Hlutverk okkar sem friðarboðberar Guðs
„Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir.“ — JESAJA 52:7.
1, 2. (a) Hvaða fagnaðartíðindi þarf að boða eins og spáð er í Jesaja 52:7? (b) Hvað merktu spádómsorð Jesaja í sambandi við Forn-Ísrael?
ÞAÐ er góðar fréttir að færa! Þetta eru fréttir um frið — sannan frið. Þetta er hjálpræðisboðskapur tengdur ríki Guðs. Spámaðurinn Jesaja skrifaði um þennan boðskap endur fyrir löngu, og það sem hann skrifaði er varðveitt fyrir okkur í Jesajabók 52:7. Þar lesum við: „Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: ‚Guð þinn er setstur að völdum!‘“
2 Jehóva innblés spámanni sínum Jesaja að skrifa þennan boðskap til gagns fyrir Ísraelsmenn að fornu og fyrir okkur nútímamenn. Hvað merkir hann? Vera má að Assýringar hafi verið búnir að flytja íbúa norðurríkisins Ísraels í útlegð þegar Jesaja skrifaði þessi orð. Íbúar suðurríkisins Júda yrðu fluttir síðar í útlegð til Babýlonar. Þetta voru angistar- og ólgutímar meðal þjóðarinnar því hún hafði ekki hlýtt lögmáli Jehóva Guðs og átti ekki frið við hann. Eins og Jehóva sagði þjóðinni ollu syndir hennar viðskilnaði við hann. (Jesaja 42:24; 59:2-4) En fyrir munn Jesaja sagði Jehóva að þegar þar að kæmi myndu hlið Babýlonar galopnast. Fólki hans yrði frjálst að snúa aftur heim í land sitt til að endurreisa musteri hans. Síon yrði endurreist og hinn sanni Guð yrði aftur tilbeðinn í Jerúsalem. — Jesaja 44:28; 52:1, 2.
3. Hvernig var endurreisnarspádómurinn um Ísrael einnig friðarspádómur?
3 Þetta frelsunarfyrirheit var líka friðarspádómur. Heimkoma Ísraelsmanna til landsins, sem Jehóva gaf þeim, yrði merki um miskunn hans og iðrun þeirra. Það gæfi til kynna að þeir ættu frið við Guð. — Jesaja 14:1; 48:17, 18.
„Guð þinn er setstur að völdum!“
4. (a) Í hvaða skilningi mátti segja árið 537 f.o.t. að ‚Jehóva væri setstur að völdum‘? (b) Hvernig stýrði Jehóva málum til gagns fyrir fólk sitt síðar meir?
4 Þegar Jehóva frelsaði þjóðina árið 537 f.o.t. var vel við hæfi að kunngera Síon: „Guð þinn er setstur að völdum!“ Vissulega er Jehóva „konungur aldanna“ eða eilífðarinnar. (Opinberunarbókin 15:3) En með frelsun þjóðarinnar var hann að sýna drottinvald sitt á nýjan hátt. Það sýndi með eftirtektarverðum hætti fram á mátt hans og vald yfir voldugasta heimsveldi manna fram til þess tíma. (Jeremía 51:56, 57) Fyrir atbeina anda Jehóva voru önnur samsæri gegn fólki hans ónýtt. (Esterarbók 9:24, 25) Aftur og aftur skarst Jehóva í leikinn á ýmsa vegu til að láta konunga Medíu-Persíu stuðla að því að hinn æðsti vilji hans næði fram að ganga. (Sakaría 4:6) Hinir stórkostlegu atburðir þess tíma eru skráðir handa okkur í Biblíunni í Esrabók, Nehemíabók, Esterarbók, Haggaíbók og Sakaríabók. Og það er mjög trústyrkjandi fyrir okkur að skoða þær.
