt væri eða mögulegt að undir þeim haug jarðefna og drasls, er auðkenndi staðinn sem Níníve stóð á, fyndist saga af styrjöldunum milli Hiskía [Júdakonungs] og Sanheríbs, skrifuð af Sanheríb sjálfum á þeim tíma sem þær voru háðar, og að sú saga staðfesti í smáatriðum frásögu Biblíunnar?“7
Fornleifafræðingar hafa grafið upp marga aðra muni — leirker, húsarústir, leirtöflur, mynt, skjöl, minnismerki og áletranir — sem staðfesta nákvæmni Biblíunnar. Grafin hefur verið upp borgin Úr, verslunar- og trúarmiðstöðin þar sem Abraham bjó.8 (1. Mósebók 11:27-31) Nabónídusarkroníka, grafin upp á 19. öld, lýsir hvernig Babýlon féll fyrir Kýrusi mikla árið 539 f.o.t., atburði sem sagt er frá í 5. kafla Daníels.9 Áletrun, sem fannst á steinboga í hinni fornu Þessaloníku (brot úr honum eru varðveitt í Breska þjóðminjasafninu), inniheldur nöfn borgarráðsmanna sem kallaðir eru „polítarkar,“ óþekkt orð í klassískum bókmenntum Grikkja en notað af biblíuritaranum Lúkasi.10 (Postulasagan 17:6, NW, neðanmáls) Nákvæmni Lúkasar var því staðfest í þessu tilviki — eins og þegar hafði verið gert í öðrum. — Samanber Lúkas 1:3.
Fornleifafræðingum ber þó ekki alltaf saman innbyrðis, hvað þá við Biblíuna. Engu að síður er að finna innan Biblíunnar sjálfrar sterk sönnunargögn fyrir því að hún sé bók sem hægt er að teysta.
Hreinskilin frásögn
Heiðarlegir sagnaritarar myndu ekki eingöngu greina frá sigurvinningum (eins og áletrunin um hertöku Sanheríbs á Lakís) heldur líka ósigrum, ekki aðeins frá því sem heppnast vel heldur líka frá mistökum, ekki aðeins frá sterkum hliðum manna heldur líka frá veikleikum þeirra. Fáar sögulegar frásagnir endurspegla slíkan heiðarleika.
Daniel D. Luckenbill segir um assýríska sagnaritara: „Oft er ljóst að konungleg hégómagirnd krafðist óheilinda í meðferð sögulegra staðreynda.“11 Dæmi um slíka „konunglega hégómagirnd“ er gortið í annálum Assúrnasirpals Assýríukonungs: „Ég er konunglegur, ég er tiginmannlegur, ég er upphafinn, ég er voldugur, ég er æruverðugur, ég er dýrlegur, ég ber af öðrum, ég er sterkur, ég er frækinn, ég er hugrakkur sem ljón og ég er hetja!“12 Tæki maður allt sem stæði í slíkum annálum sem gott og gilt?
Gerólíkt þessu sýndu biblíuritararnir hressandi hreinskilni. Móse, leiðtogi Ísraelsmanna, skýrði blátt áfram frá göllum bróður síns, Arons, systur sinnar, Mirjam, bróðursona sinna, Nadabs og Abíhú, og þjóðar sinnar, svo og frá eigin mistökum. (2. Mósebók 14:11, 12; 32:1-6; 3. Mósebók 10:1, 2; 4. Mósebók 12:1-3; 20:9-12; 27:12-14) Ekki var breitt yfir hin alvarlegu mistök Davíðs konungs heldur voru þau færð í letur — og það var gert meðan Davíð ríkti enn sem konungur. (2. Samúelsbók, kafli 11 og 24) Matteus, ritari guðspjallsins sem ber nafn hans, segir frá því hvernig postularnir (hann var einn þeirra) deildu um eigið mikilvægi og hvernig þeir yfirgáfu Jesú nóttina sem hann var handtekinn. (Matteus 20:20-24; 26:56) Ritarar bréfanna í kristnu Grísku ritningunum viðurkenndu fúslega vandamálin í frumkristnu söfnuðunum, þar með talin siðleysi og sundurþykkja. Þeir töluðu ekki undir rós þegar þeir tóku á þessum vandamálum. — 1. Korintubréf 1:10-13; 5:1-13.
