Beðið með „ákafri eftirvæntingu“
„Sköpunin bíður opinberunar sona Guðs með ákafri eftirvæntingu.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 8:19, NW.
1. Hvað er líkt með kristnum mönnum nú á tímum og á fyrstu öld?
SANNKRISTNIR menn eru að mörgu leyti í líkri aðstöðu nú og á fyrstu öld. Spádómur gaf þjónum Jehóva á þeim tíma vísbendingu um hvenær Messías ætti að koma fram. (Daníel 9:24-26) Sami spádómur sagði fyrir eyðingu Jerúsalem en ekkert varð af honum ráðið um það hvenær borginni yrði eytt. (Daníel 9:26b, 27) Einlægir biblíunemendur á 19. öld voru einnig eftirvæntingarfullir vegna spádóms og það var forsjón Guðs að þakka. Þeir settu hinar „sjö tíðir“ í Daníel 4:25 í samband við ‚tíma heiðingjanna‘ og bjuggust við að Kristur tæki við konungdómi árið 1914. (Lúkas 21:24; Esekíel 21:25-27) Enginn af hinum mörgu spádómum Daníels gerir biblíunemendum nútímans kleift að reikna nákvæmlega út hvenær heimskerfi Satans verður gereytt. (Daníel 2:31-44; 8:23-25; 11:36, 44, 45) En það verður innan skamms því að við lifum á ‚endalokatímanum.‘ — Daníel 12:4.a
Árvekni á nærverutíma Krists
2, 3. (a) Hver er helsta sönnunin fyrir því að Jesús sé nærverandi sem konungur núna? (b) Hvað sýnir að kristnir menn áttu að vera vakandi á nærverutíma Jesú Krists?
2 Vissulega voru kristnir menn eftirvæntingarfullir áður en Kristi var veitt konungsvald árið 1914, og það var vegna spádóms. En ‚táknið,‘ sem Kristur gaf um nærveru sína og endalok heimskerfisins, fólst í atburðum. Og flestir þeirra myndu gerast eftir að nærvera hans væri hafin. Slíkir atburðir — styrjaldir, hallæri, jarðskjálftar, drepsóttir, aukið lögleysi, ofsóknir á hendur kristnum mönnum og prédikun fagnaðarerindisins um ríkið um allan heim — eru aðalsönnun þess að við lifum á þeim tíma þegar Kristur er nærverandi sem konungur. — Matteus 24:3-14; Lúkas 21:10, 11.
3 Kjarninn í skilnaðarleiðbeiningum Jesú til lærisveina sinna var þó þessi: „Verið varir um yður, vakið! . . . Vakið!“ (Markús 13:33, 37; Lúkas 21:36) Ef við lesum samhengi þessarar hvatningar Krists um að vaka sjáum við að hann var ekki að tala um að sannir lærisveinar sínir ættu að fylgjast gaumgæfilega með tákninu um það hvenær nærvera hans hæfist, heldur var hann að fyrirskipa þeim að vera vakandi meðan hann væri nærverandi. Fyrir hverju áttu sannkristnir menn að vera vakandi?
4. Hvaða tilgangi þjónaði táknið sem Jesús gaf?
4 Jesús bar fram hinn mikla spádóm sinn sem svar við spurningunni: „Hvenær verður þetta [atburðirnir sem voru undanfari eyðingar gyðingakerfisins] og hvert verður tákn nærveru þinnar og endaloka heimskerfisins?“ (Matteus 24:3, NW) Táknið átti bæði að marka nærveru Krists og atburði sem væru undanfari þess að núverandi heimskerfi liði undir lok.
5. Hvernig benti Jesús á að hann ætti enn eftir að „koma“ þótt hann væri andlega nærverandi?
5 Jesús benti á að hann myndi koma með mætti og dýrð á tíma „nærveru“ (á grísku parósíʹa) sinnar. Hann sagði um slíka ‚komu‘ (mynd grísku sagnarinnar erkhomai): „Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð. . . . Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann [Kristur] er í nánd, fyrir dyrum. . . . Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur. . . . Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ — Matteus 24:30, 32, 33, 42, 44.