5. Hvaða þýðingarmikla atburði er bent á í Jesaja 52:13–53:12?
5 En það sem gerðist árið 537 f.o.t. og þar á eftir var aðeins upphafið. Strax á eftir endurreisnarspádóminum í 52. kafla skrifaði Jesaja um komu Messíasar. (Jesaja 52:13–53:12) Fyrir milligöngu Messíasar, sem reyndist vera Jesús Kristur, ætlaði Jehóva að koma á framfæri enn þýðingarmeiri frelsunar- og friðarboðskap en þeim sem fram kom árið 537 f.o.t.
Mesti friðarboðberi Jehóva
6. Hver er mesti friðarboðberi Jehóva og hvaða starfsumboð heimfærði hann á sjálfan sig?
6 Jesús Kristur er mesti friðarboðberi Jehóva. Hann er Orðið Guðs, einkatalsmaður Jehóva. (Jóhannes 1:14) Í samræmi við það stóð hann upp í samkunduhúsinu í Nasaret skömmu eftir að hann lét skírast í Jórdan, og las starfsumboð sitt upphátt úr 61. kafla Jesaja. Þetta starfsumboð tók af öll tvímæli um að boðskapurinn, sem hann var sendur til að prédika, fól í sér „lausn“ og lækningu og tækifæri til að öðlast velvild Jehóva. En Jesús boðaði ekki bara friðarboðskap. Guð sendi hann líka til að leggja grunn varanlegs friðar. — Lúkas 4:16-21.
7. Hvað hefur friður Guðs, sem er mögulegur vegna Jesú Krists, í för með sér?
7 Við fæðingu Jesú birtust englar fjárhirðum í grennd við Betlehem. Þeir lofuðu Guð og sögðu: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“ (Lúkas 2:8, 13, 14) Já, þeir sem Guð hefði velþóknun á áttu að njóta friðar af því að þeir trúðu á þá ráðstöfun sem hann var að gera fyrir atbeina sonar síns. Hvað þýddi það? Að menn, fæddir í synd, gætu staðið hreinir frammi fyrir Guði og átt velþóknanlegt samband við hann. (Rómverjabréfið 5:1) Þeir gætu átt frið og innri ró sem ekki fengist með öðrum hætti. Á tilsettum tíma Guðs yrðu menn leystir undan öllum áhrifum syndar Adams, meðal annars sjúkdómum og dauða. Enginn yrði lengur blindur, daufur eða haltur. Gremjulegt þróttleysi og átakanlegir geðsjúkdómar yrðu upprættir fyrir fullt og allt. Þannig gætu menn lifað fullkomnir að eilífu. — Jesaja 33:24; Matteus 9:35; Jóhannes 3:16.
8. Hverjum stendur friður Guðs til boða?
8 Hverjum stendur friður Guðs til boða? Öllum sem trúa á Jesú Krist. Páll postuli skrifaði að ‚í Kristi hafi Guði þóknast að koma öllu í sátt við sig með því að semja frið með blóði hans úthelltu á kvalastaurnum.‘ Postulinn bætti við að þessar sættir næðu til þess sem væri ‚á himnum‘ — það er að segja þeirra sem ættu að verða samerfingjar Krists á himni. Þær myndu einnig ná til þess sem væri „á jörðu“ — það er að segja þeirra sem veitt yrði tækifæri til að lifa eilíflega hér á jörð þegar henni verður breytt að fullu í paradís. (Kólossubréfið 1:19, 20) Með því að notfæra sér verðgildi fórnar Jesú og með því að hlýða Guði af heilu hjarta gætu þeir allir átt innilegt vináttusamband við hann. — Samanber Jakobsbréfið 2:22, 23.
9. (a) Á hvaða önnur samskipti hefur friður Guðs áhrif? (b) Hvaða vald fékk Jehóva syni sínum í þeim tilgangi að koma alls staðar á varanlegum friði?
