Eigum hlut í hugguninni sem Jehóva veitir
„Von vor um yður er staðföst. Vér vitum, að þér eigið hlut í huggun vorri eins og þér eigið hlut í þjáningum vorum.“ — 2. KORINTUBRÉF 1:7.
1, 2. Hver hefur verið reynsla margra sem gerst hafa kristnir nú á tímum?
MARGIR núverandi lesendur Varðturnsins ólust upp án þekkingar á sannleika Guðs. Kannski ert þú einn þeirra. Ef svo er, rifjaðu þá upp hvernig þér leið þegar skilningsaugu þín tóku að opnast. Létti þér til dæmis ekki þegar þú skildir í fyrsta sinn að hinir dánu þjást ekki heldur eru meðvitundarlausir? Og fannst þér ekki huggandi og hughreystandi að læra um þá von hinna dánu, að milljarðar manna verði reistar upp til lífs í nýjum heimi Guðs? — Prédikarinn 9:5, 10; Jóhannes 5:28, 29.
2 Hvað um það fyrirheit Guðs að binda enda á illskuna og umbreyta jörðinni í paradís? Fylltistu ekki ákafri eftirvæntingu þegar þú lærðir um það og fannst þér það ekki hughreystandi? Hvernig var þér innanbrjósts þegar þú heyrðir fyrst um þann möguleika að þurfa aldrei að deyja heldur lifa áfram inn í hina komandi paradís á jörð? Vafalaust fór sælustraumur um þig. Já, þú varst farinn að taka við huggunar- og hughreystingarboðskap Guðs sem vottar Jehóva prédika nú um heim allan. — Sálmur 37:9-11, 29; Jóhannes 11:26; Opinberunarbókin 21:3-5.
3. Hvers vegna líða þeir líka þrengingu sem segja öðrum frá huggunarboðskap Guðs?
3 En þegar þú reyndir að koma boðskap Biblíunnar á framfæri við aðra rann líka upp fyrir þér að „ekki er trúin allra.“ (2. Þessaloníkubréf 3:2) Kannski gerðu sumir fyrrverandi vinir þínir gys að þér fyrir að trúa á fyrirheit Biblíunnar. Ef til vill varstu jafnvel ofsóttur fyrir að halda áfram biblíunámi þínu með vottum Jehóva. Andstaðan magnaðist svo kannski þegar þú fórst að breyta lífi þínu til samræmis við loforð Biblíunnar. Þú fórst að finna fyrir þrengingunni sem Satan og heimur hans leggja á alla sem þiggja huggun og hughreystingu Guðs.
4. Á hvaða ólíka vegu bregðast þeir, sem hafa nýlega sýnt áhuga, við þrengingu?
4 Því miður bregðast sumir þegar þrenging verður og hætta að hafa samband við kristna söfnuðinn eins og Jesús sagði fyrir. (Matteus 13:5, 6, 20, 21) Aðrir þola þrengingarnar með því að einbeita sér að þeim hughreystandi fyrirheitum sem þeir eru að kynnast. Loks vígja þeir Jehóva líf sitt og láta skírast sem lærisveinar sonar hans, Jesú Krists. (Matteus 28:19, 20; Markús 8:34) Þrengingar hætta auðvitað ekki um leið og kristinn maður lætur skírast. Það getur til dæmis verið erfið barátta fyrir þann mann að vera hreinlífur sem áður var siðlaus. Aðrir þurfa að þola stöðuga andstöðu vantrúaðra ættingja. En hver sem þrengingin er geta allir sem lifa trúfastir eftir vígsluheiti sínu verið vissir um eitt. Þeir finna mjög persónulega fyrir huggun, hughreystingu og hjálp Guðs.
„Guð allrar huggunar“
5. Hverju fann Páll líka fyrir jafnhliða þeim mörgu raunum sem hann gekk í gegnum?
5 Páll postuli var mjög þakklátur fyrir huggun og hughreystingu Guðs. Hann hafði átt sérlega erfiðar stundir í Asíu og Makedóníu og létti mikið er hann frétti að Korintusöfnuðurinn hefði brugðist vel við áminningarbréfi hans. Það varð honum hvati til að skrifa söfnuðinum annað bréf þar sem hann lofar Guð og segir: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri.“ — 2. Korintubréf 1:3, 4.
