Hvers vegna hefur EYÐNI breiðst svona út?
HVERS vegna er eyðni orðin svona útbreidd? Þótt ekki sé vitað með vissu hvernig, hvenær eða hvar sjúkdómurinn átti upptök sín er vitað að útbreiðsla hans fer eftir ákveðnum, afmörkuðum leiðum. Í Bandaríkjunum og Evrópu breiddist sjúkdómurinn til dæmis aðallega út við kynvillumök karla. Þegar augu manna beindust fyrst að sjúkdómnum fannst hann nánast eingöngu meðal kynvilltra karla (og karla sem höfðu mök við bæði kynin). Í janúar 1987 var talið að 74 af hundraði eyðnisjúklinga í Evrópu tilheyrðu þessum hópi.
Þessu næst fór sjúkdómsins að verða vart meðal fíkniefnaneytenda sem sprautuðu sig. Nokkrum árum síðar voru 15 af hundraði allra eyðnisjúklinga úr þeim hópi og fer enn fjölgandi. Sums staðar hefur helmingur allra fíkniefnaneytenda, sem sprauta sig, fengið eyðniveiruna. Því sagði tímaritið Science: „Þorri sýktra í Bandaríkjunum er annaðhvort kynvilltir karlmenn eða notendur stungulyfja.“
Að minnsta kosti helmingur kynvilltra karlmanna í San Francisco gengur með eyðniveiruna. Dauðsföll af völdum eyðni hafa nánast lagt samfélag kynvilltra þar í borg í rúst. Langtímarannsókn á kynvilltum karlmönnum þar leiddi í ljós að af þeim sem mældust hafa eyðniveiruna fyrir sjö árum voru 78 prósent annaðhvort með eyðni á lokastigi, með forstigseinkenni eða einhverja ónæmisbæklun. Og þótt nýjum sjúkdómstilfellum hafi hlutfallslega fækkað meðal kynvilltra er lítið hægt að gera fyrir þá sem þegar eru sýktir.
Haítí hefur oft verið nefnd í sambandi við eyðni. Dagblaðið Los Angeles Times sagði þar um: „Nýjar upplýsingar benda til að eyðniveiran hafi borist til eyja Karíbahafsins einkanlega við kynvillutengsl milli eyjabúa og Bandaríkjamanna.“
Hvers vegna einkum þeir?
Hvers vegna er kynvillingum sérstaklega hætt við að fá eyðni? Vegna kynlífsathafna sinna. Þótt eyðni geti borist manna í milli við notkun munns við samræði hefur hún einkum borist milli kynvilltra karla við notkun endaþarms við samræði.
Endaþarmi mannsins var ætlað það hlutverk að losa líkamann við úrgangsefni — saur — ekki til kynmaka. Þekjuvefurinn, sem klæðir hann að innan, er næfurþunnur. Sé endaþarmurinn notaður til kynmaka rifnar þekjuvefurinn auðveldlega svo að eftir verða blæðandi sprungur. Við kynvillumök getur eyðniveiran hæglega borist með sæði úr sýktum karlmanni eða frá fleiðri eða sári á getnaðarlim hans. Smit getur einnig borist hina leiðina úr sári á þekjuvef endaþarmsins.
Við þetta bætist að kynvillingar eiga oft býsna marga rekkjunauta á ævinni — hundruð eða jafnvel þúsundir. Ungur kynvillingur, sem smitaði marga áður en hann dó úr eyðni, var sagður hafa haft mök við 2500 karlmenn á tíu árum. Starf hans hjá flugfélagi gerði honum kleift að ferðast mikið. Annar sagðist hafa haft kynvillumök við um það bil 5000 karlmenn á 20 árum. Líkurnar á því að slíkir menn breiði út eyðni eru augljósar.
Þá er að nefna að kynlífsathafnir kynvilltra karla hafa í för með sér að aðrir sjúkdómar, svo sem lifrarbólga, lekandi og herpes, eru algengir þeirra á meðal. Þessir sjúkdómar veikla líkamann og eru taldir minnka mótstöðuafl hans gegn eyðni.
Er kynvilla óeðlileg?
Engum blöðum er um það að fletta að kynvillumök hafa flýtt stórum útbreiðslu eyðni. Kynvillumök ganga í berhögg við líffræðilega gerð mannslíkamans.
Því er ekki hægt að afgreiða kynvillu sem ‚annan lífsstíl.‘ Hún er óeðlileg, afskræming þess lífernis sem við vorum sköpuð til, réttilega nefnd „villa.“ Biblían talar um kynvillu sem afleiðingu ‚ósæmilegs hugarfars‘ og segir: „Guð [hefur] ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.“ — Rómverjabréfið 1:26-32.
Í lögum þeim sem Guð gaf Ísraelsþjóð fortíðarinnar sagði: „Leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð.“ — 3. Mósebók 20:13.
Að kynvilla sé óeðlileg má sjá af einfaldri staðreynd: Væru allir menn kynvilltir eingöngu myndi mannkynið deyja út á einnar kynslóðar tímabili.
Er með þessu verið að segja, eins og sumir hafa haldið fram, að Guð leiði eyðnipláguna yfir kynvillinga? Nei, Biblían segir það ekki. Þeir eru einfaldlega að ‚uppskera eins og þeir hafa sáð.‘ (Galatabréfið 6:7) Í orði Guðs kemur fram þessi meginregla: „Þeirra eigin svívirðíng spillti þeim.“ — 5. Mósebók 32:5, Ísl. bi. 1859.
Gagnkynhneigðir smitast líka
Eyðni er ekki aðeins sjúkdómur kynvilltra; hann hefur líka breiðst út til gagnkynhneigðra karla og kvenna. Smitleiðin getur verið tvíkynhneigðir karlmenn sem hafa smitast af kynmökum við aðra karlmenn og síðan smitað konur sem þeir hafa haft mök við.