9 Slíkur friður við Guð er sannarlega mikilvægur! Án friðar við Guð er ekki um að ræða varanlegan eða innihaldsríkan frið í nokkrum öðrum samskiptum. Friður við Jehóva er undirstaða ósvikins friðar á jörð. (Jesaja 57:19-21) Í samræmi við það er Jesús Kristur Friðarhöfðinginn. (Jesaja 9:6) Jehóva hefur líka falið honum að fara með stjórnvald, en fyrir hans atbeina geta menn sæst við Guð. (Daníel 7:13, 14) Og Jehóva lofar þessu um árangurinn af höfðinglegri stjórn Jesú yfir mannkyninu: „Friðurinn [mun] engan enda taka.“ — Jesaja 9:7; Sálmur 72:7.
10. Hvaða fordæmi gaf Jesús í því að boða friðarboðskap Guðs?
10 Allt mannkyn þarfnast friðarboðskapar Guðs. Jesús gaf persónulega fordæmið með því að prédika hann kostgæfilega á musterissvæðinu í Jerúsalem, í fjallshlíðum, á vegum úti, fyrir samverskri konu við brunn og inni á heimilum manna. Alls staðar þar sem fólk var að finna skapaði Jesús sér tækifæri til að prédika um frið og Guðsríki. — Matteus 4:18, 19; 5:1, 2; 9:9; 26:55; Markús 6:34; Lúkas 19:1-10; Jóhannes 4:5-26.
Þjálfaðir til að feta í fótspor Krists
11. Fyrir hvaða starf þjálfaði Jesús lærisveina sína?
11 Jesús kenndi lærisveinunum að prédika friðarboðskap Guðs. Þeir gerðu sér ljóst að þeir bæru þá ábyrgð að bera vitni, alveg eins og Jesús var ‚trúr og sannur vottur‘ Jehóva. (Opinberunarbókin 3:14; Jesaja 43:10-12) Þeir horfðu til Krists sem leiðtoga.
12. Hvernig benti Páll á mikilvægi prédikunarstarfsins?
12 Páll postuli rökræddi um þýðingu prédikunarstarfsins og sagði: „Ritningin segir: ‚Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða.‘“ Enginn verður fyrir vonbrigðum sem trúir á Jesú Krist sem höfuðmiðlara hjálpræðis Jehóva. Og enginn er óhæfur sökum þjóðernis eða uppruna því að Páll bætti við: „Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann; því að ‚hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.‘“ (Rómverjabréfið 10:11-13) En hvernig átti fólk að fá vitneskju um þetta tækifæri?
13. Hvað þurfti til að fólk heyrði fagnaðarerindið og hvernig brugðust kristnir menn á fyrstu öld við þessari þörf?
13 Páll fjallaði um það með því að spyrja spurningar sem hver einstakur kristinn maður ætti að hugsa um. Hann spurði: „Hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur?“ (Rómverjabréfið 10:14, 15) Saga frumkristninnar ber því ríkulega vitni að karlar sem konur og ungir sem aldnir hafi fylgt fordæmi Krists og postula hans. Þau urðu kostgæfnir boðberar fagnaðarerindisins. Að fyrirmynd Jesú prédikuðu þau fyrir fólki hvar sem það var að finna. Þau vildu ekki missa af neinum þannig að þau inntu þjónustu sína af hendi bæði á torgum og hús úr húsi. — Postulasagan 17:17; 20:20.
14. Hvernig reyndist „fótatak“ fagnaðarboðanna „fagurt“?
14 Þessum kristnu prédikurum var að sjálfsögðu ekki alls staðar vel tekið. Engu að síður reyndist tilvitnun Páls í Jesaja 52:7 dagsönn. Eftir að hann hafði spurt: „Hver getur prédikað, nema hann sé sendur?“ bætti hann við: „Svo er og ritað: ‚Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.‘“ Yfirleitt hugsum við ekki um fótatak okkar sem fagurt. Hvað er þá átt við? Það eru fæturnir sem bera mann stað úr stað þegar hann prédikar fyrir öðrum. Slíkir fætur eru í vissum skilningi fulltrúar hans. Og við megum vera viss um að fótatak postulanna og annarra lærisveina Jesú Krists á fyrstu öld var fagurt í eyrum margra sem heyrðu fagnaðarerindið á þeim tíma. (Postulasagan 16:13-15) En það sem meira er, þeir voru dýrmætir í augum Guðs.
