Síðara bréfið til Korintumanna
1 Frá Páli, postula Krists Jesú vegna vilja Guðs, og frá Tímóteusi+ bróður okkar, til safnaðar Guðs í Korintu og til allra hinna heilögu um alla Akkeu.+
2 Megi Guð faðir okkar og Drottinn Jesús Kristur sýna ykkur einstaka góðvild og veita ykkur frið.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins okkar Jesú Krists,+ faðir innilegrar samúðar+ og Guð allrar huggunar.+ 4 Hann huggar* okkur í öllum prófraunum* okkar+ svo að við getum huggað aðra+ í hvers kyns prófraunum* með þeirri huggun sem við fáum frá Guði.+ 5 Við þolum miklar þjáningar vegna Krists+ en við fáum líka mikla huggun vegna Krists. 6 Þegar við verðum fyrir prófraunum* er það ykkur til huggunar og björgunar, og þegar við fáum huggun er það ykkur líka til huggunar og hjálpar ykkur að standast sömu þjáningar og við megum þola. 7 Við berum fullt traust til ykkar þar sem við vitum að þið munuð fá hlutdeild í hugguninni, rétt eins og þið fáið ykkar skerf af þjáningunum.+
8 Við viljum ekki, bræður og systur, að ykkur sé ókunnugt um þá erfiðleika sem við urðum fyrir í skattlandinu Asíu.+ Við vorum undir gífurlegu álagi og réðum ekki við það í eigin krafti. Við óttuðumst jafnvel um líf okkar.+ 9 Já, við héldum að við værum dauðadæmdir. En þetta kenndi okkur að treysta ekki á sjálfa okkur heldur Guð+ sem reisir upp hina dánu. 10 Hann bjargaði okkur úr slíkri lífshættu og mun bjarga okkur. Við berum þá von til hans að hann haldi áfram að bjarga okkur.+ 11 Þið getið líka hjálpað okkur með því að biðja innilega fyrir okkur.+ Þá munu margir þakka Guði góðvild hans í okkar garð sem er svar við bænum svo margra.+
12 Við erum stoltir af því að geta sagt með góðri samvisku að í heiminum, og sérstaklega gagnvart ykkur, höfum við lifað í heilagleika og einlægni sem kemur frá Guði. Við höfum ekki stuðst við visku manna+ heldur einstaka góðvild Guðs. 13 Við skrifum ykkur ekki annað en það sem þið getið lesið* og skilið, og ég vona að þið getið skilið það til fulls.* 14 Þið skiljið nú þegar að vissu leyti að þið getið verið stolt af okkur, rétt eins og við verðum líka stoltir af ykkur á degi Drottins okkar Jesú.
15 Í trausti þess ætlaði ég að koma fyrst til ykkar svo að þið gætuð glaðst öðru sinni.* 16 Ég ætlaði mér að heimsækja ykkur á leiðinni til Makedóníu og koma svo aftur við á leiðinni þaðan. Síðan hefðuð þið fylgt mér af stað áleiðis til Júdeu.+ 17 Þetta var ætlun mín. Leit ég hana léttvægum augum? Eða er ég eigingjarn þegar ég áforma eitthvað og segi „já, auðvitað“ og síðan „nei, það er ekki hægt“? 18 Að sama skapi og Guði er treystandi má treysta að við segjum ekki „já“ en meinum „nei“. 19 Sonur Guðs, Jesús Kristur, sem við boðuðum meðal ykkar, það er að segja við Silvanus* og Tímóteus,+ er ekki „já“ og síðan „nei“ heldur er hann alltaf „já“. 20 Hversu mörg sem loforð Guðs eru hafa þau öll orðið „já“ fyrir tilstilli hans.+ Þess vegna segjum við líka „amen“ við Guð í nafni Jesú+ og það er Guði til dýrðar. 21 En Guð er sá sem tryggir að þið og við tilheyrum Kristi og hann smurði okkur.+ 22 Hann hefur líka sett innsigli sitt á okkur+ og veitt okkur tryggingu* fyrir hinu ókomna, það er að segja andann+ í hjörtum okkar.
23 Ég kalla Guð til vitnis og sver við sjálfan mig að það er til að hlífa ykkur að ég er enn ekki kominn til Korintu. 24 Ekki svo að skilja að við drottnum yfir trú ykkar.+ Við erum öllu heldur samstarfsmenn og viljum stuðla að því að þið séuð glöð, en það er trúin sem gerir ykkur staðföst.