6. Hvað lærum við af orðum Páls í 2. Korintubréfi 1:3, 4?
6 Þessi innblásnu orð segja mikið. Við skulum brjóta þau til mergjar. Þegar Páll lofar Guð, þakkar honum eða biður hann einhvers í bréfum sínum, þá sjáum við yfirleitt að hann þakkar einnig fyrir Jesú, höfuð kristna safnaðarins. (Rómverjabréfið 1:8; 7:25; Efesusbréfið 1:3; Hebreabréfið 13:20, 21) Þess vegna lofar Páll ‚Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.‘ Síðan notar hann í fyrsta sinn í bréfum sínum gríska nafnorðið sem þýtt er ‚miskunnsemdir.‘ Þetta nafnorð er dregið af orði sem notað er til að tjá sorg vegna þjáninga einhvers annars. Páll er því að lýsa blíðum tilfinningum Guðs til hvers einasta af trúföstum þjónum sínum sem á í þrengingum — blíðum tilfinningum sem koma Guði til að vera miskunnsamur við þá. Páll horfir síðan til Jehóva, uppsprettu þessa eftirsóknarverða eiginleika, með því að kalla hann ‚föður miskunnsemdanna.‘
7. Hvers vegna má segja að Jehóva sé „Guð allrar huggunar“?
7 ‚Miskunnsemdir‘ Guðs eru aðþrengdum þjónum hans léttir. Páll kallar því Jehóva í framhaldinu „Guð allrar huggunar.“ Við getum því litið á Jehóva sem uppsprettu sérhverrar huggunar og hughreystingar sem góðvild trúbræðra okkar veitir. Engin raunveruleg og varanleg huggun er til nema hún eigi upptök sín hjá Guði. Auk þess var það hann sem skapaði manninn í sinni mynd og gerði okkur færa um að hugga og hughreysta aðra. Og það er heilagur andi Guðs sem hvetur þjóna hans til að sýna þeim sem eru huggunarþurfi mildi og miskunn.
Þjálfaðir til að hugga og hughreysta
8. Hvaða gagn getum við haft af þolgæði í þrengingum enda þótt Guð sé ekki valdur að þeim?
8 Enda þótt Jehóva Guð leyfi að trúfastir þjónar hans verði fyrir ýmsum raunum er hann aldrei valdur að þeim. (Jakobsbréfið 1:13) En huggunin og hughreystingin, sem hann veitir þegar við lendum í þrengingum, getur þjálfað okkur í að vera næmari fyrir þörfum annarra. Með hvaða árangri? „Svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.“ (2. Korintubréf 1:4) Þannig þjálfar Jehóva okkur til að vera virkari í því að hugga og hughreysta trúbræður okkar og þá sem við hittum í boðunarstarfinu. Við líkjum þannig eftir Kristi og ‚huggum alla hrellda.‘ — Jesaja 61:2; Matteus 5:4.
9. (a) Hvað hjálpar okkur að vera þolgóð í þjáningum? (b) Hvernig er það hughreysting fyrir aðra þegar við erum þolgóð og trúföst í þrengingum?
9 Páll var þolgóður í öllum þjáningum sínum vegna þeirrar ríkulegu huggunar sem hann fékk frá Guði fyrir milligöngu Krists. (2. Korintubréf 1:5) Við getum líka hlotið ríkulega huggun og hughreystingu með því að hugleiða dýrmæt fyrirheit Guðs, með því að biðja um stuðning heilags anda hans, og með því að finna hvernig Guð svarar bænum okkar. Þannig fáum við styrk áfram til að halda drottinvaldi Jehóva á lofti og sanna djöfulinn lygara. (Jobsbók 2:4; Orðskviðirnir 27:11) Þegar við höfum verið þolgóð og trúföst í einhverri þrengingu, þá ættum við eins og Páll að þakka það Jehóva sem gerir kristnum mönnum kleift að vera trúfastir í prófraunum með huggun sinni og hughreystingu. Þolgæði trúfastra kristinna manna er hughreystandi fyrir bræðrafélagið og styrkir ásetning annarra að ‚standast sömu þjáningar.‘ — 2. Korintubréf 1:6.
10, 11. (a) Nefndu dæmi um það sem þjakaði Korintusöfnuðinn til forna. (b) Hvernig hughreysti Páll Korintusöfnuðinn og hvaða von lét hann í ljós?