Hvers vegna kemur Jesús Kristur?
6. Hvernig mun eyðing ‚Babýlonar hinnar miklu‘ eiga sér stað?
6 Þótt Jesús Kristur hafi verið nærverandi sem konungur frá 1914 á hann enn eftir að dæma kerfi og einstaklinga áður en hann fullnægir dómi á þeim sem reynast vondir. (Samanber 2. Korintubréf 5:10.) Jehóva leggur pólitískum stjórnendum í brjóst innan tíðar að eyða ‚Babýlon hinni miklu,‘ heimsveldi falskra trúarbragða. (Opinberunarbókin 17:4, 5, 16, 17) Páll postuli tók sérstaklega fram að Jesús Kristur myndi eyða ‚lögleysingjanum‘ — hinni afvegaleiddu klerkastétt kristna heimsins sem er veigamikill hluti ‚Babýlonar hinnar miklu.‘ Páll skrifaði: „Þá mun lögleysinginn opinberast, — og honum mun Drottinn Jesús tortíma með anda munns síns og að engu gjöra þegar hann birtist við endurkomu sína.“ — 2. Þessaloníkubréf 2:3, 8, neðanmáls.
7. Hvaða dóm fellir Mannssonurinn þegar hann kemur í dýrð sinni?
7 Í náinni framtíð dæmir Kristur fólk af þjóðunum með hliðsjón af því hvernig það hefur komið fram við bræður hans sem enn eru á jörð. Við lesum: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. . . . Konungurinn mun þá svara þeim [sauðunum]: ‚Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.‘ . . . Og [hafrarnir] munu fara til eilífrar refsingar [eyðingar], en hinir réttlátu til eilífs lífs.“ — Matteus 25:31-46.
8. Hvernig lýsir Páll komu Krists til að fullnægja dómi á óguðlegum?
8 Eins og fram kemur í dæmisögunni um sauðina og hafrana fullnægir Jesús lokadómi á öllum óguðlegum. Páll fullvissaði þjáða trúbræður sína um „hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú. Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti Drottins og fjarri dýrð hans og mætti, á þeim degi, er hann kemur til að vegsamast meðal sinna heilögu.“ (2. Þessaloníkubréf 1:7-10) Ættum við ekki að iðka trú og bíða árvökul eftir komu Krists, í ljósi þeirra spennandi atburða sem framundan eru?
Eftirvæntingarfull bið eftir opinberun Krists
9, 10. Af hverju bíða hinir smurðu á jörðinni enn með ákefð eftir opinberun Jesú Krists?
9 „Drottinn Jesús opinberast af himni“ bæði til að eyða óguðlegum og umbuna réttlátum. Þeir sem enn eru eftir af smurðum bræðrum Krists á jörðinni eiga hugsanlega eftir að þjást áfram áður en hann opinberast, en þeir fagna í himneskri dýrðarvon sinni. Pétur postuli skrifaði smurðum kristnum mönnum: „Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans.“ — 1. Pétursbréf 4:13.
10 Smurðir kristnir menn eru staðráðnir í að vera trúfastir uns Kristur ‚safnar þeim til sín,‘ þannig að „trúarstaðfesta“ þeirra verði þeim „til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists.“ (2. Þessaloníkubréf 2:1; 1. Pétursbréf 1:7) Segja má um slíka trúfasta, andagetna kristna menn: „Vitnisburðurinn um Krist er líka staðfestur orðinn á meðal yðar, svo að yður brestur ekki neina náðargjöf meðan þér væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists.“ — 1. Korintubréf 1:6, 7.