15, 16. (a) Hvernig sýndu þessir frumkristnu menn að þeir voru sannir friðarboðberar? (b) Hvað getur hjálpað okkur að inna þjónustu okkar af hendi á sama hátt og frumkristnir menn?
15 Fylgjendur Jesú höfðu friðarboðskap að færa og þeir fluttu hann friðsamlega. Jesús sagði lærisveinum sínum: „Hvar sem þér komið í hús, þá segið fyrst: ‚Friður sé með þessu húsi.‘ Og sé þar friðar sonur, mun friður yðar hvíla yfir honum, ella hverfa aftur til yðar.“ (Lúkas 10:5, 6) Shalohmʹ eða „friður“ er hefðbundin kveðja meðal Gyðinga. En fyrirmæli Jesú fólu miklu meira í sér en kveðju. Smurðir lærisveinar Krists voru ‚erindrekar í hans stað‘ og hvöttu fólk: „Látið sættast við Guð.“ (2. Korintubréf 5:20) Í samræmi við fyrirmæli Jesú töluðu þeir við fólk um Guðsríki og persónulega þýðingu þess fyrir menn. Þeir sem hlýddu á hlutu blessun fyrir; þeir sem höfnuðu boðskapnum misstu af henni.
16 Vottar Jehóva inna þjónustu sína af hendi með sama hætti núna. Þeir flytja fólki fagnaðarerindi sem er ekki þeirra heldur þess sem sendi þá. Þeim hefur verið falið að flytja það. Ef fólk tekur við því á það stórkostlega blessun í vændum. Ef það hafnar því er það að hafna friði við Jehóva Guð og son hans, Jesú Krist. — Lúkas 16:10.
Friðsamir í ólgusömum heimi
17. Hvernig ættum við að koma fram, jafnvel andspænis lastmálu fólki, og hvers vegna?
17 Hver sem viðbrögð manna eru þurfa þjónar Jehóva að hafa í huga að þeir eru friðarboðberar hans. Í heiminum eiga menn til að rífast hástöfum og gefa reiði sinni lausan tauminn með meiðandi orðum eða með því að ausa svívirðingum yfir þá sem fara í taugarnar á þeim. Kannski gerðum við það áður, sum okkar, en nú höfum við íklæðst nýja persónuleikanum. Við tilheyrum ekki lengur heiminum og líkjum ekki eftir hátterni þeirra. (Efesusbréfið 4:23, 24, 31; Jakobsbréfið 1:19, 20) Óháð því hvernig aðrir koma fram förum við eftir ráðleggingunni: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ — Rómverjabréfið 12:18.
18. Hver ættu viðbrögð okkar að vera ef opinber embættismaður er hranalegur við okkur og hvers vegna?
18 Þjónusta okkar verður stundum til þess að við þurfum að ganga fyrir opinbera embættismenn. Í krafti valds síns ‚krefjast‘ þeir kannski skýringa á því hvers vegna við gerum þetta eða hitt eða hvers vegna við viljum ekki taka þátt í vissri starfsemi. Kannski vilja þeir vita af hverju við prédikum boðskapinn sem við berum — boðskap sem afhjúpar falstrú og boðar endalok núverandi heimskerfis. Virðing okkar fyrir fordæmi Krists fær okkur til að vera hógvær og sýna djúpa virðingu. (1. Pétursbréf 2:23; 3:15, 16) Oft eru klerkar að þrýsta á þessa embættismenn, eða þá yfirmenn þeirra. Vingjarnlegt og virðulegt svar getur komið þeim í skilning um að hvorki þeim né friði samfélagsins stafi nokkur hætta af starfi okkar. Slíkt svar stuðlar að virðingu, samvinnu og friði hjá þeim sem taka það gott og gilt. — Títusarbréfið 3:1, 2.