10 Korintumenn fengu sinn skerf af þeim þjáningum sem eru hlutskipti allra sannkristinna manna. Auk þess þurftu þeir að fá leiðbeiningar um að gera iðrunarlausan saurlífismann rækan. (1. Korintubréf 5:1, 2, 11, 13) Þeir höfðu ekki gert það og ekki sett niður deilur og sundrung, og það hafði verið söfnuðinum til skammar. En um síðir fóru safnaðarmenn eftir heilræðum Páls og sýndu sanna iðrun. Hann hrósaði þeim því hlýlega og sagði að góð viðbrögð þeirra við bréfi hans hefðu verið honum huggun. (2. Korintubréf 7:8, 10, 11, 13) Ljóst er að hinn brottræki hafði líka iðrast. Páll ráðlagði þeim því að ‚fyrirgefa honum og hugga hann til þess að hann sykki ekki niður í allt of mikla hryggð.‘ — 2. Korintubréf 2:7.
11 Síðara bréf Páls hlýtur að hafa huggað og hughreyst Korintusöfnuðinn. Og það var meðal annars tilgangur bréfsins. Páll segir: „Von vor um yður er staðföst. Vér vitum, að þér eigið hlut í huggun vorri eins og þér eigið hlut í þjáningum vorum.“ (2. Korintubréf 1:7) Og í lok bréfsins hvatti Páll: „Verið samhuga [‚Látið huggast,‘ NW] . . . þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður.“ — 2. Korintubréf 13:11.
12. Hvers þarfnast allir kristnir menn?
12 Við getum dregið mikilvægan lærdóm af þessu. Allir í kristna söfnuðinum þurfa að ‚eiga hlut í hugguninni‘ sem Guð veitir með orði sínu, heilögum anda og jarðnesku skipulagi. Jafnvel brottrækir geta þarfnast huggunar og hughreystingar ef þeir hafa iðrast og snúið frá rangri stefnu sinni. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur því gert miskunnsama ráðstöfun þeim til aðstoðar. Einu sinni á ári geta tveir öldungar heimsótt vissa brottræka einstaklinga. Hinir brottreknu sýna kannski ekki uppreisnarhug lengur eða ástunda grófar syndir og þurfa kannski hjálp til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fá aftur inngöngu í söfnuðinn. — Matteus 24:45; Esekíel 34:16.
Þrengingar Páls í Asíu
13, 14. (a) Hvernig lýsti Páll miklum þrengingum sem hann varð fyrir í Asíu? (b) Hvaða atvik kann Páll að hafa haft í huga?
13 Þær þjáningar, sem Korintusöfnuðurinn hafði orðið fyrir fram til þessa, jöfnuðust ekki á við þær mörgu þrengingar sem Páll hafði mátt þola. Hann gat því áminnt þá: „Vér viljum ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þrenging þá, sem vér urðum fyrir í Asíu. Vér vorum aðþrengdir langt um megn fram, svo að vér jafnvel örvæntum um lífið. Já, oss sýndist sjálfum, að vér hefðum þegar fengið vorn dauðadóm. Því að oss átti að lærast það að treysta ekki sjálfum oss, heldur Guði, sem uppvekur hina dauðu. Úr slíkri dauðans hættu frelsaði hann oss og mun frelsa oss. Til hans höfum vér sett von vora, að hann muni enn frelsa oss.“ — 2. Korintubréf 1:8-10.
14 Sumir biblíufræðingar telja að Páll hafi verið að tala um uppþotið í Efesus sem hefði getað kostað hann og ferðafélaga hans tvo frá Makedóníu, þá Gajus og Aristarkus, lífið. Þessir tveir kristnu menn voru færðir með valdi á þéttsetinn leikvang þar sem æstur múgurinn ‚hrópaði í nærfellt tvær stundir: „Mikil er Artemis [gyðja] Efesusmanna!“‘ Loks tókst einum embættismanni borgarinnar að sefa mannfjöldann. Það hlýtur að hafa fengið mjög á Pál að þeir Gajus og Aristarkus skyldu lenda í þessari lífshættu. Hann vildi meira að segja fara sjálfur inn á leikvanginn og rökræða við ofstækisfullan múginn en var hindraður í að hætta lífi sínu þannig. — Postulasagan 19:26-41.