11. Hvað gera hinir smurðu meðan þeir bíða opinberunar Jesú Krists?
11 Hinar smurðu leifar eru sama sinnis og Páll sem skrifaði: „Ég lít svo á, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast.“ (Rómverjabréfið 8:18) Það þarf ekki tímaútreikning til að halda lífinu í trú þeirra. Þeir eru önnum kafnir í þjónustu Jehóva og eru félögum sínum, hinum ‚öðrum sauðum,‘ afbragðsfordæmi. (Jóhannes 10:16) Hinir smurðu vita að endir þessa illa heimskerfis er í nánd og fara eftir hvatningu Péturs: „Gjörið því hugi yðar viðbúna og vakið. Setjið alla von yðar til þeirrar náðar, sem yður mun veitast við opinberun Jesú Krists.“ — 1. Pétursbréf 1:13.
‚Áköf eftirvænting sköpunarinnar‘
12, 13. Hvernig var hin mennska sköpun „undirorpin fallvaltleikanum“ og hvað þrá hinir aðrir sauðir?
12 Hafa hinir aðrir sauðir líka eitthvað til að vænta með ákefð? Svo sannarlega. Eftir að hafa talað um hina dýrlegu von andagetinna kjörsona Jehóva og ‚samarfa Krists‘ að ríkinu á himnum segir Páll: „Sköpunin þráir, að Guðs börn [‚synir,‘ NW] verði opinber. Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann, í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ — Rómverjabréfið 8:14-21; 2. Tímóteusarbréf 2:10-12.
13 Vegna syndar Adams voru allir afkomendur hans fæddir í fjötrum syndar og dauða og ‚undirorpnir fallvaltleikanum.‘ Þeir hafa ekki getað losað sig úr þeim fjötrum. (Sálmur 49:8; Rómverjabréfið 5:12, 21) Hinir aðrir sauðir þrá heitt að verða ‚leystir úr ánauð forgengileikans.‘ En áður en það gerist þurfa vissir atburðir að eiga sér stað samkvæmt tímum og tíðum Jehóva.
14. Hvað verður fólgið í ‚opinberun sona Guðs‘ og hvernig verður það til þess að mannkynið verði „leyst úr ánauð forgengileikans“?
14 Leifar hinna smurðu „sona Guðs“ verða fyrst að ‚opinberast.‘ Hvað felst í því? Á tilsettum tíma Guðs verður hinum öðrum sauðum ljóst að hinir smurðu hafa loks verið ‚merktir innsigli‘ og gerðir dýrlegir til að ríkja með Kristi. (Opinberunarbókin 7:2-4) Upprisnir ‚synir Guðs opinberast‘ líka þegar þeir taka þátt í að eyða illu heimskerfi Satans ásamt Kristi. (Opinberunarbókin 2:26, 27; 19:14, 15) Í þúsundáraríki Krists ‚opinberast‘ þeir enn frekar þegar þeir sem prestar miðla gagninu af lausnarfórn Jesú til hinnar mennsku ‚sköpunar.‘ Það verður til þess að mannkynið verður „leyst úr ánauð forgengileikans“ og gengur að lokum inn „til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ (Rómverjabréfið 8:21; Opinberunarbókin 20:5; 22:1, 2) Er nokkur furða, miðað við þessar stórkostlegu framtíðarhorfur, að hinir aðrir sauðir skuli ‚bíða opinberunar sona Guðs með ákafri eftirvæntingu‘? — Rómverjabréfið 8:19, NW.
Langlyndi Jehóva hefur hjálpræði í för með sér
15. Hverju ættum við aldrei að gleyma í sambandi við tímaáætlun Jehóva?
15 Jehóva er hinn mikli tímavörður. Tímasetning hans á atburðum verður fullkomin. Það er ekki víst að framvindan verði alltaf eins og við höfðum vænst, en við getum hiklaust treyst að öll loforð hans rætist. (Jósúabók 23:14) Jehóva leyfir kannski að framvindan verði lengri en margir bjuggust við. En leitumst við að skilja vegi hans og bera lotningu fyrir visku hans. Páll skrifaði: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans! Hver hefur þekkt huga [Jehóva]? Eða hver hefur verið ráðgjafi hans?“ — Rómverjabréfið 11:33, 34.