Slík einlæg og opinská frásögn gefur til kynna ósvikna sannleiksást. Er ekki full ástæða til að treysta skrifum biblíuritaranna fyrst þeir voru fúsir til að greina frá því sem miður fór hjá ástvinum þeirra, þjóð og jafnvel þeim sjálfum?
Nákvæm í hinu smáa
Í réttarhöldum má oft ráða af smávægilegum staðreyndum hvort vitnisburður vitnis sé trúverðugur. Samhljóðan hins smávægilega getur verið merki um nákvæman og heiðarlegan vitnisburð, en alvarlegt ósamræmi afhjúpað tilbúning. Á hinn bóginn getur einum um of snyrtileg frásögn — þar sem öllu, jafnvel hinu smæsta, er raðað skipulega niður — komið upp um falsvitni.
Hvernig stendur „vitnisburður“ Biblíunnar sig í þessu tilliti? Samræmið milli þeirra sem skráðu Biblíuna er merkilegt. Jafnvel hið smávægilega kemur vel heim og saman. Þessu samræmi er samt ekki svo vandlega hagrætt að það veki grun um samantekin ráð. Samsvörunin er augljóslega ekki hugsuð sem slík; riturunum ber oft óviljandi saman. Lítum á nokkur dæmi.
Biblíuritarinn Matteus skrifaði: „Jesús kom í hús Péturs og sá, að tengdamóðir hans lá með sótthita.“ (Matteus 8:14) Matteus gefur hér athyglisverðar en ekki ómissandi upplýsingar: Pétur var kvæntur. Þessa smávægilegu staðreynd staðfestir Páll sem skrifaði: „Höfum vér ekki rétt til að ferðast um með kristna eiginkonu, alveg eins og hinir postularnir og . . . Kefas?“b (1. Korintubréf 9:5) Samhengið gefur til kynna að Páll hafi verið að verjast óréttmætri gagnrýni. (1. Korintubréf 9:1-4) Páll nefnir greinilega ekki þetta litla atriði — að Pétur sé kvæntur — til að staðfesta áreiðanleika frásögu Matteusar heldur hittist aðeins svona á.
Allir guðspjallamennirnir fjórir — Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes — greina frá því að nóttina sem Jesús var handtekinn hafi einn lærisveinanna dregið upp sverð, slegið til þjóns æðsta prestsins og sniðið af honum eyrað. Aðeins Jóhannesarguðspjall segir frá að því er virðist óþörfu aukaatriði: „Þjónninn hét Malkus.“ (Jóhannes 18:10, 26) Hvers vegna gefur Jóhannes einn upp nafn mannsins? Nokkrum versum síðar koma fram í frásögninni minniháttar upplýsingar sem hvergi eru annars staðar: Jóhannes „var kunnugur æðsta prestinum.“ Hann var líka kunnugur heimilisfólki æðsta prestsins; þjónarnir könnuðust við hann og hann við þá. (Jóhannes 18:15, 16) Það er því aðeins eðlilegt að Jóhannes skuli tilgreina nafn særða mannsins þó að hinir guðspjallamennirnir, sem þekktu greinilega ekki til mannsins, geri það ekki.
Stundum er nákvæmum útskýringum sleppt í einni frásögunni en finna má þær í upplýsingum sem önnur frásaga rétt aðeins drepur á. Til dæmis segir í frásögn Matteusar af réttarhöldunum yfir Jesú frammi fyrir æðstaráði Gyðinga að nokkrir viðstaddra hafi ‚barið hann með stöfum og sagt: „Spáðu nú, Kristur, hver var að slá þig?“‘ (Matteus 26:67, 68) Hvers vegna skyldu þeir biðja Jesú um að „spá“ hver hefði slegið hann þegar sá hinn sami stóð þar fyrir framan hann? Matteus útskýrir það ekki. En tveir hinna guðspjallaritaranna bæta við því litla sem á vantar: Ofsækjendur Jesú huldu andlit hans áður en hann var sleginn. (Markús 14:65; Lúkas 22:64) Matteus hirðir ekki um að tína allt til í frásögn sinni.