Eyðni getur einnig borist milli fíkniefnaneytenda sem sprauta sig og nota óhreinar sprautur og nálar. Þeir geta síðan smitað karla eða konur sem þeir hafa kynmök við. Víða er mjög stór hluti vændiskvenna smitaður. Þær smita síðan viðskiptavini sína.
Í Afríku er eyðni útbreidd meðal gagnkynhneigðra. Þar er sjúkdómurinn álíka algengur meðal karla og kvenna. Þótt útbreiðsla eyðni meðal gagnkynhneigðra í Evrópu, Bandaríkjunum og annars staðar sé ekki jafnör og í Afríku fer hún einnig vaxandi í þeim hópi. Fleiri og fleiri karlar og konur, sem eru hvorki kynvillt eða með kynhneigð til beggja kynja, fá nú smit og eru smitberar. Í skýrslu sagði: „Eyðni er orðin algengasta dánarorsök kvenna á aldrinum 25 til 34 ára í New Yorkborg.“ Og stór hluti — sumir segja um helmingur — barna, sem smitaðar konur fæða, hafa einnig sjúkdóminn.
Sökum þeirrar léttúðar í siðferðismálum, sem einkennt hefur undangengna áratugi, er lauslæti mikið og hjúskaparbrot tíð. Karlar og konur eiga oft fjölmarga rekkjunauta. Þeir sem hafa fengið eyðniveiruna geta smitað aðra. Slíkt lauslæti er einnig fordæmt í Biblíunni. — 1. Korintubréf 6:9, 10; Opinberunarbókin 22:15.
Blóð getur einnig smitað
Sumir hinna sýktu hafa smitast við blóðgjafir. Kanadíska blaðið The Medical Post segir: „Dr. Thomas Peterman, farsóttarfræðingur við eyðnideild sóttvarnastofnunarinnar, . . . áætlar að 12.000 Bandaríkjamenn hafi sýkst af HIV [eyðniveirunni] frá menguðu blóði á árunum 1978-1984.“
Margir þessara blóðþega eru dánir eða deyjandi. Ýmsir bandarískir spítalar hafa ráðlagt þeim sem fengu blóðgjöf áður en mótefnamælingar í blóði hófust árið 1985 að láta mæla sig.
Rannsóknir bandarísku sóttvarnamiðstöðvarinnar í Atlanta benda til að snemma árs 1985 hafi flestir hinna 10.000 Bandaríkjamanna með dreyrasýki á háu stigi verið búnir að fá eyðniveiruna. Auk þess voru á bilinu 30 til 50 af hundraði annarra dreyrasjúklinga einnig sýktir. Talið er að yfir helmingur dreyrasjúkra í Brasilíu kunni að hafa smitast af eyðniveirunni.
Dr. Margaret Hilgartner við New York Hospital — Cornell Medical Center segir: „Maður sem er með dreyrasýki á háu stigi fær blóðhluta úr 800.000 til einni milljón manna á ári. Áður en lyfjafyrirtæki byrjuðu að beita hitameðferð á blóðafurðir var smithættan ótrúleg.“ Hún bætir við: „Við verðum vör við að fleiri og fleiri ungir dreyrasjúklingar svipta sig lífi. Þeir eru mjög reiðir. Þeim finnst þeir vera eins og blórabögglar.“
Jonathan Goldsmith við Nebraska Regional Hemophilia Center í Omaha í Bandaríkjunum segir að blóðgjafir í lækningaskyni „hafi alltaf verið hættulegar vegna þess að verið er að nota líffræðilegt efni. En þetta er það versta. Það hefur valdið læknum miklum harmi. Það var aldrei ætlun okkar að nokkuð þessu líkt gerðist.“
Sá sem smitast hefur af eyðni vegna blóðgjafar getur smitað maka sinn við kynmök. Við rannsókn meðal giftra karlmanna, sem fengið höfðu eyðni vegna blóðgjafar, kom í ljós að 14 af hundraði eiginkvenna þeirra höfðu einnig fengið veiruna.
Ætlað er að í Afríku hafi um 10 af hundraði allra smitaðra karla og kvenna fengið veiruna með sýktu blóði eða sýktum sprautunálum, svo sem við bólusetningar. Þar eð sumir ætla að um fimm milljónir manna hafi fengið veiruna í Mið-Afríku gæti það þýtt að yfir 500.000 manns þar hafi fengið hana með sýktu blóði.
Hvað getur fólk gert til að vernda sig fyrir eyðni, úr því að veiran er orðin svona útbreidd?
[Innskot á blaðsíðu 10]
Í Afríku er eyðni útbreidd meðal gagnkynhneigðra.
[Innskot á blaðsíðu 10]
Um 10 prósent eyðnismitaðra í Afríku hafa fengið veiruna með sýktu blóði.
[Myndir á blaðsíðu 9]
Í byrjun breiddist eyðni aðallega út meðal kynvillinga og fíkniefnaneytenda. Sjúkdómurinn hefur einnig borist með blóðgjöfum.
[Aukarammi á blaðsíðu 11]
„Þótt erfitt sé að fullyrða um slíkt virðist sem fræðsla um hættuna á alnæmissmiti og smiti af öðrum kynsjúkdómum hafi sáralítil áhrif á kynhegðun fólks, á hvaða aldri sem er. Það kemur enda í ljós í könnun, sem gerð var á síðasta ári, að þótt tekist hafi að breiða vel út þekkingu á smitleiðum alnæmis, hafa aðeins ellefu prósent aðspurðra í hyggju að breyta kynlífshegðun sinni vegna fenginnar vitneskju í þessum efnum.“ —Fréttabréf Landlæknisembættisins, maí 1988.