16. Hverjir geta notið góðs af langlyndi Jehóva?
16 Pétur skrifaði: „Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta [eyðingar hinna gömlu ‚himna‘ og „jarðar“ og þess að ‚nýr himinn‘ og ‚ný jörð‘ komi í staðinn eftir fyrirheiti Guðs], þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði. Álítið langlyndi Drottins vors vera hjálpræði.“ Vegna langlyndis Jehóva fá milljónir manna til viðbótar tækifæri til að lifa ‚dag Jehóva‘ af þegar hann kemur óvænt „sem þjófur.“ (2. Pétursbréf 3:9-15) Langlyndi hans gefur líka hverju og einu okkar færi á að ‚vinna að sáluhjálp okkar með ugg og ótta.‘ (Filippíbréfið 2:12) Jesús sagði að við yrðum að ‚hafa gát á sjálfum okkur‘ og ‚vaka‘ til að hljóta velþóknun og „standast frammi fyrir Mannssyninum“ þegar hann kemur til að dæma. — Lúkas 21:34-36; Matteus 25:31-33.
Höldum áfram að bíða með þolgæði
17. Hvaða orð Páls postula ættum við að taka til okkar?
17 Páll hvatti andlega bræður sína til að horfa „ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega.“ (2. Korintubréf 4:16-18) Hann vildi ekki að neitt skyggði á að þeir sæju himnesku launin sem þeir áttu í vændum. Hvort sem við erum smurðir kristnir menn eða aðrir sauðir skulum við hafa hugfasta hina dýrlegu von sem við eigum og gefast ekki upp. ‚Bíðum með þolinmæði‘ og sýnum að við „skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.“ — Rómverjabréfið 8:25; Hebreabréfið 10:39.
18. Af hverju er okkur fullkomlega óhætt að láta Jehóva um tíma og tíðir?
18 Okkur er fullkomlega óhætt að láta Jehóva um tíma og tíðir. Fyrirheit hans munu uppfyllast samkvæmt tímaáætlun hans og „ekki undan líða“ eða seinka. (Habakkuk 2:3) Hvatning Páls til Tímóteusar hefur því enn meiri þýðingu fyrir okkur en ella. Hann sagði: „Fyrir augliti Guðs og Krists Jesú, sem dæma mun lifendur og dauða, með endurkomu hans fyrir augum og ríki hans heiti ég á þig: Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma. . . . Gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:1-5.
19. Hvað er enn tími til að gera og hvers vegna?
19 Mannslíf eru í húfi — okkar eigið og nágranna okkar. Páll skrifaði: „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ (1. Tímóteusarbréf 4:16) Þetta illa heimskerfi á mjög skammt eftir. Meðan við bíðum eftirvæntingarfull eftir þeim spennandi atburðum, sem eru framundan, skulum við vera sívakandi fyrir því að það er enn tími og tíð Jehóva til að fólk hans prédiki fagnaðarerindið um ríkið. Það þarf að gera þessu starfi þau skil sem hann vill. „Þá,“ sagði Jesús, „mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.
[Neðanmáls]
a Sjá 10. og 11. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Til upprifjunar
◻ Að hvaða leyti erum við í svipaðri aðstöðu og kristnir menn á fyrstu öld hvað tímareikning varðar?
◻ Af hverju verða kristnir menn að ‚vaka,‘ meira að segja á nærverutíma Krists?
◻ Af hverju bíður hin mennska sköpun „opinberunar sona Guðs“ með ákafri eftirvæntingu?
◻ Hvers vegna er okkur fullkomlega óhætt að láta Jehóva um tíma og tíðir?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Kristnir menn verða að halda vöku sinni og vænta komu Krists af ákefð.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Hinar smurðu leifar byggja trú sína ekki á tímareikningi heldur eru önnum kafnar í þjónustu Jehóva.