Jóhannesarguðspjall greinir frá því að mikill mannfjöldi hafi safnast saman til að heyra Jesú kenna. Frásagan segir að þegar Jesús hafi séð mannfjöldann hafi hann sagt „við Filippus: ‚Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?‘“ (Jóhannes 6:5) Hvers vegna spurði Jesús Filippus, af öllum lærisveinunum sem viðstaddir voru, hvar þeir gætu keypt brauð? Frásagnarritarinn gefur enga vísbendingu um það. Lúkas segir þó í hliðstæðri frásögu sinni að þetta hafi átt sér stað nálægt Betsaídu, bæ á norðurströnd Galíleuvatnsins. Fyrr í Jóhannesarguðspjalli er sagt að ‚Filippus hafi verið frá Betsaídu.‘ (Jóhannes 1:44; Lúkas 9:10) Það er því rökrétt að Jesús skyldi spyrja mann sem var frá nálægum bæ. Samræmið milli hins smávægilega er athyglisvert en samt augljóslega óafvitandi.
Í sumum tilfellum, þegar biblíuritararnir sleppa vissum smámunum, eykur það aðeins á trúverðugleika þeirra. Til dæmis segir ritari 1. Konungabókar frá alvarlegum þurrki í Ísrael. Hann var svo mikill að konungurinn gat ekki fundið nóg vatn og gras til að halda lífinu í hestum sínum og múldýrum. (1. Konungabók 17:7; 18:5) Þó segir sama frásagan að Elía spámaður hafi skipað að láta færa sér upp á Karmelfjall nægilegt vatn (er nota skyldi í tengslum við fórn) til að fylla skurð er umlukti svæði sem var kannski 1000 fermetra stórt. (1. Konungabók 18:33-35) Hvaðan kom allt þetta vatn í miðjum þurrkinum? Ritari 1. Konungabókar var ekki að hafa fyrir því að útskýra það. Hins vegar vissi hver sem bjó í Ísrael að Karmelfjall var úti við strönd Miðjarðarhafsins eins og fram kemur næstum fyrir tilviljun síðar í frásögninni. (1. Konungabók 18:43) Þess vegna var auðvelt að ná í sjó. Ef þessi bók, sem er ítarleg í öllu öðru, væri aðeins skáldskapur, dulbúin sem sannsöguleg frásögn, hvers vegna hefði þá ritari hennar, sem væri þá snjall falsari, látið textann þannig frá sér fara að í honum virtist vera mótsögn?
Er þá hægt að treysta Biblíunni? Fornleifafræðingar hafa grafið upp nægar fornminjar til að staðfesta að Biblían fjallar um raunverulegt fólk, raunverulega staði og raunverulega atburði. En jafnvel enn meira sannfærandi er vitnisburðurinn sem finna má í Biblíunni sjálfri. Hreinskilnir ritarar hlífðu engum — ekki einu sinni sjálfum sér — þegar þeir skráðu hreinar staðreyndir. Hið innra samræmi biblíubókanna, þar með talið óviljandi samræmi, gefur „vitnisburðinum“ skýran sannleikstón. Með slík „örugg merki um trúverðugleika“ er Biblían bók sem þú getur vissulega treyst.
[Neðanmáls]
a Eftir þennan fund greindi prófessor André Lemaire frá því að ný endurgerð skemmdrar línu á Mesa-minnisvarðanum (líka kallaður Móabítasteinninn), sem fannst árið 1868, hafi leitt í ljós að á honum sé líka að finna tilvísun til „Húss Davíðs.“4
b „Kefas“ er semíska og jafngildir nafninu „Pétur.“ — Jóhannes 1:42.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Steinbrotið frá Tel Dan.
[Mynd á blaðsíðu 16, 17]
Assýrskar veggmyndir sem lýsa umsátrinu um Lakís sem nefnt er í 2. Konungabók 18:13, 14.