19. Hvers konar starfsemi taka vottar Jehóva aldrei þátt í?
19 Vottar Jehóva eru þekktir um víða veröld fyrir að taka engan þátt í átökum heimsins. Þeir blanda sér hvorki í kynþátta-, trúar- né stjórnmálaerjur hans. (Jóhannes 17:14) Orð Guðs fyrirskipar okkur að ‚hlýða yfirvöldum‘ þannig að við ættum ekki einu sinni að láta okkur detta í hug að taka þátt í opinberri óhlýðni í mótmælaskyni við stefnu stjórnvalda. (Rómverjabréfið 13:1) Vottar Jehóva hafa aldrei gengið til liðs við nokkra hreyfingu sem stefnir að því að steypa stjórnvöldum af stóli. Í ljósi þeirra staðla, sem Jehóva setur kristnum þjónum sínum, er óhugsandi að þeir taki þátt í blóðsúthellingum eða ofbeldi af nokkru tagi! Kristnir menn tala ekki bara um frið; þeir lifa samkvæmt því sem þeir prédika.
20. Hvers konar orð hefur Babýlon hin mikla getið sér í sambandi við frið?
20 Ólíkt sannkristnum mönnum hafa fulltrúar trúfélaga kristna heimsins ekki verið neinir friðarboðberar. Trúarbrögð Babýlonar hinnar miklu — kirkjur kristna heimsins jafnt sem ókristin trúarbrögð — hafa lagt blessun sína yfir styrjaldir þjóðanna, stutt þær og hreinlega tekið forystuna í þeim. Þau hafa líka æst til ofsókna á hendur trúföstum þjónum Jehóva og jafnvel staðið fyrir morðum á þeim. Opinberunarbókin 18:24 segir því um Babýlon hina miklu: „Í henni fannst blóð spámanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni.“
21. Hvernig bregst margt hjartahreint fólk við þegar það sér muninn á framferði fólks Jehóva og þeirra sem iðka falstrú?
21 Sönn trú er einingarafl, ólíkt trúflokkum kristna heimsins og öðrum trúarbrögðum Babýlonar hinnar miklu. Jesús Kristur sagði við sanna fylgjendur sína: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Þessi elska eða kærleikur er hafinn yfir þau landamæri þjóðernis, þjóðfélags, efnahags og kynþátta sem sundra mannkyninu. Milljónir manna um heim allan hafa séð það og segja við smurða þjóna Jehóva: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.“ — Sakaría 8:23.
22. Hvernig lítum við á það vitnisburðarstarf sem enn er óunnið?
22 Það sem áunnist hefur er fólki Jehóva mikið gleðiefni, en starfinu er enn ekki lokið. Bóndinn leggur ekki hendur í skaut eftir að hafa sáð í akur sinn og ræktað hann. Hann vinnur þrotlaust, sérstaklega þegar uppskeran stendur sem hæst. Uppskerutíminn kallar á langa og stranga vinnulotu. Og uppskera dýrkenda Guðs er meiri nú en nokkru sinni fyrr. Þetta er fagnaðartími. (Jesaja 9:3) Að vísu mætum við bæði andstöðu og áhugaleysi. Við getum sjálf átt við alvarleg veikindi að stríða, erfiðar fjölskylduaðstæður eða fjárhagsvandræði. En kærleikur til Jehóva fær okkur til að þrauka. Fólk þarf að heyra boðskapinn sem Guð hefur trúað okkur fyrir. Þetta er friðarboðskapur. Þetta er boðskapur sem Jesús sjálfur prédikaði — fagnaðarerindið um ríki Guðs.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig uppfylltist Jesaja 52:7 á Forn-Ísrael?
◻ Hvernig reyndist Jesús vera mesti friðarboðberinn?
◻ Hvernig tengdi Páll postuli Jesaja 52:7 við starfið sem kristnir menn taka þátt í?
◻ Hvað er fólgið í því að vera friðarboðberi á okkar dögum?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Vottar Jehóva eru friðsamir óháð því hvernig fólk bregst við boðskapnum um Guðsríki.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Vottar Jehóva eru friðarboðberar líkt og Jesús.