15. Hvaða miklum háska kann að vera lýst í 1. Korintubréfi 15:32?
15 En Páll kann að hafa verið að lýsa miklu meiri háska en þessum. Í fyrra bréfi sínu til Korintumanna spurði hann: „Hafi ég eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefði ég þá af því?“ (1. Korintubréf 15:32) Þetta kann að merkja að bókstafleg villidýr, ekki aðeins dýrslegir menn, hafi ógnað lífi Páls á leikvanginum í Efesus. Glæpamönnum var stundum refsað með því að láta þá berjast við villidýr að blóðþyrstum múgi ásjáandi. Hafi Páll átt við að hann hafi staðið augliti til auglitis við bókstafleg villidýr hlýtur honum að hafa verið hlíft við grimmilegum dauða með undraverðum hætti á síðustu stundu, alveg eins og Daníel var bjargað frá gini ljóna. — Daníel 6:22.
Nútímadæmi
16. (a) Hvers vegna geta margir vottar Jehóva sett sig í spor Páls í þrengingum hans? (b) Hverju megum við treysta í sambandi við þá sem hafa dáið vegna trúar sinnar? (b) Hvaða áhrif hefur það á kristna menn sem hafa komist naumlega lífs af?
16 Margir kristnir nútímamenn geta sett sig í spor Páls í þrengingum hans. (2. Korintubréf 11:23-27) Kristnir menn nú á tímum hafa líka verið „aðþrengdir langt um megn fram“ og margir verið í þeirri aðstöðu að ‚örvænta um lífið.‘ (2. Korintubréf 1:8) Sumir hafa dáið fyrir hendi fjöldamorðingja og grimmra ofsækjenda. Við getum verið viss um að huggun og máttur Guðs hafi gert þeim kleift að standast og að þeir hafi verið með hjartað og hugann við uppfyllingu vonarinnar, hvort sem hún var himnesk eða jarðnesk. (1. Korintubréf 10:13; Filippíbréfið 4:13; Opinberunarbókin 2:10) Í öðrum tilvikum hefur Jehóva stýrt málum svo að bræður okkar hafa bjargast úr lífsháska. Enginn vafi leikur á að þeir sem hafa reynt slíka björgun hafa fengið aukið traust á „Guði, sem uppvekur hina dauðu.“ (2. Korintubréf 1:9) Eftir á hafa þeir getað sagt öðrum frá huggunar- og hughreystingarboðskap Guðs af enn meiri sannfæringu. — Matteus 24:14.
17-19. Hvaða dæmi sýna að bræðurnir í Rúanda hafa átt hlutdeild í huggun og hughreystingu Guðs?
17 Fyrir skömmu gengu ástkærir bræður okkar í Rúanda gegnum svipaða reynslu og Páll og félagar hans. Margir týndu lífi, en Satan mistókst að brjóta niður trú þeirra. Þess í stað hafa bræður okkar þar í landi fundið persónulega fyrir huggun og hughreystingu Guðs á marga vegu. Þegar þjóðarmorð Tútsa og Hútúa í Rúanda var í algleymingi hættu sumir Hútúar lífinu til að vernda Tútsa, og öfugt. Öfgamenn myrtu suma af því að þeir vernduðu trúbræður sína. Til dæmis var vottur af hútúætt, Gahizi að nafni, myrtur eftir að hann skaut skjólshúsi yfir tútsasystur sem Chantal hét. Hútúísk systir, Charlotte, faldi eiginmann Chantal, Tútsa sem heitir Jean, annars staðar. Jean og annar bróðir af tútsaætt földu sig í stórum skorsteini í 40 daga og komu ekki út nema skamma stund að næturlagi. Allan tímann sá Charlotte þeim fyrir fæði og vernd þótt hún byggi í námunda við herbúðir Hútúa. Á næstu blaðsíðu sérðu mynd af Jean og Chantal þar sem þau eru sameinuð á ný, þakklát fyrir að trúsystkini þeirra af hútúætt skuli hafa „stofnað lífi sínu í hættu“ fyrir þau alveg eins og Priska og Akvílas gerðu fyrir Pál postula. — Rómverjabréfið 16:3, 4.
18 Öðrum votti af hútúætt, Rwakabubu, var hrósað í dagblaðinu Intaremara fyrir að vernda trúbræður sína af tútsíætt.a Blaðið sagði: „Þá er að nefna Rwakabubu, einn af vottum Jehóva, sem hélt áfram að fela fólk hér og þar meðal bræðra sinna (en svo kalla þeir hver annan). Hann var allan daginn að bera þeim mat og drykkjarvatn þótt hann sé asmasjúklingur. En Guð gerði hann óvenjusterkan.“
19 Tökum hjónin Nicodeme og Athanasie einnig sem dæmi, en þau eru hútúættar og höfðu áhuga á sannleikanum. Áður en þjóðarmorðið brast á höfðu þau verið að kynna sér Biblíuna með hjálp Alphonse, bróður af tútsíætt. Þau hættu lífinu með því að fela Alphonse á heimili sínu. Síðar varð þeim ljóst að húsið þeirra væri ekki öruggur felustaður af því að nágrannar af hútúætt vissu af vini þeirra af tútsíætt. Nicodeme og Athanasie földu því Alphonse í holu í garðinum hjá sér. Það reyndist skynsamleg ráðstöfun því að nágrannarnir tóku að koma í heimsókn næstum daglega til að leita að Alphonse. Alphonse lá í holunni í 28 daga og hugleiddi þar frásagnir Biblíunnar, svo sem af Rahab sem faldi tvo Ísraelsmenn á þaki húss síns í Jeríkó. (Jósúabók 6:17) Alphonse getur nú haldið áfram prédikun fagnaðarerindisins í Rúanda og er þakklátur fyrir að biblíunemendur hans af hútúætt hættu lífinu fyrir hann. Og hvað um Nicodeme og Athanasie? Þau eru skírðir vottar Jehóva núna og hafa yfir 20 biblíunámskeið með áhugasömu fólki.
20. Hvernig hefur Jehóva huggað og hughreyst bræður okkar í Rúanda en hvers þarfnast margir þeirra eftir sem áður?
20 Um það leyti sem þjóðarmorðið í Rúanda hófst voru 2500 boðberar fagnaðarerindisins í landinu. Þótt hundruð þeirra týndu lífi eða neyddust til að flýja land hefur vottunum nú fjölgað í liðlega 3000. Það sannar að Guð hefur virkilega huggað og hughreyst bræður okkar. Hvað um hina mörgu munaðarleysingja og ekkjur meðal votta Jehóva? Þau líða auðvitað enn þrengingu og þarfnast huggunar og hughreystingar áfram. (Jakobsbréfið 1:27) Tár þeirra verða ekki þerruð að fullu fyrr en upprisan á sér stað í nýjum heimi Guðs. En þau geta tekist á við lífið, þökk sé aðhlynningu bræðranna og því að þau tilbiðja „Guð allrar huggunar.“
21. (a) Hvar annars staðar hafa bræður okkar þarfnast huggunar Guðs sárlega og hvernig getum við öll meðal annars hjálpað? (Sjá rammagreinina „Huggun í fjögurra ára stríði.“) (b) Hvenær hljótum við varanlega huggun og hughreystingu?
21 Víða annars staðar, svo sem í Erítreu, Singapúr og fyrrverandi Júgóslavíu, halda bræður okkar áfram að þjóna Jehóva í trúfesti þrátt fyrir þrengingar. Megum við hjálpa slíkum bræðrum með því að biðja Jehóva reglulega um að hugga þá og hughreysta. (2. Korintubréf 1:11) Og megum við vera trúföst og þolgóð uns sá tími kemur er Guð „mun þerra hvert tár af augum“ okkar í fyllsta skilningi fyrir atbeina Jesú Krists. Þá njótum við til fulls þeirrar huggunar og hughreystingar sem Jehóva veitir í nýjum réttlætisheimi sínum. — Opinberunarbókin 7:17; 21:4; 2. Pétursbréf 3:13.
[Neðanmáls]
a Varðturninn (ensk útgáfa) 1. janúar 1995, bls. 26, sagði frá Debóru, dóttur Rwakabubus, sem snart svo hóp hermanna af hútúætt með bæn sinni að fjölskyldunni var þyrmt.
Veistu svarið?
◻ Hvers vegna er Jehóva kallaður „Guð allrar huggunar“?
◻ Hvernig ættum við að líta á þrengingar?
◻ Hverja getum við huggað og hughreyst?
◻ Hvernig hljótum við varanlega huggun og hughreystingu?
[Mynd á blaðsíðu 32]
Vottar af hútúætt földu tútsíhjónin Jean og Chantal hvort í sínu lagi meðan þjóðarmorðið í Rúanda stóð sem hæst.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Vottar Jehóva halda áfram að segja nágrönnum sínum í Rúanda frá huggunarboðskap Guðs.